Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. apríl 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Fréttablaðinu - Dagur umhverfisins

Eftirfarandi grein Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, birtist í Fréttablaðinu á Degi umhverfisins 25. maí 2014.


Dagur Umhverfisins

Dagurinn í dag er helgaður umhverfinu. Umhverfismál þurfa að vera samtvinnuð öllum athöfnum hversdagslífsins, bæði  í leik og starfi. Í því felst heilmikil áskorun því það getur verið meira en að segja það að takast á við og breyta hversdagslegum venjum sem hafa orðið til yfir langan tíma. Einnig er afar líklegt að fjárhagslegur, heilsufarslegur og samfélagslegur ávinningur sé af umhverfisvænni lífsháttum.

Gott dæmi um þetta er matarsóun sem er siðferðislegt vandamál, ekki síst í hinum vestræna heimi. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis í heiminum.

Sú vitundarvakning sem er að verða um sóun matar er því bæði jákvæð og nauðsynleg. Þannig virðast flestir sammála um að matarsóun sé vandamál sem bregðast þurfi við. Við skiljum öll mikilvægi þess að maturinn sé nýttur í stað þess að honum sé hent.

Að gæta betur að hvað við kaupum og hverju við hendum leiðir ekki aðeins af sér betri nýtingu matvæla heldur er það mjög mikilvægt fyrir umhverfið.

Mörg okkar telja að við sóum ekki mat.  Staðreyndin er hins vegar önnur. 

Matarsóun felst í því að kaupa meira inn en maður hefur í raun þörf fyrir. 

Matarsóun felst í því að henda slöppum eða blettóttum ávexti í stað þess að skera skemmdina af og borða ávöxtinn beint eða mauka t.d. í drykk.

Matarsóun felst í því að henda mat bara af því að það var búið að setja hann á borðið og hann kláraðist ekki.

Matarsóun felst í því að ýta matvörum aftar í skápinn þegar komið er með nýrri vörur úr búðinni og nota þannig yngri vörurnar fyrst og henda hinum. 

Matarsóun er að henda restinni úr túpunni, dósinni eða flöskunni í stað þess að skera á túpuna eða þynna það sem er í flöskunni og nota.

Matarsóun felst í því að taka ekki heim með sér afganginn frá veitingastaðnum.  Já, matarsóun er víðtæk.

Dagur umhverfisins – minnir okkur á um hvaða verðmæti er að tefla og að það er í okkar höndum að varðveita þau. Til þess þarf bæði þor og vilja en með hvorutveggja í farteskinu er okkur ekkert að vanbúnaði.

Til hamingju með daginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta