Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. mars 2016 MatvælaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða við setningu Búnaðarþings, 27. febrúar 2016

Fundarstjóri, formaður, ágætu fulltrúar búnaðarþings.

Íslendingar hafa lifað á landsins gæðum í rúm ellefu hundruð ár og ekki verður betur séð en það hafi gengið bærilega. Matvælaframleiðsla er hér enn við lýði og svo verður um ókomin ár; þörf fyrir góð matvæli hefur aukist um allan heim og hún mun halda áfram að aukast. Fólki fjölgar og sífellt fleiri hafa efni á að kaupa matvæli; ekki bara einhver matvæli heldur góð matvæli. Ég hef sagt það áður og segi enn, í þessu felast tækifæri fyrir okkur Íslendinga og þau tækifæri eigum við að nýta okkur.

Af einhverjum ástæðum hafa nánast allar þjóðir heims þá stefnu að styðja við matvælaframleiðslu. Það má geta þess þess, að þrátt fyrir allt tal um frjáls viðskipti með búvöru landa á milli, er talið að árið 2012 hafi einungis 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins verið seld frá einu ríki til annars, en 90% hafi verið neytt í því landi sem varan var framleidd. Þetta er engin tilviljun. Öll ríki leggja áherslu á, öryggisins vegna, að vera sjálfbjarga með matvæli.

Við þekkjum þau rök en mig langar til að segja ykkur frá því sem bandarískur fiskkaupmaður sagði mér á fundi í ráðuneytinu nýlega. Hann hefur keypt og selt fisk frá Íslandi í mörg ár. Hann sagði að kaupendur spyrðu í mun meira mæli en áður, hvaðan matvælin kæmu. Og ástæðan væri sú, að fólk vildi síður kaupa matvæli sem flutt væru um langan veg með tilheyrandi áhrifum á umhverfið. Það væru sem sagt svo kölluð kolefnisfótspor sem neytendur væru farnir að taka mið af. Fyrir utan hin hefðbundnu rök fyrir því að framleiða matvæli innanlands, bætast nú ein veigamikil við; fólk vill staðbundin mat; eða upp á ensku, „local food“.

Önnur rök, ekki síðri, er svo kallað sýklalyfja ónæmi. Íslensk matvæli eru í sérflokki þegar kemur að notkun sýklalyfja við framleiðslu þeirra. Þetta eru gæði sem erfitt er að meta til fjár. Því er haldið fram að ónæmi fyrir sýklalyfjum sé ein mesta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag. Mér finnst oft merkilega hljótt um þessa staðreynd í umfjöllun um íslenska matvælaframleiðslu.

En er sýklalyfja ónæmi eitthvað sem almenningur á Íslandi þarf að hafa áhyggjur af. Karl G. Kristinsson prófessor og yfirlæknir á Landspítalanum svaraði þessari spurningu í Morgunblaðinu í janúar með eftirfarandi:

„Þetta virðist geta breiðst hratt út og spurningin er hvort það takist að þróa ný sýkla­lyf í tæka tíð. Við erum í betri aðstöðu en flest önnur lönd til að hefta út­breiðsluna; Við erum eyja, erum með eigin land­búnaðarfram­leiðslu og getum stjórnað inn­flutn­ingi á þeim. En það er ekkert hægt að líta framhjá því að þetta er ein alvarlegasta ógn sem við stöndum frammi fyrir varðandi lýðheilsu. Ég hef stundum líkt þessu við gróðurshúsaáhrifin.“

En á að kaupa þetta hvaða verði sem er; hvers virði er heilsan? Nei, það er kannski engin ástæða til þess, það væri óábyrgt að halda því fram. Að einhverju leyti verðum við að miða okkur við aðrar þjóðir í þessum efnum. En ég velti því stundum fyrir mér, hvað aðrar þjóðir væru tilbúnar að gefa fyrir það að vera í sambærilegri stöðu og Ísland.

Ef við reynum aðeins að glöggva okkur á því hvort styrkir til búvöruframleiðslu séu mjög frábrugðnir því sem gerist í kringum okkur kemur eftirfarandi í ljós. Samkvæmt skýrslum OECD hafa útgjöld til landbúnaðar á Íslandi lækkað úr 5% af landsframleiðslu á tímabilinu 1986-88 niður í 1,1% á tímabilinu 2012-14. Í báðum tilvikum er um að ræða meðaltal þriggja ára. Meðaltal aðildarríkja OECD lækkaði úr 2,8% í 0,8% á sama tíma. Þarna er átt bæði við bein fjárframlög úr ríkissjóði og tollvernd eins og OECD metur verðgildi hennar á hverjum tíma. Er þetta mikill munur? Mitt svar er nei, en að sjálfsögðu má alltaf gera betur.

Fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um landbúnaðarmál:

„Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Ríkisstjórnin mun gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir. Með það fyrir augum er brýnt að kanna með hvaða hætti er unnt að auka verðmætasköpun og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins.“

Á Búnaðarþingi í fyrra spurði ég í ræðu minni; Hvers má vænta í nýjum búvörusamningum? Svarið var að ég vonaðist til þess að samningarnir yrðu breytinga og sóknarsamningar. Nú liggur niðurstaðan fyrir, þótt enn sé ekki búið að kjósa um þá í ykkar röðum. En eru þessir samningar breytinga og sóknarsamningar og í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?

Já, ég tel að okkur hafi tekist að ná samningi sem nær þessum markmiðum. Það er lagt upp með töluverðar breytingar á starfsumhverfi bænda. Stefnt er að því að leggja niður kvótakerfið á samningstímanum, bæði í mjólk og kjöti. Styrkjafyrirkomulagið verður gert opnara, þannig að hægt verður að fá styrki fyrir annað en framleiðslu á mjólk og kindakjöti. Það er takmarkað hversu stór skref er hægt að taka þegar samið er um starfsskilyrði bænda, en ég tel að þegar fram líða stundir muni menn líta til þessara samninga sem upphaf að breytingum sem þurftu að eiga sér stað.

Fram komu skiptar skoðanir meðal bænda um ágæti þess að breyta um stefnu. Slíkt er eðlilegt, enda lítur hver á málið út frá sínum hagsmunum. Við að sætta sjónarmið vil ég nefna sérstaklega þátt formanns ykkar sem sýndi útsjónarsemi og sanngirni þegar á þurfti að halda og þegar að samninganefndinni var sótt.

Eitt af því sem einkennir nýjan samning, er að reynt er að tryggja byggðafestu. Til að ná því markmiði er meðal annars kveðið á um svo kallaðar býlisgreiðslur sem greiddar verða framleiðendum frá og með árinu 2018. Eitt megin markmiðið er að styrkja byggð og viðhalda fjölskyldubúum. Til að hlúa enn betur að þessu markmiði er kveðið á um svæðisbundnar greiðslur til sauðfjárbænda. En samkvæmt skýrslu rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri eru ákveðin landssvæði þar sem búseta byggist í raun á sauðfjárrækt. Ég vil nefna í þessu samhengi að ég tel mikilvægt að allt landið sé í byggð, ekki síst með tilliti til þess, að mikill fjöldi ferðamanna sækir sveitirnar heim. Endanlegt fyrirkomulag á þessum stuðningi verður útfært með aðstoð Byggðastofnunar.

Þið munuð væntanlega fara ítarlega yfir samninginn hér á þinginu og í kjölfar þess munu ykkar forsvarsmenn kynna hann fyrir atkvæðagreiðslu í ykkar röðum. Á sama tíma er nú unnið í ráðuneytinu að breytingu á búvöru-, búnaðarlaga- og tollalögum sem verða lögð fyrir Alþingi í framhaldinu.

Þrennt annað vil ég nefna sem eru viðbót við búvörusamninga. Í fyrsta lagi Matvælalandið Ísland sem er nú komið á koppinn með 80 milljónir á ári til næstu 5 ára. Í öðru lagi Átaksverkefni um íslenska hestinn, sem geta orðið 25 milljónir á ári til næstu 4 ára – króna á móti krónu. Í þriðja lagi hefur Umhverfisráðherra í samstarfi við BÍ hafið vinnu við vegvísa vegna aðgerðaráætlunar um hvernig landbúnaðurinn getur lagt sitt af mörkum við að ná markmiðum Íslands vegna loftslagssamnings SÞ – þar má nefna Bændur græða landið og aukna skógrækt.

Ég vil nota þetta tækifæri og minna á þá stefnu ríkisstjórnarinnar að treysta beri byggð sem víðast. Fyrir utan nýja búvörusamninga sem styðja við þetta markmið, má nefna að kostnaður við flutning og dreifingu rafmagns er nú að fullu niðurgreiddur – Ísland er eitt dreifikerfi m.t.t. kostnaðar. Þá verður 1. apríl n.k. náð fullri jöfnun vegna húshitunar hjá þeim sem ekki eiga kost á hitun með jarðvarma. Með því er litið svo á að húshitun sé hluti af grunnþjónustu sem allir íbúar landsins eigi að fá á sambærilegum kjörum. Þessi tvö atriði hafa verið baráttumál margra í áratugi.

Unnið hefur verið samfellt að því að koma ljósleiðara sem víðast á kjörtímabilinu, þótt vissulega finnist flestum, sem ekki hafa aðgang að honum, það ganga of hægt. Undir það má taka. En vinnan er í gangi og mikið er undir því komið í nútímasamfélagi að hún verði kláruð sem fyrst – markmiðið er að því verkefni verði að fullu lokið á næstu 4 árum.

Við höfum sem þjóð sett of lítið í samgönguverkefni síðastliðin 6-7 ár – á því verður nú breyting – Það er nauðsynlegt að forgangsraða mikilvægum samgöngubótum og viðhaldi hærra og hraðar – verkefnum út um land allt.

Ágætu þingfulltrúar

Í kvæðinu Alþing hið nýja eftir Jónas Hallgrímsson er eftirfarandi:

Traustir skulu hornsteinar

hárra sala.

Í kili skal kjörviður.

Bóndi er bústólpi –

bú er landstólpi –,

því skal hann virður vel.

Þótt þessar línur hafi kannski átt betur við forðum daga, eiga þær enn vel við í dag. Lífið í sveitum landsins byggist víðast hvar að miklu leyti á bændum og daglegum starfa þeirra. Það er sérstakt líf að vera bóndi og flestir myndu vafalítið segja gefandi. En líf bóndans er barátta; ekki bara á hinum náttúrulegum vígstöðum, frá ári til árs; einnig í umræðu og umróti samtímans. Allt er vegið og metið í rauntíma og dómar felldir nær samtímis.

Nýir búvörusamningar eru með tvenna skírskotun til þess að hann er samningur við allan landbúnaðinn – allar greinar. Annars vegar með því að koma öllum samningunum fjórum á sama stað í tíma og vera meira sambærilegir í uppbyggingu. Hins vegar að víkka út og breikka búnaðarlagasamninginn þannig að hann sé rammasamningur og taki til allra búgreina t.d. varðandi nýjar landgreiðslur.

Að mínu mati eru þessar breytingar mjög mikilvægar í því að sýna landbúnaðinn sem eina heild. Það eru augljósir hagsmunir ykkar allra að umfjöllun um einstaka búgreinar sé um leið umfjöllun um landbúnaðinn sem eina heild.

Því vil ég nota þetta tækifæri í dag, til að hvetja ykkur, bændur, til að styðja vel við bakið á þeirri forystusveit sem þið treystið á. Það er sú forysta sem á að leiða samtalið fyrir hönd bænda við þjóðina. Samstöðuleysi og sundrung mun koma öllum í koll.

Ég óska ykkur góðra þingstarfa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta