Auknar líkur á olíu
Össur Skarphéðinsson skrifar:
Um leið og ég varð iðnaðarráðherra 2007 tók ég ákvörðun um að setja í forgang að ljúka öllum rannsóknum sem væru nauðsynlegar til að hægt væri að bjóða út olíuleyfi á Drekasvæðinu. Margir töldu þetta óráðsíu og bjartsýnisflipp. Það þurfti að slást fyrir fjármagninu. Ég naut þar skilnings Geirs H. Haarde, sem var forsætisráðherra. Gagnrýnendur sögðu, að fyndust kolvetni yrði það líklega illvinnanlegt gas.
Rökstudd olíubjartsýni
Tvær ástæður voru fyrir olíubjartsýni minni. Hin fyrri fólst í margra ára jarðeðlisfræðilegum rannsóknum sem gáfu til kynna að jarðlögin á svæðinu geymdu olíu. Ég kallaði til tvo óskylda alþjóðlega sérfræðinga. Báðir töldu að mælingarnar bentu sterklega til jarðmyndana sem tengjast olíulindum.
Síðari ástæðan er jarðfræðilegur uppruni Drekasvæðisins. Í gríðarlegum hamförum fyrir 40 milljörðum ára slitnaði það út úr jarðbrú sem lá á milli þess sem í dag er annars vegar Austur-Grænland og hins vegar Vestur-Noregur. Bandarískar rannsóknir hafa sýnt að mjög miklar líkur eru á olíu eða gasi út af Austur-Grænlandi, og við Vestur-Noreg eru lindirnar sem gerðu Norðmenn að ríkustu þjóð veraldar. Drekasvæðið er gert úr sömu jarðlögum.
Sumarið 2011 var svo norskt rannsóknarskip á leið til rannsókna við Austur-Grænland. Það gerði stuttan stans á Drekasvæðinu, setti þar niður ómannaðan smákafbát, sem boraði í þverhnípt neðansjávarfjall sem rís upp af botni svæðisins. Í þremur sýnum komu í ljós leifar af olíu. Ofangreindar ástæður vekja rökstudda bjartsýni um að hún sé í vinnanlegu magni.
Olíuborpallur 2017-2018?
Í janúar á þessu ári voru svo fyrstu leyfin veitt. Í síðustu viku birti norska olíustofnunin niðurstöður sem benda til að 80% líkur séu á að þar sé olía fremur en gas. Og Terje Hagevang, norskur sérfræðingur sem best þekkir svæðið, álítur að þar séu stærstu ónýttu olíulindir norðursins. Hann telur að fyrsti olíuborpallurinn komi á svæðið 2017–2018.
Gríðarleg umsvif munu verða við rannsóknarboranirnar einar. Enginn vafi leikur á að hvers kyns þjónusta við þær gæti á næstu árum skipt verulegu máli fyrir landsmenn – ekki síst Norðlendinga.
Diplómatísk snilld
Árið 1981 samdi utanríkisráðuneytið við Noreg um að hvort ríkið um sig ætti kost á fjórðungshlutdeild í mögulegum olíulindum sitthvoru megin miðlínu milli Íslands og Jan Mayen. Samkvæmt samningnum þurfa Norðmenn að tilkynna innan mánaðar frá útgáfu íslensks leyfis hvort þeir notfæri sér þennan rétt.
Ísland þarf hins vegar ekki að taka ákvörðun um þátttöku Noregsmegin fyrr en byrjað er að draga upp olíuna. Áhætta Íslands af þátttöku yrði því hverfandi! Ef olía finnst í miklu magni á norska svæðinu mun fjórðungshlutur íslenska ríkisins færa því gríðarlegar tekjur síðar á öldinni. Samningurinn frá 1981 er því tær diplómatísk snilld.
Ýtrasta varfærni
Ýtrustu kröfum um umhverfisvernd og öryggi verður alltaf að fylgja af Íslands hálfu um boranir og olíuvinnslu. Í þeim efnum standa Norðmenn langfremstir. Þangað leitaði ég því um fordæmi þegar ég setti fyrstu reglugerðina um leit og vinnslu á olíu árið 2009. Íslandi er farsælt að efla samstarf við Noreg í öllu sem lýtur að olíu í framtíðinni – og að því vinn ég um þessar mundir.
Greinin utanríkisráðherra birtist í DV þann 4. mars 2013 (pdf).