Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. febrúar 2015 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða við undirskrift á sóknaráætlunum landshluta, 10. febrúar 2015

Góðir gestir 

Ég vil byrja á að bjóða ykkur velkomin hingað í þetta sögufræga hús til að taka þátt í og verða vitni að undirritun samninga um sóknaráætlanir landshluta 2015-2019. Það á vel við að vera í húsi sem hefur sterka tengingu við landsbyggðina. Upphaflega reist af Norðmanninum Hans Ellefsen hvalveiðiforstjóra á Sólbakka við Önundarfjörð árið 1892. Hann bauð síðar vini sínum, Hannesi Hafstein sem verið hafði sýslumaður Ísfirðinga, húsið að gjöf – að  því er talið er – eða  til kaups á eina krónu, aðrir segja 5 krónur. Var húsið þá tekið sundur og flutt suður.

Hér er um að ræða stóran áfanga í samskiptum ríkisins við landshlutasamtök sveitarfélaga og við erum að stíga mikilvæg skref í átt til einfaldara og gegnsærra kerfi. Leiðin að þessu marki hefur ekki beinlínis verið bein og breið og vissulega hafa væntingar okkar allra um aukið fjármagn í þennan farveg ekki orðið að veruleika en við megum samt ekki missa sjónar á því hvaða árangur hefur náðst með samningunum sem við undirritum nú á eftir:

Í fyrsta lagi erum við hér að gera samninga til 5 ára. Lengri tíma en áður hefur þekkst. Gömlu vaxtarsamningarnir og menningarsamningarnir voru að jafnaði til þriggja ára og allar fyrri sóknaráætlanir voru einungis gerðar til eins árs í senn. Með því að gera samning um föst fjárframlög til fimm ára skapast rými til áætlunargerðar og eftirfylgni af öðrum og markvissari toga en áður hefur þekkst.

Í öðru lagi eru hér verið að sameina fjóra potta úr tveimur ráðuneytum; menningarsamninga og framlög til menningartengdrar ferðaþjónustu, vaxtarsamninga og gömlu sóknaráætlanirnar. Til viðbótar koma svo framlög sveitarfélaganna í hverjum landshluta. Landshlutasamtökunum er falið að ráðstafa fjármagni allra þessara liða í samræmi við eigin sóknaráætlanir – ekki áherslur ríkisins heldur eigin áætlanir. Og heildarumsjón með þessu verkefni er hjá stýrihópi, skipuðum fulltrúum allra ráðuneyta stjórnarráðsins ásamt fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nýja fyrirkomulagið er kærkomin einföldun á regluverki og nýbreytni í opinberri stjórnsýslu og það verður spennandi að fylgjast með árangrinum.

Í þriðja lagi hefur okkur auðnast að úthluta öllum þessum ólíku pottum með einni hlutlægri skiptareglu. Þar er reyndar sú undantekning að við treystum okkur ekki til að gefa höfuðborgarsvæðinu hlut í þeim fjármunum sem áður runnu til menningar- og vaxtarsamninga enda voru þeir potta beinlínis settir upp til að koma til móts við lægri framlög hins opinbera til menningar- og nýsköpunarmála utan höfuðborgarsvæðisins. Ég hef engu að síður verið því fylgjandi að höfuðborgarsvæðið sé þátttakandi í sóknaráætlunum og tel mikilvægt að byggðastefna Íslands hafi allt landið undir; þótt vissulega muni fjárframlög til svæða alltaf taka mið af stöðu þeirra.

Í fjórða lagi höfum við með þessum samningum opnað á leið til að ráðstafa ýmsum smærri fjárlagaliðum til landshlutanna. Safnliðum sem hafa verið eyrnamerktir einstökum stofnunum eða verkefnum en geta nú runnið óskiptir til viðkomandi landshluta og það verður síðan þeirra að ákveða ráðstöfun fjármagnsins. Þar sem þetta er algerlega ný aðferðafræði höfum við valið að prófa okkur áfram með tiltölulega fáa liði og því munu ekki allir landshlutarnir fá verkefni að þessu tagi. Ef vel gengur, sé ég hins vegar fyrir mér að þessum liðum geti fjölgað - jafnvel innan núverandi samningstímabils.

Góðir gestir; efniviðurinn í þetta hús sem við stöndum í, var líklega keyptur tilsniðinn frá Noregi. Það er við hæfi að vitna í norska þjóðskáldið, Bjørnstjerne Björnson, sem eitt sinn skrifaði;

Takt, takt, pass på takten,
den er mer en halve makten!

Þessi orð eiga vel við í dag. Ef okkur – öllum þessum ráðuneytum, landshlutasamtökum og sveitarfélögum tekst að ganga í takt, þá mun okkur vegna vel og því meiri árangri sem þessi aðferðafræði skilar, því auðveldara verður að vinna henni fylgi og tryggja aukið fjármagn til lengri tíma.

Undirskrift á sóknaráætlunum


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta