Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. apríl 2013 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Utanríkisstefna sem bætir lífskjörin

Össur Skarphéðinsson skrifar:

Sú utanríkisstefna sem ég hef mótað byggist ekki síst á gáttunum þremur, Evrópuleiðinni, norðurslóðum og Asíugáttinni. Allar eiga þær sammerkt að vinna að því að bæta lífskjör Íslendinga.

Evrópuleiðin
Endurteknar kannanir, nú síðast í lok viku, sýna að meirihluti landsmanna vill ljúka við aðildarviðræðurnar, og fá að taka afstöðu til ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er skiljanlegt. Evrópuleiðin bætir lífskjör á Íslandi. Hún opnar leið fyrir Íslendinga til að taka upp evruna, öðlast efnahagslegan stöðugleika, lægri vexti, lægri verðbólgu - og afnema verðtryggingu. Við munum halda yfirráðum yfir auðlindum okkar, og styrkja fullveldið því með aðild fáum við hlutdeild í ákvörðunum, sem við þurfum í dag að taka upp hráar gegnum EES.

Með farsælum nauðasamningum við kröfuhafa gegnum þau tæki sem stjórnarmeirihlutinn bjó til getum við lagt grunn að því að afnema gjaldeyrishöft. Með því að vinna samhliða að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin um vexti, verðbólgu, skuldir og ríkisfjármál - sem Framsókn hefur lýst stuðningi við - gætum við þá með aðild á næsta kjörtímabili gengið strax inn í gjaldmiðlasamstarfið ERM II. Við það kemst krónan í var með aðstoð Seðlabanka Evrópu og stöðugleiki eykst, vextir byrja að lækka og verðbólgan að minnka. Tveimur árum eftir það gætum við tekið upp evru.

Evrópuleiðin leggur þannig grunn að efnahagslegri framtíðarsýn sem gengur upp.

Norðurslóðir
Sú stefna sem ég hef mótað gagnvart norðurslóðum mun bæta lífskjör á Íslandi. Ég hef átt viðræður við grænlensk og norsk stjórnvöld til að tryggja að þjónustu við olíusvæðin þrjú sem verða norðan Íslands verði sinnt héðan. Fyrsta þjónustuskipið er þegar keypt. Einungis þjónustan við olíuleit og rannsóknir munu geta á þessum áratug veitt milljörðum inn í samfélagið. Fyrstu leyfin til leitar og vinnslu, sem ég lagði drög að í iðnaðarráðuneytinu á sínum tíma, voru gefin út í janúar.

Olíuvinnslan á Drekasvæðinu gæti svo í framtíðinni skapað gríðarlegar tekjur fyrir Íslendinga. Þá eru ótaldir þeir möguleikar sem hafa verið undirbúnir í krafti stefnunnar varðandi norðursiglingar, en lönd einsog S-Kórea, Singapúr, að ógleymdu Kína, áætla að hefja þær af krafti þegar leiðir opnast. Rifja má upp nýlega vísindagrein bandarísks prófessors sem spáir að hægt verði að sigla yfir norðurpólinn í hverjum mánuði strax fyrir miðbik aldarinnar.

Asíugáttin - fríverslun við Kína
Ört vaxandi millistéttir í Asíu, ekki síst Kína, geta orðið nýræktir íslenskrar framleiðslu. Fríverslunarsamningurinn við Kína er sögulegur. Hann lækkar verð til neytenda á Íslandi, skapar markaði fyrir íslenska framleiðslu - og þar með störf - allt frá kjöti og fiski til hátæknivarnings og tölvuleikja. 17% niðurfelling á koltrefjum til Kína, sem þarf orku til að vinna úr íslensku basalti, mun leiða til erlendra fjárfestinga í slíkum verksmiðjum á Íslandi.

Miðað við reynslu Nýsjálendinga mun þar koma fram mikil eftirspurn eftir íslenskum mjólkurvörum, og Guðni Ágústsson gæti þar hugsanlega selt allt skyr Íslands. Kínverjar eru þegar farnir að kaupa íslenskt kjöt. Frosin þorskflök hafa þegar náð táfestu á kínverska markaðnum. Með niðurfellingu tolla í krafti Kínasamningsins ættu Íslendingar að ná óvæntu samkeppnisforskoti með fisk í Kína sem gæti reynst notadrjúgt í ljósi vaxandi samkeppni vegna mikilla þorskveiða í Barentshafi. Fyrst hægt er að selja þangað alla grásleppu af Íslandsmiðum - hví skyldi ekki vera hægt að gera Kína að saltfiskmarkaði líka?

Opnun á Asíugáttinni með fríverslunarsamningnum við Kína mun því skapa störf, og bæta lífskjör framleiðenda og neytenda, á Íslandi í framtíðinni.



Greinin birtist í DV þann 22. apríl 2013.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta