Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. febrúar 2015 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða á aðalfundi Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, febrúar 2015

Ath: Talað orð gildir


Ágætu fundarmenn. 

Mig langar í upphafi að beina orðum mínum að fráfarandi framkvæmdastjóra SAM, Guðna Ágústssyni bóndasyni frá Brúnastöðum, fyrrverandi mjólkureftirlitsmanni hjá MBF og fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Að öðrum ólöstuðum tel ég drenginn þann betri og einarðari talsmann íslensks landbúnaðar, en dæmi finnast um í síðari tíma sögu. Treysti ég á að svo verði áfram, þótt þú nú stigir til hliðar úr forystusveit SAM. Gangi þér vel.

Eðli máls samkvæmt eru hagsmunasamtök, samtök sem berjast fyrir hagsmunum sinna félagsmanna. SAM eru þess háttar samtök, eða eins og fram kemur á heimasíðu: Tilgangur samtakanna er að sjá til þess að mjólkuriðnaðurinn í landinu verði rekinn á sem hagkvæmastan hátt með það að markmiði að gæta hagsmuna afurðastöðvanna inn á við sem út á við auk þess að gæta þess að framleiðendur og afurðastöðvar nýti sem best tiltæka markaði hverju sinni, innanlands sem utan.

Afurðastöðvar innan SAM eru nú 3 talsins og þannig háttar til að eitt fyrirtæki, sem við erum nú stödd í, er langstærsta fyrirtækið innan vébanda þess. Þó eru ekki öll fyrirtæki sem starfa í mjólkuriðnaði innan samtakanna. Þessi staða, með eitt risavaxið fyrirtæki innan sinna vébanda, gerir SAM að nokkru leyti frábrugðið öðrum hagsmunasamtökum. Og til að undirstrika sérstöðu SAM eru samtökin til húsa hjá einu aðildarfélaganna. Afl þess stóra kann, með réttu eða röngu, að fæla aðra frá. Og fyrir samtök sem þessi er mikilvægt að allir innan greinarinnar finni að þeir séu velkomnir. Það eykur styrkinn. 
Fyrir ríkisvaldið er mikilvægt að hafa samtök fyrirtækja sem viðræðuaðila. Ríkisvaldið getur ekki átt í samtali um hagsmuni atvinnugreinar við eitt fyrirtæki. Fyrir ríkið eru breið samtök allra fyrirtækja í mjólkuriðnaði t.a.m. undir SAM því algjör nauðsyn. Án slíkra samtaka verður samtal ríkis og atvinnugreinar mun erfiðara.
Ágætu fundargestir 
Mig langar aðeins til að staldra við þessa stöðu sem SAM er í. Það er ekki óvarlegt að ætla að fleiri fyrirtæki vilji reyna fyrir sér í mjólkuriðnaði á komandi árum. Gríðarlega góð sala hefur verið á mjólkurafurðum á undanförnum misserum af ástæðum sem flestum ættu að vera kunnar. Svo staldrað sé við eina augljósa – gera má ráð fyrir stórauknum fjölda ferðamanna til Íslands og kúabændur og iðnaðurinn í heild sinni má hafa sig allan við til að mæta eftirspurn. Ég held að samtökin verði að spyrja sig; hvernig samtök ætlum við að vera? Fyrir hvaða hagsmunum ætla samtökin að berjast og kannski ekki síst, á hvaða vettvangi verður það best gert? Ég hef ekki svar á reiðum höndum um hvernig samtök SAM eiga að vera, enda ekki mitt að svara því hvernig hagsmunasamtök sinna sínu starfi. Mín skoðun er hins vegar sú, að tryggja verði, það sem kallað er, armslengdar sjónarmið í starfseminni – eins og ég nefndi áðan um mikilvægi þess fyrir ríkið að eiga tök á samtali við samtök fyrirtækja – en ekki eitt fyrirtæki. Það má spyrja hvort skrifstofa og starfsemi SAM eigi ekki að vera á „hlutlausu svæði“, en ekki inni í einu aðildarfélaginu. Þeirri spurningu þurfið þið að svara.
Í annan stað held ég að samtökin ættu að íhuga hvar þau eigi  heima,  er það innan Samtaka iðnaðarins? (eins og til dæmis SAMÁL).  Því það segir nú einu sinni í tilvitnuðum orðum af heimasíðu SAM: „… að tilgangur samtakanna er að sjá til þess að mjólkuriðnaðurinn í landinu verði rekinn á sem hagkvæmastan hátt …“ tilvitnun lýkur.

Ég byggi þetta sjónarmið á því, að ég tel góða tíma framundan í mjólkurframleiðslu og öllum þeim iðnaði sem í kringum hana þrífst. Það styttist í að hægt verði að hefja undirbúning að nýjum samstarfssamningi. En eins og þið kannist við, höfum við nú all lengi beðið skýrslu frá Hagfræðistofnun. Hún átti að koma með haustskipinu, en afhending dróst og enn dregst hún. En vonandi ekki lengi. Það sem ekki liggur síður á í þessu samhengi, er að svo kölluð verðlagsnefnd búvara komi saman. En það hefur hún ekki gert vegna þess að fulltrúar launþegarhreyfinganna, sem eiga aðild að henni, hafa viljað bíða þar til skýrslan kæmi. Hvað sem henni líður verðum við að fara að huga að samningi og ég hyggst setja þá vinnu af stað. Þótt ekki sé tímabært að greina frá þeim hugmyndum sem fram hafa komið og óskum einstakra hagsmunaaðila, um efni nýs samnings, get ég þó sagt það að ég tel að gera eigi samning sem geri framleiðendum kleift að horfa eitthvað fram í tímann. Það mun einfalda áætlanir þeirra, sérstaklega um uppbyggingu og fjárfestingar. Það mun einnig leiða til þess að mjólkuriðnaðurinn getur gert lengri áætlanir, sem byggjast á traustari grunni. Þá tel ég að svo kölluð tollvernd eigi að vera önnur tveggja meginstoða í nýjum samningi. Engin lönd fella niður tolla einhliða, heldur er það gert með gagnkvæmum samningum.

Ástæða þessa er einföld. Ég tel að matvælaframleiðsla á Íslandi sé mikilvægur atvinnuvegur, ekki bara fyrir daginn í dag, heldur til framtíðar í hverfulum heimi. Og þetta er ekki bara mín prívat skoðun. Í stjórnarsáttmálanum segir eftirfarandi: Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Ríkisstjórnin mun gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta