Ræða ráðherra á ársfundi Samorku, 2. mars 2017
Ágætu fundargestir,
Það er mér ánægja að vera með ykkur hér í dag, á árlegum ársfundi Samorku.
Yfirskrift ársfundarins að þessu sinni er Lífsgæðin í landinu – framlag orku- og veitugeirans.
Það er vel til fundið og ég tel mikilvægt að við minnum okkur á þau lífsgæði sem orku- og veitufyrirtækin í landinu færa okkur. Það er nefnilega svo að í daglegu amstri tökum við þeim oft sem sjálfsögðum hlut. Rafmagnið er á sínum stað í innstungunni, heita og kalda vatnið í krananum og jarðhitinn í ofnunum. Við bara skrúfum fyrir og frá eftir þörfum. Allt til reiðu 24 tíma sólarhrings 365 daga á ári og allt saman af 100% endurnýjanlegum uppruna.
Mín kynslóð hefur alist upp við þetta svona og þekkir í raun ekki annað. Þekkir til dæmis ekki þá tíma í kringum 1970 þegar helmingur húsa á Íslandi var hitaður með innfluttu jarðefnaeldsneyti og rafmagnsleysi var reglulegur viðburður. Í dag er innan við 1% húsa hituð með jarðefnaeldsneyti og rafmagnsleysi er fátítt. Það eru a.m.k. ekki öll heimili tilbúin með kerti og rafhlöður í útvarpið á vísum stað, eins og einu sinni var.
Þessi lífsgæði sem felast í nýtingu náttúrulegra endurnýjanlegra auðlinda okkar eru margvísleg og útilokað að leggja mælistiku á þau. Þau ná jafnt yfir allar þrjár víddir sjálfbærrar þróunar; þ.e. efnahag, umhverfi og samfélag.
Í fyrsta lagi má þannig nefna að efnahagslegur ávinningur af hitaveituvæðingu Íslands, einni og sér, undanfarna áratugi, nemur árlega um 7% af vergri þjóðarframleiðslu (GDP).
Í öðru lagi er umhverfislegur ábati af auknu hlutfalli innlendra endurnýjanlegra orkugjafa óumdeilanlegur, bæði hvað varðar bætt loftgæði og minni losun gróðurhúsalofttegunda.
Í þriðja lagi eru jákvæð samfélagsleg áhrif sýnileg í gegnum til dæmis uppbyggingu á dreifikerfum hitaveitna, vatnsveitna og rafveitna, og jöfnun búsetu og atvinnuskilyrða á landsvísu í gegnum niðurgreiðslur til jöfnunar orkukostnaðar.
Stefán Pálsson, sagnfræðingur með meiru, mun hér á eftir fjalla um „orku og lífskjarabyltingu í Íslandssögu 20. aldar“ og verður fróðlegt að heyra hvernig þessir tveir þættir eru samofnir í sögu Íslands.
En kæru gestir,
Það er ekki þar með sagt að allt sé betra í dag en í gamla daga og að við getum bara hallað okkur aftur í hægindastólnum og dregið yfir okkur teppið. Enn er víða verk að vinna á sviði orkumála og áskoranirnar að mörgu leyti aðrar frá því sem var á síðustu öld.
Efst á blaði eru það loftlagsmálin, og ég ætla hér í dag að fá að gera þau að mínu aðal umfjöllunar efni.
Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að loftlagsmálin eru mál málanna í dag. Samspil loftlagsmála og orkumála felur í sér bæði áskoranir og tækifæri.
Á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur verið ýtt úr vör tveimur mikilvægum verkefnum sem okkur var falið í Sóknaráætlun Íslands í loftlagsmálum, sem samþykkt var í aðdraganda Parísarfundarins í desember 2015.
Annars vegar þriggja ára átaki í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og hins vegar tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um orkuskipti.
Ég lít svo á að við séum í dag komin á „stig tvö“ í orkuskiptum, ef svo má segja. Orkuskipti í húshitun og raforkuframleiðslu eru að mestu leyti búin og tækifærin til frekari orkuskipta liggja fyrst og fremst í samgöngum og þeim iðnaði sem enn notast við jarðefnaeldsneyti. Er þar átt við samgöngur jafnt á landi, hafi og í lofti.
Í lok síðustu viku mælti ég fyrir áðurnefndri tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um orkuskipti. Samkvæmt henni skal vinna að orkuskiptum með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa sem hafi í för með sér orkusparnað, aukið orkuöryggi, gjaldeyrissparnað, minni staðbundna mengun og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Með orkuskiptunum verði enn fremur stuðlað að aukinni nýsköpun og nýrri atvinnustarfsemi sem byggist á sjálfbærri þróun.
Í aðgerðaáætlun um orkuskipti er að því stefnt að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Heildarhlutdeild endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins er um 70%, en í samgöngum á landi er það aðeins 6%. Stefnt er að því að þetta hlutfall, það er að segja hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi, hækki úr 6% upp í 10% fyrir árið 2020 og fari upp í 40% árið 2030. Endurnýjanleg orka sem notuð er á innlendum fiskiskipum er aðeins 0,1% í dag, en stefnt er að 10% hlutfalli fyrir haftengda starfsemi árið 2030.
Ég tel að þarna sé bæði um raunhæf og metnaðarfull markmið að ræða og bind ég vonir við að þetta þingmál fái góðan framgang á Alþingi og að við munum sjá sýnilegan árangur af aðgerðaráætluninni á næstu árum.
Mig langar í þessu samhengi að koma inn á samspil orkuskipta og dreifikerfis raforku. Við verðum að horfast í augu við þá auknu þörf sem er til staðar í uppbyggingu og viðhaldi á flutnings- og dreifikerfi raforku. Ein af forsendum fyrir orkuskiptum er bætt afhendingaröryggi raforku á landsvísu, enda hefur það sýnt sig að nauðsynlegir innviðir þurfa að vera til staðar til að mæta aukinni notkun endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. í tengslum við aukna rafbílavæðingu og raforkunotkun í höfnum.
Við verðum þess vegna að huga betur að samhenginu á milli orkuskipta og nauðsynlegrar uppbyggingar á flutnings- og dreifikerfi raforku. Umræða síðustu ára um uppbyggingarþörf flutnings- og dreifikerfis raforku á það til að snúast um of um stóriðju og möguleg stóriðjuáform. Það er að mínu mati mikil einföldun á staðreyndum.
Aukið afhendingaröryggi raforku snýr að stærstum hluta að heimilum og smærri fyrirtækjum, að jöfnun búsetuskilyrða, jöfnun atvinnutækifæra, og jöfnum möguleikum til orkuskipta á landsvísu. Án fullnægjandi flutnings- og dreifikerfis raforku er þannig tómt mál að tala um áform um orkuskipti á landsvísu. Við verðum því að horfa á þessi mál í samhengi og nálgast þau með ábyrgum hætti til lengri tíma.
Við erum því á réttri leið með orkuskiptin en mikilvægt er að við, í samstarfi við orku- og veitufyrirtæki landsins og aðra hagsmunaaðila, höldum áfram á þessari braut.
Eitt annað varðandi samspil loftlags- og orkumála sem mig langar að nefna. Við skulum ekki gleyma því að loftlagsmálin eru „glóbal“ en ekki „lókal“. Uppsafnaður sparnaður í losun koldíoxíðs á Íslandi á undanförnum 100 árum, vegna notkunar endurnýjanlegrar orku í stað olíu, nemur rúmum 350 milljónum tonna. Þetta jafngildir gróðursetningu trjáa á öllu flatarmáli Frakklands og Bretlands samanlagt. Það vill gleymast í umræðunni að þetta er stærsta einstaka framlag Íslands til loftlagsmála og fjöldamörg tækifæri eru til að halda áfram á þessari braut með vistvænni og ábyrgri nýtingarstefnu. Þetta er meðal annars eitt af því sem við þurfum að hafa í huga þegar við ræðum um Rammaáætlun á Alþingi nú á vormánuðum.
En nóg um það. Það er önnur umræða, og lengri.
Kæru fundargestir,
Ég vil að lokum þakka Samorku kærlega fyrir uppbyggilegt og gott samstarf í gegnum tíðina og lýsi því yfir að við í ráðuneytinu erum ávallt tilbúin að ræða við ykkur um þau mál sem brenna á ykkur frá degi til dags. Ég þakka fyrir mig og óska ykkur alls hins besta í ykkar störfum.