Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. júní 2015 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða á ráðstefnu SFS, 29. maí 2015


Fundarstjóri, ágætu fundarmenn

Ég vil byrja á því að þakka tækifærið til að ávarpa aðalfund SFS, sem að þessu sinni er tileinkaður markaðssetningu og auknum verðmætum. Það fer vel á því.

Fyrir tæpri öld mátti lesa í Ægi, mánaðarriti Fiskifélags Íslands, frásögn af fiskveiðum Dana, 1921. Þar er skrifari að velta fyrir sér verðmæti íslenskra sjávarafurða miðað við hina „…litlu fiskveiðiþjóð…“ sem hann sagði Dani vera. Niðurstaða hans var sú að það væri ógerningur að bera þetta saman, „Því þar til vantar, segjum alt.“ Hagur veiða og vinnslu var greinilega ekki álitið forgangsmál að taka saman á þessum árum. En niðurstaða skrifara er samt sú að fróðir menn álíti að upphæðin geti numið um 40 milljónum króna, „… þegar lýsi, gota, sundmagi og síld er reiknað með…“  Þetta telur hann koma almenningi undarlega fyrir sjónir „ … að hinar dýru afurðir okkar gefi ekki meira af sér en fiskur sá, sem Danir afla, sem hér almennt væri nefndur ruslfiskur.“    

Það eru engin ný tíðindi fyrir ykkur í þessum sal að íslenskur fiskur er eftirsótt vara, meðal annars vegna ímyndar lands og sjávar. Og ég tek undir með málgagni Fiskifélagsins; gæðin eru mikil og hafa auðvitað enn batnað frá 1921. En það selur sig ekkert sjálft á alþjóðlegum samkeppnismarkaði, ekki frekar en fyrir tæpum 100 árum. Í tilvitnuðu tölublaði er greint frá því að Þjóðverjar séu farnir að selja kola í Danmörku. Þótti dönskum fiskimönnum „… það slæmir gestir, þar sem þeir selja svo miklu ódýrara…“.  Á hinum alþjóðlega samkeppnismarkaði í dag eiga alveg sömu lögmál við. Það er keppt í verði, gæðum og afhendingaröryggi. Kunnugir segja mér að afhendingaröryggið sé mikilvægast af þessu þrennu; ef engin er varan, þarf ekki að ræða verð og gæði.

Á dögunum hélt ég stutt erindi á ráðstefnu sem Matvælalandið Ísland stóð fyrir. En það er samstarfsvettvangur fyrirtækja og samtaka sem tengjast framleiðslu og markaðssetningu matvæla og ykkar samtök eru hluti af. Þar hélt ég því fram að Ísland væri vel í stakk búið til að framleiða mat og selja háu verði. Þessi niðurstaða byggist á því að fólki fjölgar og kaupgeta fólks er að aukast. Í þessu felast möguleikar sem ég tel að við hér á Íslandi eigum að nýta okkur. Við þetta bætist að krafa um hrein og heilnæm matvæli verður sífellt háværari. Fólki er ekki sama hvað það lætur ofan í sig. Sú staðreynd vinnur með okkur og ímyndin styrkir stöðu okkar. 

Sjálfsagt hnutu margir um fréttir af því á dögunum, að sænska risafyrirtækið Arla auglýsti íslenskt skyr fyrir Bretlandsmarkað. Skyrið var sagt framleitt á Höfn. Það reyndist rangt, það var upprunnið í Þýskalandi. Fram kom í fréttum, og haft eftir markaðsstjóra Mjólkursamsölunnar, að auglýsingaherferðin hefði ekki kostað undir einum milljarði króna. Kasper nokkur Beck, upplýsingafulltrúi Arla í Danmörku sagði að markaðsherferðin væri byggð á ákveðinni menningu og þar var hann væntanlega að vísa til hinnar íslensku.

En hvað sem öllum útúrsnúningi og illa ígrunduðum afsökunum Arla manna líður, finnst mér þetta sterk vísbending um að ímynd Íslands og menning, eru öflug tæki til markaðssetningar á íslenskum mat. Það eru verðmæti falin í ímyndinni og þá auðlind eigum við sameiginlega og þurfum að umgangast hana í samræmi við það. Flestir eru að selja sömu söguna af Íslandi þegar kemur að mat. Og það er engum blöðum um það að fletta að sjávarútvegurinn hefur dregið vagninn í þeim efnum. Og svo verður væntanlega áfram.

Ríkisvaldið á ekki að skipta sér af markaðsmálum einstakra fyrirtækja. Þó skarast leiðir hins opinbera og útflutningsfyrirtækja með ýmsum hætti. Ríkið gerir samninga um gagnkvæman markaðsaðgang og lætur stundum til sín taka ef snurða hleypur á þráðinn. Auk þess sem viðskiptasendinefndir eru oft með í för í opinberum heimsóknum íslenskra ráðamanna. Sú skikkan þekkist um allan heim.

Hægt er að sjá fyrir sér að á vettvangi Matvælalandsins Íslands, að hægt verði að ná samstöðu um það hvernig við Íslendingar viljum standa að markaðssetningu á íslenskum matvælum. Ríkisvaldið hefur ákveðið að styðja við bakið á þeirri starfsemi og nýlega var samþykkt í ríkisstjórn að leggja til hennar 80 milljónir króna á ári, næstu fimm árin. Nú er verið að móta verkefnið á vegum Íslandsstofu og ég vonast til þess að sem flestir sjái sér hag í því að taka þátt og ég hvet alla til að ganga til leiks með opnum hug. 

Fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún hyggist leggja áherslu á áframhaldandi uppbyggingu í sjávarútvegi. Til að svo megi verða þarf að búa sjávarútveginum þau skilyrði að hann geti staðið undir þeirri ímynd sem við teljum svo mikils virði. Það felst meðal annars í því að fjárfestingar haldi áfram, bæði til sjós og lands.

Það á að vera markmið okkar að fyrirtæki hafi getu og burði til að þróa nýja tækni og aðferðir við matvælavinnslu. Þar er mikilvægt að horft verið til þess að efla enn frekar samvinnu milli stofnana sem fara með rannsóknir, háskólasamfélagsins og fyrirtækja. Stöðug nýsköpun er mikilvæg og í raun forsenda þess að fyrirtæki hafi burði til þess að vera leiðandi í samkeppni á heimsmarkaði.

Ég heimsótti Bergen í fyrri viku og hlustaði meðal annars á fyrirlestur fulltrúa Norsk sjömatråd. Fram kom að samtökin hafa úr að spila, sem svarar til tæplega níu milljarða íslenskra króna til að markaðssetja sjávarfang frá Noregi. Samtökin starfa náið með sjávarútvegsfyrirtækjum og taka mið af þörfum þeirra hverju sinni. En innan Norsk sjömatsråd hefur safnast mikil þekking á mörkuðum og hún stendur öllum til boða sem hyggja á útflutning. Og hvaða viðmið ætli frændur okkar styðjist við? Það er ekki flókið: Besta sjávarfangið kemur frá Noregi stendur á heimasíðunni.

Ég eftirlæt ykkur að vinda ofan af þessum misskilningi Norðmanna; til þess höfum við allt og okkur mun ganga enn betur ef við stillum saman strengi við að kynna hvað það er sem gerir íslenskt sjávarfang einstakt. Og ef þið teljið að yfirvöld geti í þeirri vinnu lagt gott til mála, lýsi ég mig reiðubúinn til slíks samstarfs.     




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta