Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. nóvember 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á haustfundi Jarðhitafélags Íslands 2013

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á haustfundi Jarðhitafélags íslands sem haldinn var 26. nóvember 2013.



Einföldun regluverks vegna jarðhitanýtingar


Ágæta samkoma og fundargestir hér á haustfundi Jarðhitafélags Íslands.

Ég þakka það góða frumkvæði Jarðhitafélags Íslands að tileinka haustfund félagsins umfjöllun um einföldun regluverks á sviði jarðhitanýtingar og stuðla þannig að faglegri umræðu um þá mikilvægu auðlind sem jarðhitinn er og hvernig regluverki á sviði jarðhitanýtingar er háttað og með hvaða hætti megi einfalda það og gera stjórnsýsluna skilvirkari.  Það þarf að tryggja að atvinnustarfsemi, eins og jarðhitanýtingu, búi við skýrt og skilvirkt regluverk. Reglurnar þurfa að vera þannig að markmið með því að vinna eftir þeim sé skýrt, þær þurfa að vera einfaldar í framkvæmd, og fyrirsjáanlegar en jafnframt  þurfa þær að fela í sér fullnægjandi kröfur gagnvart umhverfinu. Grundvallaratriði er að nýting jarðhitaauðlindarinnar sé sjálfbær og stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlindarinnar öllum til hagsbóta .

Ísland stendur framarlega í framleiðslu og nýtingu endurnýjanlegrar orku í heiminum í dag, svo eftir sé tekið. Íslendingar hafa aflað sér umfangsmikillar þekkingar sem er nýtt í eigin þágu og er jafnframt miðlað til erlendra landa. Síðast liðið sumar tók ég á móti Nobuteru Ishihara umhverfisráðherra Japans sem hafði óskað sérstaklega eftir að kynna sér uppbyggingu á jarðvarmasviðinu sem orðið hefur hér á landi með eigin augum. Síðan Ishihara tók við völdum sem Umhverfisráðherra hefur hann staðið fyrir því að greiða úr því flókna regluverki sem sett hefur jarðvarmanýtingu sérlega þröngar skorður þar í landi og gert hana nánast ómögulega á svæðum sem japönsk stjórnvöld hafa skilgreint sem þjóðgarða.

Ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á einföldun og skilvirkni regluverks en í stefnuyfirlýsingu hennar frá maí sl. kemur fram að hún muni beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni þess að leiðarljósi. Markmið er að minnka skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri án þess að slegið sé af eðlilegum kröfum. Þá er það sérstakt markmið að engar nýjar íþyngjandi reglur verði innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið falli brott jafnveigamiklar kvaðir. Með þeim hætti er ætlunin að heildaráhrif regluverksins þróist í rétta átt. Víða erlendis er nú frekar talað um „bætta reglusetningu“ eða „snjallari reglusetningu“ og er keppikeflið að reglur nýtist sem best sem tæki til að ná fram samfélagslegum markmiðum.

Á grunni stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar samþykkti hún aðgerðaáætlun í maí sl. Áætlunin er þríþætt: einföldun gildandi regluverks, aðgerðir til að stemma stigu við nýjum íþyngjandi reglum og loks eftirfylgni. Hafin er vinna við aðgerðaáætlunina en nýverið lagði forsætisráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga um aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni. Framlagning frumvarpsins er því liður í að hrinda í framkvæmd stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi.

Fyrir liggur að gerð verður úttekt á stöðu þess regluverks sem nú gildir. Greina þarf hvað það er í regluumhverfi atvinnulífsins sem er óþarflega flókið og íþyngjandi og meta kostnaðinn sem af hlýst. Síðan er gert ráð fyrir að sett verði  markmið um að draga úr þessum byrðum í áföngum og móta mælikvarða til að fylgjast með árangri. Í ljósi reynslu annarra OECD-ríkja af slíkum verkefnum er rétt að forgangsraða málefnasviðum og nota eftir atvikum dæmigerða hópa fyrirtækja til að fylgjast með árangri.

Einföldun stjórnsýslu er í skoðun í stjórnarráðinu og sem dæmi um slíkt verkefni er nefnd sem ég skipaði í september sl. sem  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem ætlað var að gera tillögur um breytingar á löggjöf um fiskeldi. 

Nefndinni var falið að leggja mat á það hvort hægt væri að vinna á greinilegum flöskuhálsum í núgildandi kerfi og hraða og einfalda veitingu starfs- og rekstrarleyfa í fiskeldi í því skyni  að gera kerfið sem skilvirkast. Þá átti nefndin að koma með tillögu um það hvort starfs- og rekstrarleyfi megi afgreiða innan tiltekins hámarkstíma. Einnig átti nefndin að meta hvort núverandi eftirlitskerfi í íslensku fiskeldi séu skilvirk og þjóni tilgangi sínum. Nefndin hefur nú skilað tillögum sínum í formi frumvarps til breytinga á lögum um fiskeldi, þar sem lagðar eru til  breytingar til einföldunar í þessum mikilvæga málaflokki, en ekki síður til að byggja undir starfsemi fiskeldis þannig að greinin verði arðsöm og hagkvæm til framtíðar. Ég mun leggja frumvarpið fram á Alþingi á næstu vikum.

Nýverið skilaði hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar tillögum sínum en þær taka til allra helstu þátta ríkisrekstrarins og stærri þjónustu- og stjórnsýslukerfa. Markmið þeirra er að auka hagkvæmni og bæta árangur í ríkisrekstri þannig að unnt verði að veita góða og öfluga þjónustu í samræmi við þarfir þjóðarinnar og stuðla að skilvirkari rekstri ríkisins. Hagræðingarnefndin setti fram 111 tillögur. Þær þeirra sem snúa að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fjalla m.a. um sameiningu stjórnsýslustofnana á sviði umhverfismála og samþættingu og einföldun eftirlits á vegum Umhverfisstofnunar annars vegar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Matvælastofnunar hins vegar. 

Ráðuneytið vinnur að frekari úrvinnslu þeirra. Hér er um umfangsmikið og spennandi verkefni að ræða sem ekki er vafi á að muni nýtast vel til að efla stjórnsýsluna og gera hana hagkvæmari og skilvirkari.

Tækifærin eru sannarlega fyrir hendi en mikilvægt er að fara í þetta verkefni með skýr markmið og vinna að nauðsynlegum umbótum í góðu samstarfi ráðuneyta, stofnana og atvinnulífs. Þannig er best tryggt að árangur náist.

Ágætu fundargestir,
Undirbúningur stórframkvæmda eins og jarðhitavirkjana er tímafrekur og því mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir alla verkþætti, hvort sem þeir snúa að hönnun og útfærslu tæknilegra lausna eða að skipulagi, mati á umhverfisáhrifum og leyfisveitingum. Ýmsar myndir hafa verið dregnar upp sem eiga að sýna hve tímafrekir ferlar innan stjórnsýslunnar geta verið við undirbúning jarðhitavirkjana. Slíkar myndir eru góðra gjalda verðar og mikilvægt að fara vel yfir þær í samstarfi framkvæmdaraðila og stjórnsýslunnar. Með góðri  yfirsýn og skilningi á öllum verkþáttum undirbúningsvinnunnar getur framkvæmdaraðili komið auga á hvar vinna má samhliða að hinum ýmsum þáttum og þannig hugsanlega stytt undirbúningstíma virkjunarinnar. Stjórnsýslan þarf jafnframt að huga að því hvort og þá með hvaða hætti vinna má saman að ákveðnum þáttum innan kerfisins.

Að koma jarðhitavirkjun í rekstur krefst margra handtaka og mikilvægt er að skoða hvernig  þeim megi fækka. Á sama hátt er mikilvægt áður en ráðist er í slíka vinnu að greina og þekkja hvaða hlutverki hvert og eitt handtak gegnir í heildarverkinu. Einföldun regluverks má ekki leiða til þess að dregið verði úr kröfum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll, hagkvæmri nýtingu lands og landgæða eða stofni sjálfbærri nýtingu jarðhitauðlindarinnar í hættu.Í lögum um verndar- og nýtingaráætlun sem kölluð er í daglegu tali, Rammaáætlun, er kveðið á um að sveitarstjórnir skuli samræma skipulagsáætlanir við Rammaáætlun innan fjögurra ára frá því að hún er samþykkt á Alþingi. Þó er gert er ráð fyrir að sveitarstjórnir geti frestað ákvörðun um einstaka kosti í allt að tíu ár frá samþykkt Rammaáætlunar. Þannig er gert ráð fyrir því að sveitarfélög taki upp í skipulag sitt i stefnumörkun um jarðhitakosti sem eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar. Áætlunin er því mjög mikilvægt stjórntæki við gerð skipulags. Framkvæmdir vegna jarðhitavirkjana verða að byggja á skipulagsáætlunum viðkomandi sveitarfélags og hafa hlotið viðeigandi málsmeðferð skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Þegar framkvæmdaraðili telur sig hafa nægjanlegar upplýsingar á grundvelli rannsókna um svæðið þannig að hann telur raunhæft að reisa þar virkjun með uppsett rafafl með 10 MW eða meira, getur hann hafið vinnu við að meta umhverfisáhrif virkjunarinnar. Mikilvægt er að framkvæmdaraðili leiti samráðs eins snemma og kostur þegar hann vinnur að tillögu að matsáætlun og kynni tillögu sína umsagnaraðilum og almenningi. Það sama á við vegna vinnu sveitarfélagsins í upphafi skipulagsvinnu vegna framkvæmdanna. Reynslan sýnir að því betur sem samráði í upphafi málsins er sinnt, þeim mun betur gengur að vinna mat á umhverfisáhrifum, skipulag og útgáfu leyfa í kjölfarið.

Vinna við að meta umhverfisáhrif nýtist svo bæði þegar lagt er fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og þegar sveitarfélagið metur hvaða umhverfisáhrif viðkomandi skipulagsáætlanir munu hafa í för með sér.

Skipulags- og umhverfismatsferlið þarf ekki að vera línulegt ferli, þvert á móti er skynsamlegt og æskilegt að vinnuferlið sé þannig skipulagt að hægt sé vinna samhliða og gagnvirt, skipulag fyrir jarðhitavirkjun, umhverfismat og mat á umhverfisáhrifum og hönnun mannvirkja. Þannig er betur hægt að bregðast við og draga úr neikvæðum áhrifum við skipulagsgerðina og tryggja að í skilmálum fyrir leyfisveitingar sé bæði tekið mið af hönnun framkvæmdaraðila og einnig að skilyrði um mótvægisaðgerðir séu hluti skilmála fyrir framkvæmdum. Það stuðlar að bættu ferli við undirbúning framkvæmdarinnar og eftirlit með framkvæmdum. Með slíkri nálgun ætti vinna við undirbúning jarðhitavirkjana að vera einfaldari, taka styttri tíma og veita betri upplýsingar og jafnframt myndu þær koma fyrr fram. Það er mikilvægt að framkvæmdaraðilar nýti sér það svigrúm sem er fyrir hendi í dag til að gera undirbúningsferlið markvissara og styttra með því að samþætta verkþætti. Þá er einnig mikilvægt að stofnanir og stjórnvöld vinni vel með framkvæmdaraðila þegar svo háttar til.

Rammaáætlun er helsta lögformlega tæki stjórnvalda til að vinna mat á virkjanakostum og flokka þá í nýtingu eða vernd. Fagleg vinnubrögð þurfa að vera ríkjandi svo að skapa megi sátt á milli sjónarmiða um vernd og nýtingu virkjanakosta. Nú eru 14 jarðvarmakostir í nýtingarflokki. Einnig eru níu jarðvarmakostir til frekari skoðunar í biðflokki. Orkustofnun hefur nú kallað eftir tillögum að nýjum orkukostum til mats fyrir verkefnisstjórn eins og henni ber að gera skv. lögum um rammaáætlun. Stofnunin hefur sett tímafrest til 1. desember nk. og ætti því væntanlega að fara að skýrast mjög fljótlega hversu marga jarðvarmakosti verkefnisstjórn rammaáætlunar mun vinna með í þessum áfanga vinnunnar, til viðbótar þeim sem þegar eru í skoðun í biðflokki. Ég óskaði eftir því í vor að verkefnisstjórnin myndi setja í forgang endurskoðun á þeim kostum sem færðir voru, einhverra hluta vegna, úr nýtingarflokki í biðflokk í fyrravetur og myndi ljúka þeirri vinnu fyrir 1. mars 2014. Þar voru tveir jarðvarmakostir, Hágöngur I og II. Á eftir að koma í ljós hvort þeim tekst að meta þá og flokka fyrir þann tíma.

Góðir gestir;

Framkvæmdaraðilar í jarðhitageiranum hafa rekið sig á að vinna við mat á umhverfisáhrifum og skipulag hefur tekið lengri tíma en þeir áætluðu í upphafi, þrátt fyrir að málsmeðferð og tímafrestir sem snúa að stjórnsýslunni séu skilgreindir í lögum og reglugerðum um mat á umhverfisáhrifum og skipulagslögum. Mikilvægt er því að greina hvar í meðferð málsins tafirnar verða helst, skoða þarf hvort það er þegar málin liggja á borðum stjórnsýslunnar eða eru í vinnslu hjá framkvæmdaraðilanum, eða hvort orsökin liggi hjá báðum. Þegar skýrt er hvar tafa er helst að vænta, þarf að greina hvort og með hvaða hætti megi bæta verklag. Er hægt að bæta skipulagsvinnuna, undirbúning umhverfismats, samráð við hagsmunaaðila og fagstofnanir og úrvinnslu úr athugasemdum og umsögnum? Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég tel brýnt að farið sé yfir og skoðuð úrræði til að bæta úr. Geta stofnanir og sveitarfélög unnið betur saman þegar unnið er mat á umhverfisáhrifum og að gerð skipulags? Er hægt að samþætta vinnuna betur, þannig að vinna við ólíka verkþætti á undirbúningstíma framkvæmdar sé unnin á sama tíma? Geta umsagnir sem stofnanir veita, gagnast á öllum stigum undirbúningsvinnu, þannig að ekki þurfa að leita margsinnis til sömu stofnunar? Er hægt að stytta undirbúningstíma? Ég tel að svarið við þessum spurningum sé játandi.

Annað sem mig langar til að velta upp í lokin er samþætting eftirlitsþátta. Í sumum tilvikum koma nokkrir eftirlitsaðilar að sama fyrirtækinu og taka út sinn þáttinn hver. Væri hægt að hugsa sér eina eftirlitsstofnun sem annaðist eftirlit sem nú tilheyrir undir nokkur ráðuneyti? Það skal tekið fram að ekki verði dregið úr efnislegum kröfum til fyrirtækja, heldur þess í stað að dregið verði úr skörun og reynt að ná hægkvæmni eins og kostur er. Það er fyrirtækjunum fyrir bestu að starfa í samræmi við lög og reglur. Við þurfum á því að halda að fólk vilji stofna fyrirtæki og nauðsynlegir hvatar séu til staðar. Mikilvægt er að rekstrarumhverfið sé gott á hverjum tíma og hvatning þeim sem vilja hefja rekstur og taka áhættu með uppbyggingu nýrrar starfsemi. Hátt flækjustig regluverks getur dregið úr vexti fyrirtækja og haldið aftur að stofnun nýrra. Liður í því er að samræma og einfalda.

Við einföldun regluverks þarf að horfa heildstætt á stjórnsýsluna til að ná árangri og samþætta þau verkefni sem fara saman, þvert á stofnanir og ráðuneyti, og er opinbert eftirlit einn þeirra þátta. Skoða þarf hvort ekki sé hagkvæmt að  framkvæmdaraðili vegna jarðhitanýtingar geti snúið sér til einnar opinberrar stofnunar, sem tekur þá umsókn hans til umfjöllunar og afgreiðslu.

Við þá endurskoðun sem nú stendur yfir varðandi stofnanakerfi ríkisins þarf að að spyrja gagnrýnna spurninga og ávalt að hafa í huga hvernig sú þekking sem fyrir hendi er hjá stofnunum okkar og sveitarfélögum geti nýst sem best og að stjórnsýslan verði öflug og skilvirk til hagsbóta fyrir atvinnulífið án þess að hnikað sé frá kröfum sem gera þarf til atvinnustarfsemi vegna umhverfisins.

Góðir fundargestir, ég mun hafa þessi sjónarmið í huga í því starfi sem framundan er við einföldun og hagræðingu í stjórnsýslunni. Bestu þakkir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta