Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2013
Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á hátíðarkvöldverði aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var í Garðabæ 24. ágúst 2013.
Ágætu aðalfundarfulltrúar, góðir gestir,
Það er mér sönn ánægja að fá að vera með ykkur hér í kvöld í þessari glæsilegu veislu á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands hér í Garðabæ. Þetta er jafnframt fyrsta tækifæri sem ég hef, eftir að hafa tekið við starfi umhverfis – og auðlindaráðherra, að hitta ykkur og kynnast ykkar öflugu samtökum. Þetta er upphaf á langri vegferð sem ég veit að á eftir að verða krefjandi en um leið spennandi og ánægjuleg og hlakka ég til samstarfsins.
Ég óska ykkur jafnframt til hamingju með þennan fund sem er 78. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands og jafnframt óska ég gestgjafa aðalfundarins, Skógræktarfélagi Garðabæjar til hamingju með 25 ára afmælið.
Það er mikið lán hversu mörg og öflug frjáls félagasamtök starfa í landinu og hve margir einstaklingar fá þar tækifæri og vettvang til að vinna að góðum málum – hverskonar þjóðþrifamálum - í þágu okkar samfélags. Þar skiptir starf svo fjölmenns og öflugs félagsskapar eins og Skógræktarfélags Íslands miklu máli, en mér skilst að innan ykkar vébanda starfi um 60 félög um allt land með á áttunda þúsund félagsmenn. Stór og öflug samtök eins og ykkar efla sannanlega og bæta íslenskt samfélag.
Félagið ykkar varð til á miklum umbrotatíma í íslensku samfélagi, þegar landið var að mestu skóglaust, samofið þeirri miklu vakningu aldamótakynslóðarinnar um mikilvægi ræktunar lands. Ykkar félag hefur verið boðberi hugsjóna um þau tækifæri sem landið okkar býr yfir og hvaða möguleikar eru í ræktun þess. Þar skiptir máli af hafa trú á framtíðinni, trú á landinu og gæðum þess, vilja til að bæta samfélagið og byggja upp og jafnframt trú á því að hægt sé að vinna að breytingum til batnaðar með hagsmuni framtíðarinnar að leiðarljósi. Þetta eru mikilvæg gildi sem ekki síður eiga við í samtímanum.
Kannski hefur enginn sett þessa hugsjón sterkar eða betur fram heldur en Hannes Hafstein í Aldamótaljóðinu fyrir hartnær einni öld:
Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.
Nú hefur auðvitað orðið gjörbreyting á öllum viðhorfum til skógræktar og það auðvitað löngu afgreitt mál að hægt sé að rækta skóg á Íslandi. Nú snýst umræðan um hvar á að gera það, hvernig og hversvegna. Það er mikill árangur enda er það auðvitað ævintýri líkast nú þegar maður ekur um landið að sjá árangur frumkvöðla skógræktarstarfsins – hávaxin tré og vöxtumikla skóga í flestum héruðum. Framtíðarsýn Aldamótaljóðsins er að verða að veruleika og „menning að vaxa í lundum nýrra skóga“.
Það vill svo skemmtilega til að afi minn og nafni var virkur í Skógræktarfélagi Árnesinga og formaður þess félags um hríð. Árangur frumkvöðla þess félags er mikill eins og Snæfoksstaðir í Grímsnesi eru talandi dæmi um. Það er til skemmtileg lýsing á stemmningunni í kringum uppbyggingarstarfið og hversu útsjónarsamt skógaræktarfélagsfólk var til að afla stuðnings við málefnið.
Í Árbók Félagsins, Árskógum, sem kom út fyrir nokkrum árum er mjög skemmtileg lýsing í formi smásögu úr fundargerð á því hvaða brögðum stjórn Skógræktarfélags Árnesinga beitti til að vinna skógræktarmálunum stuðning:
„Um 8 leytið 9. júní 1974 kom Stjórn Skógræktarfélags Árnesinga saman við hlið girðingar félagsins að Snæfoksstöðum. Um svipað leyti renndi langferðabifreið að hliðinu og var þar kominn Páll Hallgrímsson sýslumaður Árnesinga og sýslunefndarmenn flestra hreppa í sýslunnar. Hafði þeim verið boðið að Snæfoksstöðum til að líta á trjágróður og jafnframt var ætlunin að leita eftir auknum fjárstyrk sýslunnar við Skógræktarfélagið. Veður var ekki hagstætt til skoðunar, en flestir litu á trjágróðurinn í Skógarhlíð og sýndist mönnum trén vöxtuleg. Sigurður Ingi ávarpaði sýslunefndarmenn og bauð þá velkomna. Boðið var uppá brennivín og Coca cola og brauð. Sátu menn í bílunum og röbbuðu saman. Að loknum fyrsta umgangi tóku hinir lagvissustu í hópnum að syngja. Ekki hafði verið lokið úr glösum annarrar umferðar er allir sungu við raust. Og nú hafði veður skipast til hins betra og gátu menn nú sungið sig útúr bílnum og notið hins kyrra vorkvölds við nið fljótsins á aðra hlið en Skógarhlíðarinar til hinnar. Nú hafði losnað um málbein flestra og lofaði Gunnar á Seljatungu því í þakkarávarpi sínu að styrkur sýslunnar yrði eins ríflegur og fjárhagur leyfði.“
Svo mörg voru þau orð – svona fóru skógræktarfélagsmenn að því að fylgja sínum málum áfram og afla stuðnings á þessum tíma.
Góðir gestir:
Það er ríkur vilji nýrrar ríkisstjórnar að vinna markvisst að eflingu skógræktar og hverskonar landgræðslu í landinu. Ég hef metnað til að vinna að eflingu skógræktarstarfsins í landinu á vettvangi ráðuneytisins og hef þegar hafið skoðun á því. Það er á ýmsum sviðum - bæði hvað varðar lagalega og skipulagslega umgjörð skógræktarstarfsins - þróun þeirra tækifæra sem liggja í aukinni atvinnu og verðmætasköpun og hvernig hægt sé að auka skógræktarframkvæmdir á komandi árum. Þar skiptir miklu að eiga gott samstarf við ykkar félagshreyfingu með alla ykkar þekkingu og reynslu, elju og áhuga. Ég er því áhugasamur um að heyra betur frá ykkur skógræktarfélagsfólki á næstunni - hvar hjarta ykkar slær, hver eru ykkar áform og væntingar.
Góðir veislugestir,
Land okkar er margbreytileg auðlind sem við lifum á. Land er jafnframt takmarkað – við eigum bara eitt Ísland - það er það land með sínum kostum og göllum sem við höfum og munum hafa. Það er því mikilvæg áskorun að leitast við að ráðstafa og nýta það á sjálfbæran og skynsamlegan hátt. Mikilvægir atvinnuvegir byggja á landnýtingu, m.a. landbúnaður og ferðaþjónusta. Ósjálfbær landnýting á fyrri árum hefur hins vegar stuðlað að mikilli gróður-og jarðvegseyðingu. Ástand og afköst vistkerfa landsins eru víða lakari en þau gætu verið og mótuð af þessari aldalöngu ósjálfbæru nýtingu í okkar norðlæga landi, með erfiðri veðráttu og eldvirkni.
Það má velta fyrir sér hvort ekki væri hægt að vinna einskonar rammaáætlun um skipulag landnotkunar og sjálfbæra landnýtingu. Það hníga mörg rök að því að það sé orðið tímabært að vinna markvisst útfrá þeirri staðreynd að land er takmörkuð auðlind þar sem mörg sjónarmið eru uppi og sum takast á. Mikil þróun hefur orðið á landnotkun á undanförnum áratugum og eins eru uppi áform um ýmsar nýjungar s.s. kornrækt, olíurepja, skógrækt, endurheimt votlendis, frístundabyggð, náttúruvernd, ferðaþjónusta og landgræðsla svo margt það helsta sé talið.
Það er mikilvægt að stjórnvöld marki stefnu og veiti leiðsögn um ráðstöfun lands, og veiti leiðbeiningar um sjálfbæra landnýtingu ekki síst til að gera sér betur grein fyrir landþörf einstakra kosta og jafnframt til ráðgjafar við aðalskipulagsgerð sveitarfélaga.
Ég tel því áhugavert að skoða það sérstaklega, í samstarfi við helstu hagsmunaðila, hvernig hægt væri að standa að gerð slíkrar leiðbeinandi rammaáætlunar um skipulag landnotkunar og sjálfbærrar landnýtingar, sem væntanlega yrði stórt langtímaverkefni með það að markmiðið að efla hverskonar sjálfbæra landnýtingu til verðmætasköpunar og framfara í okkar samfélagi.
Kæru veislugestir,
Ég vil að endurtaka þakkir mínar fyrir boðið hingað og árnaðaróskir til Skógræktarfélags Íslands og til Skógræktarfélags Garðabæjar í tilefni afmælisins.
Ykkar hugsjónir og óeigingjarna starf í skógræktarfélögum um allt land skipta miklu til að fegra og bæta okkar land.
Hákon heitinn Aðalsteinsson skáld og skógarbóndi orti snilldarlega um framtíðarsýn skógræktarmannsins.
Skínandi fagrir skógar
skreytandi hlíð og fjöll.
Blágresis brekkur nógar,
berjalönd þakin öll.
Sæla í sveitum er.
Bændurnir boli saga,
börnin í svangan maga
tína hin bláu ber.
Nú er Hákon allur og hægt að gera ráð fyrir að hann sé orðinn „engill í eigin tré“, eins og sagði svo snilldarlega í lokaorðum kvæðisins góða!
Ég óska ykkur velfarnaðar í í störfum hér á aðalfundinum og veit að þið eruð í góðum höndum hjá gestgjöfunum hér í Garðabæ.
Bestu þakkir,