Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. júní 2015 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

Ávarp á aðalfundi Almannaheilla, 1. júní 2015

ATH: Talað orð gildir

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Ég þakka fyrir það tækifæri að fá að ávarpa ykkur hér í dag á aðalfundi Almannaheilla.

Í hverri viku heyrum við af jákvæðu framlagi þeirra félagasamtaka sem eiga aðild að Almannaheillum til íslensks samfélags. Þannig leggja samtök sjálfboðaliða og hugsjónafólks æ meira á sig í þágu samfélagsins. Þið eruð að vinna ómissandi starf alla daga sem snertir daglegt líf fólks og samfélagið reiðir sig sannarlega á ykkur, hvort sem það snertir málefni barna, blindra, landgræðslu, skógrækt, landvernd, skólastarf, heilbrigðismál, trúmál, mannréttindi, neytendamál, málefni lamaðra, fatlaðs fólks, æskulýðsmál, íþróttamál og áfram mætti telja.

Allt eru þetta málaflokkar sem ykkar aðildarfélög leggja mikið af mörkum til, ekki einungis í þjónustu heldur einnig og ekki síður til mikilvægra rannsókna, bæði á innlendum og alþjóða vettvangi. Hafið ávallt þökk fyrir það.

Fyrir um mánuði átti ég fund með forsvarsmönnum ykkar þar sem drög að frumvarpi um félagasamtök til almannaheilla voru rædd – en skömmu áður hafði nefnd, sem verið hefur að störfum í rúm tvö ár, skilað til mín lokadrögum að frumvarpi.

Frumvarpið er mikilvægt til að skýra stöðu félagasamtaka á borð við ykkar bæði gagnvart skattalögum og ekki síður varðandi réttindi og skyldur félagsmanna. Það er auðvitað stór munur á litlum félögum með litla starfssemi og mjög takmarkaðan fjárhag og svo samtökum á borð við mörg af ykkar aðildarsamtökum sem hafa orðið umfangsmikið bókhald og starfssemi alla daga ársins.

Nefndarvinnan fór af stað m.a. vegna ykkar frumkvæðis, en í nefndinni voru: Ragna Árnadóttir, fyrrverandi formaður Almannaheilla, Hrafn Bragason, fyrrverandi Hæstaréttardómari og Ingibjörg H. Helgadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og full ástæða til að þakka þeim fyrir góð störf.

Í skipunarbréfi nefndarinnar kom fram að með frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum sem starfa að almannaheillum sé átt við frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að vinna að heill ótiltekins fjölda manna án hagnaðarsjónarmiða þeirra sem reka og stýra félaginu. Þá sé einnig átt við sjálfseignarstofnanir, sem hafa samskonar markmið og uppfylla skilyrði laganna. Var nefndinni einkum ætlað að fjalla um hvaða skilyrði slík félög þurfi að uppfylla til að geta notið réttinda og borið skyldur samkvæmt lögunum.

Nefndinni var sérstaklega falið að fjalla um skattaumhverfi almannaheillasamtaka, m.a. að því er varðar niðurfellingu skatts af aðföngum, sérreglur um erfðafjárskatt og skatt af gjafafé. Nefndinni var ætlað að horfa til lagaumhverfis í löndunum í kringum okkur og sótti m.a. fyrirmynd í finnsk félagalög.

Með því að skilgreina samtök sem ykkar sérstaklega í lögum og setja heildarlöggjöf um þau er ætlunin að skjóta traustari stoðum undir starfsemina. Má þar m.a. nefna að reglur um opið bókhald, opna ársreikninga og opna endurskoðun geta haft sérstakt gildi í tengslum við samningsgerð hins opinbera við frjáls félagasamtök.

Það væri unnt að setja sérstök skilyrði varðandi slíka samningsgerð án sérstakrar löggjafar, en það þykir þó traustara að setja sér lög sem geta auðveldað félagsmönnum í samtökum, sem byggja á grunni sjálfboðaliðastarfs, að skilja grundvallarreglur um starfsemina og reka hana betur en ella. Fordæmi eru fyrir slíku, t.d. í lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þá hafa heildarlög verið sett um um hlutafélög og einkahlutafélög.

Meðan á vinnu nefndarinnar stóð voru frumvarpsdrögin kynnt Almannaheillum og aðildarfélögum þess sem og fræðasetri þriðja geirans og velferðarráðuneytinu. Nefndin fékk einnig á sinn fund fulltrúa Ríkisendurskoðunar og Ríkisskattstjóra. Vinnan fór því fram á breiðum grunni sem er ákaflega mikilvægt til að sem mest sátt skapist um útkomuna.

Eins og fyrr segir skilaði nefndin af sér tillögum fyrr á þessu ári. Helstu niðurstöður voru þær að nefndin telur að lög um sjálfseignastofnanir sem stunda atvinnurekstur gætu átt við um samtök sem ykkar. Þau lög séu nýleg og nái yfir sjálfseignarstofnanir sem hafa sambærileg markmið og félgasamtök sem vinna að almannaheillum.

Hvað varðar lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, taldi nefndin rétt að leggja ekki til breytingar að svo stöddu meðan séð yrði hvernig frumvarpi um félög til almannaheilla reiddi af.

Hvað skattaumhverfið varðar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að huga þurfi að samningu nýrra skattalagaákvæða varðandi skatt af aðföngum, arfi og gjafafé – en meginniðurstaðan var sú að félagasamtök til almannaheilla ættu að lúta almennum skattalögum líkt og önnur félagaform, sjálfseignastofnanir og sjóðir.

Í frumvarpsdrögunum eru tillögur um breytingar á lögum í þessa veru. Rýmkað verði á heimildum til frádráttar vegna gjafa og framlaga til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegs rannsóknarstarfs. Slík frádráttarákvæði eru afar mikilvæg til öflunar tekna og hvetur til gjafa. Einnig er lagt til að lögum um erfðafjárskatt verði breytt þannig félagasamtök og sjálfseignastofnanir sem starfa að almannaheillum verði undanþegin erfðafjárskatti líkt og var í eldri lögum fyrir 2004.

Góðir fundarmenn.

Framvarpið var birt á heimasíður ráðuneytisins fyrir nokkrum vikum og í dag lýkur fresti til að senda inn athugasemdir. Í framhaldinu verður farið yfir þær og metið hvort og hvaða breytingar þurfi að gera á frumvarpinu í framhaldinu.

Það er von mín að okkur takist að leggja frumvarpið fram strax á haustþingi – en það mun vissulega ráðast af því hvort um það takist að skapa góða sátt, því án hennar er betur heima setið en af stað farið.

Verði frumvarpið að lögum verður það til þess fallið að styrkja starfsemi mikilvægra almannaheillasamtaka. Félagsmenn munu geta þekkt betur réttindi sín og skyldur, þ.á.m. þær sem snúa að skattareglum. Einnig munu þeir fjölmörgu sem almannaheillasamtök leggja lið njóta góðs af frumvarpinu verði það samþykkt, en almannaheillafélög byggja að mestu leyti á óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi í þágu mjög fjölbreytts hóps fólks.

Ég leyfi mér að fullyrða að starfsemi frjálsra félagasamtaka sé nú mikilvægari en nokkru sinni fyrr og því skiptir máli að gera það sem hægt er til að styrkja stöðu þeirra gagnvart lögum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Almannaheillum hjartanlega fyrir góða samvinnu við ráðuneytið við gerð frumvarpsins. Ég vil ítreka áherslur mínar á að um þessi mál náist sem víðtækust sátt. Þá vil ég eindregið hvetja ykkur sem e.t.v. hafið ekki nú þegar séð frumvarpið að kynna ykkur það.

Að endingu óska ég ykkur góðs aðalfundar og vænti hér eftir sem hingað til góðs samstarfs við ykkar góðu samtök.

Takk fyrir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta