Ávarp við upphaf HönnunarMars 14. mars 2013
Kæru gestir - það má eiginlega segja að HönnunarMars hafi leyst kríuna af hólmi sem helsti vorðboðinn hér í Reykjavík.
Það er því með sól í hjarta sem ég fagna því með ykkur að fimmti HönnunarMarsinn sé nú að hefjast. Fyrir þetta framtak ber fyrst og fremst að þakka Hönnunarmiðstöð Íslands og svo auðvitað öllum þeim taka þátt og gera Reykjavík að borg ævintýra og upplifunar næstu daga.
Það er mikið að gerast í þessari atvinnugrein og er ég afskaplega ánægður með tillögu starfshóps um hönnunarstefnu sem ég fékk í hendur nýlega. Ég fann meira að segja nokkuð til mín á ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn þegar við mennta- og menningarmálaráðherra kynntum plagg hópsins í ríkisstjórn enda kom í ljós í bankahruninu að hvergi var meiri uppgangur og bjartsýni en einmitt í ykkar geira. Nú eru því allir sammála um gildi hönnunar fyrir sjálfstraust og efnahag þjóða.
Í tillögu að hönnunarstefnu er auðvitað hvergi slegið af og staðhæft að hönnun sé drifkraftur í verðmætasköpun og betra þjóðfélagi. Og nú er komið grænt ljós á að halda áfram í anda þeirrar tillögu sem unnin er af sérfræðingum úr ykkar röðum.
Að þessum orðum sögðum óska ég ykkur öllum til hamingju með HönnunarMars 2013.