Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2016 MatvælaráðuneytiðGunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2016-2017

Ræða á ársfundi Byggðastofnunar, 15. apríl 2016


Ágætu fundargestir,

Þennan ársfund Byggðastofnunar er ég að sækja í fyrsta skipti  sem  ráðherra byggðamála. Vissulega hef ég fylgst með gangi mála, bæði í embætti mínu sem utanríkisráðherra og sem landsbyggðarþingmaður og áhugamaður um byggðamál almennt undanfarin ár. Það er því sérstaklega gleðilegt að fá að ávarpa ársfund stofnunarinnar að þessu sinni.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er ríkisstjórn landsins alls. Það segi ég af þeirri ástæðu að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á byggðamál. 

Rík áhersla hefur verið lögð á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi. Reynt hefur verið að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni m.a. með dreifingu opinberra starfa og langar mig að nefna hér þrjú störf við skjalavinnslu sem ég sem utanríkisráðherra tók ákvörðun um að staðsett yrðu á Sauðárkróki, þar fyrir utan má nefna  uppbyggingu fjarskiptanets, ljósleiðaravæðingu, jöfnun húshitunarkostnaðar og jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Allar þessar aðgerðir stuðla að jöfnun búsetuskilyrða.

Byggðastofnun er mikilvægt verkfæri stjórnvalda til að vinna að verkefnum á sviði byggðamála. Ég veit að þetta var einnig skoðun fráfarandi ráðherra byggðamála og núverandi forsætisráðherra.

Hjá Byggðastofnun starfar mjög hæft fólk sem ásamt stjórn hennar fást við spennandi verkefni á sviði atvinnumála á landsbyggðinni og takast á við oft á tíðum flókin verkefni lítilla samfélaga. Stofnun líkt og Byggðastofnun er nauðsynleg stjórnvöldum á hverjum tíma og treysti ég henni fyllilega til að taka faglegar og hlutlægar ákvarðanir.

Af öðrum þáttum sem nefna má og horfa til framfara eru að sóknaráætlanir landshluta sem hafa verið festar í sessi með samningum til fimm ára. Búið er að sameina í einn samning verkefnin sóknaráætlanir landshluta, vaxtarsamninga og menningarsamninga.

Með lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir sem Alþingi samþykkti í júlí sl. er fest í sessi það verklag sem þróast hefur undanfarin ár í samskiptum á sviði byggðamála milli ráðuneyta, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga. Jafnframt var með lögunum aukin ábyrgð færð til sveitastjórna á sviði byggðamála- og samfélagsþróunar og lögfest hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga um gerð og framkvæmd Sóknaráætlana.

Þar er Byggðastofnun einnig ætlað aukið hlutverk við mótun nýrrar byggðaáætlunar til sjö ára og hefur stofnunin hafið samráð vegna þessa við ráðuneyti og landshlutasamtök sveitarfélaga. Ég vil einnig nefna Byggðarannsóknarsjóð sem settur hefur verið á laggirnar. Með stuðningi úr sjóðnum vonast ég til að verði hægt að sinna auknum rannsóknum og að niðurstöður þeirra geti þá lagt mikilsverðan grunn til uppbyggingar byggðastefnu til framtíðar.

Ágætu fundagestir

Íslensk menning og náttúra skapar ótal tækifæri um land allt, fjöldi ferðamanna sækir landið heim og fer vaxandi ár frá ári. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að landbúnaður og matvælaframleiðsla eigi sér bjarta framtíð, m.a. með því að nýta ný tækifæri bæði innanlands og utan.

Spurn eftir matvælum er að aukast og kaupgeta fólks að styrkjast. Þessu þarf að mæta og tel ég að með nýgerðum búvörusamningum til 10 ára hafi verið stigið stórt og jákvætt skref í þessa átt. Þá vil ég geta þess að Byggðastofnun hefur á grundvelli samninganna verið falið að skilgreina þau svæði landsins sem eru háðust sauðfjárrækt og gera drög að reglum um hvernig styrkjum verður úthlutað.

Ríkisstjórnin hefur einnig sett í gang verkefnið Matvælalandið Ísland. Þar er markmiðið að efla orðspor Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla; auka verðmætasköpun byggða á mat og matarmenningu Íslendinga. Í því verkefni er fjöldinn allur af tækifærum og nauðsynlegt er að horfa til þeirra sóknarfæra sem liggja bæði í landbúnaði og sjávarútvegi ásamt ferðaþjónustunni.

Áhugi fólks eykst sífellt á að upplifa og njóta afþreyingar sem byggir á matarhefðum, kynnast framleiðslu og uppruna, sögu og hefðum. Eitt af jákvæðum áhrifum verkefnisins er möguleg fjölgun á störfum um allt land, bæði hjá framleiðendum og úrvinnsluiðnaði sem einnig gæti styrkt byggðafestu.

Ég nefndi áðan vaxandi fjölda ferðamanna sem kjósa að koma hingað til lands og þau tækifæri sem það skapar m.a. í hinum dreifðu byggðum. Margt hefur verið gert vel í þeim efnum, m.a. með bættri nýtingu gistirýma og fjárfestingum í hótel og veitingarekstri. Þá er verið vinna að uppbyggingu ferðamannastaða víða um land og bætta aðgengi að helstu náttúruperlum landsins. Vetrarferðamennska er áhugaverð þróun sem vert er að gefa gaum og getur haft mikla þýðingu fyrir landsbyggðina. En það er samspil og samvinna fjölmargra þátta sem þarf að eiga sér stað til áframhaldandi uppbyggingar á landsbyggðinni. 

Ágætu fundargestir

Það er ekki sér íslenskt vandamál að það fækki í sveitum og fjölgi í borgum. Mörg lönd glíma við svipuð vandamál og er sjálfsagt að læra af reynslu annarra í þeim efnum.

Ég tel að hér á landi séu nokkur atriði sem huga þarf sérstaklega að, til að spyrna við þessari þróun. Jafnrétti til búsetu, en í því felst að íbúar dreifbýlisins geti notið sjálfsagðrar grunnþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, menntunar, samgangna og góðs aðgengis að nettengingum um land allt. Það er nefnilega þannig að fjöldi fólks vill og hefur áhuga á að búa á landsbyggðinni, en innviðirnir þurfa að vera í lagi. Þá þarf að leita leiða til að efla atvinnulíf á landsbyggðinni og auka fjölbreyttni eins og kostur er.

Ég geri mér grein fyrir því að hér er um langhlaup að ræða en stefnan er skýr. Byggðastofnun er eitt helsta tæki stjórnvalda til að koma þessari stefnu í framkvæmd. Stjórn og forsvarsmenn stofnunarinnar hafa lagt áherslu á að tryggja stofnuninni framtíðahúsnæði, hannað að þörfum stofnunarinnar. Ég er sammála þeim áherslum og mun leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða.

Að lokum.

Ég kom of seint á þennan fund vegna ríkisstjórnarfundar í morgun og því miður þarf ég að rjúka af stað á ný en ég þarf að vera kominn til Akureyrar innan “löglegs” tímaramma!

Um leið og þakka starfsmönnum og stjórn Byggðastofnunar fyrir vel unnin störf þá  hlakka ég til samstarfsins.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta