Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2016 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

Ræða á Ferðaþjónustudegi SAF, 15. mars. 2016

ATH: Talað orð gildir


Kæru gestir

Það vill þannig til að ráðuneyti ferðamála á sér heimilisfesti í gamla útvarpshúsinu Skúlagötu 4. Þegar ég las að yfirskrift þessa þings væri „Næst á dagskrá“ - þá ósjálfrátt fór ég að hugsa til móðursystur minnar Gerðar G Bjarklind sem í áratugi var þulur á Rás 1 - en á starfsferli sínum hefur hún örugglega byrjað fleiri setningar á þessum orðum en tölu verður á komið.

Síðasta heila árið sem Ríkisútvarpið var til húsa á Skúlagötunni - 1986 - var tímamótaár í ferðaþjónustu á íslandi. Það ár komu í fyrsta sinn í sögunni yfir 100 þúsund ferðamenn til Íslands – og þótti mörgum nóg um!

Í nýliðnum febrúarmánuði einum komu hingað rúmlega 100 þúsund ferðamenn. Ferðamönnum í febrúar hafði þar með fjölgað um 43% frá því í febrúarmánuði í fyrra – sem vel að merkja var líka metmánuður. Og það hef ég heyrt frá fleiri en einum og fleiri en tveimur ferðaþjónustuaðilum á landsbyggðinni að febrúar í ár hafi verið eins og júlí fyrir örfáum árum síðan.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur hér og nú. Það er alveg magnað – og í rauninni kraftaverk - hvernig ferðaþjónustunni hefur tekist að mæta þessari ótrúlegu fjölgun ferðamanna. Auðvitað koma öðru hvoru upp hnökrar og það reynir á – en ólíkt ríkisútvarpinu þá getur ferðaþjónustan ekki sagt „Afsakið hlé“ á meðan að viðgerð á sendi í Gufuskálum stendur yfir. Hún verður einfaldlega að takast á við og leysa úrlausnarefnin þegar og þar sem að þau koma upp. Eða eins og við segjum stundum í Keflavíkinni á frekar slæmri íslensku: „The show must go on“

Ég skal viðurkenna að of oft finnst mér að umræða hér innanlands um ferðaþjónustuna fari of mikið í neikvæða gírinn. Hér sé allt að fara á verri veg - lóðbeint til helvítis ef marka má sumar fréttir. Ég er alls ekki að gera lítið úr þeim vandamálum sem þarf að leysa – og við erum svo sannarlega að vinna í því að leysa þau. En við verðum líka að vera dugleg að gera eins og gert var í myndbandinu hér áðan að halda á lofti þeim frábæru sigursögum sem eiga sér stað á hverjum einasta degi út um allt land.

Mælingar sýna að langflestir þeirra erlendu ferðamannanna sem að hingað koma fara héðan ánægðir og það er besti mælikvarðinn. Hvar sem ég fer á erlendum vettvangi er ég litin öfundaraugum og það er tekið eftir þeim árangri sem að við erum að ná og alltaf fæ ég spurninguna – „Hvað er það eiginlega sem að þið eruð að gera svona rétt?“

Það er ótrúlega margt að gerast á vettvangi ferðaþjónustunnar – það þekkið þið sem eruð í þessum sal allra manna best. Ég þarf víst ekki að sannfæra ykkur um mikilvægi þess að skjóta traustum undirstöðum undir atvinnugreinina og styrkja og betrumbæta alla innviði.

Að þessu verkefni höfum við unnið saman í mikilli og góðri samvinnu – stjórnvöld og SAF. Útkoman er hvoru tveggja sáttmáli og stefnuskjal – Vegvísir í ferðaþjónustu – sem markar stefnuna hvert við viljum fara og hvaða aðgerðir séu nauðsynlegar til að komast þangað. Og það sem meira er – við smíðuðum líka verkfærið – eða veghefilinn – sem á að koma okkur yfir hverja þá hindrun sem orðið getur okkur til trafala. Það eru ekki litlar væntingar sem gerðar eru til Stjórnstöðvar ferðamála – og ég veit að Hörður og hans fólk - og allir þeir ótal aðilar sem munu sitja í hinum ýmsu starfshópum, vinnuhópum og nefndum á vegum Stjórnstöðvarinnar munu lyfta grettistaki.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að vekja sérstaka athygli á nýjum vef Stjórnstöðvar ferðamála – en þar er birt yfirlit um stöðu allra þeirra verkefna sem Stjórnstöðin vinnur að og hverjir þar koma að málum. Ég vil hrósa ykkur sérstaklega fyrir þetta – vel að verki staðið.

Ferðaþjónustan er í eðli sínu þannig að hún blandast nánast inn í alla þætti atvinnulífs og stjórnsýslu. Af því leiðir að það er enginn einn ábyrgðaraðili sem ber ábyrgð á öllu sem viðkemur ferðaþjónustunni. Það var þetta sem við horfðum við að leiða saman að sama borðinu alla sem ábyrgð bera.

Það er þannig með þessa góðu og mikilvægu atvinnugrein að það er enginn einn ábyrgðaraðili sem ber ábyrgð á ferðaþjónustunni í heild.

Tökum sem dæmi stjórnsýsluna:

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra ber á ábyrgð á ferðaþjónustu sem atvinnugrein sem og almennum úrbótum og uppbyggingu á ferðamannastöðum. Þar er stærsta og mikilvægasta tækið Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sem nú er fjármagnaður sem aldrei fyrr.

Síðan er það umhverfis- og auðlindaráðherra sem er hér í dag og sýnir mikilvægi þess og áhuga hennar á að tengjast þessum málaflokki og ég fagna nærveru hennar hér sérstaklega. Umhverfis- og auðlindaráðherra ber m.a. ábyrgð á úrbótum og uppbyggingu á aðstöðu til móttöku ferðamanna í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Landvarsla við Gullfoss, hálkuvarnir, rekstur salernis við Dimmuborgir og upplýsingagjöf við Skaftafell, Ásbyrgi og Dettifoss eru dæmi um verkefni á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra og hennar stofnana.

Forsætisráðherra ber ábyrgð á Þingvallaþjóðgarði, hálkuvörnum og salernum meðtöldum og þjóðlendum almennt.

Innanríkisráðherra ber ábyrgð á samgöngum, vegakerfi, löggæslu og öryggismálum – öllum þeim verkefnum sem falla mega undir öryggismál.

Fjármála- og efnahagsráðherra ber ábyrgð á tekjuöflun ríkisins og skattaumhverfi greinarinnar svo að dæmi séu tekin.

Sveitarfélögin eru einnig mikilvægur hlekkur enda eru margir ferðamannastaðir í eigu eða umsjón sveitarfélaga og þar með á þeirra ábyrgð. Seljalandsfoss í klakaböndum, pallurinn meðtalinn, eru dæmi um það sem og yfirfull bílastæði á sama stað.

Síðan má ekki gleyma greininni sjálfri enda augljóst að til þess að atvinnugreinin haldi áfram að þróast með jákvæðum hætti fyrir samfélagið er nauðsynlegt að góð samvinna sé milli greinarinnar og hins opinbera.

Það er einmitt einn megin styrkur Stjórnstöðvar ferðamála að í stjórn hennar koma allir þessir aðilar saman við eitt borð – til að samhæfa aðgerðir, einfalda ákvörðunarferli og útrýma flækjustigum. Það er nefnilega alveg rétt sem forsætisráðherra nefndi hér áðan að kerfið getur verið ótrúlega flókið og þvælið. Þarna ætlum við að stytta boðleiðir og láta verkin tala.

Við erum einmitt nú með á borði ríkisstjórnar tillögur til úrbóta á öryggismálum ferðamannastaða sem unnar voru á vettvangi Stjórnstöðvar og vonumst ég til að við náum að klára þær hratt og vel á næstu dögum.

Ágætu félagar

Því er þó ekki þannig farið að með tilkomu Vegvísis og Stjórnstöðvar ferðamála þá sé búið að þurrka út í eitt skipti fyrir öll öll vandamál og áskoranir sem taka þarf á – það verður víst aldrei.

Við erum hins vegar á þeim stað að við erum búin ná utan um verkefnið og erum með klára sýn og markvissa forgangsröðun.

Eftir sem áður eru þó nokkur álitamál sem að við þurfum að takast á við. Og þar ofarlega á blaði er vitanlega fíllinn í postulínsbúðinni – spurningin um það hvort og þá með hvaða hætti við ætlum að haga gjaldtöku af ferðamönnum.

Ég veit það kemur ykkur á óvart – en sitt sýnist hverjum um það mál og það er ekki einhugur, hvorki hjá þinginu, greininni sjálfri, né landsmönnum - um eina leið umfram aðra. En þó svo að umræðan um gjaldtöku sé aftur farin af stað þá verður ekki séð að það hafi komið fram neinar nýjar leiðir sem ekki hafa verið nefndar áður. Við þekkjum þessar leiðir – þetta eru nefnilega engin geimvísindi – hver þeirra hefur sína kosti en líka um leið galla.

Ég verð að viðurkenna það núna að fyrir mér er þetta ekki efsta málið á verkefnalistanum enda ljóst að greinin er að skila umtalsverðum fjármunum til ríkisins í formi skatta. Sem dæmi þá jukust tekjur af virðisaukaskatti af ferðamönnum um 10 milljarða á milli áranna 2014 og 2015. Bara aukningin þannig að við sjáum að til viðbótar við aðra skatta af greininni nema heildartekjur ríkisins af ferðaþjónustunni tugum milljarða króna á ári og því vel forsvaranlegt að taka nokkur hundruð milljónir af þeim tekjum í innviðauppbygginguna líkt og við erum að gera.

Ef talið er nauðsynlegt að ríkissjóður afli frekari tekna af ferðamönnum til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu innviða samfélagsins þá þarf að taka af skarið og velja leið eða leiðir, með öllum þeim kostum og göllum sem þeim fylgja. Og talandi um ábyrgð – þá er rétt að minna á að endanlegt mat á því hvort að þörf sé á frekari tekjuöflun er hjá fjármála- og efnahagsráðherra og skattlagningavaldið er hjá Alþingi.

En talandi um Alþingi. Ég hef fundið fyrir mikilli samstöðu með ykkur - greininni sjálfri um þær leiðir sem við erum að fara og þá stefnu sem við höfum sameiginlega markað til að efla og styrkja íslenska ferðaþjónustu.

Þetta fann ég vel í vinnunni við Vegvísi og á þeim sameiginlegu fundum sem við héldum hringinn í kringum landið við að kynna hann. Ég hef sömuleiðis fundið þetta eftir að Stjórnstöðin tók til starfa og er mjög þakklát fyrir þennan stuðning og samstöðuna og þetta mikilvæga verkefni.

Á sama tíma hef ég fundið fyrir nokkuð yfirgripsmiklu þekkingarleysi hjá ákveðnum kollegum mínum á Alþingi. Þar virðast menn oft tjá sig digurbarkalega án þess að hafa kynnt sér málin og sumir verða jafnvel sjálfskipaðir sérfræðingar að því er virðist eftir að hafa lesið ýmsar fyrirsagnir á netinu.

Til að koma þessari umræðu í betri farveg í þinginu ákvað ég að leggja fyrir Alþingi skýrslu um ferðamál þar sem farið er yfir það helsta sem á daga okkar hefur drifið á undanförnum misserum og stöðu þessa mikilvæga málaflokks í dag. Skýrslunni verður vonandi dreift í dag eða á morgun í þinginu og hún síðan væntanlega rædd eftir páska. Þannig vona ég að þingmenn nái að kynna sér málin og taka upplýsta umræðu út frá staðreyndum sem fyrir liggja.

En ágætu ferðaþjónustuforkólfar,

Eitt það mikilvægasta þegar kemur að stefnumörkun í ferðaþjónustu er að greinin geti vaxið og dafnað í sátt við land og þjóð. Hraður vöxtur ferðaþjónustunnar á undangengnum árum hefur haft gríðarlega efnahagslegu þýðingu fyrir þjóðarhag. Reykjavík er ekki sama borgin og hún var fyrir örfáum árum. Ég veit það þar sem ég bjó í Reykjavík til ársins 2004 og kom hingað á aðventunni fyrir síðustu jól til að njóta sem gestur og það var stórkostleg upplifun. Og þökk sé ferðaþjónustunni þá hefur landsbyggðin snúið vörn í sókn. En þessum mikla fjöldi ferðamanna fylgir álag bæði á náttúru og samfélag.

Nýlega komu fram hugmyndir um þjóðgarð á hálendinu og stóðu að þeim fjölmargir einstaklingar og samtök – þ.a.m. Samtök ferðaþjónustunnar. Ég fagna því að sjálfsögðu allri umræðu um umhverfismál og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Ég er kannski á sömu slóðum og forsætisráðherra því ég er aðeins að velta fyrir mér hvort allir hafa sama skilning á því hvað felst í þessari þjóðgarðshugmynd.

Felur hún í sér að engir vegir verða lagðir eða önnur mannvirki reist á þessu svæði? Hvernig ferðaþjónusta verður leyfð á svæðinu? Hvernig verður með skipulagsvald einstara sveitarfélaga? Mér reiknast til að það séu 22 sveitarfélög sem koma að þessu svæði. Hvað verður um Rammaáætlun sem byggir á mati færustu sérfræðinga landsins um það hvar skuli vernda og hvar komi til greina að virkja?

Ég tel að það sé mikilvægt og fagna því að við séum að fara að ræða þessar spurningar og álitamál. En ég vara um leið við því að kostum sé fortakslaust stillt upp hvorum gegn öðrum. Orkunýting og náttúruvernd eru ekki andstæðir pólar frekar en ferðamennska og náttúruvernd.

Í þessu samhengi má minna á að einn allra eftirsóttasti og fjölfarnasti áfangastaður ferðamanna á Íslandi er Bláa lónið – sem vel að merkja er skilgetið afkvæmi orkuvirkjunar sem er við hliðina á Bláa lóninu. Þannig að þetta getur og fer ljómandi vel saman.

Góðir fundargestir

„Næst á dagskrá“ er að fylgja þeirri stefnumörkun sem lögð er fram í Vegvísi fyrir ferðaþjónustu.

Og í „fréttum er það helst“ að okkur miðar vel á þeirri vegferð að treysta undirstöður og innviði.

Það hefur gríðarlega mikið áunnist á undanförnum misserum – við vitum hvert við viljum stefna, verkfærin eru öll til staðar og vinnan er í fullum gangi.

Íslensk ferðaþjónusta er orðin ein mikilvægasta grunnstoðin í efnahagslífi þjóðarinnar. Við skulum byggja allt okkar starf á ábyrgð og virðingu og þannig tryggjum við að ferðaþjónstan blómstri í góðri sátt við umhverfi og samfélag.

Eða svo ég noti tækifærið og ljúki máli mínu hér með því að vitna í framkvæmdastjóra SAF „að við viljum gera Ísland að frábærum ferðamannastað. Að frábæru ferðamannalandi sem jafnframt er gott að búa í.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta