Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. nóvember 2016 MatvælaráðuneytiðGunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2016-2017

Ræða á sjávarútvegsráðstefnunni, 25. nóv. 2016

Góðir tilheyrendur.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það lofsverða framtak að standa ár eftir ár fyrir þessari ráðstefnu um sjávarútvegsmál. Hingað er stefnt öllum þeim sem með einum eða öðrum hætti koma að þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar - og hér eru málin skoðuð og rædd frá öllum hliðum.

Auðvitað eru ekki allir á einu máli. Skoðanaleysi hefur víst aldrei verið einkennismerki þeirra sem starfa í sjávarútvegi. En þeim mun mikilvægara er að eiga þennan vettvang fyrir umræðu, fræðslu og skoðanaskipti.

Sá sem að öllu ræður bjó þannig um hnútana í árdaga - að í hafinu kringum Ísland takast á tveir meginstraumar. Árekstur hlýs Golfstraumsins að sunnan við kalda Norður-Íshafs strauma skapar hér kjöraðstæður fyrir lífríki hafsins og fiska af flestum gerðum.

Rétt eins og straumar hafsins róta upp næringu og bjóða öllu lífkerfinu til veislu – þá er verðmætið í þessari ráðstefnu fólgið í hreyfiaflinu sem fylgir því þegar einstaklingar koma, hver úr sinni áttinni, til að ræða saman, skiptast á hugmyndum þvert á skoðanir og hagsmuni, fræðast og treysta ný og gömul vináttu- og viðskiptabönd.

Íslenskur sjávarútvegur er í öfundsverðri stöðu og sóknarfæri hans eru mikil. Við erum farin að skilja betur hve víðfemur sjávarútvegurinn er í reynd og hve víða í atvinnulífinu hann kemur við sögu.

Okkur er að lærast betur mikilvægi þess að ólík fyrirtæki leggi saman í púkk og bæti hvert annað upp með vöruþróun og nýsköpun. Það er nefnilega þetta með gildi samvinnunnar sem að við framsóknarmenn höfum alltaf verið dálítið veikir fyrir.

Afraksturinn af þessu samtali og samvinnu ólíkra fyrirtækja og frumkvöðla er - að verðmæti hvers fisks sem kemur að landi hefur á undanförnum misserum og árum stóraukist, og á eftir að aukast enn frekar. Það magnaða er að sjávarútvegurinn er að skapa gríðarleg verðmæti úr því sem áður var kallað slor og slóg. Það er nánast búið að útrýma hugtakinu fiskúrgangur – allt eru þetta verðmæti.

Þessi breyting er tímanna tákn – og er jafnframt skýrt dæmi um þá óendanlegu möguleika sem búa í hinu hratt vaxandi lífhagkerfi. Við höfum ótal sjávarútvegstengdar sigursögur af þessum vettvangi - og það er sameiginlegt með mörgum þeirra að Sjávarklasinn blandast inn í þær með einum eða öðrum hætti. Án þess að ég ætli mér að gera Sjávarklasann að hinni nýju samvinnuhreyfingu - þá stendur sá ágæti klasi fyrir margt það besta í samvinnu fyrirtækja, nýsköpun og frumkvöðlastarfi.

Við Íslendingar getum líka glaðst yfir því að flestir af okkar mikilvægustu fiskistofnum eru sterkir. Þessi staða er hins vegar langt frá því að vera sjálfgefin. Þetta byggir á því að við tókum ákvörðun um það hvernig haga skyldi nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Grunnurinn sem allt byggist á eru þau bestu vísindi sem við höfum yfir að ráða. Það er ekki lítil ábyrgð sem hvílir á Hafrannsóknarstofnun.

Ábyrgð okkar stjórnmálamanna og sjávarútvegsins alls er hins vegar að halda kúrs og nýta vísindin okkur til ráðgjafar. Okkar hlutverk er að leita allra leiða til að gera sem mest verðmæti úr því magni sem náttúran skammtar okkur. Þessu er hins vegar á annan hátt farið þegar kemur að mörgum fiskistofnum sem að við nýtum og berum sameiginlega ábyrgð á með grannþjóðunum. Í of mörgum tilvikum hefur ekki skapast sátt milli þjóða um ábyrga nýtingu sem byggist á vísindalegum grunni og afleiðingin er að við horfum upp á óábyrgar veiðar sem eru langt umfram það sem vísindin ráðleggja. Það eru til dæmis gífurleg vonbrigði að það skuli ekki vera neinn alþjóðlegur samningur í gildi um nýtingu uppsjávarstofna í Norður Atlantshafi.

Annað dæmi sem ég vil nefna er um veiðar á karfa á Reykjaneshrygg. Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins er skýr - engar veiðar næstu tvö árin. Á samningafundi fyrr í mánuðinum studdum við Íslendingar þessa tillögu heilshugar. Engu að síður stefnir í ofveiði á karfa á Reykjaneshrygg Þar sem t.d. rússar hafa ákveðið að taka sér einhliða 25 þús. tonna kvóta. Þetta er auðvitað óþolandi ástand og þjóðir heims verða hreinlega að sýna meiri ábyrgð.

Þrátt fyrir að staða íslensks sjávarútvegs sé að flestu leyti sterk þá megum við aldrei sofna á verðinum – það koma alltaf upp nýjar áskoranir.

Sá algeri efnahagslegi viðsnúningur sem að við höfum náð á allra síðustu árum þýðir að íslenska krónan hefur styrkst mikið í samanburði við erlenda gjaldmiðla – og það hefur auðvitað sínar afleiðingar fyrir fiskútflytjendur.

Markaðir eru jafnan síkvikir og það er eilífðarverkefni að standa vörð um þá markaði þar sem að staða okkar er sterk – og jafnframt að sækja fram á nýjum mörkuðum. Þessu tengt þá get ég ekki sleppt því að fara nokkrum orðum um viðskiptabann Rússa - þar sem að það var til umræðu hér við setningu ráðstefnunnar í gær. Í mínum huga snýst þetta mál um trúverðugleika. Við byggjum okkar velsæld – og við byggjum okkar fiskveiðar og sjávarútveg á þeim grunni að alþjóðalög og samninga beri að virða. Engin ríki eru eins háð því að þessi lög og samningar séu virtir og smáríki líkt og Ísland. Ef við ætlum einungis að trúa á slíka samninga þegar það er okkur í hag en hlaupast undan merkjum ella – þá getum við ekki vænst stuðnings frá öðrum ef á okkur verður brotið.

Leikreglur sjávarútvegsins eru eitt af „erfiðu“ málunum í stjórnarmyndunarviðræðum undanfarinna - og komandi vikna.

Sjómenn vita það öllum betur að veður geta fljótt skipast á lofti og það veit enginn hver stefna næstu ríkisstjórnar verður varðandi sjávarútveginn. Það verður að athuga að það umhverfi sem sjávarútvegurinn býr við í dag hefur gífurmikla þýðingu fyrir samfélög og íbúa um allt land. Bein störf í sjávarútvegi eru um 7800 og óbein á þriðja tug þúsunda. Þrátt fyrir allt er greinin enn undirstöðatvinnugrein þjóðarinnar og grunnur nýsköpunar og tækniframfara.

Eitt er að búa við óvissu náttúrunnar en að þurfa sífellt að búa við hótanir stjórnmálamanna um uppstokkun á starfsumhverfinu og stóraukna gjaldtöku er óþolandi fyrir hvaða atvinnugrein sem er. Dettur einhverjum í hug að ofurkælingin sem verðlaunuð var hér í gær gæti orðið til ef Albert og félagar hefðu ekki haft öflug fyrirtæki sem trúðu á þá með sér í liði?Stjórnmálamenn verða að komast útúr frösunum og tala af skynsemi og þekkingu um þennan atvinnuveg okkar.

Það veit enginn hvað morgundagurinn ber í skauti sér – en það veit ég hins vegar fyrir víst að íslenskur sjávarútvegur mun takast af krafti á við hverja þá áskorun sem framundan er og grípa þau tækifæri sem eru við sjónarrönd.

Þess vegna er ráðstefna eins og þessi svo mikilvæg - þrátt fyrir að ágætur sjómaður sem ég ræddi við hafi sagt að svona ráðstefnustúss væri bara þægileg innivinna. En styrkur íslensks sjávarútvegs liggur í því hvað hann er óendanlega fjölbreyttur og hvað margir koma við sögu. Sjómaðurinn, vísindamaðurinn, bílstjórinn, markaðsmaðurinn, fiskifræðingurinn, kokkurinn, rafvirkinn, tölvugaurinn, hönnuðurinn, starfsfólkið í frystihúsinu, verslunarmaðurinn … og á endanum sá sem allt snýst um - sjálfur neytandinn.

Sjávarútvegurinn hefur í gegnum tíðina haft frekar karllæga ímynd þótt að konur hafi borið hann uppi ekki síður en karlar. Sem betur fer sjáum við að hlutur kvenna sem leiðtogar í greininni fer vaxandi. Konur í sjávarútvegi er félagsskapur öflugra kvenna og vil ég nota tækifærið hér til að þakka þeim fyrir sín störf um leið og ég segi frá því að eftir helgina munu forsvarsmenn 500 fyrirtækja í sjávarútvegi fá senda til sín rannsókn sem Konur í Sjávarútvegi standa að og vil ég hvetja alla sem fá könnunin að svara henni um hæl.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum sem hafa setið hér myrkranna á milli síðustu tvo dagana til að ræða sóknarfæri íslensks sjávarútvegs. Fiskurinn er auðlindin í hafinu – en hann væri lítils virði ef við hefðum ekki auðlind á landi til þess að skapa úr honum gæðavörur og verðmæti, landi og þjóð til heilla.

Ráðstefnunni er slitið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta