Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. nóvember 2016 MatvælaráðuneytiðRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2013-2017

Ræða á málþingi um fjárfestingar á Íslandi, 11. nóvember 2016

ATH: Talað orð gildir

Kæru fundargestir,

"Allt umhverfi fyrir erlendar fjárfestingar hér á landi hefur gjörbreyst í frelsisátt, hvort sem um er að ræða löggjöf eða önnur efnahagsleg atriði. Nú hljóðar lagatextinn þannig að í megindráttum er öll fjárfesting erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri leyfileg, nema í sérstökum undantekningar tilfellum svo sem í veiðum og vinnslu sjávarafurða. Er þetta mikil breyting frá þvi sem var. Stefna núverandi ríkisstjórnar Íslands er skýr: Vinna skal að frekari erlendri fjárfestingu í atvinnulífinu, m.a. með því að efla markaðsstarfsemi og endurskoða lög um erlenda fjárfestingu. Á nýliðnum árum hafa íslensk stjórnvöld því tekið við sér í takt við það sem er að gerast annars staðar í heiminum og brugðist við kröfum nútímans um auðveldari viðskipti landa á milli".

Þar sem ég fer bráðlega að ljúka störfum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra þá ver ég dögunum núna í það bráðskemmtilega verkefni að taka til á skrifborðinu mínu. Og þar kennir ýmissa grasa. Ég rakst til dæmis á bókargrein sem ég skrifaði fyrir 20 árum, áður en ég hóf afskipti af stjórnmálum. Greinin fjallaði um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri - nátengt efni okkar hér í dag. Ég nefni í greininni að þeir dagar séu liðnir þegar litið var á erlendar fjárfestingar sem ógn við sjálfstæði ríkisins og öll löggjöf var sniðin að því að halda útlendingum frá. Málefnið er mér nú jafnhugleikið og þá. En tilvitnunin hér að framan er sem sagt 20 ára gömul.

Þá hrósaði ég þáverandi stjórnvöldum fyrir að hér á landi hefði lagaumhverfið breyst í frelsisátt. Væntingar mínar til erlendrar fjárfestingar voru þá að fá inn fjármagn í atvinnulífið, að erlend fyrirtæki myndu flytja inn nýja þekkingu til landsins, stjórnunar- og markaðsþekkingu auk tengsla og aðgengi að nýjum mörkuðum.  

Ég er ennþá þessarar sömu skoðunar. Það er mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma reyni að búa þannig um hnútana að hér geti starfað öflug alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Og alþjóðlega samkeppnisumhverfið tekur breytingum og því þurfum við alltaf að vera á tánum.

Virði alþjóðageirans í íslensku atvinnulífi er enn of lítið  ef miðað er við önnur Norðurlönd, við ættum við að geta tvöfaldað virði þess með réttum aðgerðum. Ekki má gleyma því að nýfjárfestingar stuðla að aukinni samkeppnishæfni þjóða, en þær bera m.a. með sér nýjungar í framleiðslu og stjórnun sem geta stuðlað að aukinni framleiðni, öflugri útflutningi og hærra þekkingarstigi.

En hvar erum við stödd í dag - er gott að fjárfesta á Íslandi?

Á undanförnum árum höfum við lagt ríka áherslu á að gera Ísland að eftirsóknarverðari fjárfestingarstað. Með það að markmiði lagði ég fram tillögu til þingsályktunar sem varðaði stefnu um nýfjárfestingar sem var samþykkt  á Alþingi síðasta vetur.

Með samþykkt hennar voru lagðar skýrar línur um hvernig nýfjárfestingar við viljum laða til landsins. Mikil samkeppni er á meðal ríkja um að laða til sín nýfjárfestingar og því mikilvægt fyrir okkur að koma okkur saman um hvaða stefnu skuli fylgt og hvaða tækjum skuli beitt.

Til þess að auka enn frekar samkeppnishæfni okkar Íslendinga geta ívilnanir verið nauðsynlegar. Við störfum í samkeppnisumhverfi og flest þeirra ríkja sem við berum okkar saman við hafa um áratuga skeið beitt ýmis konar ívilnunum til þess að hvetja til nýfjárfestinga og beina þeim á tiltekin svæði.

Ég er persónulega þeirrar skoðunar að best væri að vera án slíkra ívilnana og að við ættum frekar að stefna að einföldu skattkerfi með lágum sköttum og fáum undanþágum til þess að tryggja samkeppnishæfni okkar. Jómfrúarræða mín á Alþingi fyrir næstum 10 árum fjallaði m.a. um þetta, en þá fagnaði ég því að álverið í Straumsvík hafði óskað eftir því að losna undan þeim sérsamningum sem það hafði haft í næstum 40 ár.

En við erum ekki komin þangað og þess vegna er ég einnig þeirrar skoðunar að þar til því markmiði verður náð þurfum við, eins og aðrar þjóðir að beita þeim sömu aðferðum og aðrar þjóðir sem við keppum um nýfjárfestingar um.

Með það að markmiði að skapa skýran almennan lagaramma utan um nýfjárfestingar og þær ívilnanir sem þar eru í boði lagði ég fyrir tveimur árum fram á Alþingi frumvarp til laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga og tóku ný lög gildi um mitt ár 2015. Með þeim er heimilt að veita ívilnanir til verkefna í formi afslátta af sköttum og gjöldum að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Núgildandi rammalöggjöf er gegnsæ, almenn og skilvirk, og ívilnanir á grundvelli hennar eru aðeins til skamms tíma.

Einn lykilþáttur í því að skapa fyrirtækjum og fjárfestum gott umhverfi hér á landi er fyrirsjáanleiki og stöðugleiki. Það er afar mikilvægt að fyrirtæki og fjárfestar geti verið viss um að ekki verði gerðar stórkostlegar breytingar á starfsumhverfi þeirra með skömmum fyrirvara.

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum áratugum, eins og fram kom í hinni 20 ára gömlu grein sem nefnd var hér áðan, lagt sig fram um að tryggja þann fyrirsjáanleika og stöðugleika, bæði með lagasetningu og í öðrum samskiptum. Að stærstum hluta hefur það gengið vel.

Ég verð þó - kannski sem víti til varnaðar - að nefna við ykkur hnökra sem upp hafa komið nýlega við eitt stærsta fjárfestingarverkefni síðari ára – sem er bygging kísilvers PCC í landi Bakka á Húsavík. Framkvæmd sem á sér upptök á síðasta (eða núna þarsíðasta) kjörtímabili og hefur verið heimiluð með sérstökum lögum og fjárveitingum frá Alþingi í tíð tveggja ríkisstjórna.

Bygging kísilversins er langt komin, Þeistareykjavirkjun er að verða tilbúin, búið er að byggja jarðgöng, leggja vegi, bæta hafnaraðstöðu og fleira þegar framkvæmdir við raflínulagnir sem tengja virkjunina við verksmiðjuna eru stöðvaðar. Það er afar skaðlegt fyrir alla aðila þegar upp koma, á síðustu metrum verkefnisins, álitamál eins og gerðist þar. Álitamál sem leiddu til afturköllunar framkvæmdaleyfa og stöðvunar framkvæmda sem settu allt verkefnið í uppnám.

Bakslag sem þetta getur haft slæm áhrif á önnur verkefni, ímynd landsins og að sjálfsögðu verkefnið sjálf.

Ég hef haft forgöngu um að kæruferlar og álitamál tengd leyfisveitingum vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku séu færð framar í ferlið, með það fyrir augum að tryggja fyrirsjáanleika og skýrleika. Var það síðast gert með breytingu á raforkulögum árið 2015 vegna kerfisáætlunar flutningsfyrirtækisins.  En það dugar greinilega ekki að gera einungis umbætur á einu málefnasviði þegar framkvæmdir falla undir fleiri málefnasvið og bæði stjórnsýslustigin.

Þau álitamál og vandkvæði sem komu upp í Þingeyjasýslum sýna svo ekki verður um villst að við þurfum að fara ítarlega yfir fleiri atriði sem snerta slíkar stórframkvæmdir, t.a.m. þau er varða skipulagsmál og leyfisveitingar. Ég lagði því nýlega til í ríkisstjórn að komið yrði á fót starfshópi sem færi heildstætt, þvert á ráðuneyti yfir verkferlana við útgáfu leyfa vegna lagningar raflína. Markmiðið er að gera ferlið skilvirkara, einfaldara, traustara, fyrirsjáanlegra og gagnsærra, án þess þó að gefa afslátt af eðlilegum og nauðsynlegum kröfum til slíkra framkvæmda m.a. út frá sjónarhóli náttúruverndar. Er sú vinna þegar hafin.

Góðir gestir,

Á síðustu árum hefur áherslan ekki verið eingöngu á stór iðnaðarverkefni. Fjárfestingar hafa t.a.m. aukist mikið í kvikmyndagerð með tilheyrandi auknum tekjum inn í landið og fjölda nýrra heilsárs starfa.

Frá því 1999 hefur verið hér við lýði endurgreiðslukerfi/ívilnunarkerfi vegna kvikmyndagerðar og síðastliðið vor samþykkti Alþingi frumvarp að minni tillögu þess efnis að endurgreiðslur vegna framleiðslukostnaðar kvikmynda myndu hækka úr 20% í 25%. Lögin taka gildi 1. janúar n.k. og með þeim verður Ísland enn eftirsóknarverðara og enn samkeppnishæfara sem tökustaður fyrir erlend kvikmyndaverkefni.

Þennan mælanlega árangur og reynslu úr kvikmyndageiranum viljum við spegla yfir í aðra geira, t.a.m. tónlistargeirann. Íslenskir tónlistarmenn hafa getið sér gott orð út um allan heim og er íslensk tónlist fyrir löngu orðin að öflugri útflutningsvöru. Á síðustu dögum þingsins voru að minni tillögu samþykkt ný lög um samskonar endurgreiðslur vegna hljóðritunar tónlistar og við höfum haft vegna kvikmyndagerðar.

Með þessu er ætlunin að ýta enn frekar undir vöxt í tónlistariðnaði, skapa hér grundvöll fyrir enn frekari fjárfestingar og enn fleiri störf, líkt og við höfum séð í kvikmyndaiðnaði.

Ég er sannfærð um að ávinningurinn verður mikill fyrir þjóðarbúið og að þessi aðgerð muni styðja svo um munar við íslenskan tónlistariðnað og ekki síður aftur yfir í íslenskan kvikmyndaiðnað með vinnslu á tónlist fyrir kvikmyndir.

Góðir gestir,

Á kjörtímabilinu hefur verið ráðist í umfangsmikla vinnu sem miðar að aukinni skilvirkni í fjármögnunarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Hér erum við auðvitað með það að markmiði að gera okkur enn samkeppnishæfari.

Ber þar hæst að nefna stóraukin framlög til Tækniþróunarsjóðs og hefur sjóðurinn nú til ráðstöfunar rúma 2,3 milljarða króna.

Við höfum markvisst beitt okkur fyrir breytingum á lagaumhverfinu þannig að það styðji betur við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og eitt af því sem ég er stoltust af er „Hnappurinn“, en hann einfaldar ársreikningaskil fyrir um 80% íslenskra fyrirtæka, gerir þau rafræn og lækkar kostnað umtalsvert.

Endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar hafa einnig verið auknar og ýmsir skattalegir hvatar hafa verið innleiddir.

Stærsta áskorun íslensks atvinnulífs á komandi árum er að takast á við landlæga lága framleiðni. Sögulega hefur íslenska hagkerfið verið of auðlindadrifið og of mikil áhersla lögð á frumframleiðslu hráefna sem flutt eru út til frekari úrvinnslu ofar í virðiskeðjunni þar sem meiri virðisauki verður til.

Sjávarútvegurinn er hér undantekning en þar hefur nýsköpun gengt lykilhlutverki í þróun nýrra framleiðsluaðferða og nýtingar hliðarafurða sem aukið hafa heildarverðmæti sjávarfangs gríðarlega þrátt fyrir samdrátt í afla.  Með aukinni áherslu á hugvit og nýsköpun eru mikil tækifæri til þess að vinna upp á móti því. Við verðum aldrei stærst – en við getum orðið snjöllust.

Til að ná markmiðinu um að verða þau snjöllustu er mikilvægt að móta og innleiða stefnu um hvar hægt er að gera betur í lagaumhverfinu og í formi bættrar nýtingar á auðlindum, hönnunar eða tækni.  Einnig þarf að leggja áherslu á hugvits- lista- og skapandi greinar í menntakerfinu. Þannig má byggja brýr á milli þeirra ólíku greina með þverfaglegu samstarfi.

En kæru gestir,

Við áðurnefnda tiltekt á skrifborði mínu fann ég annað merkilegt plagg. Handbók Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1949 sem mér var færð að gjöf í upphafi kjörtímabils. Þar segir:

,,Sjálfstæðisflokkurinn hafði forystu um nýsköpun atvinnuveganna í fyrrverandi ríkisstjórn. Núverandi stjórn hefur haldið nýsköpuninni áfram eftir fyllstu getu í fjárhags- og gjaldeyrismálum. Þannig hafa Íslendingar í dag eignast fullkomin og nýtísku tæki, sem geta skapað vinnu fyrir alla og blómlegt atvinnulíf. Þessa nýju og miklu möguleika verður þjóðin að hagnýta með því að atvinnuvegirnir, sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður fái eðlileg starfsskilyrði. Til þess þarf hallalausan búskap ríkissjóðs, baráttu gegn verðbólgunni, frjálsa verslun sem allra fyrst, afnám haftanna og aukið athafnafrelsi.“

Þegar mér var gefið þetta ágæta rit árið 2013 og ég las þessi orð fannst mér sláandi að í raun værum við aftur á sama stað, með sama verkefnalistann og fyrir rúmum 70 árum.

En hvar stöndum við nú að kjörtímabili loknu?

Á undanförnum árum hefur orðið alger efnahagslegur viðsnúningur á Íslandi og þær áskoranir sem ný ríkisstjórn mun standa frammi fyrir eru af allt öðrum toga en við stóðum frammi fyrir þremur árum. Í dag er atvinnulífið í mikilli sókn, atvinnuleysi er nánast ekkert og gjaldmiðillinn sterkur. Það er nánast sama hvaða hagvísar eru skoðaðir – Ísland er í eftirsóknarverðri stöðu.

Og það er gríðarlega mikilvægt. Við erum í þeirri stöðu að við getum tekið ákvarðanir á okkar forsendum. Við höfum val og eigum að vanda okkur. Þegar kemur að fjárfestingum viljum ekki bara "eitthvað" – við viljum nýfjárfestingu sem hefur sem mest jákvæð áhrif fyrir atvinnulíf, samfélag og umhverfi. Við viljum nýfjárfestingu sem fjölgar tækifærum, eykur þekkingu og fjölbreytileika íslensks atvinnulífs.

En við verðum líka að hafa í huga að forsendan fyrir öflugri og skapandi nýsköpun er - að bæði fjárfestirinn og samfélagið þar sem fjárfestingin á sér stað njóti góðs af. Þetta er ekki bara okkar ákvörðun – það þarf tvo til.

Í þeim samningum höfum sterk spil á hendi. Hreina raforku, öfluga innviði, landgæði, hreint vatn og gott samfélag – þetta eru gæði sem ekki allar þjóðir búa yfir. Hingað eiga fyrirtæki að vilja koma vegna þess að hér sjá þau hagsmunum sínum best borgið.  Og okkar hagsmunir eru ennþá þeir sömu og listaðir voru í 20 ára gömlu greininni - að laða hingað til lands fjárfestingu sem kemur með nýja þekkingu, hugvit, tengsl og markaði. Við þurfum að vita hvað við viljum.

Þetta mat þarf sífellt að vera að endurskoða. Til dæmis var áhersla okkar upp úr síðustu aldamótum á að laða hingað til lands gagnaver. Þar náðist verulegur árangur og nú er svo komið að hér starfa nokkur gagnaver við góðan orðstír og Ísland er komið á kortið sem ákjósanlegur staður fyrir gagnaver. Þá má beina kröftunum annað.

Heimurinn er í reynd eitt markaðssvæði þar sem að lönd keppa sín á milli um að bjóða þegnum sínum sem best lífsgæði. Öflugt og framsækið atvinnulíf sem er í sátt við náttúru og þjóðfélag er undirstaðan sem allt hvílir á. Á því byggjum við velferðina sem er svo eftirsóknarverð og tryggir að hér vilja börnin okkar velja sér sinn starfsvettvang og sína framtíð.

Og við sjáum nú – að höfum við verið á árinu 1949 í byrjun kjörtímabilsins þá erum við sannarlega komin einhverjum áratugum framar í dag.

Það er gott að fjárfesta á Íslandi í dag og margir áhugaverðir hlutir að gerast.

Við þurfum að vita hvert við viljum fara. Ég sé ekki fyrir mér að áherslan í nýfjárfestingum, verði í stóriðju eða orkufrekum iðnaði á næstu árum, heldur miklu fremur í hugverkadrifnum iðnaði, nýsköpun, tæknigeiranum, lyfjageiranum, upplýsingatækni og umhverfistengdum iðnaði.

Mínar ráðleggingar til þess sem tekur við keflinu af mér eru því að taka þétt utan um nýsköpunargeirann í landinu og hlúa að honum af alúð og þrautseigju því þar liggja sprotarnir fyrir stóru fjárfestingar framtíðarinnar. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta