Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. mars 2013 MatvælaráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 2012-2013

Grein í DV 20. mars - "Ný lög um smálánastarfsemi"

Ný lög um smálánastarfsemi

Í vikunni voru samþykkt ný lög um neytendalán. Meðal efnisatriða þessara nýju laga er að til verður  umgjörð um svokölluð smálán.  Ekki veitti af því. Þessi nýju lög eru verulegt framfaraskref fyrir neytendur að mínu mati og bæta stöðu þeirra í samskiptum við lánveitendur og fjármálafyrirtæki.

Mikil umræða hefur verið bæði hérlendis og í nágrannalöndunum um hætturnar sem fylgt geta svonefndum smálánum, þ.e. lánum til skammst tíma með mjög háum vöxtum og bágri réttarstöðu þess sem lánið tekur. Svonefnd smálánafyrirtæki hófu starfsemi hér á landi í upphafi árs 2010. Bæði hagsmunaaðilar og eftirlitsaðilar á neytendamarkaði hafa lýst yfir miklum áhyggjum af uppgangi smálánafyrirtækja hér á landi enda er hér um að ræða lán á okurkjörum, heildarkostnaði sem getur numið yfir 600% af lánsfjárhæð á ársgrundvelli. Þessi smálán hafa verið markaðssett sérstaklega gagnvart ungu fólki, þeim sem höllum fæti standa og þeim sem hafa lítið á milli handanna.

Umsagnaraðilar samhljóma um nýju lögin

Eins og staðan var fyrir tilkomu nýju laganna féll veiting smálána ekki undir ákvæði þáverandi laga um neytendalán vegna undanþágu sem sagði að lánssamningar sem gilda til skemmri tíma en þrjá mánuði væru undanskildir gildissviði laganna. Í nýsamþykktum lögum er ákvæði þess efnis að þau gildi um öll neytendalán óháð fjárhæð, þ.m.t. smálán.

Við undirbúning frumvarpsins átti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið samráð við ýmsa aðila, t.d. embætti umboðsmanns skuldara, hjálparstofnanir, Velferðarvaktina, Fjármálaeftirlitið og Neytendastofu. Þau sjónarmið sem fram komu í umsögnum þessara aðilar voru á þá leið að full ástæða væri til að tryggja hagsmuni neytenda með því að fella smálán undir lagaramma neytendalána.

Hámark á vöxtum

Sum nágrannalönd okkar hafa fundið sig knúin til að bregðast við uppgangi smálánafyrirtækja með aukinni reglusetningu til verndar neytendum. Í þessu samhengi er vert að nefna að um helmingur af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur í löggjöf sinni ákvæði um hámarksvexti.

Með tilliti til þessa var ákveðið í nýsamþykktum lögum að setja hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar vegna neytendalána. Hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar er 50% að viðbættum stýrivöxtum Seðlabankans, sem taka á tillit til kostnaðar fjármagns á hverjum tíma. Ekki er gert ráð fyrir að þetta þak á hámarkskostnað muni hafa áhrif á aðra aðila á lánamarkaði en smálánafyrirtæki, enda þekkist ekki hjá öðrum lánveitendum að lögð sé á hærri árleg hlutfallstala kostnaðar.

Tilskipunin frá 2008 sem þessi nýju lög um neytendalán er m.a. ætlað að innleiða fela fyrst og fremst í sér tvær meginreglur þegar kemur að neytendavernd vegna lántöku. Annars vegar að neytendum skuli veittar fullnægjandi upplýsingar sem settar eru fram á samræmdan máta svo þeir geti borið mismunandi lánatilboð saman og tekið upplýsta ákvörðun. Hins vegar skal meta lánshæfi lántaka, svo og greiðsluhæfi ef lánið er yfir tilteknum fjárhæðarmörkum .

Frá 15. apríl næstkomandi mun, t.d. smálánafyrirtæki sem  innheimtir 11.700 kr. í kostnað vegna 60.000 kr. láns til tveggja vikna  aðeins heimilt að innheimta 1.101 kr. vegna sams konar láns. Með nokkurri einföldun má tala um nafnvexti í stað árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og þá má segja miðað við fyrrgreint dæmi að nafnvextir séu að lækka úr 468% í 44% í kjölfar þess að lögin voru samþykkt.

Ný lög um neytendalán eru ótvírætt framfarskref, efla neytendavernd á fjármálamarkaði, bæta stöðu lántaka og koma í veg fyrir óeðlilega há vaxtakjör á stuttum neytendalánum.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta