BÚNAÐARÞINGSRÆÐA 3. MARS 2013.
Forseti Íslands,
formaður Bændasamtakanna og frú,
búnaðarþingsfulltrúar,
ágætu erlendu gestir og aðrir gestir sem hingað eru komnir til að heiðra þessa gömlu góðu samkomu.
Ég sagði viljandi þessa gömlu góðu samkomu.
Búnaðarþing á sögu sem rekja má rúmlega eina og hálfa öld aftur í tímann. Þingið hefur vissulega tekið ýmsum breytingum og lagað sig að breyttum aðstæðum hvers tíma en rætur sínar á það að rekja til miðrar þar síðustu aldar. Fulltrúar bænda hafa verið kosnir heima í sínum héruðum og á þinginu hafa margháttuð framfara- og hagsmunamál bændastéttarinnar verið rædd og mótuð. Þrátt fyrir gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á þessum langa tíma heldur Búnaðarþing velli og gegnir mikilvægu hlutverki – annars hefði það verið fyrir löngu verið lagt af. Það breytir ekki því að hinir eldri víkja fyrir hinum yngri og þannig gengur sagan fram koll af kolli – síung en byggð á gömlum og góðum gildum.
Ég man sem ungur strákur í einangraðri byggð þegar Þórarinn frændi minn í Holti kom heim eftir hálfs mánaðar veru á Búnaðarþingi og gerði í framhaldinu bændunum í kring grein fyrir þingstörfunum og þótti meðal helstu viðburða hvers vetrar.
En, við lifum enn mikla breytingatíma og þó við séum væntanlega öll sammála um það hér inni að það hefði að ósekju mátt ganga aðeins minna á á Íslandi sl. 4-5 ár, þá skiptir auðvitað mestu hvernig okkur er að takast til og hvernig horfur eru til framtíðar. Hinu liðna fáum við víst ekki breyt, en okkar verkefni er að glíma við nútíðina en þó fyrst og fremst að móta framtíðina og gera hvað við getum til að þróunin verði farsæl fyrir land og þjóð.
Mér telst svo til að þetta sé í sjötta skipti að ég sem sá ráðherra sem fer með landbúnaðarmál flyt ávarp við upphaf Búnaðarþings. Já, tíminn líður og hjá stjórnmálamönnum vindur sögunni einnig fram – þeir yngri taka við af þeim eldri og sá sem hér stendur er ekki ónæmur fyrir slíkum breytingum eins og kunnugt er.
Þá er mest um vert að geta litið yfir farin veg – sáttur við sig sjálfan og viðfangsefnin og aldeilis ekki ónýtt að skila af sér í hendur yngri og glæsilegar kynslóðar sem tekur við keflinu. Annars er ég nú ekki að flytja hér neina kveðjuræðu. Ég held áfram í stjórnmálum og lofa engu um að þetta verði mín síðasta ræða sem ráðherra landbúnaðarmála við setningu Búnaðarþings.
Sjálfur er ég úr sveit og þær rætur gildna og treystast eftir því sem árin líða.
Ég hef fylgst grannt með þeim miklu breytingum, og fyrst og fremst auðvitað framförum, sem orðið hafa í sveitum landsins á síðustu 3-4 áratugum. Ég hef haft að því mikla ánægju að koma að málefnum landbúnaðarins á mismunandi tímum og í mismunandi hlutverkum, allt frá fyrstu verkum sveitastráksins norður í Þistilfirði fyrir um hálfri öld, sem frá blautu barnsbeini var alinn upp við að leggja sitt af mörkum eftir því sem kraftar leyfðu. Það hét að hjálpa til í þá daga.
Í þrígang hefur það orðið mitt hlutskipti að gera mikilvæga búvörusamninga við bændur og samtök þeirra og auðvitað var það þægilegast þegar ég var bæði landbúnaðar- og fjármálaráðherra og gat skrifað einn undir allt saman. Í heild tel ég vel hafa til tekist að tryggja grundvöll búvöruframleiðslunnar og fleyta greininni gegn um erfiðleika undangenginna ára.
Samningarnir 2009 og aftur sl. haust voru gríðarlega mikilvægir – og þakka ég þakka gott samstarf og trúnað í samskiptum við bændur við gerð þeirra. Eftirminnilegastur verður mér þó sennilega samningurinn 1991, tengsl hans við hina rómuðu þjóðarsátt, það hversu vel tókst til þá og sú framsýni sem forustumenn bænda sýndu á þeim afdrifaríku tímum.
Fyrrum var landbúnaður í hugum fólks, sauðfé og kýr og fékk það virðulega samheiti hefðbundinn landbúnaður. Nú er það hugtak úrelt sem slíkt. Auk þessara tveggja gömlu góðu landbúnaðargreina hafa með árunum bæst við fjölmargar aðrar búgreinar og ýmiskonar tengd starfsemi sem ég hætti við reyna að telja upp fjöldans og margbreytileikans vegna. Landbúnaðurinn og sveitirnar hafa þróast og grundvöllur búsetunnar og afkomunnar með, þó vissulega sé því miður enn ýmislegt mönnum mótdrægt í þeim efnum.
Samgöngurnar bæði innan svæða og milli og ekki síst bágborið ástand tengivega víða í hinum víðlendu héruðum. Nettengingar og fjarskipti, þrífösun rafmagns, hár kyndingarkostnaður á köldum svæðum, aðgengi að þjónustu og menntunarmöguleikum t.d. á framhaldskólastigi í heimabyggð. Við þekkjum þetta allt, vitum hvar skóinn kreppir og hvar þarf átaks við.
Ég er sannfærður um að fjárfestingar í innviðum og bættum þróunarmöguleikum sveitanna og strjálbýlisins á Íslandi er einhver sú ábatasamasta sem við getum ráðist í sem þjóð út frá okkar framtíðarhagsmunum. Með slíku stækkum við Ísland, aukum fjölbreytni þess og þróunarmöguleika, virkjum verðmætasköpunartækifæri og krafta sem annars liggja dauðir.
Sá lífsstíll sem sveitirnar bjóða uppá dregur víða í vestrænum löndum fleiri og fleiri til sín. Fólk, jafnvel tiltölulega ungt að árum velur að draga sig út úr atgangi og streitu nútímans í borgarsamfélögunum og leita einfaldara og jarðbundnara lífs í faðmi náttúrunnar og sveitanna.
Í sumum af hinum fögru héruðum Nýja-Sjálands eins og Gullna Flóanum, ef við íslenskum Golden Bay þannig, (eitthvað sem okkar Flóamenn geta hugleitt), er setið um hvern skika og kofa, því þar vill fólk búa, rækta sitt grænmeti, mjólka sínar geitur eða hvað það nú er. Slík þróun getur hæglega orðið til góðs og styrkt svæðið, en má að sjálfsögðu ekki verða á kostnað þess sem fyrir er.
En slík þróun hefur í för með sér breytingar og ljóst að við þeim getur þurft og á að bregðast af framsýni. M.a. á ég þar við ákvæði í jarðalögum sem þarf að endurskoða. Með það fyrir augum setti ég á fót nefnd þar sem í eiga sæti fulltrúi frá ráðuneytinu, frá Skipulagsstofnun og Fasteignamatinu auk lögmanns. Þeirri nefnd fól ég að skoða og leggja mat á nokkra þætti sem ofarlega eru í umræðunni. Má þar nefna hvort rétt sé að skýra frekar orðið Lögbýli – hvort það á að vera notað nema þar sem jörðin er á skilgreindu landbúnaðarlandi og með fastri ábúð. Nú er það staðreyndin að fjöldi jarða á landbúnaðarlandi eru í raun í eyði eins og það orð hefur verið túlkað – enginn búseta og engin ljós í gluggum.
Þá hefur mjög færst í vöxt að jarðir hafa við erfðir orðið eign fjölda fólks – jafnvel svo tugum skiptir. Erfitt er oft að finna forsvarsaðila slíkra jarða – hann enginn til eða hann heimildarlaus um nauðsynlegar ákvarðanir sem snertir viðkomandi jörð. Við þessu verður að bregðast.
Enn má nefna og það ekki minnsta atriðið – að ásókn hefur verið í að skipta góðum bújörðum upp í fjölda smærri eininga með sumarbústaðadvöl í huga eða fasta ábúð nýrra íbúa í viðkomandi sveitarfélagi. Og er þá nema von að spurningar vakni sem rétt er að velta fyrir sér; Á að banna sveitarfélagi að leysa úr landbúnaðarnotum e.t.v. bestu bújarðirnar en fá í staðinn fleira fólk og nýja skattgreiðendur? Eða á að leyfa hiklaust að leysa slíkar jarðir úr landbúnaðarnotum þannig að í framtíðinni verði besta landbúnaðarlandið horfið og búskapur stundaður við lakari skilyrði annars staðar. Ábyrgð okkar í þessum efnum er mikil, fæðuöryggi þjóða er alls staðar á leið upp forgangslistann í heiminum, leikreglur sjálfbærrar þróunar kalla á að sjálfbærni sé efld jafnt staðbundið sem á lands-, og heimsvísu. Matvælaframleiðsluþörfin kallar á hið sama sem og þörfin fyrir að lágmarka vistspor mannsins.
Þessar spurningar eru fjarri því einfaldar en ég held að meðvitundaleysi, óbreytt ástand sé ekki valkostur. Eða eins og sagði í frægri auglýsingu – ekki gera ekki neitt.
Niðurstaða nefndarinnar eftir þessa nýjustu yfirferð á jarðalögunum var kynnt í ríkisstjórn sl. föstudag, þær verða birtar á heimasíðu ráðuneytisins nú kl. 15:30 og með bréfi hef ég óskað eftir því að þær verði lagðar fyrir Búnaðarþing og verður verðmætt að heyra viðhorfin til þeirra héðan og fá eftir atvikum umsögn eða álit til að vinna með í framhaldinu.
Ágæta samkoma!
Það hefur skapast sú venja að ráðherra fari nokkrum orðum um það helsta sem unnið hefur verið að og hver staðan er á sviði landbúnaðarins.
Þótt það snerti fleira en landbúnaðinn vil ég fyrst tiltaka þær breytingar á stjórnarráðinu sem gerðar voru 1. sept. sl. þegar atvinnugreinarnar runnu saman í eitt ráðuneyti – atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þótt skammur tími sé síðan þessar breytingar urðu er ég sífellt að sannfærast betur um að þarna var stigið rétt skref í þá átt að styrkja enn frekar framþróun og tækifæri atvinnuveganna, þar á meðal landbúnaðarins með því að vera í góðu sambýli og á jafnræðisgrundvelli. Með þessum breytingum er t.d. landbúnaðurinn komin hlið við hlið, við ferðamál, byggðamál og nýsköpun og engin stjórnsýsluleg landamæri þar á milli.
Þar að auki fullyrði ég segja að ráðuneytið sjálft – vinnustaðurinn – hefur nú þegar mótast á afar jákvæðan hátt. Dugmikið fólk tekið höndum saman um að gera ráðuneytið að öflugum og góðum vinnustað til að þjóna sem best þeim sem það vinnur fyrir.
Móðir náttúra hefur minnt nokkuð harkalega á sig gagnvart landbúnaðinum og búsetu á ákveðnum svæðum landsins undanfarin misseri. Viðamiklar aðgerðir hafa siglt í kjölfarið til að bæta bændum tjón vegna náttúruhamfara, bæði eldgosa og hamfaraveðra. Í tvígang hafa Bjargráðsjóði verið lagðir til umtalsverðir fjármunir úr ríkissjóði í því skini og allt kapp verið lagt á að tjónið væri beitt eins fljótt og mögulegt væri, en engu að síður samkvæmt málefnalegum og skýrum reglum. Kann ég stjórn Bjargráðasjóðs bestu þakkir fyrir gott samstarf þar um sem og hefur samstarf viðkomandi ráðuneyta verið gott og stýrihópur ráðuneytisstjóra unnið afar vel og markvisst. Almannavarnir og björgunarsveitir hafa hér sem endranær uppskorið verðskuldaða virðingu og þakklæti og síðast en ekki síst, bændur sjálfir sýnt æðruleysi og þrautseigju við erfiðar aðstæður.
Sala mjólkurvara gekk vel á sl. ári, þó hefur orðið lítilsháttar samdráttur í sölu mjólkurvara upp á rúmt 1%. Birgðir mjólkurvara hafa lækkað og af þeim sökum var hægt að hækka heildargreiðslumark þessa árs í 116 milljónir lítra, úr 114,5 milljónir lítra frá árinu áður.
Útflutningur mjólkurvara samsvarar mjólkurframleiðslu upp á um 13,5 milljónir lítra. Til að setja það í samhengi samsvarar það u.þ.b. allri mjólkurframleiðslu í Skagafirði. Einkum er flutt út undanrennuduft, smjör og skyr. Að ósk Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði er unnið ötullega að því að fá stækkaða útflutningskvóta fyrir skyr og smjör til Evrópusambandsins og eru viðræður í gangi milli aðila. Skyrið er auðvitað á sigurbraut á mörgum markaðssvæðum og mikilvægt að greiða götu þess. Hvernig viðræðum við ESB um þetta lyktar er of snemmt að segja en það komst góður skriður á málin eftir fundi sem ég átti í Brussel með toppunum þar í byrjun síðasta árs. Alla vega er þegar ljóst að það er markaður í Evrópu fyrir þessar góðu vörur okkar Íslendinga. Að öðru leiti ætla ég ekki að nefna Evrópusambandið sérstaklega í þessari ræðu, þ.e.a.s. nema sem áhugaverðan útflutningsmarkað. Læt þó eftir mér að segja að ég held að áhyggjur einhverra hér inni ef vera kunni um að við séum á hraðri leið inn í ESB séu óþarfar.
Sala á kindakjöti hér innanlands gekk vel á sl. ári og nam hún tæpum 6.660 tonnum sem er söluaukning upp á 11,5%. Nokkuð bakslag hefur þó verið í útflutningi á kindakjöti en hann nam um 2.460 tonnum sl. ár. Ljóst er að þeir efnahagsörðuleikar sem steðjað hafa að í Evrópu spila þar inn í. Þetta sýnir mæta vel hversu nátengdir við Íslendingar erum öðrum löndum í viðskiptum. Efnahagsbati í grannríkjum þýðir betri hag fyrir okkur og öfugt.
Framleiðsla af nautakjöti var á sl. ári um 4.113 tonn og jókst um 255 tonn frá fyrra ári. Þrátt fyrir þessa framleiðsluaukningu var innflutt nautakjöt tæp 190 tonn en var 730 tonn árið 2011. Þó að framleiðsla nautkjöts hafi aukist lítillega eða a.m.k. haldið í horfinu, teiknar ásetningur ekki til aukningar og hér heima er mikil pressa frá innflutningsaðilum og veitingarhúsamarkaðinum um að lækka tolla á innfluttu kjöti og/eða auka innflutningskvóta þess. Þó halda margir því fram að íslenskt nautakjöt sé bragðmeira en það innflutta og því liggja augljóslegar tækifæri í því fyrir íslenska bændur að auka við framleiðslu kjöts í þessari búgrein.
Mér er ljóst að stjórnvöld þurfa að koma að þessum málum hvað varðar innflutning á betra erfðaefni og endurnýjun á holdakúastofninum.
Nú nýverið skilaði nefnd af sér sem hafði með að gera að greina stöðu nautakjötsframleiðslu í landinu. Í skýrslu nefndarinnar eru miklar upplýsingar að finna sem koma að góðu gagni þegar næstu skref verða stigin en starfshópur sem í sitja fulltrúar frá Landssambandi kúabænda, Bændasamtökum Íslands og Landssambandi sláturleyfishafa auk formanns sem ráðuneytið skipar, er nú að hefja störf. Hópnum er ætlað að rýna fyrrnefnda skýrslu m.t.t. helstu hagnýtra atriða sem þar koma fram, móta tillögur um hvernig standa skuli að innflutningi á erfðaefni til eflingar holdanautastofnsins í landinu þannig að gætt yrði að öryggi gagnvart sjúkadómavá sem því kynni að fylgja og að leggja drög að kynbótaskipulagi og að síðustu að móta tillögur um hvernig stuðla megi að aukinni fagmennsku við framleiðslu á nautakjöti.
Garðyrkja, loðdýrarækt, svína- og alifuglarækt, ferðaþjónusta í sveitum, heimaframleiðsla, handverk, hlunnindanýting, orkumál og orkuskipti í landbúnaði og sveitum, nýliðun, kynslóðaskipti, menntunarmál, rannsóknir, o.s.frv. Góðir áheyrendur. Ég þyrfti 3 klukkutíma ef ég ætti að nefna allt sem vert væri. Eða þá ávarpa ykkur í nokkur ár í viðbót – sem ég væri svo sem alveg reiðubúinn til að gera. Ég vona að enginn misvirði eða taki til sín að ég nefni hér aðeins nokkur svið innan landbúnaðarins þar sem ég sá ástæðu til að staldra við vegna hluta sem þar eru sérstaklega á döfinni. Ég rakti í ræðu minni í fyrra vaxandi mikilvægi landbúnaðarins sem gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar. Ekki olli undangengið ár vonbrigðum hvað það varðar, enn met t.d. í útflutningi á æðardún og ævintýrið í minkaræktinni heldur áfram með útflutningstekjum sem gæti stefnt fast að tveimur milljörðum ef verð haldast svipuð út uppboðstímann næstu mánuði.
Í lok septembermánaðar var gert samkomulag við Bændasamtök Íslands um breytingar á búvörusamningum sem fela það í sér að samningarnir framlengjast um tvö ár. Árleg framlög samkvæmt samningunum fyrir árið 2013 lækka um 1% frá árinu 2012, en taka eftir það, óskert, árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga. Ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs (meðaltal ársins) verður önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu, skal mismunurinn leiðréttur í fjárlögum næsta árs.
Þá náðist og samkomulag um nýjan búnaðarlagasamning samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998 og framlög ríkisins til þeirra á árunum 2013 til 2017. Á árinu 2013 hækka heildarframlög samkvæmt samningnum um 94 m.kr. frá árinu 2012 og verða samtals 555 m.kr. en í lok ársins 2017 verða þau 645 m.kr. Hækkun þessi kemur aðallega fram í auknum framlögum til jarðræktar og til Framleiðslusjóðs landbúnaðarins. Sérstaka áhersla er lögð á eflingu kornræktar hjá svínabændum og skulu stærðarmörk á svínabúum samkvæmt skilgreiningu í reglum vera 2,5 sinnum hærri en almennt gildir. Í samningnum var gert ráð fyrir þeirri uppstokkun í leiðbeiningaþjónustunni sem nú þegar hefur átt sér stað. Alþingi samþykkti nauðsynlegar lagabreytingar fyrir jólin, svo þessi mál eru að öllu leyti í höfn og frágengin til næstu ára. Vonandi eru bændur sæmilega sáttir við viðskilnað minn að þessu leyti, en ég sé ástæðu til að nefna hér nafn Oddnýjar Harðardóttur fyrrverandi fjármálaráðherra og þakki henni gott samstarf um þessi mál.
Fyrir alþingi eru nú ný heildarlög um velferð dýra sem koma í stað eldri laga um dýravernd og að meginstofni til einnig laga um búfjárhald o.fl. Ný og einfölduð lög um búfjárhald eru þar af leiðandi einnig fyrir þinginu, en Þau taka hins vegar einungis til almennra ákvæða um vörslu búfjár o.þ.h. og öflun hagtalna. Því í lögunum um velferð dýra verður að finna öll atriði er m.a. snerta velferð og mannúðlega meðhöndlun búfjár. Mikil réttarbót verður af hinum nýju lögum.
Hrossarækt og hestamennska er í nokkurri vörn um þessar mundir. Er þar einkum um að kenna efnahagsástandinu, bæði hér innanlands og í helstu markaðslöndum. Hrossaræktin sem slík, þ.e. kynbótastarfið gengur eigi að síður vel og landsmót á síðasta ári færði okkur enn einn ganginn heim sanninn í þeim efnum. Kjötmarkaður er jafnframt góður, hvoru tveggja er að vel selst hér innanlands, þá einkum folaldakjöt og útflutningur er vaxandi, ekki síst í kjöti af fullorðnum hrossum. Aukin afsetning er einungis til góðs fyrir greinina, þar eð hún opnar fyrir sölu á nýjum reiðhrossum og bætir stöðu stofnsins m.t.t. kynbóta. Allt stefnir í að í sumar verði haldið í Berlín í Þýskalandi stærsta og glæsilega heimsmeistaramót íslenska hestsins nokkru sinni. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun í samstarfi við sendiráði í Berlín og fleiri aðila stuðla að talsverðu kynningarstarfi í tengslum við þann atburð.
Búnaðarþingsfulltrúar og góðri gestir!
Nú verða þau tímamót á vettvangi ykkar bænda að formaður ykkar til níu ára, Haraldur Benediktsson lætur af embætti. Ég vil þakka honum fyrir traust samstarf og mikið og fórnfúst starf í þágu íslensks landbúnaðar. Það var ekki vandalaust verkefni að taka við af hinum fjalltrausta Þingeyingi og frænda mínum Ara Teitssyni en ég hef einskis annars orðið var en að Haraldi hafi tekist vel til í þeim efnum og reynst bændum og landbúnaðinum farsæll forustumaður. Ég leyfi mér fyrir hönd okkar allra að óska honum og fjölskyldu hans alls hins besta á þessum tímamótum. Hitt er svo allt annað mál og ekki umfjöllunarefni hér að flest bendir til að við Haraldur séum ekki með öllu skildir að skiptum þó á öðrum vettvangi verði.
Ég hef gegnt allmörgum embættum um dagana, þar á meðal verið ráðherra landbúnaðarmála samtals í eitthvað á fimmta ár í þremur lotum. Fyrst og síðast er ég þó sveitastrákur – eða sveitamaður og er stoltur af.
Ég tel mig þekkja landið og fólkið og ég tel mig þekkja íslenskan landbúnað allsæmilega. Í mínum huga er enginn efi um bjarta framtíð hans. Þegar ég fór ungur sveitastrákur út í heim rann það fljótlega upp fyrir mér að það var alveg eins ég sem var heimsborgarinn eins og stórborgarbörnin, komandi þó úr þeim afkima hnattarins sem var og er Norður-Þingeyjarsýsla. Heimurinn getur virst stór samanborið við sveitina, heimsborgin samanborið við þorpið, en minnimáttarkennd og heimóttarskapur er óbundið uppruna. Það er sjálfskapað. Sveitin mun aldrei yfirgefa mig, frekar en þorpið yfirgaf Jón úr Vör og ég hallast, eftir því sem árin líða, æ meir að því sem Stefán frá Möðrudal sagði stundum þegar á þurfti að halda; að það er innanmálið sem gildir.
Öll menning er staðbundin sagði vinur minn Claas Anderson menningarmálaráðherra Finna á sinni tíð, snilldar skáld og jasspíanisti með meiru. Það er, menning á sér alltaf rætur, alltaf uppruna í einhverju staðbundnu. Málverk Van Gogh´s, bækur Márquez, kvikmyndir Kurosawa og söngur Bjarkar, allt á það sér rætur, staðbundinn uppruna þó heimurinn njóti þess saman sem þær rætur gáfu og gefa af sér.
Að íslenskum landbúnaði standa sterkar rætur – hann á sér langa sögu og þegar reynsla kynslóðanna, menningin, rannsóknir og menntun nútímans koma saman þá er farið nokkuð traust.
Ég óska Búnaðarþingi og íslenskum bændum allra heilla í störfum sínum og um ókomin ár.