Ræða á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu 21. mars 2013
Nú er rétt rúmlega hálft ár síðan að nýtt ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar tók til starfa. Ég fagna því að nú séu allar atvinnugreinar jafnar undir einu og sama ráðuneytisþakinu. Með því hafa stjórnvöld og atvinnulífið eignast öflugt tæki til stefnumótunar, framþróunar og nýsköpunar. Markmiðið er skýrt og klárt – að búa eins vel og kostur er í haginn fyrir öflugt atvinnulíf.
Ég þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi verslunar og þjónusta við ykkur sem sitjið hér á þessum ársfundi. Verslun og þjónusta eru einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar – og innan greinarinnar starfa hátt í 30% alls vinnuafls á landinu.
Öflug verslun og þjónusta er ein af undirstöðum nútíma samfélags. Að sama skapi eru góð almenn lífskjör forsenda fyrir því að hér blómstri öflug verslun og þjónusta. Á fundi sem þessum eigum við auðvitað fyrst og fremst að beina sjónum að þeim möguleikum sem búa framtíðinni. En það er bæði hollt og nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir þeim ógöngum sem við komum okkur í á árunum eftir aldamót – og hvaða skafli við erum búin að vera moka okkur út úr á undangengnu fjóru og hálfu ári.
Hér blómstraði að því er virtist aukin velsæld og óhemju gróði og meint ríkidæmi fárra einstaklinga varð til svo náði heimsmælikvarða - en allt var þetta því miður byggt á handónýtum grunni gríðarlegarar skuldsetningar, gerfieignamyndunar og sjónhverfinga. Og þegar spilaborgin féll var ástandið ekki gæfulegt.
Á síðustu fjórum árum, en þó einkum sl. tveimur og hálfu ári eða þar um bil hefur staðan hins vegar gjörbreyst. Það er nánast sama á hvaða mælikvarða við lítum. Fjárlögin eru nánast hallalaus 0,2% af VLF samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs, vöru- og þjónustujöfnuður er all myndarlega jákvæður (og þarf auðvitað að vera það), kaupmáttur launa fer hækkandi, atvinnuleysi fer lækkandi og þrátt fyrir að við vildum sjá hærri tölur þá er hagvöxturinn og hagvaxtahorfur engu að síður viðunandi og stöðugar 3ja árið í röð. Hvarvetna erlendis er litið til Íslands og sagt að hér hafi náðst mikill árangur. Við höfum vissulega ekki náð að gera allt fyrir alla – eins og sumir leyfa sér nú að lofa af fullkomnu ábyrgðarleysi í aðdraganda kosninga. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að á síðustu fjórum árum höfum við náð að endurreisa efnahag Íslands eftir að hann hafði brotlent í harkalegu nýfrjálshyggju slysi.
Þennan viðsnúning skynjar auðvitað almenningur, þó vissulega séu margir ósáttir og enn sárir yfir því sem hér gerðist eða telji að betur hefði mátt ganga að greiða úr ástandinu. Engu að síður er ánægjulegt að sjá það í alþjóðlegum könnunum að Íslendingar hafa endurheimt trúna á framtíðina. Í nýlegri Eurobarometer könnun eru viðhorf hinna ýmsu Evrópuþjóða könnuð til allmargra þátta. Til að mynda var spurt hvort aðstæður í viðkomandi landi séu að þróast í rétta eða ranga átt. Þar kemur Ísland sláandi vel út í samanburði við önnur lönd. Mun stærri hluti íslensku þjóðarinnar telur þróunina vera í rétta átt en hjá næstu þjóðum. Tæplega 60% svarenda á Íslandi telja Ísland vera á réttri leið, næst bjartsýnastir eru Danir en 46% þeirra eru sömu skoðunar. Á sama tíma telja einungis 28% Íra að land þeirra sé á réttri leið – og meðaltal hinna bjartsýnu innan ESB ríkjanna er einungis um 24%. Staðan er því gerólík og jákvæðari hjá okkur á Íslandi.
Ferðaþjónustan
Sú atvinnugrein sem er hástökkvari síðustu ára er auðvitað ferðaþjónustan. Vöxtur hennar er hins vegar ekki nýtilkominn. Þegar við skoðum tölur um komur erlenda ferðamanna hálfa öld aftur í tímann þá sést að fjöldi þeirra hefur að jafnaði tvöfaldast á hverjum áratug. Og ef sama þróun helst áfram þá er þess ekki langt að bíða að ferðamannafjöldinn nái einni milljón á ári.
Þegar tölurnar eru orðnar jafn háar og raun ber vitni þá er aldeilis farið að muna um þær í öllum hagtölum. Á árunum 2011 og 2012 greiddu erlendir ferðamenn samtals með kreditkortum fyrir vöru og þjónustu fyrir upphæð sem nemur rúmlega 137 milljörðum króna.
Og það dylst engum hvaða þýðingu þetta hefur fyrir verslun og þjónustu hvort heldur sem er á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi. Miðbær Reykjavíkur hefur tekið stakkaskiptum og hvarvetna má sjá ferðamenn, mér er sagt að það hafi verið starfræktar 12 veitingasölur á Húsavík síðasta sumar og það er magnað að verða vitni að þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað á Siglufirði – svo tekin séu dæmi af handahófi.
Aukið frelsi í verslun með landbúnaðarvörur
Aukið frelsi í verslun með landbúnaðarvörur er mikið áhugamál Samtaka verslunar og þjónustu – og vissulega má færa fyrir því ágæt rök. Í þessu máli vegast hins vegar á rök og það er mikil og vanhugsuð einföldun að halda því fram að hér sé um að ræða þrönga sérhagsmunagæslu stjórnvalda með landbúnaði gegn heimilunum í landinu - eins og sumir vilja láta liggja að.
Við Íslendingar höfum verið blessunarlega lausir að öllu eða mestu leyti við ýmsa þá sjúkdóma sem eru landlægir í mörgum heimshlutum, þ.m.t. í Evrópusambandinu. Aðeins lítill hluti þekktra sjúkdómsvalda, sem herja innan ESB, finnst á Íslandi. Af þeim sökum er búfé á Íslandi varnarlítið gagnvart ýmsum smitvöldum – og þau dýr, sem talið er að hafi minnsta mótstöðu gegn sjúkdómum, eru hross, sauðfé og nautgripir.
Og vel að merkja - það er ekki eingöngu verið að vernda dýraheilsu heldur einnig lýðheilsu. Þetta á við bæði hvað varðar sjúkdómsvalda á borð við salmonellu og kampýlóbakter, en einnig er við innflutning gerðar kröfur um vottorð sem sýna að afurðir dýra komi ekki frá dýrum sem hafa verið gefin vaxtaraukandi efni á eldistímanum. Vissulega eru innlendar varnaráætlanir gegn salmonellu og kampýlóbakter mun strangari en í öðrum löndum en að baki því eru góðar og gildar ástæður.
Það er mjög nauðsynlegt – og töluvert á sig leggjandi - fyrir Íslendinga að fara varlega þegar kemur að innflutningi á landbúnaðarvörum og eða lifandi dýrum sem geta borið með sér smitsjúkdóma í menn eða dýr. Aðstaða okkar sem eyþjóðar er einstök – og ef við misstígum okkur þá getur það haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar til langs tíma.
Með þessu er ég ekki að mæla með einangrunarstefnu – öðru nær. Það hefur átt sér stað þróun í átt til aukins frelsis. Og við munum eflaust feta okkur lengra á þeirri braut. Þar koma líka við sögu þau sjónarmið að mæta þörfum viðskiptavinanna með hvaðeina sem þeir vilja kaupa. Þá megum við að sjálfsögðu aldrei missa sjónar á þörfum og réttindum þeirra sem verslunin þjónar, hvað varðar gæði, fjölbreytni, hollustu og heilnæmi þess sem selt er og loks auðvitað að verð sé eins hagstætt og mögulegt er og þar með lífskjör betri. Það er því að mörgu að hyggja í senn í þessum efnum.
Eftirspurn eftir matvælum mun ekkert gera nema að vaxa á komandi áratugum og öll sólarmerki benda til að verð á matvælum muni halda áfram að hækka. Okkar eigin framleiðsla verður því hvoru tveggja í senn samkeppnisfærari og mikilvægari sem gjaldeyrissparandi og gjaldeyrisskapandi samkeppnisgrein. Útflutningur landbúnaðarvara er að aukast hröðum skrefum og mun á þessu ári nema nokkuð hærri fjárhæðum en sem nemur framlagi ríkisins til búvöruframleiðslu á fjárlögum.
Heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslu er að nálgast 60 milljarða – og með úrvinnslunni og tengdri starfsemi er um þó nokkuð stóran þátt í landsframleiðslunni að ræða. Landbúnaðurinn og innlendur matvælaiðnaður er mikilvæg uppspretta varnings sem verslunin selur og ég fæ ekki séð að það sé verra fyrir verslunina að höndla með það sem framleitt er innanlands heldur en hitt sem flutt er inn að breyttu breytanda, nema náttúrulega þá beint sem innflutninginn stunda. Og við skulum ekki heldur horfa fram hjá því að þær þúsundir og aftur þúsundir sem framleiða og vinna úr íslenskum búvörum eru ekki aðeins frameliðendur eða byrgjar fyrir innlenda verslun, þeir eru líka viðskiptavinir sem versla sjálfir. Verslunin mun ekkert græða á því frekar en aðrir að landbúnaðurinn veslist upp og hagkerfið minnki af þeim sökum.
LANDBÚNAÐURINN og VERSLUNIN eiga ekki að skoðast sem andstæðir pólar – heldur þvert á móti sem hluti af sömu keðjunni sem undir engum kringumstæðum má slitna.
Kynjakvóti
Fyrsta september næstkomandi ganga í gildi lög sem tryggja eiga lágmarkskynjajafnvægi í stjórnum fyrirtækja yfir ákveðinni stærð. Og það er ástæða til að hvetja alla viðkomandi að gera það sem til þarf til að ákvæði laganna um minnst 40% af hvoru kyni í stjórn verði að fullu virt frá fyrsta degi.
Ástæðan fyrir því að leið lagasetningar var valin er einföld; hlutur kvenna í stjórnunar- og áhrifastöðum í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi hefur aukist allt of hægt. Það er ekki hægt að kenna um skorti á hæfum og vel menntuðum konum til slíkra starfa. Þvert á móti útskrifast nú fleiri konur en karlar með háskólapróf í flestum greinum sem stjórnendur koma almennt úr. Ójafnt kynjahlutfall á þessu sviði sem fleirum er birtingarmynd þess sem enn er óunnið í jafnréttisbaráttunni.
Það getur auðvitað verið ósanngjarnt að tína til einstök dæmi þar sem að hallar á annað kynið – og eðlilegar skýringar geta verið fyrir mörgu. Athygli mín var hins vegar vakin á því að á fundi sem haldinn var nú í morgun undir merkjum SVÞ og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins auk fleiri aðila og fjallaði um ágæti verslunar sem atvinnugreinar – að á þessum fundi voru allir frummælendur karlar. Lítið dæmi en umhugsunarvert - málið er jú okkur báðum skylt, SVÞ og ráðuneytinu. Betur má ef duga skal.
Það er sannfæring mín að með lögum um lágmarks kynjajafnvægi í stjórnum fyrirtækja sé ekki aðeins stigið afar gagnlegt skref í jafnréttisátt og í átt til betri reksturs og eðlilegri aðstæðna í íslensku viðskiptalífi, heldur muni aukið jafnrétti á þessu sviði einnig hafa afleidd og jákvæð áhrif í jafnréttisbaráttunni að öðru leyti. Má þar nefna baráttu gegn kynbundnum launamun og gegn úreltum staðalímyndum um kynin og kynjahlutverk. Þegar allt kemur til alls sýnir bæði reynslan og rannsóknir að betri árangur næst í fyrirtækjarekstri eftir því sem kynjahlutföll eru jafnari í stjórnum og stjórnendastöðum.
Samkeppnismál – McKinsey skýrslan
Það var mikill fengur að skýrslu McKinsey ráðgjafafyrirtækisins um framtíðarmöguleika íslensks hagkerfis – og þar er að finna fjölmargar gagnlegar ábendingar um það sem betur má fara. Við höfum ekki látið sitja við orðin tóm og komið hefur verið á fót þverpólitískum og þverfaglegum samráðsvettvangi um aukna hagsæld á Íslandi. Þar koma saman formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi, helstu hagsmunasamtök launþega og atvinnurekenda, fulltrúar háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og stjórnendur fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum.
Glöggt er gests augað og þrátt fyrir að almennt séð telji skýrsluhöfundar að sterkir innviðir á Íslandi geti lagt traustan grunn að góðum lífsgæðum þá eru líka veikleikar til staðar. Ísland hefur fallið niður lista efnuðustu landa heims, mælt í landsframleiðslu á mann, og helsta áskorunin nú er að endurheimta vaxtarmöguleika í krefjandi umhverfi. Framleiðni vinnuafls er 20% lægri á Íslandi en í helstu nágrannalöndum og umtalsverð tækifæri eru fyrir hendi til að auka arðsemi í fjármagnsfrekum atvinnugreinum.
Í skýrslunni kemur fram að of mikill mannafli, vinnutími og fjármunir eru bundnir í fjármála- og smásölugeiranum samanborið við nágrannalöndin.
Sú spurning er áleitin hvort vöruverð á mörgum sviðum gæti lækkað ef til dæmis minni fjármunir væru bundnir í verslunarhúsnæði - sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu? Og þegar afgreiðslutími verslana er gaumgæfður þá sést að afgreiðslutími verslana á Íslandi er töluvert lengri en hjá hinum norrænu ríkjunum. Margar verslanir hérlendis hafa jafnvel opið allan sólarhringinn!
Að sama skapi vekur umfjöllun McKinsey um fjármálageirann upp spurningar um hagkvæmni. Er ekki mögulegt að vaxtakostnaður til fyrirtækja og einstaklinga geti lækkað töluvert ef starfsmannafjöldi, útibú og kostnaður þar með, yrði nær því sem tíðkast í nágrannalöndum? Svarið er líklega; jú. Vissulega hefur endurskipulagning á fjármálum fyrirtækja og einstaklinga verið mannaflsfrek en á móti hefur útlánastarfsemin verið rýr. Eftir stendur að kostnaður í fjármálakerfinu er hár í samanburði við nágrannalönd samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar.
Við verðum að ná samstöðu meðal hagsmunaaðila um trúverðuga áætlun um hagvöxt sem byggir á grunnstyrkleikum hagkerfisins og að tekið sé á helstu áskorunum mismunandi greina atvinnulífsins. Við verðum að gæta að okkur að missa ekki hagkerfið aftur í viðvarandi viðskiptahalla samfara aukinni neyslu á meðan fjárfesting stendur í stað. Þetta myndi leiða til þess að landið festist í vítahring gjaldeyrishafta, hás fjármagnskostnaðar, lágs fjárfestingarstigs og lítils hagvaxtar.
Ekkert okkar vill slíka framtíð. Það er ósiður að gera því skóna að nokkur stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur sen býður fram krafta sína í almanna þágu – geri það ekki af góðum hug. Okkur getur greint á um leiðir – og það er eðlilegt. Til þess höfum við lýðræði að leysa úr slíkum málum.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur öflugt umboð til að þjóna öllu atvinnulífinu vel, þar með talið og ekki síst hinni stóru þjónustugrein sem verslunin er – og situr nú í fyrsta sinn jafnsett öðrum greinum í sínu ráðuneyti.
Það er margt sem við þurfum að skoða sem snýr bæði að stjórnvöldum og greininni sjálfri. Sjálfur er ég áhugasamur um að finna leiðir hvernig við getum fært betur inn í landið verslun með ýmsan varning sem að mínu mati fer óþarflega mikið fram erlendis – ég nefni hér til dæmis verslun með barnaföt. Takist okkur þetta þá á hagkvæmni og framlegð að geta aukist til góðs fyrir jafnt verslunina og þjóðfélagið allt.
Við okkur blasa stórar áskoranir – og öllu skiptir að okkur auðnist að vinna saman að því að treysta samfélagsstoðirnar og efla með þjóðinni hug og dug. Ég veit að Samtök verslunar og þjónustu munu ekki liggja á liði sínu í þeirri baráttu.