Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. júní 2015 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

Ávarp á ársfundi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, 28. maí 2015

ATH: Talað orð gildir

Góðir gestir

Í gær sat ég ásamt nokkrum hér í salnum ráðstefnuna  Startup Iceland þar sem  umhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja var til umfjöllunar.. Það var frábært upphaf á vinnudegi að hlusta á reynslusögur og erindi fólk sem hefur með fjölbreyttum hætti tekið þátt í því að skapa og byggja upp. Að heyra bæði sögur af sigrum og eins ósigrum. Að heyra frá sjónarhorni frumkvöðla hvernig fjárfestingaumhverfið tók þeim í byrjun og eins frá sjónarhóli fjárfesta hvaða þættir skipta þá máli. Þetta leiddi huga minn að stöðunni hér heima.

Nýsköpunarumhverfið er sífellt að verða betra hér á Íslandi. Það er verkefnihlutverk mitt sem ráðherra nýsköpunarmála að stuðla að samkeppnishæfu starfsumhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja. Ástæðan er einföld. Metnaðarfull sprotafyrirtæki þurfa að geta starfað á Íslandi og metnaðarfull sprotafyrirtæki verða oft að verðmætum stórfyrirtækjum. Án þeirra viljum við ekki vera.

Við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum og auðvitað eru gjaldeyrishöftin þar stærsta viðfangsefnið. Eins og fram hefur komið er afnám hafta eitt helsta verkefni ríkisstjórnarinnar og tíðinda að vænta í þeim málum innan tíðar.

Að höftunum frátöldum eru þó ýmis úrlausnarefni sem ég og ráðuneyti mitt vinnum að þessa dagana. Auk efnahagslegra skilyrða er aðgengi að framtaksfjármagni viðfangsefni sem stöðugt ber á góma þegar ég ræði  við nýsköpunarfyrirtæki um hvað þurfi að gera betur hér á landi. Þetta á við bæði á sprotastigi en einnig á framhaldsstigi þegar fyrirtæki vaxa og ætla sér að herja á erlenda markaði. 

Þegar á ávarpaði ársfund Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fyrir ári síðan ítrekaði ég mikilvægi þess að bæta þyrfti aðgengi að framtaksfjármagni og kanna hverjir gætu koma að því verkefni og með hvaða hætti. Mér var þá hugleikin sú spurning hvers vegna við ættum ekki fleiri framtakssjóði hér á landi en raun bar vitni. Ég benti á þá staðreynd að of  lítið var fjárfest í nýsköpunarfyrirtækjum og það sama gildir í dag – þó margt jákvætt hafi gerst á liðnu ári.

Nýsköpunarsjóður, Frumtak og aðrir sjóðir hafa verið að vinna að því að virkja lífeyrissjóðina inn í þetta umhverfi og er það vel. Þá vil ég sérstaklega nefna þau gleðitíðindi sem bárust okkur í byrjun árs þegar upplýst var um stofnun nýrra fjárfestingasjóða (Landsbréf og SA framtak auk Eyris Invest og Arion banka, Frumtak 2) sem gjörbreyta munu fjármögnunarumhverfi íslenskra sprotafyrirtækja og bæta þar með úr brýnni þörf til að styðja við uppbyggingu fyrirtækja framtíðarinnar. Með tilkomu nýrra sjóða má ætla að slagkraftur í íslensku sprota- og nýsköpunarumhverfi aukist verulega.

Ég gleðst sérstaklega yfir því að innkoma nýrra sjóða á markaðinn sýnir fram á bæði áhuga og mikilvægi einkaaðila við að skapa hér á landi samkeppnishæft starfsumhverfi sprotafyrirtækja. Starfsumhverfið þarf að virka hvetjandi – því eins og við vitum og þarf ekki að ítreka mikið í þennan hóp er nýsköpun mikilvæg stoð atvinnusköpunar og aukins hagvaxtar.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins gegnir veigamiklu hlutverki í þessu samhengi. Mikilvægt er að við höfum hugfast að á fyrstu stigum vaxtarferlis fyrirtækja er nauðsynlegt að til staðar sé fjárfestir sem er reiðubúinn að koma inn þegar aðrir eru það ekki. Þörfin fyrir framtaksfé á frumstigum fyrirtækja hefur alltaf verið til staðar og er viðeigandi á ársfundi Nýsköpunarsjóðs að minnast þess að einmitt þessi ástæða lá til grundvallar stofnunar Nýsköpunarsjóðs á sínum tíma á  árunum 1996 og ´97.    Það er einnig vert að minnast þess að Nýsköpunarsjóður hefur ætíð verið trúr því grundvallar hlutverki sínu að  starfa fremst í virðiskeðju nýsköpunar og varða með því  brautina fyrir aðra framtaksfjárfesta sem síðar hafa komið við sögu.

Þó fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum flokkist sem áhættufjárfestingar – þá er einfaldlega of dýrkeypt að styðja ekki við slík fyrirtæki. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Ein er sú að framtíðarvöxtur íslensks atvinnulífs mun að miklu leyti byggja á slíkum fyrirtækjum þar sem vel menntað starfsfólk fær krefjandi störf við hæfi og stuðlar að verðmætasköpun til framtíðar.

Við getum heldur ekki hunsað þá staðreynd að ekki er sjálfsagt mál að metnaðarfull sprotafyrirtæki sjái hag sínum best borgið á Íslandi. Því miður heyrum við af þeirri staðreynd að íslensk sprotafyrirtæki flytji starfsemi sína að fullu eða höfuðstöðvar úr landi. Ýmsar ástæður geta legið þar til grundvallar eins og nálægð við markaði og auðvitað eru efnahagsleg skilyrði mikilvæg í þessu samhengi eins og fram hefur komið.

Okkar efnilegustu nýsköpunarfyrirtækjum verður að skapa ákjósanlegt rekstrarumhverfi svo þau geti haldið áfram sínu brautryðjandastarfi. Mikilvægt er að fyrirtæki geti byggt upp og viðhaldið kröftugri starfsemi á Íslandi og það er vilji minn og ráðuneytisins að vinna áfram ötullega að því að svo megi vera.

Ég vil sjá að á Íslandi verði til kjöraðstæður fyrir frumkvöðla og nýsköpunarstarf í alþjóðlegum samanburði. Það er verkefni margra, ríkisins sem einkaaðila, að tryggja að svo megi verða. Ríkisstjórnin hefur stigið mikilvæg skref í þessa átt og sýnt stuðning sinn í verki. Vegferðinni er þó ekki lokið.

Eins og ég ræddi hér að framan er aðgengi frumkvöðla að fjármögnun frá því hugmynd kviknar þar til hún þróast og fer á markað. Mér finnst gleðilegt að segja frá því að í fjárlögum þessa árs er stigið stórt skref í átt að auknu nýsköpunar- og þróunarstarfi á Íslandi með ákvörðun ríkisstjórninar um að hækka fjárframlög til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs umtalsvert eða samtals um 800 milljónir kr. fyrir árið 2015.

Nú stendur yfir vinna við gerð fjárlaga fyrir árið 2016 og stendur til að hækka framlög til sjóðanna um 2 milljarða til viðbótar – sem er fordæmalaus aukning til samkeppnissjóðanna og sýnir með ótvíræðum hætti áherslur mínar og ríkisstjórnarinnar í málaflokknum. Gangi þessar fyrirætlanir eftir hefur sjóðurinn rúmlega þrefaldast á þrem árum.

Þessi ákvörðun tryggir umtalsverða eflingu tveggja okkar mikilvægustu samkeppnissjóða. Aukning á framlögum til samkeppnissjóða þýðir í stuttu máli að fleiri efnilegar viðskiptahugmyndir ná því stigi að geta leitað framtaksfjármagns til frekari vaxtar.

En umræddir sjóðir eru aðeins hluti af fjármögnunarumhverfinu. Þar sem samkeppnissjóðunum sleppir þarf framtaksfjármagn að taka við. Stjórnvöld þurfa að hugleiða vel hvað þau geta gert til að auka áhuga fjármagnseigenda á að setja fé í nýsköpun og framtakssjóði. Tilkoma nýju framtakssjóðanna sem ég nefndi hér áðan er einmitt dæmi um hið mikilvæga samspil hins opinbera og einkaaðila.

En það er fleira sem má nefna. Benda má á framlengingu laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem heimila skattafrádrátt vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni. Þetta úrræði hefur skipt sköpun fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og stuðlar að auknu nýsköpunarstarfi í landinu.

Eins má benda á ýmis verkefni sem eru í farvatninu, t.d. skattahvata vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum sem munu án efa hafa jákvæð áhrif á nýsköpunarumhverfið auk annarra verkefna sem eru í undirbúningi.

Góðir gestir,

Frá því ég tók við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra hef ég lagt ríka áherslu á að bæði ég og ráðuneyti mitt ættum uppbyggjandi samtal við frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Ástæðan er einföld, ég vil heyra hvað gengur vel og hvað má efla, hvað gengur ekki jafn vel og hverju þarf að skoða breyta á. Auk þess að heimsækja fyrirtæki hefur ráðuneyti mitt boðað frumkvöðla og sprotafyrirtæki á fundi þar sem tilgangurinn er að ræða opinskátt hvað megi bæta í starfsumhverfinu og hvernig stjórnvöld geta skapað kjöraðstæður og staðist samkeppni við löndin í kringum okkur.

Sá fjöldi frumkvöðla- og sprotafyrirtækja sem ég hef hitt í ráðherratíð minni eru ástæða þess að ég er bjartsýn þegar ég horfi til framtíðar. Krafturinn í íslensku atvinnulífi er mikill um þessar mundir en við megum ekki sofna á verðinum. Við þurfum að hlúa að frumkvöðlum og sprotum dagsins í dag sem síðar meir geta orðið stjörnur íslensks atvinnulífs til lengri tíma litið og alið af sér enn fleiri sprota og enn nýjar stjörnur.

Það er mér gleðiefni að upplýsa ykkur um að í ráðuneytinu er nú einmitt unnið aðgerðaáætlun sem ætlað verður að bæta starfsumhverfi frumkvöðla- og sprotafyrirtækja á Íslandi. Aðgerðirnar eiga að skapa einfaldar og skýrar forsendur fyrir framtakssama einstaklinga og fyrirtæki til að nýta tækifæri til atvinnusköpunar á eigin forsendum til styrkingar á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Það eru ýmis verkefni á teikniborðinu sem ég mun kynna betur síðar á þessu ári. 

Um leið og óska ykkur öllum góðs gengis – þá vonast ég til að geta að ári liðnu ávarpað ykkur á þessum fundi og fjallað um enn frekari sókn til eflingu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og þær aðgerðir sem þá verða komnar í framkvæmd.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta