Ávarp á málþingi um þjónustumiðstöð Norðurslóða, 2. júní 2015
ATH: Talað orð gildir
Ágætu gestir,
Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag á Eskifirði á þessu málþingi um þjónustumiðstöð Norðurslóða. Ég vil byrja á að þakka Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði fyrir að hafa veg og vanda af því að boða til þessa málþings.
Í dag munum við hlýða á áhugaverð erindi frá fjölda fyrirlesara um málefni norðurslóða; m.a. um tækifæri til atvinnuppbyggingar, alþjóðlegt samstarf og samfélagsleg áhrif.
Málefni norðurslóða eru ein af áherslumálum ríkisstjórnarinnar.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að unnið skuli að því að Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum og virkur þátttakandi í Vestnorrænu starfi. Enn fremur segir að hefja skuli undirbúning að nýtingu tækifæra sem skapast með opnun siglingaleiða um norðurslóðir og áhersla verði lögð á að verkefni þeim tengd verði vistuð hérlendis.
Jafnframt er þar lögð áhersla á undirbúning leitar og vinnslu kolvetna á Drekasvæðinu og að íslenskir hagsmunir verði tryggðir í hvívetna, meðal annars með löggjöf um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi og almennum undirbúningi regluverks.
Við höfum að undanförnu unnið markvisst að þessum undirbúningi. Má þar nefna að fyrr á þessu ári afgreiddi Alþingi frumvarp til laga sem ég lagði fram um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi. Einnig hefur mitt ráðuneyti undanfarna mánuði leitt heildstæða yfirferð og uppfærslu á öllu því regluverki sem tengist olíuleit og vinnslu en að því verkefni koma nokkur ráðuneyti og einar 10 undirstofnanir. Má nefna að þar höfum við notið góðrar samvinnu við kollega okkar í Noregi og m.a. gengið til formlegs samstarfs við stjórnvöld þar á sviði olíumála (Petroleumtilsynet og Oljedepartemented) þar sem við njótum góðs af þeirri áratuga reynslu og þekkingu sem Norðmenn búa yfir.
Öll miðar þessi vinna að því að regluverk okkar sé tilbúið, og á pari við það sem best þekkist, að því er varðar olíuleit og vinnslu. Þannig er mikilvægt að þessari vinnu sé lokið þegar kemur að fyrstu rannsóknarborholu á svæðinu, vonandi árið 2018 eða 2019.
Eins og kunnugt er eru nú tvö sérleyfi virk til leitar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu og eru þessi aðilar að undirbúa frekari hljóðbylgjumælingar á svæðinu í sumar. Síðar í dag munum við heyra frá fulltrúa annarra þessara sérleyfishafa (Heiðari Má frá Eykon Energy) um stöðu mála og einnig mun Þórarinn Sveinn frá Orkustofnun fara nánar yfir tímalínur og annað er varðar framhald þessara mála á næstu árum.
En ágætu fundarmenn, hugmyndir um þjónustumiðstöð Norðurslóða snúa ekki eingöngu að málefnum tengt olíuleit og vinnslu (þó að það sé vissulega einn mikilvægur hluti þess).
Almennt séð standa ríki við norðurskautið frammi fyrir margvíslegum tækifærum og áskorunum og hefur Ísland þar verulegra hagsmuna að gæta. Til að nýta þau tækifæri og mæta þeim áskorunum er ljóst að horfa þarf til þróunarinnar á norðurslóðum með heildstæðum hætti.
Með það í huga, og til að tryggja skilvirka og samræmda hagsmunagæslu Íslands á æðsta stigi stjórnsýslunnar, ákvað ríkisstjórnin í október 2013 að setja á fót ráðherranefnd um málefni norðurslóða.
Á vegum nefndarinnar hefur undanfarið verið unnið að hagsmunamati Íslands á norðurslóðum og þess freistað að greina jafnt styrk okkar sem veikleika, ógnanir og tækifæri í þessum efnum. Drög að skýrslu um mat á hagsmunum Íslands á norðurslóðum liggja nú fyrir og hafa verið birt til umsagnar.
Ég tel að allar forsendur séu fyrir því að Ísland verði í hópi leiðandi þjóða á norðurslóðum og áfram virkur þátttakandi í Vestnorrænu starfi. Í þessu felst m.a. að tryggja hagsmuni Íslands á norðurslóðum með tilliti til loftslagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, siglinga og samfélagsþróunar, auk þess að efla tengsl og samstarf við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni svæðisins.
Mikilvægi norðurslóða fyrir Ísland tengjast mjög hagsmunum atvinnulífsins og fjölbreyttri atvinnuppbyggingu. Á það sérstaklega við ákveðin svæði á landsbyggðinni (eins og t.d. hér á Austurlandi). Eftir því sem hafísinn heldur áfram að hopa opnast ný hafsvæði og auknir möguleikar fyrir flutninga og ýmis konar starfsemi og auðlindanýtingu.
Norðurslóðir eru margbrotnar í vistfræðilegu, efnahagslegu, öryggislegu og pólitísku tilliti. Í þróuninni felast í senn tækifæri og áskoranir og hagsmunir Íslands hljóta að miðast við að nýta tækifærin, en lágmarka hættur þeim samfara.
Breytingar á loftslagi og sjávarhita hafa einnig áhrif á sókn ferðamanna norður á bóginn sem m.a. hefur byggst á auðveldara aðgengi, bættum samgöngum og auknum áhuga á mannlífi, menningu, náttúru og auðlindum norðursins. Þetta hefur leitt til aukins álags á náttúruna, en einnig til jákvæðra áhrifa sem vaxandi umsvif í ferðaþjónustu geta haft á afkomu íbúanna.
Á jaðri norðurslóða hafa myndast tengistöðvar flutninga og samgangna inn á svæðið. Við á Íslandi höfum rík tækifæri til að byggja upp þjónustumiðstöð norðurslóða. Slíkar þjónustumiðstöðvar geta gegnt margvíslegum hlutverkum eins og t.d. við alþjóðlega björgunar- og vöktunarstarfsemi, þjónustu við Íshafssiglingar, þjónustu við iðnað eins og leit og vinnslu kolvetna, uppbyggingu innviða á Grænlandi og fleira. Að auki skulum við ekki gleyma þjónustu við sérhæfða umhverfisvæna ferðamennsku, sem þegar er vísir að með siglingum til Grænlands og Jan Mayen og ævintýraferðum þar.
Innviðir á Íslandi eru sterkir í flestum samanburði á norðurslóðum. Hér á landi eru t.d. íslausar og góðar hafnir, fjórir skilgreindir alþjóðaflugvellir, tíðar flugsamgöngur, þétt samgöngunet á landi, gott gistirými, öflugt raforkukerfi, sérþekking á málefnum norðurslóða og hæft vinnuafl.
Tækifæri Íslands á norðurslóðum eru því veruleg og það er brýnt að við byggjum upp og styrkjum þessa innviði ætli Ísland sér að vera samkeppnishæft um þjónustu á norðurslóðum.
Við skulum einnig hafa í huga að tækifæri Íslands liggja að auki í því að þegar kemur að málefnum norðurslóða á alþjóðavettvangi þá situr Ísland við borðið og hefur rödd sem heyrist hærra en í flestum öðrum málaflokkum. Afstaða Íslands til málefna norðurslóða skiptir máli á alþjóðavettvangi og eftir henni er tekið. Ísland er þannig áhugaverður samstarfsaðili á norðurslóðum. Aukinn áhugi á norðurslóðum gefur Íslandi einnig tækifæri til að koma á framfæri öðrum og tengdum hagsmunamálum, eins og aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.
Góðir fundarmenn - tækifærin eru víða en að lokum skulum við hafa hugfast að það er mikilvægt að við nálgumst þessi mál með yfirveguðum og skipulegum hætti. Bæði að því er varðar fyrirhugaða olíuleit á Drekasvæðinu, uppbyggingu þjónustumiðstöðva fyrir norðurslóðir og aðra tengda atvinnuppbyggingu. Það er einmitt það sem við erum að gera og munum ræða nánar á þessu málþingi.
Það er ástæða til að fagna því frumkvæði og framsýni sem aðilar hér á Austurlandi hafa sýnt í málefnum norðurslóða og segja má að svæðið sé þegar komið á kortið. Áform um þjónustumiðstöð norðurslóða á Austfjörðum eru afar spennandi enda hefur svæðið fjölmargt fram að bjóða. Stjórnvöld styðja almennt séð við þessi áform en við skulum þó ekki gleyma því að það er ekki stjórnvalda að velja ákveðin landsvæði til að þjónusta norðurslóða verkefni heldur eru það á endanum þau fyrirtæki sem þurfa á þeirri þjónustu að halda sem velja það landsvæði sem hentar best. Getum við þar til dæmis horft til reynslu Skota.
Ég endurtek þakkir mínar til Fjarðarbyggðar og Fljótsdalshéraðs við að boða til þessa málþings og lýsi því hér með yfir að málþingið er sett.