Ræða á ársfundi Orkustofnunar, 1. apríl 2016
ATH: Talað orð gildir
Fundarstjóri, orkumálastjóri og aðrir góðir gestir.
Það er ánægjulegt að vera hér með ykkur í dag á ársfundi Orkustofnunar á þessum ágæta degi, 1. apríl. Spurning hvort við fáum eitthvað aprílgabb á þessum fundi.
Ég vil hér í upphafi hrósa öllu því góða starfsfólki sem vinnur á Orkustofnun fyrir vel unnin störf. Ábyrgð Orkustofnunar er mikil og lögbundin hlutverk hennar fjöldamörg og krefjandi. Það er oft sem að stofnunin situr undir harðri orðræðu og gagnrýni. En það eru þó miklu fleiri sem koma að tali við mig sem hrósa starfi Orkustofnunar og ég vil því þakka ykkur afar vel unnin störf í öllum ykkar mikilvægu málaflokkum og jafnframt að þakka fyrir farsælt og gott samstarf við ráðuneytið undanfarin ár.
En kæru gestir.
Það er af mörgu að taka á sviði orku og auðlindamála og langar mig að koma inn á nokkur af þeim atriðum sem eru hvað efst á baugi þessa dagana.
Efst á baugi þessa dagana er líklega Rammaáætlun.
Verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar kynnti í gær tillögur sínar um flokkun virkjunarkosta. Í kjölfarið munu þær tillögur fara í lögbundið umsagnarferli og í framhaldi af því mun verkefnisstjórn vinna úr þeim umsögnum sem berast og skila síðan niðurstöðum sínum til ráðherra.
Á síðustu misserum hafa ýmsir gert athugasemdir við starfshætti verkefnisstjórnar Rammaáætlunar. Rammaáætlun er vissulega vandmeðfarið verkfæri, enda var markmiðið sett hátt í upphafi; þ.e. að reyna að ná sem mestri sátt og framtíðarsýn um hvaða landsvæði beri að vernda og hvaða svæði nýta til orkuvinnslu. Það er því afar brýnt að leikreglurnar séu skýrar og að lögunum um Rammaáætlun frá 2011 sé fylgt.
Í þeim lögum kemur skýrt fram hvert lögbundið hlutverk Orkustofnunar er og þar kemur fram að ef „virkjunarkostur er að mati Orkustofnunar nægilega skilgreindur skal verkefnisstjórn fá hann til umfjöllunar“.
Fram hafa komið þau sjónarmið að verkefnisstjórn Rammaáætlunar sé heimilt að vega og meta hvaða virkjunarkosti, sem Orkustofnun hefur lögum samkvæmt beint til hennar, hún eigi að taka til umfjöllunar og hverja ekki. Með öðrum orðum að verkefnisstjórn geti tekið ákvörðun um að hafna að taka til umfjöllunar virkjunarkost sem Orkustofnun hefur metið sem nægilega vel skilgreindan og beint til verkefnisstjórnar. Ég tel að slíkir lögfræðifimleikar standist engan vegin og séu í skýru ósamræmi við lögin um Rammaáætlun frá 2011, og þau lögskýringargögn sem þeim fylgir. Með slíkri túlkun er verkefnisstjórn í raun að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem hún hefur hvorki heimild né stöðu til.
Í orðræðunni er flestum tíðrætt um að það þurfi „að standa vörð um Rammaáætlun“. Ég tel svo sannarlega að við þörfum að standa vörð um Rammaáætlun. Það að standa vörð um Rammaáætlun felst nefnilega í því að virða þær leikreglur sem settar voru með fyrrnefndum lögum frá árinu 2011 og hindra ekki faglegan framgang Rammaáætlunar.
En nóg um það. Horfum á tillögur verkefnisstjórnar sem kynntar voru í gær. Ég fagna því að tillögurnar séu komnar fram. Samkvæmt þeim fara samtals 7 virkjunarkostir í nýtingarflokk, þ.m.t. Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun og Skrokkölduvirkjun. Alls fara 10 virkjunarkostir í biðflokk og 8 í verndarflokk.
Sem áður segir fara tillögurnar nú í lögbundið umsagnarferli og að því ferli loknu fara þær til umhverfisráðherra sem í samráði við þann ráðherra sem fer með orkumálin leggur málið fram á Alþingi næstkomandi vetur.
Ég tel því ekki rétt á þessu stigi að ég tjái mig efnislega um sjálfar tillögurnar.
Ég geri hinsvegar athugasemd við það sem að virðist nú blasa við, að tillögurnar byggi eingöngu á niðurstöðum tveggja faghópa af fjórum, þ.e. faghópi 1 sem fjallar um náttúruverðmæti og menningarminjar og faghópi 2 sem fjallar um ferðaþjónustu og hlunnindi. Þannig liggja ekki fyrir efnislegar niðurstöður frá faghópi 3 um samfélagsleg áhrif og faghópi 4 um efnahagsleg áhrif.
Varðandi rammaáætlun þá er gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina og það kemur beinlínis skýrt fram í 3. gr. laga um Rammaáætlun að í „verndar- og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga þessara lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar.“ Þessar niðurstöður virðast því haldnar þeim veigamikla ágalla að ekki hafi verið lagt mat á alla þá þætti sem kveðið er á um í lögum.
Með því að styðjast eingöngu við niðurstöður úr faghópum 1 og 2 má halda því fram að tillögurnar taki eingöngu mið af umhverfislegum áhrifum en að ekki hafi verið lagt sams konar mat á efnahagsleg og samfélagsleg áhrif virkjunarkosta, eins og lögin gera ráð fyrir. Það skekkir óneitanlega myndina og er klárlega eitt af þeim mikilvægu atriðum sem skoða þarf í framhaldinu.
Góðir fundarmenn,
Það mikilvægasta í þessu máli að mínu mati er að við þurfum að hefja Rammaáætlun aftur til þess vegs og virðingar sem lagt var upp með í byrjun. Það er einfaldlega nauðsynlegt vegna mikilvægis Rammaáætlunar í okkar auðlindastjórnun og í atvinnu- og byggðaþróun.
Rammaáætlun er lykil stjórntækið sem við höfum til að svara þeirri spurningu hvernig við ætlum að mæta vaxandi raforkuþörf á næstu árum og áratugum. Ábyrgð Alþingis er því mikil þegar kemur að afgreiðslu Rammaáætlunar.
Mig langar í þessu samhengi að benda á að í síðasta mánuði tók ráðuneytið saman uppfært yfirlit um stöðuna varðandi framboð og eftirspurn raforku í landinu, bæði til skemmri og lengri tíma. Þá samantekt er að finna í lögbundinni skýrslu um raforkumál sem ég mun leggja fram og verður dreift í næstu viku á Alþingi.
Sú staða sem blasir við okkur þar er visst áhyggjuefni. Staðreyndin er sú að hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma þá er eftirspurn eftir raforku talsvert umfram framboð og fer sá munur vaxandi. Ekki er þar eingöngu um ný stóriðjuverkefni að ræða (samanber PCC á Bakka, United Silicon og Thorsil í Helguvík og Silicor Materials á Grundartanga) heldur kemur einnig inn í myndina vaxandi aukning í almennri raforkunotkun á næstu árum, t.d. hjá gagnaverum, ferðaþjónustu og hjá almenningi.
Við þurfum að leita leiða til að bregðast við þessari stöðu með ábyrgum hætti. Hvort sem það er með nýjum virkjunarkostum úr Rammaáætlun eða öðrum hætti, eins og t.d. aukinni áherslu á betri orkunýtingu og orkusparnað.
Hér þarf að hugsa til lengri tíma en eins árs í senn því það tekur mörg ár að virkja, hvort sem um er að ræða í jarðvarma, vatnsorku eða vindi, til þess að mæta vaxandi eftirspurn. Hér er líka um orkuöryggi að ræða og brýnt að við tökum höndum saman og ræðum langtímaöryggi raforkuafhendingar á Íslandi. Þetta er eitt af stóru verkefnunum sem bíður okkar, og þar reiðum við okkur að sjálfsögðu áfram á gott samstarf við Orkustofnun.
En góðir fundarmenn,
Það eru mörg önnur brýn mál sem blasa við okkur á sviði orkumála þessa dagana. Eitt af þeim meira spennandi eru næstu skref okkar í orkuskiptum. Segja má að fyrsta stóra skrefið í okkar orkuskiptum hafi verið tekið á áttunda áratugnum þegar stjórnvöld mörkuðu þá langtímastefnu að hætta að kynda hús á Íslandi með innfluttri olíu og notast frekar við endurnýjanlega innlenda orku, þ.e.a.s. jarðvarma.
Á þeim 40 árum sem liðin eru hefur hlutfall olíukyndingar á Íslandi, til húshitunar, farið úr rúmlega 50% niður fyrir 1%. Það verður að teljast nokkuð góður árangur, með tilheyrandi jákvæðum efnahagslegum og umhverfislegum áhrifum.
En orkuskipti á Íslandi eru samt rétt að byrja. Næst á dagskrá eru orkuskipti í samgöngum, hvort sem er á landi, á hafi eða í lofti. Þar bíða okkar frábær tækifæri til að koma Íslandi á heimskortið sem frumkvöðli á sviði orkuskipta.
Í ráðuneytinu erum við þessa dagana að leggja lokahönd á þingsályktunartillögu um orkuskipti, sem ég ráðgeri að kynna á Alþingi nú á vorþingi. Þar munum við setja fram aðgerðaráætlun til næstu ára og setja okkur metnaðarfull, en raunhæf, markmið um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Við höfum þegar náð góðum árangri á vissum sviðum, t.d. hefur fjöldi vistvænna bíla þrefaldast á síðustu 5 árum og magn innlends eldsneytis fimmfaldast. En við getum gert enn betur og ég tel að við eigum að setja okkur slík markmið.
Eins og Sigurður Ingi Friðleifsson hjá Orkusetri útskýrði fyrir okkur með lifandi og skemmtilegum hætti nýlega á aðalfundi Samorku þá blasa tækifærin í orkuskiptum við okkur. Við gætum rafvætt fólksbílaflotann yfir nótt, orkulega séð. Menn geta því spurt sig, ef ekki á Íslandi hvar þá? Þetta er næsta stóra skrefið í orkumálunum hjá okkar.
Ágætu fundarmenn,
Eins og ég sagði í upphafi þá er af mörgu að taka þegar orkumálin eru annars vegar. Á síðasta löggjafarþingi náðum við miklum árangri með lögfestingu fjögurra stórra þingmála. Í fyrsta lagi með frumvarpi til laga um kerfisáætlun sem kveður skýrt á um stöðu og mikilvægi kerfisáætlunar um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í öðru lagi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Í þriðja lagi með lagabreytingu sem tryggir fulla jöfnun á þeim kostnaðarmun sem er á dreifingu á raforku í dreifbýli og í þéttbýli. Og í fjórða lagi með lagabreytingu sem kveður á um fulla niðurgreiðslu kostnaðar vegna flutnings og dreifingu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki eiga kost á hitun með jarðvarma.
Með þessum mikilvægu þingmálum var annars vegar lögð lokahönd á að jafna orkukostnað eftir landsvæðum og tryggja þannig jöfn búsetuskilyrði og jöfn tækifæri til atvinnuuppbyggingar. Og hins vegar var lagður grundvöllur fyrir nauðsynlegar úrbætur á flutningskerfi raforku og eflingu afhendingaröryggis á landsvísu.
Hvort tveggja eru ára- og jafnvel áratugalöng úrlausnarefni sem loksins eru leidd til lykta.
En góðir fundarmenn,
Ég gæti nefnt fjöldamörg önnur góð verkefni sem eru í vinnslu, eins og til dæmis þau sem eru í gangi varðandi bætt orkuöryggi á Vestfjörðum, bæði með tengingu Hvalárvirkjunar og hringtengingu Vestfjarða. Þar er ástæða til að þakka Vestfjarðanefndinni svokölluðu sem að Guðni orkumálastjóri veitir forstöðu, fyrir vel unnin störfum, en við höfum þegar séð margar tillögur frá nefndinni verða að veruleika síðustu ár með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir svæðið.
Margt fleira er í pípunum. Sams konar nefnd er að störfum fyrir Norðausturland. En ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til starfsfólks Orkustofnunar fyrir afar traust og gott samstarf og ég er þess fullviss að svo mun áfram verða. Það eru spennandi tímar framundan og þar stólum við, nú sem áður, á áframhaldandi farsæla samvinnu okkar á milli.
Takk fyrir.