Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands 2014
Góðir gestir,
Það er mér ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Veðurstofunnar nú í byrjun einmánaðar, sem er síðasti mánuður vetrar að fornu tímatali. Hann er oft á tíðum umhleypingasamur, en það sama má raunar kannski segja um flesta mánuði á okkar góða landi; það er fáu að treysta í veðrinu og mikil blessun að eiga góða vísindamenn til að spá fyrir um hegðun þess. Veðurstofan þarf að auki að fylgjast með jarðskorpunni, sem er yfirleitt til friðs í okkar nágrannaríkjum, en á stöðugri hreyfingu undir okkur Íslendingum, með tilheyrandi skjálftum, eldgosum og jökulflóðum.
Það er ekki heiglum hent að taka að sér að spá fyrir um duttlunga höfuðskepnanna á Íslandi, en þess mun ánægjulegra að sjá að Veðurstofan nýtur mikils trausts meðal landsmanna. Í könnun nú í febrúar kom fram að 85,3% svarenda báru fullkomið eða mikið traust til Veðurstofu Íslands. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur sem störfum í stjórnmálum og sýnir mér fram á að e.t.v. eigum við að tala minna um pólitík og meira um veðrið til að fá betri tölur úr könnunum.
Að öllu gamni slepptu, þá er það mikilvægt fyrir okkur að stofnanir sem bera ábyrgð á almannaöryggi njóti trausts og standi undir því með góðu starfi og vilja til að gera sífellt betur. Til hamingju með þetta, Veðurstofufólk.
Það má segja að það hafi verið umhleypingar í þjóðlífinu og stjórnkerfinu á Íslandi á undanförnum árum eins og í veðrinu. Í ofanálag eru frosthörkur í ríkiskassanum. Þetta hefur haft áhrif á rekstur og umhverfi Veðurstofunnar eins og annarra opinberra stofnana. Ég tel þó að Veðurstofan hafi að mörgu leyti náð að sigla vel í gegnum þennan harðindakafla. Ég held að það hafi verið rétt skref að sameina gömlu Veðurstofuna og Vatnamælingar á sínum tíma og góð niðurstaða að geta hýst stærstan hluta starfseminnar á einum stað við Bústaðaveg. Veðurstofan er auðvitað smá í sniðum miðað við systurstofnanir í stærri löndum, en þess heldur þurfum við að gæta þess að stofnun af þessu tagi sé nógu veigamikil til að geta haldið uppi nauðsynlegum innviðum í tækjabúnaði og mannskap til að standa undir innlendum og alþjóðlegum kröfum.
Að öllu gamni slepptu, þá er það mikilvægt fyrir okkur að stofnanir sem bera ábyrgð á almannaöryggi njóti trausts og standi undir því með góðu starfi og vilja til að gera sífellt betur. Til hamingju með þetta, Veðurstofufólk.
Það má segja að það hafi verið umhleypingar í þjóðlífinu og stjórnkerfinu á Íslandi á undanförnum árum eins og í veðrinu. Í ofanálag eru frosthörkur í ríkiskassanum. Þetta hefur haft áhrif á rekstur og umhverfi Veðurstofunnar eins og annarra opinberra stofnana. Ég tel þó að Veðurstofan hafi að mörgu leyti náð að sigla vel í gegnum þennan harðindakafla. Ég held að það hafi verið rétt skref að sameina gömlu Veðurstofuna og Vatnamælingar á sínum tíma og góð niðurstaða að geta hýst stærstan hluta starfseminnar á einum stað við Bústaðaveg. Veðurstofan er auðvitað smá í sniðum miðað við systurstofnanir í stærri löndum, en þess heldur þurfum við að gæta þess að stofnun af þessu tagi sé nógu veigamikil til að geta haldið uppi nauðsynlegum innviðum í tækjabúnaði og mannskap til að standa undir innlendum og alþjóðlegum kröfum.
Nú stendur yfir skoðun á stofnanakerfi ráðuneytisins og raunar Stjórnarráðsins í heild, þar sem horft er til tillagna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Sú vinna er í gangi og ekki tímabært að ræða um líklegar niðurstöður úr henni, en við hljótum þar að líta til fyrri reynslu. Mér sýnist ljóst að ekki sé æskilegt að rannsókna- og vöktunarstofnanir séu margar og litlar, heldur séu þar samlegðaráhrif í tækjum og gagnagrunnum og öðru sem kalli á aukið samstarf eða sameiningar. Sterkar einingar eiga líka auðveldara með að laða að erlenda styrki og samstarfsverkefni. Þar eru víða sóknarfæri, enda er náttúra Íslands einstakt viðfang varðandi til dæmis rannsóknir á eldvirkni, jöklum og loftslagsbreytingum; að ekki sé minnst á öskuskýjaveðurfræði, sem mér er sagt að sé ört vaxandi vísindagrein þótt sértæk sé.
Alþjóðastarf og alþjóðatengsl eru sífellt mikilvægari þáttur í starfi Veðurstofunnar, meðal annars vegna þess að hún hefur mikið hlutverk tengt alþjóðlegri flugumferð og vaktar svæði sem er mun stærra en landið og jafnvel miðin. Veðurstofan hefur eflt þátttöku sína í alþjóðlegu samstarfi og má þar nefna stór rannsóknaverkefni sem ýmist eru í gangi eða í burðarliðnum og ráðuneytið reynir að styðja Veðurstofuna, þar sem aðkomu stjórnvalda er krafist.
Þar má nefna EPOS-verkefnið, sem miðar að bættri vöktun jarðskorpuhreyfinga og eldgosa. Það var mér líka mikil ánægja að skrifa undir fulla aðild Íslands að Veðurtunglastofnun Evrópu, EUMETSAT, í fyrra. Sú aðild eykur aðgang Íslands að fjarkönnunargögnum og mun verða til þess að bæta enn áreiðanleika veðurspáa og almennt að efla vöktun og skilning á náttúrufari.
Góðir gestir,
Meginhlutverk Veðurstofu Íslands er skýrt og mun ekki breytast í náinni framtíð. Það eru hins vegar ýmis mikilvæg og spennandi verkefni framundan, sem Veðurstofan hefur hug á að ráðast í og munu gagnast þjóðinni í heild og verða sum þeirra væntanlega reifuð hér í dag á þessum fundi. Þar má til dæmis nefna hættumat vegna flóða af völdum vatnsfalla og sjávar, en þar má byggja á svipaðri vinnu og gerð hefur verið fyrir ofanflóð. Einnig þekki ég að Veðurstofan hefur hug á að gera sig meira gildandi í vinnu tengdri loftslagsbreytingum, sem lýtur að vísindum og aðlögun að líklegum breytingum í framtíðinni. Ég vil styðja Veðurstofuna til góðra verka á þessum sviðum eins og öðrum, en stjórnvöld þurfa þó auðvitað að vinna innan þess svigrúms sem tekjur ríkissjóðs gefa hverju sinni.
Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á ábyrga fjármálastjórn til að vinna ríkissjóð og þjóðina út úr þeim þrengingum sem hrun fjármálakerfisins skapaði. Einnig þarf auðvitað að gæta þess vel hverju sinni, jafnvel þegar vel árar, að stofnanir sem reknar eru fyrir skattfé vinni að verkefnum sem eru í almannaþágu og eru vel skilgreind sem slík. Það eru ýmsir vorboðar í efnahagslífinu jafnt sem í náttúrunni nú, en ekki allar viðsjár úti og því rétt að lofa frekar minna en meiru við slíkar aðstæður.
Ég vil þó ítreka að ég tel að Veðurstofan sé á réttri leið og að sá ráðherra sem hér stendur vill styðja við grunnstarfsemi stofnunarinnar, jafnt sem ýmis ný verkefni sem varða öryggi landsmanna og geta eflt skilning okkar á náttúrunni, gæðum jafnt sem ógnum. Veðurstofan á tryggan sess í hugum og hjörtum Íslendinga og býr við velvilja jafnt sem traust. Ég óska ykkur alls góðs á þessum ársfundi og í ykkar störfum og fullvissa ykkur um að umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun vinna með ykkur að gera gott starf enn betra.
Takk fyrir,