Grein í Bændablaðinu 11. apríl - "Landsbyggðirnar og framtíð sveitanna!"
Landsbyggðirnar og framtíð sveitanna!
Í tengslum við nýafstaðinn ársfund Byggðastofnunar sem haldinn var í Varmahlíð í Skagafirði var haldið fróðlegt málþing undir yfirskriftinni; „Brothættar byggðir – ný nálgun“. Þar var til umfjöllunar vinna Byggðastofnunar og fleiri aðila með íbúum nokkurra byggðarlaga sem skera sig úr hvað varðar mikla fólksfækkun , erfitt atvinnuástand og óhagstæða aldursþróun undangengin ár. Fulltrúi Byggðastofnunar rakti framgang verkefnis sem stofnunin ásamt Norðurþingi, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Háskólanum á Akureyri o.fl. hefur unnið að undanfarna mánuði með íbúum Raufarhafnar. Fulltrúi íbúasamtaka á Bíldudal lýsti horfum og væntingum þar í tengslum við sambærilegt verkefni. Fjallað var um tækifæri og möguleika ferðaþjónustunnar í strjálbýlinu frá áhugaverðu sjónarhorni (ferðaþjónustan sem ylrækt) og loks var afar upplífgandi erindi um „ævintýrið á Siglufirði“.
Þróun umræðunnar um byggðamál hefur verið athyglisverð að undanförnu og á Byggðastofnun og ekki síst formaður stjórnar Byggðastofnunar, Þóroddur Bjarnason, hrós skilið fyrir frumkvæði í að breikka og dýpka umfjöllun um þennan mikilvæga málaflokk. Í sem styttstu máli má segja að nú sé í fyrsta lagi farið að tala um „landsbyggðirnar“ í fleirtölu í stað þess að fjalla um landsbyggðina sem einsleitt mengi. Það endurspeglar mun betur veruleikann eins og hann er.
Þrískipt Ísland
Í grófum dráttum má segja að í byggðalegu tilliti sé Ísland þrískipt. Það er höfuðborgarsvæðið sjálft, síðan stórbaugurinn umhverfis höfuðborgarsvæðið með um 100 km. radíus þar sem verulegra áhrifa af nálægðinni við höfuðborgarsvæðið gætir. Loks landsbyggðin eða öllu heldur landsbyggðirnar þar fyrir utan. Og það er einmitt málið; landsbyggðirnar þar fyrir utan. Þar innan er að finna mikinn breytileika allt frá svæðum eins og Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu þar sem verið hefur nokkuð samfelld fólksfjölgun og allmörg svæði og byggðarlög önnur sem standa bærilega. Á hinum endanum er að finna einstakar byggðir eða svæði þar sem staðan er sannarlega orðin mjög brothætt. Við slíkar aðstæður er það orðin niðurstaða Byggðastofnunar að til þurfi nýja nálgun, sértækar aðgerðir og vinnu með íbúum þar sem hin almennu stuðningsúrræði á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og byggðaaðgerða dugi ekki ein til. Byggðastofnun var tryggt fé, 50 milljónir króna, á fjárlögum yfirstandandi árs til að vinna samkvæmt þessari nýju aðferðafræði . Það ásamt sóknaráætlunum landshlutanna með nýjum fjármunum upp á 400 milljónir króna þrátt fyrir þröngan fjárhag ríkisins sýnir ásamt mörgu fleiru í verki vilja núverandi ríkisstjórnar.
Byggðamál eru eilífðarmál
Róm var ekki byggð á einum degi og verður það ekki heldur í þessu tilviki. Byggðamál eru eilífðarmál og kalla á sífellda og viðvarandi athygli og aðgerðir. Nokkur forgangsverkefni munu skipta miklu um þróunarmöguleika strjálbýlisins á Íslandi og aukið jafnrétti í byggðalegu tilliti:
- Gera þarf heildaráætlun um ljósleiðaravæðingu alls landsins. Stjórnvöld þurfa í samstarfi við þá sem veita fjarskiptaþjónustu að finna heppilegustu leiðir og eftir atvikum stuðla að því með fjárhagslegum stuðningi að allir íbúar landsins njóti innan ásættanlegs tíma, t.d. 3-5 ára, fullnægjandi þjónustu í þessum efnum. Ef ekkert verður að gert bendir margt til að framvindan verði of tilviljankennd og ákveðin svæði verði útundan.
- Við næstu endurskoðun samgönguáætlunar þarf að gera sérstaka áætlun um átak í uppbyggingu tengivega og hvers kyns hliðarvega út frá megin leiðum.
- Í fjárlögum áranna 2014 og 2015 þarf að taka tvö seinni skrefin í að jafna húshitunarkostnað á köldum svæðum (í fjárlögum yfirstandandi árs er tekið um þriðjungsskref í þeim efnum). Með hitaveituvæðingu þéttbýliskjarna eins og Skagastrandar og vonandi einnig Hafnar í Hornafirði fækkar enn í þeim hópi landsmanna sem ekki njóta hlunnindanna af heitu vatni til húshitunar og annarra þarfa. Að sama skapi verður hlutfallslega minna mál og sjálfsagðara að jafna stöðu þeirra sem eftir sitja. Þá má einnig benda á þá möguleika er opnast á grundvelli laga sem taka kyntar veitur svo sem trjákurlsveituna á Hallormsstað inn í kerfið. Alþingi samþykkti á lokametrunum frumvarp frá undirrituðum þar um.
- Vinna þarf áfram á þeirri braut sem tilkoma náms á framhaldsskólastigi í fleiri byggðarlögum undanfarin ár hefur markað. Framhaldsdeildir eru nú starfræktar á Patreksfirði, Þórshöfn og Hvammstanga, Hólmavík bætist við í haust og Vopnafjörður er í undirbúningi. Framhaldsskóli í Fjallabyggð sem fór af stað á botni kreppunnar, allt hefur þetta sannað gildi sitt.
- Áfram á að færa aukin verkefni, fjármuni, áhrif og störf frá ríki til sveitarfélaga. Vel heppnuð yfirfærsla málefna fatlaðra til sveitarfélaganna í tíð núverandi ríkisstjórnar sem einnig fór fram á botni kreppunnar og þrátt fyrir hana á að vera mönnum hvatning í þeim efnum. Næst eru það málefni aldraðra og meiri samþætting allrar nærþjónustu á hendi sveitarfélaganna eða í samstarfi þeirra.
Hér læt ég staðar numið að sinni. Með batnandi þjóðarhag og ekki síst þeirri staðreynd að afkoma ríkissjóðs er nú að komast í jafnvægi á nýjan leik, sem svo sannarlega hefur kostað fórnir, eru möguleikar til að hrinda þessum og fleiri þjóðþrifamálum í framkvæmd allt aðrir og betri til næstu ára litið.