Grein í Skarpi 19. apríl - "Tækifæri í Norðausturkjördæmi"
Tækifæri í Norðausturkjördæmi
Mannlíf og atvinnuástand hefur haldist býsna stöðugt víðast hér í kjördæminu síðustu árin þrátt fyrir erfið ytri skilyrði. En vitaskuld höfum við ekki farið varhluta af hruninu fremur en aðrir landsmenn. Atvinnuástand hefur þó verið að meðaltali umtalsvert betra en á landsvísu og heilt yfir fer það batnandi, fjölbreytnin fer vaxandi og margar greinar eins og ferðaþjónustan í mikilli sókn. Stöldrum við nokkur af stóru málunum og einnig möguleika til framtíðar litið.
Beint millilandaflug er raunhæft
Fyrir liggur að ferðaþjónusta er að sækja umtalsvert fram. Þetta er augljóst þegar ferðast er um kjördæmið að sumarlagi en sem betur fer er aukning í vetrarferðamennsku enn meiri. Þessi þróun hefur verulega jákvæð áhrif á atvinnustig, mannlíf og tekjur. Ég tel að miklir möguleikar séu til staðar til áframhaldandi aukinna umsvifa í ferðaþjónustu á svæðinu og sé fyrir mér að eftir því sem ferðaþjónustunni vex fiskur um hrygg þá aukist möguleikar á beinu millilandaflugi til Akureyrar eða Egilsstaða. Beint millilandaflug yrði mikil lyftistöng fyrir svæðið og einnig jákvætt innlegg í að dreifa álagi af vaxandi ferðamannafjölda.
Bygging Norðfjarðar- og Vaðlaheiðarganga
Einhver stærsti og ánægjulegasti atburður á löngum þingmennskuferli mínum var að vera viðstaddur undirritun samninga um byggingu Vaðlaheiðarganga í Hofi fyrr í vetur. Ekki er síðra að fylgjast nú með vélunum hefjast handa þessa dagana. Auðvitað er þetta ekki síður gleðilegt fyrir okkur öll sem þjóð sem saman eigum samgöngukerfið. Vaðlaheiðargöng eru tímamótaframkvæmd fyrir Norðurland og gera Þingeyjarsýslur og Eyjafjarðarsvæðið meira og minna að einu atvinnusvæði. Göngin verða lykilmannvirki í samgöngukerfinu í heild að mínu mati. Á næstu dögum verða opnuð tilboð þeirra verktaka sem valdir voru í forvali til að bjóða í Norðfjarðargöng. Þar er á ferðinni stórframkvæmd sem munu gjörbreyta til hins betra samgöngum til Norðfjarðar.
Bakki og PCC
Eins og fram hefur komið áformar PCC að byggja kísilver á Bakka. Um er að ræða áætlaða fjárfestingu uppá 170 milljónir evra eða um 28 milljarðar kr. Hér er um að ræða millistórt iðnaðarverkefni með takmarkaða orkuþörf. Engu að síður verður að vera hafið yfir vafa að umhverfisáhrif vegna þeirra virkjana sem ráðist verður í séu ásættanleg og í því sambandi verður að taka áhyggjur vegna mögulegra áhrifa virkjunar í Bjarnarflagi á lífríki Mývatns alvarlega. Heppilegast væri ef Landsvirkjun hæfist strax handa á Þeistarreykjum og gæfist þá meiri tími til að gaumgæfa málin varðandi Bjarnarflag. Störf á hvert megawatt verða þrefalt fleiri í kísilverinu samanborið við álver. Á uppbyggingartíma sem er um þrjú ár verða tæpir 400 starfsmenn við vinnu. Einnig verða til fjölmörg störf við byggingu vegtengingar og stækkun hafnarinnar. Þá verða umtalsverðar framkvæmdir og umsvif tengd byggingu virkjana og línulagna. Starfsmannafjöldi kísilversins verður í upphafi um 120 -130 manns en fjölgar í hátt í 200 við tvöföldun framleiðslunnar sem er áformuð fljótlega eftir að rekstur fyrri áfanga hefst. Ljóst er að veruleg umsvif munu fylgja allri þessari uppbyggingu í Þingeyjarsýslum á næstu árum. Fyrir liggur að íbúum hefur fækkað í Þingeyjarsýslum og atvinnumöguleikar eru víða fábrotnir. Fyrirhuguð uppbygging á Bakka er sérlega mikilvæg í byggðalegu tilliti eins og undirstrikað er í sérstakri greinargerð frá Byggðastofnun.
Forsendur fyrir hagvexti í kjördæminu
Margt annað en ofangreint mætti telja sem horfir til framfara nú fyrir norðan- og austanvert landið. Ég tel á heildina litið að allar forsendur séu fyrir hendi til þess að atvinnulíf og mannlíf geti blómstrað á komandi árum. Þar vega m.a. þungt bættar samgöngur sem felast í Vaðlaheiðar- og Norðfjarðargöngum, tilkoma Dettifossvegar og vaxandi umsvif í ferðaþjónustu, uppbygging í Þingeyjarsýslum, norðurslóðamálin og hlutur svæðisins í þeim efnum, svo nokkuð sé nefnt.
Steingrímur J. Sigfússon,
atvinnu- og nýsköpunarráðherra og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis