Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. október 2015 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

"Verum samferða". Grein í Fréttablaðinu um nýja ferðamálastefnu, 3. október 2015


Verum samferða


Á síðustu árum hefur vöxtur í ferðaþjónustu á Íslandi verið ævintýri líkastur og spár sérfræðinga gera ráð fyrir viðlíka fjölgun á næstu árum.

Þetta hefur haft í för með sér margvíslegan ávinning en um leið áskoranir fyrir íslenskt samfélag.

Ferðaþjónustan hefur á örfáum árum vaxið í það að vera sú atvinnugrein sem skapar mestar gjaldeyristekjur og um allt land hefur sprottið upp blómleg atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. Það er ekki að ástæðulausu að margir segja að uppgangur ferðaþjónustunnar marki straumhvörf í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni.

En á sama tíma hefur álag á náttúruna aukist og uppbygging á ýmis konar innviðum ekki náð að halda í við þessa öru þróun. Þar þurfum við að gera betur og breyta verklagi. Eitt það mikilvægasta sem við getum gert er að auka samhæfingu innan stjórnsýslunnar og efla samvinnu milli hans opinbera og greinarinnar sjálfrar.

Undanfarin misseri hefur verið unnin viðamikil stefnumótunarvinna á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Samtaka ferðaþjónustunnar. Haldnir hafa verið fjölsóttir fundir hringinn í kringum landið og telst okkur til að ríflega þúsund manns hafi tekið þátt í stefnumótuninni með einum eða öðrum hætti.

Það sem stendur upp úr eftir alla þessa vinnu er hversu mikill samhljómur er í því hvert beri að stefna og hvaða leiðir skuli feta.

Næstkomandi þriðjudag munum við kynna afrakstur þessarar vinnu þar sem stefnan er mörkuð um uppbyggingu og þróun ferðaþjónustunnar á næstu árum og áratugum.

Við erum þess fullviss að með góðu skipulagi, metnaði og skýrri sýn muni íslensk ferðaþjónusta, íslensk náttúra og íslenskt samfélag blómstra hlið við hlið.

Við viljum þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við mótun og gerð nýrrar ferðamálastefnu fyrir Ísland. Á næstu vikum munum við fylgja stefnunni eftir með kynningum um alla land og hvetjum alla áhugasama til að mæta á þá fundi og vera okkur samferða í þeirri vinnu sem framundan er.


           Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra

           Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta