Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. mars 2013 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Íslensk hönnun á spretti

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifar:

HönnunarMarsinn er lifandi tákn um hvernig íslensk hönnun rennur skeiðið um þessar mundir einsog skagfirskur vekringur. Hönnun var lengi hálfgert olnbogabarn, sem ekki átti athvarf í stjórnsýslunni. Íslensk fyrirtæki voru líka sein að skilja að hönnun er ekki lúxus, heldur uppspretta verðmæta og aukins hagnaðar. Nú er þetta allt að breytast. Hönnun er á góðri leið með að verða framsæknasta grein atvinnulífsins, og er að heyja sér alþjóðlegan orðstír fyrir skapandi dirfsku og frumleika.

Þrír hvatar
Ýmsar ástæður valda hönnunargróskunni síðustu árin. Ein er vísast Listaháskólinn, sem framleiðir upprennandi snillinga í sverum bunum.
Önnur er hrunið. Það fór einsog skógareldur yfir samfélagið en hafði hins vegar þveröfug áhrif á skapandi greinar. Þegar ég var iðnaðarráðherra fann ég gerla á eigin skinni hin þverstæðukenndu en jákvæðu áhrif hrunsins á skapandi greinar - ekki síst íslenska hönnun.
Þriðja atriðið, sem sannarlega hefur skipt sköpum var fæðing Hönnunarmiðstöðvarinnar.

Hönnunarmiðstöðin
Hönnun er í eðli sínnu þverlæg grein, sem spannar allt frá ballett yfir í vöruframleiðslu og átti því hvergi skilgreint athvarf í neinu sérstöku ráðuneyti. Hún leitaði skjóls í iðnaðarráðuneytinu, og þegar ég varð þar ráðherra 2007 tók ég henni opnum örmum.
Skeleggir talsmenn hennar töldu þá brýnast að setja á stofn Hönnunarmiðstöð. Þeir sannfærðu mig og Einar Karl, sem réri á hitt borðið. Við sóttum sameiginlega á þá sem sátu á fjársjóðum ríkisins, og töldum um það er lauk allt í gadda slegið. Þá dundi hrunið yfir með öllum sínum ósköpum.
Hvassbrýndum niðurskurðarhníf var í blóðugri neyð beitt á öllum sviðum ríkisins. Hönnunarmiðstöð, sem ekki var orðin til nema á pappírnum, var vegin og léttvæg fundin, og eiginlega eytt meðan hún var enn ófædd. Það þurfti sterkar fortölur til að gnýja hana aftur til lífs. Farsælar lyktir í því máli voru fáum jafn mikið að þakka og þáverandi forsætirsráðherra, Geir H. Haarde, sem hafði skilning á því hvað slík miðstöð var mikilvæg - einmitt í hruninu.
Þannig varð Hönnunarmiðstöðin til gegn öllum efnahagslegum lögmálum í miðju fjármálahruni. Síðan hefur hún glansað.

Ný hönnunarstefna - nýr Hönnunarsjóður
Hönnunarmiðstöðin hefur notið þess að vera óskabarn greinarinnar. Innan hennar sameinuðust margir kraftar úr ólíkum greinum. Ég er ekki í vafa um að gróskan í íslenskri hönnun á sér mikilvæga uppsprettu í starfi Hönnunarmiðstöðvarinnar. Hún hefur tekið glæsilegt frumkvæði á mörgum sviðum, ekki síst varðandi stuðningskerfi hins opinbera fyrir hönnun. Hún kom til leiðar starfshópi um hönnunarstefnu fyrir næstu fimm ár. Ríkisstjórnin hefur nú staðfest tillögur hans sem opinbera hönnunarstefnu Íslands.
Stefnan miðar m.a. að því markmiði að gera hönnun að óaðskiljanlegum þætti í allri framleiðslu.
Reynslan hefur nefnilega sýnt, að fyrirtæki, sem nota hönnun ekki aðeins sem stílfærslu, heldur inngróinn hluta af ferli framleiðslunnar, sýna bæri meiri þrótt í nýsköpun - og skila meiri hagnaði. Rannsóknir sýna líka, að samkeppnishæfni þjóða ræðst að töluverðu leyti af hönnunarstigi þeirra. Gerólíkar þjóðir, einsog Finnland og Singapúr, hafa báðar skilgreint sig sem hönnunarþjóðir og skara efnahagslega framúr. Ísland stefnir líka að því að verða hönnunarþjóð.
Í takt við áherslu sína á hönnun hefur ríkisstjórnin nú ákveðið að setja á laggir sérstakan Hönnunarsjóð sem hluta af vaxtaráætlun næstu ára. Mjór er mikils vísir. Í honum eru ekki nema tæplega 50 milljónir í upphafi. Ég dreg þó ekki í efa að með sama harðfylgi og öflugir talsmenn hönnunar á Íslandi hafa sýnt síðust árin tekst þeim að tífalda hann fyrr en varir.


Grein ráðherra birtist í DV þann 18. mars 2013.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta