Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2015 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ársfundur Byggðastofnunar 10. apríl 2015


Ársfundur Byggðastofnunar Vestmannaeyjum 2015

Ágætu fundarmenn, því miður komst ráðherra ekki til fundar við okkur í dag vegna anna. Ég vona að þið takið viljann fyrir verkið, þótt ég flytji ykkur boðskap ráðherra í hans stað. 

Ég hygg að þeir sem voru á ársfundi Byggðastofnunar í fyrra reki minni til þess að hafa heyrt þessi ávarpsorð þá; en þau eru nákvæmlega þau sömu og í fyrra. Ráðherra er fjarverandi vegna flokksþings, en biður fyrir kveðju til allra sem hér eru. Og til að forðast allan misskilning, þá vísar fyrsta persónu fornafnið ÉG í þessari ræðu, til ráðherra, en ekki mín, sem hér stend.

Ég talaði um það í fyrra, að það væri fengur í því að eiga að stofnun eins og Byggðastofnun, eins konar greiningardeild byggðamála. Þá hafði ég setið í embætti í tæpt ár, en nú, eðli máls samkvæmt, í tæp tvö ár. Og þessi skoðun mín á Byggðastofnun hefur í engu breyst, styrkst frekar en hitt. Starfsfólk hennar og stjórn eru stjórnvöldum hvers tíma afar mikilsverð, enda er það viðkvæmt mál og flókið að fást við vandamál lítilla samfélaga.   

Á ársfundi er rétt að spyrja, hvað hefur gerst síðan við sáum síðast. Ég vil nefna þrennt. Í fyrsta lagi að undirbúningur er hafin að ljósleiðaravæðingu landsins alls. Í öðru lagi er frumvarp um að kostnaður við flutning og dreifingu rafmagns vegna húshitunar, hjá þeim sem ekki eiga kost á hitun með jarðvarma verður að fullu niðurgreiddur frá og með 1. janúar 2016. Með frumvarpinu er stigið mikilvægt skref til að jafna orkukostnað eftir landsvæðum og til að jafna búsetuskilyrði um allt land. Í þriðja lagi vil ég nefna ný lög um jöfnun kostnaðar á dreifingu á rafmagni.

Af öðrum þáttum sem nefna má og horfa til framfara eru að sóknaráætlanir landshluta hafa verið festar í sessi með samningum til fimm ára. Búið er að sameina í einn samning verkefnin sóknaráætlanir landshluta, vaxtarsamninga og menningarsamninga. Þar er Byggðastofnun ætlað aukið hlutverk. Einnig vildi ég nefna svo kallaðan Byggðarannsóknarsjóð sem settur hefur verið á laggirnar, en ég er þess fullviss að með rannsóknum, sem hægt verður að stunda með stuðningi úr sjóðnum, verði hægt að leggja mikilsverðan grunn til uppbyggingar byggðastefnu til framtíðar.

Ríkisstjórnin sem nú situr, rekur og hyggst reka, virka byggðastefnu. Ástæðan er einföld; æskilegt er að byggð verði sem víðast á landinu. Ásókn í okkar ágæta land er að aukast stórum frá ári til árs; rúmlega milljón ferðamenn væntanlegir á þessu ári og enn fleiri á því næsta. Auk þess tel ég, og hef lengi verið þeirrar skoðunar, að landbúnaður og matvælaframleiðsla eigi sér bjarta framtíð. Spurn eftir matvælum er að aukast og kaupgeta fólk að styrkjast. Þessu þarf að mæta.

Ágætu fundarmenn

Það er ekki sér íslenskt vandamál að það fækki í sveitum og fjölgi í borgum. Ég tel að hér á landi séu tvö atriði sem hyggja þarf sérstaklega að, til að spyrna við þessu. Einhæfni atvinnulífs er það sem heldur mörgum frá því að flytja aftur í heimahagana. Ungt fólk menntar sig sífellt meira og vill gjarnan fá starf við hæfi. Á mörgum stöðum háttar einfaldlega þannig til, að störfin eru ekki til. Þessu þarf að breyta.  

Þá vil ég einnig geta þess, að öll flugumferð, til og frá landinu, fer í gegnum einn flugvöll. Að sjálfsögðu er takmarkað hvað yfirvöld geta gert til þess að lokka flugfélög til að fljúga á vissa staði. En ég tel það ómaksins vert að gaumgæfa það eins og nefnd á vegum forsætisráðuneytisins hefur verið falið að gera. Með því mætti dreifa álagi vegna ferðamanna víðar um landið, til stórfellds ávinnings fyrir viðkomandi landsvæði, svo ekki sé talað um ómæld tækifæri fyrir sjávarútvegsfyrirtæki til að flytja ferskan fisk beint á markað.  

Að lokum þetta.

Ég vil þakka starfsmönnum og stjórn Byggðastofnunar gott samstarf. Ég vil jafnframt nota tækifærið og bjóða nýjan stjórnarformann velkominn til starfa, Herdísi Sæmundardóttur.

Þá vil ég þakka fráfarandi stjórnarformanni, Þóroddi Bjarnasyni, einstaklega gott samstarf og minna hann í leiðinni á, það sem sagt var þegar hann tilkynnti mér ákvörðun sína; að ég mætti leita til hans með úrlausnarefni.  

Ég óska ykkur góðs ársfundar.

Takk fyrir mig.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta