Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. ágúst 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfis- og auðlindaráðherra
á aðalfundi Landssamtaka skógareigenda

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á aðalfundi Landssamtaka skógareiganda þann 31. ágúst 2013.


Formaður Landssamtaka skógareigenda,
Skógarbændur, góðir gestir,

Það er mér bæði heiður og ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér á Aðalfundi Landssamtaka skógareigenda. Það er jafnframt mikilvægt fyrir mig sem nýjan ráðherra málaflokksins að fá tækifæri til að hitta ykkur skógarbændur og kynnast ykkar samtökum.  Ég hef skynjað að samtök ykkar hafi eflst mikið á síðustu árum þrátt fyrir ungan aldur. Það er auðvitað rökrétt í samhliða uppbyggingu skógarauðlindar hér á landi.

Það er jafnframt ánægjulegt og viðeigandi að hitta ykkur hér í þessum gróna bæ Hveragerði, sem er í huga flestra samofinn ímynd um gróanda og gróðursældar. 

Skógarbændur hafa ríku hlutverki að gegna í skógrækt á Íslandi. Það er mikilvægt að ykkar samtök séu leiðandi í faglegu starfi, taki virkan þátt í að móta áherslur í skógrækt - allt frá skipulagi og undirbúningi skógræktar til nýtingar skóga og úrvinnslu. Sterkt félagslegt afl eins og ykkar skiptir miklu fyrir framgang skógræktar í landinu.

Ykkar hugsjón byggir á framtíðarsýn um velferð komandi kynslóða. Skógar búa yfir ákveðnum töfrum og hafa sérstök áhrif á þá sem um þá fara. Þetta er enn áhrifaríkara í skóglausu landi eins og Íslandi. Allt breytist, útsýni, hljóð, lykt, og öll skynfæri verða fyrir áhrifum. Skógar eru líka fjölþætt auðlind - orkuauðlind, gróðurhúsalofttegundir bindast í trjávið, hráefni til smíða, skjól, og vistkerfi. Þeir hafa því fjölþættu hlutverki að gegna og geta orðið mikilvæg auðlind fyrir ýmiskonar atvinnusköpun í framtíðinni, ekki fyrir hinar dreifðari byggðir.

Í samanburði við nágrannalöndin er skógrækt á Íslandi rétt að slíta barnsskónum. Góður árangur frumkvöðla í skógrækt blasir hins vegar við um allt land. Við stöndum frammi fyrir því að sjá að landeigendur geta haft raunverulegan arð af nýtingu skóga hér á landi líkt og annarsstaðar.

Ríkið hefur á undanförnum árum stuðlað að fjárfestingu í skógrækt á lögbýlum í gegnum Landshlutaverkefni í skógrækt og því þarf að fylgja eftir. Til lengri tíma er það að sjálfsögðu markmið að skógrækt verði sjálfbær atvinnuvegur á ákveðnum svæðum á Íslandi og skógarnir mikilvæg auðlind þjóðarinnar. 


Góðir gestir,

Það eru fjöldamörg mál í deiglunni innan umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á vettvangi skógræktar sem ég vil hér tæpa á.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar  er kveðið á um vilja nýrrar ríkisstjórnar um að efla skógrækt og hverskonar landgræðslu á kjörtímabilinu. Að því vil ég vinna - hvenær og hvernig auka megi framkvæmdir við ræktun nýrra skóga og umhirðu þeirra.

Það er jafnframt mikilvægt að vinna að ýmsum undirstöðum skógræktarstarfsins.

Innan ráðuneytisins er nú hafin vinna við smíði reglugerðar fyrir Landshlutaverkefni í skógrækt í nánu samstarfi við verkefnin. Eitt meginmarkmiðið með því er að samræma starfshætti þó áherslur geti áfram verið mismunandi innan og milli verkefna. Verður leitað til Landssamtaka skógareigenda vegna þessa verkefnis eftir því sem vinnu við það vindur fram. Einnig er gert ráð fyrir í núgildandi lögum að unnar séu stefnumótandi áætlanir fyrir Landshluta verkefnin í skógrækt og þær lagðar fram í formi þingsályktunar á Alþingi. Þetta er ég að láta skoða í ráðuneytinu.

Ég er jafnframt að skoða í ráðuneytinu með vinnu við endurskoðun skógræktarlaga sem eru orðin gömul og úrelt og mikið hefur verið kallað eftir að endurnýja að hálfu skógræktaraðila. Þar liggur fyrir ákveðinn grunnur til að byggja á.

Ég hef jafnframt ákveðið að skipa á ný fagráð í skógrækt og hef óskað eftir tilnefningum í það meðal annars frá ykkur - Landssamtökum skógareigenda. Fagráðinu er ætlað að fjalla um áherslur og stefnumörkun í skógræktarrannsóknum, samræmingu í skógræktarstarfinu, skipulag fræöflunar og stefnumörkun hvað varðar úrvinnslu skógarafurða. Það er von mín að starf fagráðs verði til þess að efla samstarf þeirra aðila sem starfa að skógrækt, stuðla að samþættingu faglegs starfs í skógrækt og verða greininni almennt til framdráttar.

Einnig hef ég áhuga á að vinna frekar með skipulag landnýtingar til eflingar þeirra greina sem á henni byggja. Land er takmörkuð auðlind með mismunandi eiginleika. Skógrækt er þar mikilvægur þáttur.  

Ágætu skógarbændur;

Ég vil þakka aftur fyrir tækifærið til að ávarpa ykkur hér í dag og fá að kynnast ykkar kraftmiklu samtökum.

Eins og ég hef rakið er margt að gerast á vettvangi skógræktarmálanna. Ný ríkisstjórn hefur mikinn metnað til eflingar skógræktarstarfsins í landinu og hlakka ég  til að eiga áframhaldandi samstarf við ykkur skógareigendur um það verkefni. 

Nú blása nýir vindar í samfélaginu með nýrri ríkisstjórn og rými skapast til nýrrar sóknar. Það eru spennandi tímar framundan.    Ég óska ykkur alls velfarnaðar í aðalfundarstörfunum hér í Hveragerði.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta