Ræða á stofnfundi álklasans, 29. júní 2015
ATH: Talað orð gildir
Ágæta klasafólk.
Það er mér mikil ánægja að vera hér með ykkur í dag þegar álklasinn er formlega settur á stofn. Ég hef fylgst með undirbúningi þessa góða máls í nokkur ár og fagna því mjög að þessum áfanga sé náð í dag.
Í upphafi klasaumræðunnar var talsvert rætt um öll þau fjöldamörgu fyrirtæki sem störfuðu í tengslum við álverin hér á landi.
Eins og við þekkjum hófu þau starfsemi sína í þjónustu við álfyrirtækin en þróuðust sum hver langt út fyrir þann ramma og eru því orðin mikilvirkir framleiðendur fyrir áliðnaðinn á alþjóðamarkaði. Þannig hefur í raun sterkt net fyrirtækja myndað sterkan álklasa án þess þó að hann hafi verið formgerður, fyrr en nú í dag.
Klasaumræðan hér á landi hefur náð töluverðum þroska á þessum tíma. Jarðhitaklasinn GEORG (Geothermal Research Group) varð til 2009 með aðkomu ríkisins, fyrir tilstuðlan Vísinda- og tækniráðs, og með aðkomu orkufyrirtækja og annarra sem þeirri grein tengjast.
Íslenski sjávarklasinn varð svo til 2011 og er að öllu leyti rekinn á viðskiptagrunni og er nú orðinn að fyrirmynd fyrir sjávarklasa í Portland í Maine í Bandaríkjunum. Reynslan af þessum tveimur stóru klösum sem fyrstir fóru af stað hefur verið mjög góð og er ástæða til að vænta hins sama af álklasanum – og ferðamálaklasanum sem er í undirbúningi.
Klasar hafa reyndar verið á dagskrá í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti í mörg ár og hægt að minnast þess að upphafið má rekja til ársins 2003, en þá var ráðist í hugmyndavinnu í kjölfar skýrslu frá OECD um mikilvægi og árangur klassamstarfs. Áhersla ráðuneytisins var á upphafsárunum á samstarfið og ávinningin en ekki stærðina enda var markmiðið fyrst og fremst að veita hugmyndafræðinni um klasa brautargengi. Strax á upphafsárum Tækniþróunarsjóðs 2005 var einnig áhersla á klasa og samstarf við fyrirtæki.
Klasamál eru ríkisstjórninni einnig kær. Í samstarfsyfirlýsingu hennar frá 2013 kemur fram að skerpa þurfi á hlutverki hins opinbera þegar kemur að þróun og uppbyggingu klasa hér á landi. Þar segir m.a. að til að örva samstarf og samlegð fyrirtækja og auka möguleika þeirra til að vinna að stærri þróunarverkefnum verði mótuð klasastefna á Íslandi.
Ég vil hinsvegar ítreka að sjónarmið mitt að frumkvæðið að klasasamstarfi á ekki að koma frá opinberum aðilum, heldur að spretta upp frá fyrirtækjunum sjálfum – eins og hér er að gerast. Og þá séu opinberir aðilar klárir.
Á grundvelli þessa hef ég nýleg skipað starfshóp um mótun klasastefnu. Þá er mikilvægt að miðla upplýsingum innan stjórnarráðsins um árangursríka þátttöku opinberra aðila í klasasamstarfi svo fagmennsku og jafnræðis sé gætt. Markmiðið með þessarri vinnu er að skerpa á hlutverki hins opinbera þegar kemur að þróun og uppbyggingu klasa. Í klasastefnunni komi m.a. fram áherslur og hlutverk opinberra stofnana og sjóða til stuðnings við klasa svo mæta megi þörfum fyrirtækja fyrir klasa með árangurríkum hætti. Þessari vinnu á að vera lokið fyrir 1. mars 2016.
Telja má líklegt að þróun álklasans og ávinningur af starfi hans verði sambærilegur við það sem nú þegar má sjá í sjávarklasanum. Nú þegar hafa öflug fyrirtæki risið til vegs og virðingar innan álklasans og með auknu samstarfi má búast við að enn fleiri alþjóðlega samkeppnisfær fyrirtæki verði til. Þau munu stíga sín fyrstu skref á traustum heimamamarkaði eins og verið hefur en vegna smæðar hans verður stefnan fljótt sett á alþjóðlegan markað.
Við höfum áður rætt um að unnt sé að auka verðmæti álframleiðslu hér á landi með meiri og breiðari virðisaukandi starfsemi. Á þessum grunni erum við nú að byggja. Sá klasi sem þegar hefur myndast í kringum álframleiðsluna og uppbyggingu álvera hér á landi er frábært upphaf að aukinni fjölbreytni og aukinni verðmætasköpun. Verkefnið er að styðja við hagvöxt til langs tíma á Íslandi og leiðin að því marki felst í fjölbreyttu atvinnulífi með fótfestu í grunnatvinnuvegunum. Fátt er líklegra til að skila okkur fram veginn en skapandi vettvangur klasastarfsins.
Að undirbúningi að stofnun álklasans hafa um 30 fyrirtæki komið að auk opinberra aðila og fleiri. Hér er um að ræða fjölbreytta flóru fyrirtækja sem spanna fjölmörg svið. Starf frumkvöðlanna er einkar áhugavert eins og fram kom á nýsköpunarþingi álklasans síðastliðið haust þegar frumkvöðlarnir kynntu margar áhugaverðar og framsæknar hugmyndir sínar.
Ágætu fundarmenn.
Á ársfundi Samáls í fyrra var mörkuð ný braut um uppbyggingu áliðnaðarins. Þar var lokaáfanginn markaður fyrir stofnun álklasans og m.a. lögð fram drög að stofnun rannsóknarseturs í ál- og efnisvísindum til að takast á hendur metnaðarfull hagnýt rannsóknarverkefni til að auka verðmætasköpun í greininni og efla undirstöður áliðnaðarins. Hér er verið að leggja grunn að því að fyrirtæki geti aukið þátttöku sína í rannsókna- og þróunarstarfsemi með hagnýtingu og nýsköpun í huga. Ekki er vanþörf á því en samkvæmt mælingum Rannís frá 2013 vega rannsóknir og þróun á Íslandi aðeins um 1,9% af VLF, sem er langt undir því sem teljast má viðunandi. Með samanburði má sjá að íslensk fyrirtæki verja ekki nægjanlegu fjármagni til R&Þ samanborið við nágrannalöndin. Við þeirri stöðu þarf að bregðast og kanna hvaða úrræði fyrirtækin geta gripið til svo þau geti aukið nýsköpunarstarfsemi sína.
Tækifærin til öflugra rannsókna- og þróunarstarfs innan álklasans eru augljós. Með auknu samstarfi fyrirtækja og öflugri þátttöku stofnana má losa mikla nýsköpunarkrafta úr læðingi. Stjórnvöld munu ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Ég vil sérstaklega nefna fyrirhugaða áætlun Tækniþróunarsjóðs á sviði efnistækni sem stuðla á að auknu nýsköpunar- og þróunarstarfi innan greinarinnar. Upphafið má rekja til undirritunar viljayfirlýsingar vegna fjárfestingar Silicor á Grundartanga í síðari hluta árs 2014. Um miðjan apríl var ný stjórn Tækniþróunarsjóðs skipuð og vinnur hún nú að útfærslu styrkjakerfisins.
Ég hlakka til frekara samstarfs við ykkur um framþróun þessara mála og vil ennfremur þakka fyrir afar gott samstarf á liðnu ári.