Ræða á 47. þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins, 26. nóvember 2015
Ágætu þingfulltrúar!
Stöku sinnum fæ ég tækifæri til að ræða íslenskan sjávarútveg við erlenda starfsbræður. Þótt ýmislegt megi læra af því sem menn eru að sýsla við í erlendum sjávarútvegi, er reynslan oftar sú að margir vilja læra af okkur Íslendingum. Sum staðar standa þjóðir í sömu sporum og við Íslendingar stóðum skömmu áður en við gerðum breytingar á stjórn fiskveiða. Ég held að það þurfi ekki að hafa mörg orð um það hér í þessum sal, hver staðan var, og flestir þekkja þær breytingar sem orðið hafa.
Ég ætla ekki að gerast svo djarfur að segja að breytingarnar hafi verið með öllu óumdeildar. Sumir töldu sig hafa misst spón úr aski sínum. En ef við setjum það til hliðar og lítum hlutlægt á málið og spyrjum; gerðum við rétt; þá er ég ekki í vafa um að þær breytingar sem ráðist var í voru nauðsynlegar. Sjálfbærni og vísindi tóku við af magnveiði. Aflinn dróst mikið saman en verðmæti afurðanna jókst mun meira en sem svaraði aflasamdrættinum.
Íslenskur sjávarútvegur er sá eini innan OECD sem greiðir gjöld til ríkissjóðs; víða er hann ríkisstyrktur. Þessi staða er öfundsverð og í mínum huga ein veigamesta staðfestingin á því að íslenskur sjávarútvegur er einn sá hagkvæmasti í heimi. Sjálfsagt eru til aðrar leiðir til að reka hagkvæman sjávarútveg, en ég hef ekki fengið fréttir af þeim nýlega.
En sundurlyndisfjandinn er aldrei langt undan og það virðist keppikefli sumra að tala niður sjávarútveginn. Og það þrátt fyrir að velferð samfélagsins gangi að drjúgum hluta út á það að fyrirtækjum og einstaklingum innan hans gangi vel. Einstaka fyrirtækjum, sem eru stór á íslenskan mælikvarða en engan veginn stór á þeim mörkuðum sem þau keppa á, hefur gengið mjög vel og það hefur verið litið hornauga.
Að hluta til tel ég þetta vera ákveðinn misskilning. Við búum við mjög gott kerfi í dag og ég tel að það sé nokkuð samdóma álit þeirra sem í greininni starfa að ekki sé ástæða til að umbylta því. En við verðum að viðurkenna að í samfélaginu er þessi sátt ekki fyrir hendi. Sjávarútvegurinn þarf að geta starfað eins og hver önnur atvinnugrein í friði fyrir pólitískum upphlaupum á fjögurra ára fresti.
Í hringferð minni um landið, þar sem ég hitti eins marga í útgerð og hægt var, fannst mér vera skilningur á því að ná yrði sátt við þjóðina. Fulltrúar þjóðarinnar eru stjórnmálaflokkarnir og því tókum við umræðuna við þá um endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaganna. Í fyrstu lotu virtust stjórnmálaflokkarnir vera tilbúnir til að standa að víðtækri sátt og þá var ekki langt milli manna, en þegar á hólminn var komið og nýtt frumvarp sá dagsins ljós treystu menn sér ekki upp úr skotgröfunum og sögðu: Það er betra fyrir minn flokk að halda þessum ágreiningi til streitu.
Ef svo fer fram sem horfir munu stjórnmálaflokkar, þegar nær dregur kosningum, nýta sér ósættið til að afla skoðunum fylgis um breytingar á kerfinu, sem ganga þvert á allar viðurkenndar hugmyndir um gott fiskveiðistjórnunarkerfi. Einn flokkur sem fer með himinskautum í skoðanakönnunum um þessar mundir hefur í raun mælt með sóknarmarkskerfi að hætti Færeyinga. En hvað er að gerast í Færeyjum? Það er nánast enginn bolfiskur eftir því sóknarmarkskerfið er búið að eyðileggja auðlindina. Svo til einu tegundirnar sem Færeyingar nýta auk ufsa eru uppsjávarstofnar sem eru flökkustofnar sem sagan segir að varhugavert sé að treysta alfarið á.
Og flökkustofnar eru nú eins og nafnið bendir til; á sífelldu flakki. En samningar til lengri tíma um nýtingu þeirra og gagnkvæman aðgang þjóða í lögsögu hverrar annarrar, virðist ekki til staðar. Og í fyrradag varð það ljóst að viljinn hjá viðsemjendum okkar til að ná saman við okkur um makrílinn er ekki fyrir hendi. Reyndar svo að þeim tókst ekki einu sinni að koma sér saman um tilboð til handa okkur Íslendingum sem hægt var að fjalla um. Þá er einnig ósamið um síld og kolmunna. Hvað verður núna veit víst enginn; en eitt er ljóst; menn byggja ekki fjárhagslega afkomu þjóðarinnar á flökkustofnum. Því þegar flökkustofnar eru annars vegar, þarf að gera ráð fyrir hinu versta en vona það besta.
Nú er eðlilegt að spyrja; hvað gerist ef ekki nást samningar? Of mikið verður veitt, það er augljóst þegar enginn vill gefa eftir. Eins augljóst er það að auðlind sem nýtt er með ósjálfbærum hætti, klárast að lokum. Íslandssíldin hvarf um langt skeið, þorskurinn var nánast kominn á gjörgæslu, karfinn á Reykjaneshrygg; það er ekki eins og vítin vanti.
Nú á tímum aukins áhuga á öllu því sem viðkemur umhverfi, náttúru og sjálfbærni, tel ég ekki útilokað að ríkjum heims verði einfaldlega ekki lengur treyst til þess að komast að samkomulagi um nýtingu auðlinda í sjónum. Hvað tekur þá við? Jú, það gætu orðið svo kallaðar yfirþjóðlegar stofnanir sem tækju að sér verkið og heildaraflinn yrði gefinn út í New York. Í hvaða sporum erum við þá? Kannski í sömu sporum og þegar hvalveiðar okkar eiga í hlut; þar sem vísindin eru sett til hliðar og tilfinningarnar eiga að ráða.
Ég þakka áheyrnina og óska ykkur góðra þingstarfa.