Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. mars 2017 MatvælaráðuneytiðANR Ræður og greinar Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur

Ræða ráðherra á fundi Landsvirkjunar um raforkumarkaðinn, 7. mars 2017

Kæru fundarmenn 

Ég vil þakka Landsvirkjun fyrir að efna til þessa fundar, þar sem kynnt verður áhugaverð skýrsla um fyrirkomulagið á íslenska raforkumarkaðinum og hvernig tryggja megi aukið orkuöryggi fyrir heimili og smærri fyrirtæki í framtíðinni.

Viðfangsefnin í orkumálum eru vissulega margvísleg, en eitt þeirra stendur upp úr í mínum huga, og það er að stuðla að almennari sátt um orkunýtinguna.

Sáttin þarf að byggja á tveimur stoðum. Í fyrsta lagi: að við göngum ekki of nærri náttúrunni. Í öðru lagi: að við höfum skýran ávinning af þeirri nýtingu sem við ráðumst í.

Ábyrg umgengni um náttúruna, annars vegar, og skýr ávinningur, hins vegar, eru þær tvær stoðir sem saman eiga að geta stuðlað að almennri sátt.

Ég tel að við höfum náð ágætum árangri hvað varðar fyrri stoðina, það er að segja: að ganga ekki of nærri náttúrunni. Við höfum innleitt sterk og öflug verkfæri á borð við umhverfismat og Rammaáætlun, sem fela í sér risastór skref í þágu náttúrunnar, ásamt því sem aukin umhverfisvitund almennings og breytt gildismat setja framkvæmdagleðinni sífellt þrengri skorður, að mörgu leyti með réttu.

Í stuttu máli þá verður ekki annað sagt en að við leggjum okkur mjög fram við að kanna til hlítar hvort hægt sé að finna einhverjar ástæður til að virkja ekki.

Þetta er fyrri stoðin undir sáttina. Seinni stoðin, sem lýtur að því að ávinningurinn sé skýr, er ekki beinlínis veik en mætti vera sterkari. Við erum ekki eins dugleg við að greina ávinninginn og halda honum á lofti.

Bein arðsemi sjálfra orkufyrirtækjanna er mikilvægur hluti af þeirri mynd. Við þekkjum umræður um að hún hafi á undanförnum áratugum að jafnaði verið lægri en í ýmsum samanburðarlöndum. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem óþarft er að rekja hér, en aðalatriðið er að Landsvirkjun stefnir nú að því að geta innan fárra ára greitt ríkissjóði tíu til tuttugu milljarða króna í arð á ári.

Afkoma orkufyrirtækjanna er þó aðeins hluti af heildarmyndinni. Á ársfundi Samorku í síðustu viku kynnti Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, fróðlega úttekt sem hún og kollegar hennar gerðu á ávinningi landsmanna af nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Þarna var enn og aftur staðfest, að verð á rafmagni til heimila er nánast hvergi í Evrópu lægra en á Íslandi. Það gildir hvort sem borið er saman orkuverðið eitt og sér, eða hversu stórt hlutfall rafmagnsreikningurinn er af ráðstöfunartekjum hjóna með meðaltekjur. Dæmigert heimili í Danmörku borgar þannig tvisvar sinnum hærra hlutfall af sínum ráðstöfunartekjum fyrir rafmagn en dæmigert íslenskt heimili, og er þá miðað við að bæði heimilin kaupi jafnmikið rafmagn.

Í þessari úttekt var slegið á fjárhagslegan ávinning reykvískra heimila af lægri samanlögðum kostnaði við rafmagn, húshitun og vatnsveitu, samanborið við höfuðborgir hinna Norðurlandanna. Niðurstaðan var að dæmigert heimili í Reykjavík borgar um 250 þúsund krónur fyrir þessa þjónustu á ári en í Kaupmannahöfn þrisvar sinnum meira eða 730 þúsund krónur. Munurinn er tæp hálf milljón króna á ári.

Þessi ávinningur er lítt sýnilegur fólki og honum mætti halda meira á lofti.

Hitt er svo alveg rétt, að þótt við fögnum flest lágu verði getur það líka skapað ýmsar áskoranir og þarf ekki endilega að vera að öllu leyti skynsamlegt. Út frá hagfræðilegu sjónarmiði kann of lágt verð að leiða til sóunar, og eins og vikið verður að hér síðar á fundinum er sú staða mögulega komin upp á Íslandi, að stórnotendur séu í einhverjum tilvikum farnir að greiða það hátt raforkuverð í samanburði við heimilin að þeir séu hreinlega orðnir eftirsóknarverðari viðskiptavinir.

Það er merkileg niðurstaða og hlýtur að koma mörgum á óvart, ekki síst þeim sem hafa haldið því fram að heimilin séu að niðurgreiða rafmagnsreikning stóriðjunnar. Sú er ekki raunin, en það virðist þurfa að hrekja þann misskilning oftar en einu sinni og jafnvel oftar en tvisvar til að kveða hann niður.

Ég hef aðeins nefnt tvo mælikvarða á ávinning, það er að segja arðsemi orkufyrirtækjanna og lágt verð til almennings, en ávinningurinn kemur fram miklu víðar. Efnahagsleg umsvif stórnotenda koma til dæmis mun víðar fram en í kaupum þeirra á raforku, því hún er bara um það bil helmingur af þeirri vöru og þjónustu sem stóriðjan kaupir af fyrirtækjum hér á Íslandi. Umsvifin – og störfin sem þeim fylgja, bæði bein og afleidd – dreifa sér víða um efnahagslífið og skapa ýmis tækifæri fyrir þróun og nýsköpun sem við erum að nýta sífellt betur.

Enn er ónefndur einn stærsti ávinningurinn, sem eru hin gríðarlega jákvæðu hnattrænu áhrif sem felast í því að nota græna endurnýjanlega orku í stað kola og annars jarðefnaeldsneytis. Frá hnattrænu sjónarmiði er enginn vafi á því að það er jákvætt framlag til loftslagsmála að nýta þessar hreinu auðlindir, vitaskuld innan skynsamlegra marka.

Góðir fundarmenn – ávinningurinn verður að vera raunverulegur og skýr í hugum okkar allra.

Þegar við ökum um veginn sem liggur í gegnum Þingvallaþjóðgarð, einn helgasta stað okkar Íslendinga, sjáum við ekki út um framrúðuna malbikað skemmdarverk á náttúrunni heldur aðferð til að gera okkur kleift að njóta umhverfisins með sem minnstu raski.

Þegar við sjáum vindmyllugarðana vítt og breitt um Evrópu sjáum við ekki lýti á landslaginu heldur áminningu um jákvæða viðleitni okkar til að nota endurnýjanlega orku og leggja þannig góð lóð á vogarskálarnar í loftslagsmálum heimsins.

Hið sama hlýtur með réttu að gilda um þau mannvirki og framkvæmdir sem við ráðumst í á sviði orkumála á Íslandi – að vel athuguðu máli, án þess að ganga of nærri náttúrunni, og eftir að hafa velt vandlega fyrir okkur margvíslegum rökum fyrir að gera það ekki.

Ég vil að þakka Landsvirkjun fyrir margvíslegt framlag til umræðunnar um þessi mál. Nýlegt og gott dæmi um það er skoðanakönnun sem fyrirtækið stóð fyrir meðal erlendra ferðamanna, sem bendir eindregið til þess að orkuframleiðsla og ferðaþjónusta geti farið mjög vel saman. Þá hefur fyrirtækið haft gagnsæi og ábyrgð að leiðarljósi, eins og fjölmargir vel sóttir fundir eru til marks um, rétt eins og sá sem við sitjum hér í dag.

Kæru fundargestir,

Lykilorðið á þessum opna fundi er raforkuöryggi. Það er hugtak sem fram til þessa hefur ekki verið sérlega áberandi í umræðu á Íslandi. Þrátt fyrir einstaka frávik höfum við almennt litið svo á að raforkuröryggi sé hátt skrifað á Íslandi, að minnsta kosti í alþjóðlegum samanburði. Að óbreyttu kunna blikur að vera á lofti hvað þessa stöðu varðar og það er full ástæða til að taka ábendingar í þá veru alvarlega. Við sjáum í orkuspám að eftirspurn eftir raforku er orðin meiri en framboð og ekkert sem bendir til annars en að sá munur muni halda áfram að vaxa á næstu árum. Það er áhyggjuefni fyrir okkur öll. Eitt af því sem þarf að skoða sérstaklega í því samhengi er hver ber ábyrgð á að tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum raforku, þ.e. 20% af raforkumarkaðnum. Sem stendur er ekkert í raforkulögum sem tekur á því. Það er á ábyrgð okkar að sigla ekki sofandi að feigðarósi og hlusta á þær aðvaranir sem að okkur er beint, þannig að unnt sé að grípa tímanlega til aðgerða.

Á vegum ráðuneytisins og Orkustofnunar hefur að undanförnu verið vinna í gangi við að skoða þessi mikilvægu mál sem snúa að raforkuöryggi og fagna ég því innleggi Copenhagen Economics í þá vinnu. Meðal annars eru þar raforkulögin frá 2003 undir. Ég vonast til skýrslan, sem við fáum kynningu á hér á eftir, verði upptakturinn að aukinni upplýstri umræðu um þessi mál og færi okkur skrefi nær í að ná utan um hvernig við viljum tryggja bætt orkuöryggi fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, til lengri tíma litið. Þar skiptir sáttin, sem ég kom að í fyrri hluta máls míns, lykilmáli.

Ég vil að lokum þakka Landsvirkjun fyrir þennan opna fund og fyrir að vekja athygli á þessum brýnu málum.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta