Ávarp ráðherra á ársfundi Samáls, 18. maí 2016
ATH: Talað orð gildir
Kæru
fundargestir,
Það er mér ánægja að vera með ykkur hér í dag á ársfundi Samáls sem haldinn er undir yfirskriftinni „Grunnstoð í efnahagslífinu“. Þessi yfirskrift á afar vel við því framleiðsla áls á Íslandi er sannarlega ein af mikilvægustu grunnstoðum í okkar efnahagslífi.
Það var stór viðburður í atvinnusögu Íslands þegar Ísal, fyrsta álverið á Íslandi, hóf starfsemi í Straumsvík árið 1969 með 33 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Íslendingar voru stoltir af þessu iðjuveri sem setti alþjóðlegan brag á fábrotið atvinnulífið. Það var einnig mikilvægur vitnisburður um framfrahug þjóðarinnar þar sem það stóð reisulegt við Reykjanesbrautina á leiðinni frá alþjóðaflugvellinum til höfðuborgarinnar.
Mikið vatn er til sjávar runnið síðan þá og hefur framleiðsla áls hér á landi 25-faldast og er nú um 800 þúsund tonn sem nemur um 1,7% af heimsframleiðslu áls. Það er ekki lítið framlag fámennrar þjóðar.
Ál- og orkuiðnaðurinn hefur á þessum tæpu 50 árum treyst grundvöll íslensks efnahagslífs svo um munar, aukið verðmætasköpun í landinu og gert okkur betur kleift að takast á við ytri aðstæður og sveiflur í efnahagslífinu.
Álframleiðsla á Íslandi, sem er svo langt frá helstu mörkuðum, hefur vakið upp spurningar hjá gestkomandi um forsendur staðsetningarinnar. Hún hefur, eins og við vitum öll, í gegnum tíðina fyrst og fremst byggst á nægu framboði endurnýjanlegrar raforku sem fengist hefur á samkeppnishæfu verði. Þetta skýrir hvers vegna að 70% af þeim 18 teravattsstundum af raforku sem nú eru framleidd á ári fer til áliðnaðar.
Í skýrslu um stöðu raforkumála, sem ég lagði nýverið fyrir Alþingi, kemur fram að raforkunotkun og eftirspurn eftir raforku er í stöðugum vexti, bæði hvað varðar ný stóriðjuverkefni, en ekki síður aðra almenna notkun til dæmis á sviði ferðaþjónustu og gagnavera. Samhliða þessari þróun fer raforkuverð hækkandi, í samræmi við lögmál markaðarins. Það eru því að einhverju leyti breyttir tímar frá því sem var á síðustu áratugum þegar raforkuframleiðslan óx ekki línulega heldur í stökkum sem tengdust einstaka stóriðju verkefnum.
Samkvæmt Orkuspá mun eftirspurn eftir raforku halda áfram að vaxa jafnt og þétt á næstu árum og áratugum. Með einhverjum hætti þarf að mæta þessari þróun með ábyrgum hætti og tryggja aukið framboð nýrrar raforkuvinnslu á Íslandi, ekki bara til skemmri tíma heldur með langtíma hugsun. Ábyrgð Alþingis er því mikil í haust þegar tillögur verkefnisstjórnar 3. áfanga Rammaáætlunar verða lagðar fyrir þingið. Það kemur þá væntanlega í hlut nýrrar ríkisstjórnar að afgreiða þá tillögu til þingsályktunar.
Kæru fundargestir,
Það hefur verið kappsmál íslenskra stjórnvalda alla tíð frá því að Ísal hóf starfsemi sína að hér á landi sköpuðust forsendur fyrir alvöru úrvinnsluiðnað sem nýtti framleiðslu álveranna og skyti enn frekari og fleiri stoðum undir okkar atvinnulíf. Ótal hugmyndir um slíkan úrvinnsluiðnað hafa komið fram og tilraunir hafa verið gerðar til þess að hrinda þeim í framkvæmd, en segja má að ekki hafi nægilega mikið áunnist í gegnum tíðina. Hvers konar þjónustustarfsemi hefur þó alla tíð blómstrað í nálægð iðjuveranna, t.d. vélsmíði og vélaviðgerðir.
Eins og formaður gat um hefur verið brotið blað í þessum efnum með tilkomu Álklasans. Þá var blásið til sóknar í sköpun nýrrar þekkingar og nýrra afurða og þjónustu á sviði efnistækni og áls. Með álklasanum hafa skapast tækifæri fyrir framsækið rannsókna- og þróunarstarf með auknu samstarfi fyrirtækja og háskóla og öflugri þátttöku stofnana.
Ég get sem dæmi nefnt að í tilefni af stofnun álklasans og fyrirhugaðrar sólar-kísilverksmiðju Silicor á Grundartanga, var sett á fót ný áætlun hjá Tækniþróunarsjóði á sviði efnistækni sem stuðla á að auknu nýsköpunar- og þróunarstarfi innan greinarinnar. Það er einlæg von mín að sú áætlun hafi nýst því veigamikla rannsóknar og þróunarstarfi sem aðilar álklasans hafa ástundað.
Hér á eftir munum við heyra frá Guðrúnu Sævarsdóttur, forseta tækni- og verkfræðideildar HR. Hún mun ræða framtíð menntunar í efnisverkfræði á háskólastigi. Þar hafa álfyrirtækin í landinu lagt sitt af mörkum, m.a. með því að styrkja fundaraðir, og ber að fagna því. Stjórnvöld gegna auðvitað mikilvægu hlutverki í að gera háskólana samkeppnishæfa í rannsóknum og á síðustu árum hefur ýmislegt áunnist í þeim efnum. Mikilvægt er að við höldum áfram á þessari braut og eflum samstarfið milli atvinnulífsins og háskólanna enn frekar. Áliðnaðurinn er skínandi dæmi um gagnkvæman ávinning af slíku samstarfi.
Í lok síðasta árs lagði ég fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um nýfjárfestingar. Þessi stefna hefur nú verið samþykkt á Alþingi. Þar er meðal annars lögð sérstök áhersla á að styðja við þau fyrirtæki sem fyrir eru í landinu og að efla virðisaukandi afleidda starfsemi hjá þeim, með margföldunaráhrif í huga (það sem á enskri tungu er kallað „spin off“). Er þetta í fullu samræmi við áherslur þær sem komu fram á sínum tíma í skýrslu McKinsey um sóknarfæri Íslands til framtíðar sem og vinnu Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.
Áframvinnsla áls er eitt besta dæmið um þetta „spin off“ og er í athugasemdum við þingsályktunartillöguna sérstaklega fjallað um álklasann í þessu samhengi, sem veigamikið skref í þá átt að til verði fleiri þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki sem tengjast áliðnaðinum. Tækifæri okkar á þessu sviði eru nánast óþrjótandi með þá öflugu frumkvöðlastarfsemi og rannsóknar og þróunarstarf sem byggt hefur verið upp í landinu á undanförnum árum.
Kæru fundargestir,
Af gildri ástæðu eru loftlagsmál mjög í brennidepli þessa dagana. Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember skipaði Ísland sér í hóp þeirra þjóða sem setja sér metnaðarfull markmið um 40% minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030.
Tölurnar sýna að íslensku álfyrirtækin eru í fremstu röð á sviði umhverfis- og öryggismála, eins og hér var getið um áðan, og fyrirtækin hafa lagt út í miklar fjárfestingar til að ná þeim árangri. Þar gegnir íslenskt hugvit og verkþekking veigamiklu hlutverki. Tölurnar sýna svo um munar að þetta hefur skilað árangri, en losun gróðurhúsalofttegunda fyrir hvert framleitt tonn hefur dregist saman um 75% frá 1990.
Á sviði loftslagsmála er fjölmargt sem Íslendingar hafa fram að færa einkum varðandi endurnýjanlegra orkuframleiðslu og orkunýtingu. Það vill stundum gleymast í umræðunni hversu endurnýjanleg orka á Íslandi skilar miklum ávinningi til umhverfis- og loftlagsmála heimsins.
Einhverra hluta vegna er sparnaður í losun gróðurhúsalofttegunda ekki alltaf tekinn með í reikninginn þegar mat er lagt á ávinning virkjanakosta eða stóriðju á Íslandi. Þetta á sannanlega við um áliðnaðinn í hinu stóra samhengi. Árlegur sparnaður í losun með nýtingu endurnýjanlegrar orku á Íslandi er 18 milljón tonn af CO2. Til að setja það í samhengi þá jafngildir þetta 9 milljörðum trjáa í bindingu á CO2, eða 43 þúsund ferkílómetrum af skógi sem myndi dekka um það bil helming Íslands.
Þetta samspil loftlagsmála og endurnýjanlegrar orku er að mínu mati of lítið rætt og er ástæða til að hvetja Samál og fleiri sem að taka þátt í þessari umræðu til að taka virkan þátt í því og setja hlutina í stóra samhengið.
Kæru fundargestir,
Ég vil að lokum nefna það góða samstarf sem við höfum átt á síðustu misserum við Samál og fleiri aðila um yfirferð á því regluverki sem stóriðja á Íslandi býr við. Brýnt er að starfsumhverfi þessara fyrirtækja, eins og annarra fyrirtækja á Íslandi, sé samkeppnishæft við starfsumhverfi í nágrannalöndum okkar. Flutningur á raforku spilar eðli máls samkvæmt stórt hlutverki í rekstri álfyrirtækja. Ég hef áður komið inn á mikilvægi uppbyggingar á flutningskerfi raforku á næstu árum og ætla ekki að endurtaka þau orð hér.
Ég vil hins vegar ítreka að mikilvægt er að regluverk okkar, þar með talið tekjumörk sem Orkustofnun setur flutningsfyrirtækinu Landsneti, virki sem hvati til að efla samkeppnishæfni orkuiðnaðar á Íslandi.
Í því skyni höfum við nýlega hafið greiningu sem felur meðal annars í sér skoðun á framtíðarfyrirkomulagi í orkuflutningum og samanburð á flutningskostnaði raforku á Íslandi og í Noregi. Íslenskur áliðnaður er sem áður segir ein af megin grunnstoðum í efnahagslífi Íslands og því leggja stjórnvöld, hér eftir sem hingað til, áherslu á það að leggja sitt af mörkum til að skapa þeirri stoð samkeppnishæft og traust rekstrarumhverfi.
Kæru fundarmenn,
Við eigum áhugaverða fyrirlestra fyrir höndum hér í dag. Einnig tek ég undir með formanni spenning minn yfir því að sjá sýninguna frá Málmsteypunni Hellu hér að fundi loknum. Þetta er sannarlega skemmtilegt fyrirtæki, sannkallað fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað fyrir miðbik síðustu aldar árið 1949 og vinnur ýmsa hluti úr áli og fleiri málmum. Það verður sannarlega spennandi að skoða það.
Ég vil að lokum þakka stjórn og starfsfólki Samáls fyrir gott samstarf og hlakka til frekari samstarfs við þennan mikilvæga iðnað – eina af grunnstoðunum í íslensku efnahagslífi.