Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. apríl 2013 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Evran og skuldamál heimilanna

Össur Skarphéðinsson skrifar:

Flest okkar þekkjum allt of vel hvernig verðtryggðu lánin ruku upp í hruninu. Þegar krónan féll eins og steinn fór verðbólgan á flug. Og þegar verðbólgan fer á flug tekur hún verðtryggðu lánin með sér. Þau hækka í hæstu hæðir og eftir stendur venjulegt fólk og starir á greiðsluseðlana. Hönnunargallinn í hagkerfinu blasir við: Lánin hækka og hækka þótt fólk borgi og borgi.

Krónan hækkar lánin
En þetta gerist ekki bara í hruni. Verðbólgan hér á Íslandi er viðvarandi langtum hærri en í nágrannaríkjunum. Rannsóknir sérfræðinga Seðlabankans sýna að blessuð krónan okkar ber þar mesta ábyrgð sem bæði sveiflu- og verðbólguvaldur. Því óstöðugra sem efnahagsumhverfið er - því dýrari verða lánin. Skuldamál heimilanna verða því ekki aðskilin gjaldmiðilsmálunum.

Þess vegna auglýsti Sjálfstæðisflokkurinn fyrir kosningarnar 2009 einhliða upptöku evru. Sigmundur Davíð hélt heila ráðstefnu um Kanadadollar. Steingrímur J. varð um hríð ástfanginn af norsku krónunni. En Seðlabankinn sló þá valkosti alla út af borðinu. Í gjaldmiðilsskýrslunni frá síðasta sumri kvað hann skýrt upp úr með að valkosturinn við óstöðuga krónu væri bara einn: upptaka evru.

„Íslandsálagið“
Í skýrslu Viðskiptaráðs frá því fyrir jól kemur fram að lántökukostnaður íslenska ríkisins er að meðaltali 4,5% hærri en í samanburðarríkjum árin 1995 til 2012. Þetta er hið svonefnda »Íslandsálag« sem við þurfum að borga umfram aðrar þjóðir með gjaldmiðlinum okkar á skuldir allra heimila, fyrirtækja og hins opinbera. Viðskiptaráð mat það svo, að »Íslandsálagið« gæti numið á bilinu 130 til 230 milljörðum króna á hverju einasta ári.

Líklega er neðri talan afar varlega áætluð því bara ríkið eitt og sér borgar um 90 milljarða króna á ári í vexti af erlendum lánum. Þá eru eftir vaxtagreiðslur sveitarfélaganna sjötíu og sjö, fyrirtækjanna okkar og tugþúsunda heimila. Sérhvert prósentustig í lægri vexti einungis af skuldum ríkissjóðs getur skilað okkur 14-15 milljörðum á ári. Ef Ísland fengi að borga Evrópuvexti myndi það spara ríkissjóði um 60 milljarða króna á ári. Það eru raunverulegir fjármunir.

Þrefalt hærri vextir
Alþýðusamband Íslands kemst að svipaðri niðurstöðu varðandi »Íslandsálagið«. Þeirra útreikningar frá því fyrir rúmu ári sýndu að vextir af nýjum húsnæðislánum hér á Íslandi hafa verið tæplega þrefalt hærri en að meðaltali á evrusvæðinu. - Þrefalt hærri!

ASÍ segir að ef Íslendingar fengju að borga meðaltalsvexti á evrusvæðinu myndi það spara íslenskum heimilum um 117 milljarða króna á ári. Það jafngildir að meðaltali 17% hækkun ráðstöfunartekna. Þetta undirstrikar enn frekar að skuldamál heimilanna eru nátengd gjaldmiðilsmálunum. Staðreyndin er sú, að krónan er þyngsti skatturinn.

Íslenski kúrinn?
Niðurstaðan: Það er ekki nóg að að skera svolítið af skuldunum ef við lendum aftur á sama stað. Við Sigmundur Davíð vitum alltof vel að íslenski kúrinn dugar skammt ef maður bætir aftur á sig skömmu síðar. Ef ekkert er að gert í gjaldmiðilsmálunum mun óstöðugleikinn valda því að skuldirnar hækka jafnskjótt aftur í næsta verðbólguskoti. Bara með því að losna við »Íslandsálagið« geta íslensk heimili aukið ráðstöfunartekjur sínar svo um munar. Fyrirtækin geta bætt rekstur sinn. Og íslenska ríkið mun hafa úr meiru að spila því það fer tugmilljörðum minna í vaxtagreiðslur.

Höfundur er utanríkisráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 2013

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta