Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2014 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ársfundur Byggðastofnunar, 28 apríl 2014

ATH: Talað orð gildir

Ágætu fundarmenn, því miður komst ráðherra ekki til fundar við okkur í dag vegna anna. Ég vona að þið takið viljann fyrir verkið, þótt ég flytji ykkur boðskap ráðherra í hans stað.

Mig langar að hefja mál mitt á því að vitna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar segir undir kaflanum byggðamál: Lögð verður áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi. Þetta er ekki löng setning en segir samt sem áður allt sem segja þarf.

Jafnrétti til búsetu þýðir á mæltu máli að allir sitja við sama borð þegar opinber þjónusta á í hlut. En svona er þetta vitaskuld ekki. Ég þykist vita að fullkomið jafnrétti muni aldrei nást, enda má spyrja sig hvort það sé raunhæft eða í raun æskilegt. En í öllu falli eigum við að búa svo um hnútana að allir búi við sömu lágmarks grunnþjónustu.

Þeirri skoðun heyrist stundum fleygt að óhagræði sé að því að hafa dreifða byggð á Íslandi. Allt sé best komið í Reykjavík, eða á höfuðborgarsvæðinu. Það má taka undir þá skoðun að sumt sé best niður komið á Suð-Vestur horninu. En ef við styðjum þessa skoðun út í hörgul, væri náttúrlega allt á einum stað á landinu. Fyrir því er enginn vilji né skynsamleg rök. Má strax nefna tvennt: við þurfum að framleiða meiri matvæli og það verður ekki gert nema í mjög litlum mæli á malbikinu; og í annan stað þá fjölgar ferðamönnum ört og þeir þurfa þjónustu um allt land. Reyndar á ekki að þurfa að takast á um þetta, svo sjálfsagt sem það er, að fólk fái að búa þar sem það vill og fást við sín hugðarefni.

Það leiðir hugann að samgöngum í víðasta skilningi, en í stefnuyfirlýsingunni segir: Ríkisstjórnin mun vinna að samgöngubótum með áherslu á tengingu byggða. Ég fletti upp á samgöngubótum á vefnum timarit.is. Hvað skyldu menn hafa sagt um þær í þá daga þegar hestakerran var samgöngutækið?

 Í fréttum frá Íslandi, í Skírni fyrsta janúar 1899, segir frá landshögum. Samgöngumál fá þar sérstakan kafla og eru þar kunnuglegir frasar  eins og að Alþingi leggi mikla áherslu á samgöngubætur og hyggist verja í þær nokkrum fjármunum einnig er þar minnst á heimild til stjórnarinnar til undirbúnings lagningar ritsíma frá Austfjörðum. Þá var það ritsími, nú ljósleiðari. 

Og fyrst ég er byrjaður að nefna gamlar fréttir langar mig aðeins að nefna stutta frétt úr Degi frá 1965. Þar segir að haldin hafi verið merkileg ráðstefna á Akureyri. Voru þar saman komnir menn með ólíkustu stjórnmálaskoðanir. Allir vildu þeir standa einhuga að málefnum fjórðungsins og leggja hreppapólitík til hliðar. Meðal annars var samþykkt að vinna að því að koma á fót byggðastofnun… dreifbýlinu til sóknar og varnar.

Góðir fundarmenn.

Þetta á við enn í dag; Byggðastofnun er nú á dögum lykilstofnun, þegar kemur að sókn og vörn dreifbýlisins. Innan veggja hennar eru færustu sérfræðingar í byggðamálum samankomnir. Það er ekki sama hvernig byggð í landinu þróast, það er ekki sama hvernig best er að standa vörnina og heldur ekki hvernig best er að blása til sóknar. Byggðastofnun er greiningardeild landsbyggðarinnar og á grundvelli ráðlegginga frá henni eru teknar ákvarðanir, sem hafa með heill fjölmargra að gera. Og þótt ég hafi aðeins verið ráðherra í tæpt ár, get ég sagt fullum fetum að ég treysti Byggðastofnun til að taka faglegar, hlutlægar ákvarðanir sem standast skoðun.

Nýlegt dæmi má nefna, sem flestum er vafalítið ofarlega í huga. En það eru áform Vísis í Grindavík að færa alla landvinnslu í heimabæinn suður með sjó. Djúpivogur, Þingeyri og Húsavík eru skilin eftir í uppnámi og nánast í sárum; sérstaklega á það við um Djúpavog og Þingeyri. Ráðuneytið fékk Byggðastofnun strax til að gaumgæfa málið og skipti þá engu þótt stjórnarformaðurinn væri í fríi á Spáni! Og í miðri dymbilviku kom minnisblað forstjóra og formanns stjórnar um stöðu smærri sjávarbyggða og viðbrögð við vanda einstakra byggðalaga. Minnisblaðið er mikilvægt innlegg þegar lagðar verða fram lausnir á vanda þessara staða.  

Stefnumótun í byggðamálum byggist á byggðaáætlun. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017 hefur verið lögð fyrir Alþingi og verður væntanlega afgreidd á þeim þingdögum sem eftir eru. Meginmarkmið byggðaáætlunar fyrir árin 2014–2017 eru að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu, þjónustu og annarra lífskjara og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla er lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Einnig er lögð áhersla á að aðgerðir byggðaáætlunar stuðli að auknu jafnrétti kynjanna. Til þess að ná markmiðum byggðaáætlunar verður hrint í framkvæmd aðgerðum, sem falla undir fjögur skilgreind lykilsvið: innviði, sértækar aðgerðir, atvinnumál og opinbera þjónustu. 

Ágætu fundarmenn.

Ég væri ekki að segja satt, ef ég þættist ekki kannast við góðan ásetning stjórnvalda um að gera eitthvað í málefnum landsbyggðarinnar; ásetning sem oft verður minna úr en efni standa til. Því er ekki nema eðlilegt að spurt sé; er ástæða til að ætla annað núna? Því er til að svara að byggðaáætlun er einfaldari nú en áður. Það ætti að verða til þess að kraftar okkar dreifist ekki um of í alltof margar áttir.   

Eitt af þeim stefnumiðum sem sett er fram í nýrri byggðaáætlun, er, að sóknaráætlanir verða styrktar sem farvegur fyrir áherslu og aðgerðir byggðaáætlunar. Nú þegar hafa verið stigin ákveðin skref í þessa átt með því að tengja vaxtarsamningana með beinum hætti við sóknaráætlanirnar og frekari samþættingar er að vænta á næsta ári – vonandi með þátttöku menningarsamninga. Jafnframt þessu er einnig mikilvægt að fólk í öllum landshlutum líti í eigin barm og haldi áfram að efla sínar stofnanir og samþætta starf sitt. Öflug þróunarsetur í hverjum landshluta, er forsenda þess að hægt sé að færa framkvæmd byggðastefnunnar í meira mæli út í héruðin.

Þótt byggðaáætlun fyrir árin 2014 til 2017 verði afgreidd á þessu þingi verður ekki látið staðar numið þar, heldur munum við strax hefjast handa við að vinna að endurskoðaðri áætlun sem mun gilda fyrir seinni hluta tímabilsins. Þannig er núverandi áætlun einungis skref í þá átt sem við viljum stefna í og búast má við að meiri þungi verði settur í byggðamálin á seinni hluta kjörtímabilsins. Eitt af því sem þá mun koma sérstaklega til skoðunar er hvernig við getum svæðaskipt landinu svo auðveldara verði að beina viðeigandi byggðastuðningi að þeim svæðum sem þörfin er brýnust. Mismunandi aðstæður kalla á ólíkar stuðningsleiðir. Þetta verður eitt af þeim atriðum sem hvað mest vinna verður lögð í á næstu misserum. Þar má líka sjá fyrir sér að sóknaráætlanir muni skipa stórt hlutverk.  

Kæru fundarmenn.

Ég vil að lokum þakka starfsmönnum og stjórn Byggðastofnunar gott samstarf á þeim tíma sem ég hef setið sem ráðherra. Ég vil jafnframt nota tækifærið til að þakka þeim sérstaklega sem nú hverfa úr stjórn stofnunarinnar og bjóða nýja stjórnarmenn velkomna til starfa.  

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta