Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2016 MatvælaráðuneytiðGunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2016-2017

Ræða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á ráðstefnunni "Sjávarútvegur á Norðurlandi", 15. apríl 2016

Málstofustjórar, ágætu ráðstefnugestir.

Mennt er máttur, á því leikur enginn vafi og ber ráðstefna Háskólans á Akureyri í dag þess glöggt vitni.  Mikilvægi menntunar í sjávarútvegi, undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, er lykilatriði til þess að bæta lífskjör okkar allra.  Til þess að hámarka afrakstursgetu nytjastofna sjávar er nauðsynlegt að nýta sem best vísindin og rannsaka auðlindina eins og hægt er svo við gerum okkur grein fyrir ástandinu í þessari viðkvæmu auðlind okkar.

Sjálfbær nýting og skynsamleg stjórnun veiða er hagur okkar allra. Það höfum við Íslendingar lagt áherslu á í okkar kerfi og það er ljóst að margar þjóðir líta til Íslands þegar málefni sjávarútvegsins ber á góma.  Meðferð aflans frá því hann kemur um boð í veiðiskip hefur tekið stakkaskiptum frá seinni hluta síðustu aldar. Stjórnun veiðanna fyrir einstakar útgerðir með tilliti til markaðsaðstæðna á hverjum tíma, er undirstaða góðrar afkomu sem aftur þýðir aukinn hag fyrir þjóðarbúið í heild.

Að geta hámarkað virðiskeðjuna er hverju fyrirtæki nauðsynlegt og hefur verið stórkostlegt að fylgjast með þróuninni síðustu ár sem hefur haft í för með sér nýsköpun, aukin gæði, betri nýtingu og aukna verðmætasköpun.

Það er sérstaklega ánægjulegt að það séu íslensk fyrirtæki sem að miklu leyti leiða þessa þróun og má þar nefna þróun Alberts í 3X í samstarfi við FISK með ofurkælinguna sem dæmi.

Úr góðu hráefni er hægt að gera fyrsta flokks afurð til neyslu á borðum neytenda um víða veröld – það höfum við Íslendingar gert af miklum myndarbrag.

Umgengni um auðlindina og hafið er okkur dýrmæt, það vita allir sem að þessum málum koma – hættur steðja þó að. Samkvæmt þeim rannsóknum og spálíkönum um súrnun sjávar sem við stöndum frammi fyrir, ásamt breytingum á hitastigi  er nauðsynlegt fyrir okkur öll að stíga varlegar til jarðar en við höfum gert hingað til – við þessu verðum við að bregðast. Þar kemur öflugt fræðasamfélag Háskólans á Akureyri sterkt inn og spilar mikilvægt hlutverk í fræðslu og rannsóknum tengdum hafinu og lífríki þess.

Forveri minn í embætti Sigurður Ingi Jóhannsson lagði til við ríkisstjórnina og hún samþykkti á síðasta ári aukið fjármagn til Hafrannsóknastofnunar í tilefni af 50 ára starfsemi hennar. Hafrannsóknastofnun mun þannig á næstu 10 til 15 árum leggja ríka áherslu á kortlagningu og rannsóknir á hafsbotninum innan íslensku efnahagslögsögunnar. Kortlagningin mun styrkja stöðu Íslands sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar og getur skapað mikið markaðsgildi fyrir íslenskar sjávarafurðir. Þá mun kortlagningin verða mikilvæg undirstaða þegar kemur að því að skipuleggja nýtingu og vernd haf- og strandsvæða.

Ágætu ráðstefnugestir

Styrking opinberra starfa á landsbyggðinni er mikilvægur hlekkur í keðjunni allri til þess að halda dreifðri byggð landsins blómlegri.

Flutningur höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar sýnir vilja ríkisstjórnarinnar til þess að efla sérfræðistörf á landsbyggðinni. Flutningurinn styrkir ennfrekar grunnstoðir Háskólans á Akureyri í að mennta hæft starfsfólk sem unnið getur við stoðþjónustu sjávarútvegsins. Reiknað er með að alls verði til um 12 til 15 heilsársstörf á næstu misserum hjá Fiskistofu sem vonandi skiptir máli í varnarbaráttunni við fólksfækkun á landsbyggðinni.

Mennt er máttur, eins og ég sagði í upphafi – á því leikur enginn vafi í mínum huga. Ég vil nota tækifærið hér og nú og óska Háskólanum á Akureyri til hamingju með þetta góða framlag um þetta mikilvæga málefni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta