Framsöguræða á Alþingi með breytingu á búvörulögum, 17. maí 2016
Virðulegi forseti
Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum, sem er þskj. 1108- 680. mál.
Með frumvarpi þessu, sem samið er í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, er fjallað um þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum í samræmi við búvörusamninga og búnaðarlagasamning sem undirritaðir voru 19. febrúar sl. Samningarnir eru gerðir á grundvelli búvörulaga, þ.e. samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, starfsskilyrði nautgriparæktar og starfsskilyrði sauðfjárræktar.
Búnaðarlagasamningur er gerður á grundvelli búnaðarlaga en það er svokallaður rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Samningarnir voru undirritaðir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis.
Tilefni frumvarpsins er að lögfesta þær breytingar sem samningarnir gera ráð fyrir og nauðsynlegt er að gera svo samningarnir geti tekið gildi 1. janúar 2017. Þá voru samningar um starfsskilyrði nautgriparæktar og sauðfjárræktar undirritaðir af hálfu Bændasamtaka Íslands með fyrirvara um atkvæðagreiðslu bænda. Niðurstöður atkvæðagreiðslu bænda voru kynntar 29. mars sl. þar sem samningarnir voru samþykktir. (nautgriparækt 74,7% og sauðfjárrækt 60,4%).
Hér er um að ræða tímamótasamninga ekki bara fyrir bændur heldur einnig neytendur. Með samningunum er verið að auka byggðafestu í landinu og auðvelda nýliðun. En helstu markmið samninganna eru eftirfarandi:
- Stuðla að aukinni
framleiðslu búvara, bæta samkeppnishæfni landbúnaðarins og afkomu bænda.
- Stuðla að fjölbreyttu
framboði heilnæmra gæðaafurða á sanngjörnu verði til neytenda.
- Efla landbúnað sem
atvinnugrein í dreifðum byggðum.
- Standa vörð um fæðu- og
matvælaöryggi þjóðarinnar.
- Stuðla að sjálfbærri landnýtingu.
Til að stuðla að þessum markmiðum þurfti að breyta núverandi kerfi, sérstaklega að auðvelda nýliðun og gera stuðningsformin almennari og minna háð einstökum búgreinum til að opna möguleika á nýtingu nýrra tækifæra.
Í ljósi þeirra markmiða sem að framan er lýst var lögð áhersla á það við samningsgerðina fyrir bæði sauðfjár- og nautgripaframleiðslu að hverfa frá stuðningsformi sem gerist hjá bændum, þannig að nýir aðilar þurfi alltaf að kaupa rétt til stuðnings og reyndar einnig til markaðsaðgangs hvað mjólkina varðar.
Núverandi kerfi felur það í sér að sífellt lægra hlutfall opinbers stuðnings nýtist starfandi bændum eftir því sem fleiri kaupa sig inn í greinarnar. Fyrirkomulagið eykur kostnað við framleiðsluna og torveldar nýliðun. Undið verður ofan af greiðslumarkskerfinu í áföngum og stuðningsformi breytt. Ennfremur eru tekin skref til að breikka stuðninginn, þannig að hann sé ekki eins fast bundinn við sauðfjár- og mjólkurframleiðslu og nú er. Slíkt eykur athafnarfrelsi og sveigjanleika bænda. Þannig er gert ráð fyrir að auka þá fjármuni sem renna til jarðræktar með tilfærslu úr mjólkur- og sauðfjársamningum.
Virðulegi forseti
Ávinningur þjóðarinnar af samningunum er fyrst og fremst að tryggja okkur fjölbreytt vöruúrval, á heilnæmum afurðum á sanngjörnu verði. Með fjárframlögum til landbúnaðarins er því í raun verið að niðurgreiða framleiðslukostnað sem endurspeglast síðan í lægra verði til neytenda en ella.
Staða mála vegna sýklalyfjaónæmis á Íslandi er talin góð og betri en í nágrannalöndum okkar. Þessi staða er m.a. til komin vegna þess að blöndun sýklalyfja í fóður dýra í vaxtaraukandi skyni hefur aldrei verið leyfð hér á landi og bæði dýralæknar og læknar hafa í auknu mæli tamið sér ábyrga notkun sýklalyfja. Þá er lögð áhersla á menningaleg mál sem skiptir okkur öll eins og varðveisla geitarstofns Íslands, afurðir eins og ullina og lífræna framleiðslu auk þess sem skógrækt er styrkt.
Byggðaáhrif samninganna eru að beina stuðningi í auknu mæli til bænda og byggðalaga, m.a. með hækkun greiðslna í svæðisbundinn stuðning, sérstakar gripagreiðslur og svokallaðann býlisstuðning. Þá felast einnig ný tækifæri í framleiðslu á nautakjöti til dæmis í þeim byggðum sem áður hafa verið nær eingöngu sauðfjárræktarsvæði. Einnig er tekinn upp fjárfestingastuðningur sem er nýmæli í samningunum, en hann er til þess fallinn að auðvelda nýjar fjárfestingar og nýliðun.
Í rammasamningi fylgdi bókun um byggðamál um að treysta innviði og búsetu í sveitum landsins. Í því felist meðal annars að finna skilgreindar leiðir sem stuðla að aukinni sjálfbærni sveitanna, eflingu framleiðslu og úrvinnslu matvæla ekki síst svo að meiri virðisauki verði í byggðunum. Sérstaklega verði skoðuð uppbygging innviða, svo sem samgangna, fjarskipta og raforku. Einnig möguleika sveitanna og framlag þeirra til þátttöku í aðgerðum vegna loftslagsmála. Þá verði litið til úrræða til að treysta fjárhag bænda og greiða enn frekar fyrir ættliðaskiptum á bújörðum. Ég hef þegar óskað eftir tilnefningum í starfshóp til að fjalla um þessi mál.
Virðulegi forseti
Þetta er í fyrsta skipti sem samið er um alla búvörusamninga og búnaðarlagasamning í einu. Tilgangur þess var m.a. að samræma tiltekin atriði samninganna og einnig að samræma gildistíma þeirra en samningarnir eru gerðir til tíu ára og taka gildi 1. janúar 2017 verði frumvarpið að lögum. Á samningstímabilinu er gert ráð fyrir endurskoðun samninganna tvisvar, þ.e. árin 2019 og 2023 þar sem lagt verður mat á það hvort markmið og þær breytingar sem lagðar eru til í samningunum hafi gengið eftir. Þá er í öllum samningum að finna tiltekin skilyrði til greiðslu fyrir framleiðendur sem fá framlög úr samningunum. Í fyrsta skipti er einnig kveðið á um rétt hjóna eða sambýlisfólks sem standa saman að búrekstri að óska eftir því að greiðslur samkvæmt samningunum verði skipt jafnt á milli aðila en kerfislægar hindranir í ákvæðum búvörulaga hafa komið í veg fyrir að unnt verði að skipta greiðslum með þessum hætti. Einnig er sett þak á þann stuðning sem einstakur framleiðandi getur fengið. Tel ég þetta jákvætt skref í jafnréttismálum á Íslandi.
Í samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða er ekki gert ráð fyrir viðamiklum breytingum. Áfram munu framleiðendur papriku, gúrku og tómata fá beingreiðslur vegna framleiðslu sinnar. Í samningnum er kveðið á um hlutdeild ríkisins í kostnaði við dreifingu og flutning raforku, en sérstakir samningar hafa gilt um það, sem ekki hafa verið hluti af búvörusamningi. Þá er mælt sérstaklega fyrir um hámarksstuðning við hvern framleiðanda vegna beingreiðslna og niðurgreiðslur á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku.
Stefnt er að viðamiklum breytingum í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Vægi greiðslna út á innvegna mjólk auk gripagreiðslna er aukið, en á móti mun vægi greiðslna út á greiðslumark verða þrepað niður. Viðskipti með greiðslumark verða einnig takmörkuð en með löngum aðlögunartíma fyrir framleiðendur. Við endurskoðun árið 2019 skal taka afstöðu til þess hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu verði afnumið frá og með 1. janúar 2021. Þá er mælt fyrir um nokkur ný verkefni í samningnum, þ.e. stuðning við framleiðslu nautakjöts og fjárfestingastuðning. Einnig er í samningnum gert ráð fyrir breytingum á verðlagningu mjólkur og mjólkurafurða og opinber verðlagning í núverandi mynd felld brott. Þá er mælt fyrir um það í samningnum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beiti sér fyrir breytingum á tollalögum og magntollar færðir upp til verðlags á tilteknum mjólkurvörum.
Áherslur í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar eru nokkuð breyttar frá fyrri samningi. Í samningnum er vægi gæðastýringar aukið og greiðslur út á greiðslumark þrepaðar niður á móti. Teknar verða upp gripagreiðslur í sauðfjárrækt á árinu 2020 og býlisstuðningur á árinu 2018. Býlisstuðningnum er einkum ætlað að styðja við fjölskyldubú. Áfram verða veitt framlög til ullarnýtingar og svæðisbundins stuðnings, en hann verður nánar útfærður í samvinnu við Byggðastofnun. Þá er mælt fyrir um fjárfestingastuðning vegna nýframkvæmda og breytinga á byggingum og átaksverkefni um aukið virði sauðfjárafurða.
Nokkrar áherslu breytingar eru í rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins sé miðað við núgildandi búnaðarlagasamning. Áfram verða veitt framlög til leiðbeiningaþjónustu og kynbótaverkefna. Þá er lögð aukin áhersla á jarðræktarstyrki og tekinn upp nýr stuðningur með svokölluðum landgreiðslum sem greiddar eru út á allt ræktað land sem uppskorið er til fóðuröflunar. Þá er rík áhersla lögð á nýliðun samkvæmt samningnum. Aukin framlög eru veitt til aðlögunar að lífrænni framleiðslu og tekinn verður upp stuðningur við mat á gróðurauðlindum, geitfjárrækt, fjárfestingastuðningi í svínarækt og stuðning við framleiðslu skógarafurða. Áfram verða veitt framlög til þróunar tiltekinna búgreina ásamt framlögum til Erfðanendar landbúnaðarins og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.
Þar sem ákvæði núgildandi búvörulaga gera ráð fyrir að búvörusamningar renni sitt skeið í árslok 2016 er nauðsynlegt að gera þær lagabreytingar sem frumvarpið þetta mælir fyrir um.
Virðulegi forseti
Frumvarpið skiptist í þrjá kafla. Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um breytingar ákvæða búvörulaga. Verulegar breytingar eru gerðar á verðlagningu búvara og er lagt til í frumvarpinu að verðlagsnefnd í núverandi mynd verði lögð niður. Í stað hennar verður skipuð svokölluð verðlagningarnefnd mjólkurvara sem mun hafa það hlutverk að setja afurðastöðvum mjólkur í markaðsráðandi stöðu tekjumörk og staðfesta verðskrá afurðastöðvar. Á meðan greiðslumark mjólkur er enn við líði mun nefndin einnig ákveða verð til framleiðenda fyrir mjólk sem framleidd er innan greiðslumarks. Þá eru einnig lagðar til breytingar á IX. og X. kafla laganna vegna kerfisbreytinga sem ákvæði samninga um starfsskilyrði sauðfjárræktar og nautgriparæktar gera ráð fyrir. Þá er í kaflanum lagðar til breytingar sem miða að því að skýra nánar hlutverk framkvæmdanefndar búvörusamninga.
Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um helstu breytingar á ákvæðum búnaðarlaga vegna rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins sem fjallar um stuðning þvert á allar búgreinar. Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á áherslum í markmiðum 2. gr. laganna. Þá er einnig mælt sérstaklega fyrir um þann stuðning sem samningurinn gerir ráð fyrir, m.a. kveðið á um landgreiðslur, þróunarframlög búgreina og átaksverkefni einstakra búgreina.
Í III. kafla frumvarpsins er að finna breytingar á 12. gr. tollalaga sem fjalla um tollkvóta sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutar og breytingar á magntollum tiltekinna mjólkurafurða.
Verði frumvarp þetta að lögum mun bændum verða sköpuð starfsskilyrði til lengri tíma en verið hefur sem tryggir ákveðinn fyrirsjáanleika fyrir landbúnaðinn. Einnig mun við endurskoðun samninganna verða unnt að grípa til ráðstafana ef ljóst er að markmið samninganna nái ekki fram að ganga. Þá munu þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir leiða til fjölbreyttari landbúnaðar og aukins framboðs á íslenskum gæðaafurðum. Þá mun frumvarpið, verði það að lögum hafa nokkur áhrif á starfsemi Matvælastofnunar sem heldur utan um greiðslur til bænda, þar sem mælt er fyrir um ný framlög í samningunum sem munu leiða til aukinna verkefna fyrir stofnunina í uppfærslu kerfa og aukins utanumhalds með greiðslum til framleiðenda.
Virðulegi forseti.
Þær raddir heyrast gjarnan að ekki þurfi að styðja við íslenskan landbúnað. Hann verji sig sjálfur. Í þessu sambandi er rétt að muna að vegna legu Íslands á norðurhveli jarðar eru framleiðsluskilyrði erfiðari en í nágrannalöndum okkar. Viljum við vera sjálfbær í okkar matvælaframleiðslu og styðja við þá heilnæmu framleiðslu matvæla sem hér er.
OECD gefur árlega út lista yfir framleiðslustuðning (PSE, Producer Support Estimate) en það er mælieining yfir heildarstuðning við landbúnaðinn, bæði beinn stuðningur og svo markaðsstuðningur sem fellst í tollum á innflutningi. Árið 2014 var þessi stuðningur mældur hjá Íslandi 48% en löndin sem voru fyrir ofan okkur voru Noregur, Sviss, Kórea og Japan. Af þessu sést að stuðningur líkt þenkjandi ríkja er algengur og einkum á þeim svæðum þar sem framleiðsluskilyrði landbúnaðar eru erfið. Þá er vert að geta þess að Finnar hafa tímabundna heimild frá Evrópusambandinu sem endurnýja þarf reglulega, til að styrkja sinn landbúnað umfram það sem sambandið leyfir.
Virðulegi forseti.
Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu frumvarpsins og legg til að því verði vísað til annarrar umræðu og hæstvirtrar atvinnuveganefndar.