Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. maí 2016 MatvælaráðuneytiðGunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2016-2017

Atvinnuráðstefna Egilsstöðum 12. Maí 2016

Ræða Gunnars Braga Sveinssonar
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Atvinnuráðstefna

Egilsstöðum 12. maí 2016

Ágætu ráðstefnugestir

Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa glæsilegu ráðstefnu og þau fróðlegu erindi sem hér hafa verið flutt.
Það er mér mikið ánægjuefni að vera kominn í nýtt embætti ráðherra sjávarútvegs, landbúnaðar og byggðamála. Allt eru þetta málaflokkar sem skipta íbúa og sveitarfélögin í hinum dreifðu byggðum landsins miklu máli og er þar Fljótsdalshérað engin undantekning.  Ég fagna frumkvæði sem þessu þar sem farið er yfir með fjölbreyttum hópi fólks úr stjórnkerfinu og atvinnulífinu hvernig atvinnumálum er háttað, hvað er gert vel og hvað er hægt að gera betur.

Sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður þekki ég vel þá varnarbaráttu sem við landsbyggðarfólk höfum háð. Þrátt fyrir góðan vilja hefur ekki tekist með fullnægjandi hætti að sporna við þeim raunveruleika að byggðirnar þurfi stanslaust að standa í baráttu við að verja sinn hlut og berjast gegn því að þjónusta minnki og að fólki fækki.

Þessu þarf að breyta. Við Íslendingar erum hinsvegar ekki eina þjóðin sem hefur glímt við þennan vanda. Um allan heim hefur þessi þróun átt sér stað og því ekki úr vegi að líta á hvaða úrræði hafa gagnast þar vel.

Í Noregi og Svíþjóð hefur skattkerfinu verið beitt til þess að styrkja byggðir og skapa þannig jákvæða hvata fyrir fólk að setjast að á dreifbýlum svæðum, árangurinn af þessum aðgerðum hefur verið jákvæður. Það er okkur lífsnauðsynlegt að landið sé í blómlegri byggð og það er ekki bara tilfinning heldur þjóðhagslega mikilvæg aðgerð.

Í ljósi þess hef ég því sett af stað vinnu sem miðar að því að skoða hvernig beita megi skattkerfinu  með það að augnarmiði að styrkja byggðir landsins. Byggðastofnun mun leiða það verkefni.

Þetta er í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkana sem innihélt sérstakan kafla um byggðamál og þar er lögð rík áhersla á að ná árangri í byggðamálum.

Ágæta fundarfólk

Um áramótin hófst vinna við að móta nýja byggðaáætlun til næstu sjö ára. Byggðastofnun leiðir að sjálfsögðu þá vinnu og ber að skila drögum að þingsályktun fyrir 1. nóvember nk.

Í þeirri vinnu er unnið eftir nýjum lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir sem samþykkt voru á Alþingi sl. sumar. Þar er kveðið á um að Byggðaáætlun skuli unnin í umboði ráðherra af Byggðastofnun í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Við gerð byggðaáætlunar skal haft samráð við ráðuneyti, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og aðra haghafa eftir þörfum.

Boðað var til fundar með öllum þingmönnum í janúar sl. og upphafstónninn sleginn að mótun nýrrar byggðaáætlunar, í framhaldi var boðað til funda í öllum landshlutum og með ráðuneytum og mun þeirri fundarherferð ljúka á næstu vikum. Með þessu samráði við mótun nýrrar byggðaáætlunar er sleginn nýr tónn, kallað er eftir hugmyndum og lausnum úr öllum áttum og mun almenningur jafnframt geta komið með sína sýn á vinnuna. Með þessu næst yfirsýn yfir aðgerðir í byggðamálum þvert á stjórnsýsluna og áhersluatriði heimamanna fá að njóta sín.

Ríkisstjórnin leggur einnig sérstaka áherslu á mikilvægi matvælaframleiðslu og þau sóknarfæri sem liggja í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Með nýjum búvörusamningum til 10 ára er sérstaklega horft til að treysta stoðir bænda um allt land til þess að framleiða fjölbreytt framboð af gæðaafurðum. Nýliðun er auðvelduð, stefnt er að aukinni verðmætasköpun og aðlögun að lífrænni framleiðslu hafin.

Eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum.

Ágætu gestir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita 80 milljónum króna í fimm ár í verkefni undir merkjum Matvælalandsins Íslands. Með verkefninu er verið að styðja við uppbyggingu atvinnugreinarinnar með skýrri stefnumörkun og framtíðarsýn.

Tekjur af erlendum ferðamönnum hafa aukist með auknum fjölda en hægt er að auka verðmætasköpunina enn frekar með því að nýta tækifæri sem byggjast á áhuga fólks á að upplifa og njóta afþreyingar sem byggir á matarhefðum, kynnast framleiðslu og uppruna, sögu og hefðum. Vonast er til að verkefnið muni fjölga  um allt land, bæði hjá framleiðendum og iðnaðinum, sem styrkt getur byggðafestu á ákveðnum svæðum.

Aukinn ferðamannastraumur hefur skapað margvísleg tækifæri fyrir byggðir landsins en í því samhengi er mjög mikilvægt að opna fleiri gáttir inn til landsins en í gegnum Keflavíkurflugvöll.

Beint millilandaflug til Egilsstaða er nauðsynlegt til þess dreifa bæði tekjum og álagi sem fylgir ferðamönnunum.

Það er ekki bara millilandaflugið sem er mikilvægt heldur einnig innanlandsflug. Styrkja þyrfti innanlandsflug með viðhaldi flugvalla um land allt og leita þarf leiða til að tryggja að verðlag á þessum almenningssamgöngum verði viðráðanlegt.

Nokkur umræða hefur verið um staðsetningu opinberra starfa m.a. í kjölfar flutnings Fiskistofu til Akureyrar. Mín afstaða er alveg skýr, opinber störf eiga að vera dreifð um landið eins og hægt er og hefur það auðveldast til muna á undanförnum árum þökk sé tækniframförum.

Það er til dæmis mjög ánægjulegt að sjá opinberar stofnanir auglýsa störf án staðsetningar og gefst þá umsækjendum kostur á að vinna starfið þar sem þeim hentar. Engu að síður getur það ekki verið á hendi ríkisins að tryggja ákveðið mörg störf á ákveðnum svæðum. Ríkið á að hafa það hlutverk að tryggja innviði svo svæði séu samkeppnishæf og skapa aðstæður þannig að fyrirtæki og sveitarfélög fái að blómstra.

Til þess að tryggja viðunandi innviði og þjónustu er lagt til í byggðaáætlun að skilgreindur verði réttur landsmanna til grunnþjónstu í öllum landshlutum, þar er um að ræða helstu svið opinberrar þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu, menntun, löggæslu, samgöngur,  menningu og fjarskipti.

Byggðastofnun er langt komin með það verk og í framhaldi verða settar fram tillögur til úrbóta. Lögð verður áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi.

Að lokum

Að tryggja samfélögum slíka grunnþjónustu og innviði er langhlaup sem mikilvægt er að ná árangri í. Það mun, ef rétt er staðið að hlutunum, skila þjóðinni þoli til þess að hlaupa áfram inní framtíðina.

 

Takk fyrir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta