Ræða ráðherra á Iðnþingi, 9. mars 2017
Formaður Samtaka iðnaðarins og framkvæmdastjóri, kæru gestir.
Það er mér sannur heiður að ávarpa Iðnþing í fyrsta sinn. Eins og sum ykkar vita er ég alin upp á Akranesi og þekki því mikilvægi iðnaðar frá fyrstu hendi, og pabbi minn hefur starfað á Grundartangasvæðinu frá því löngu áður en ég fæddist og gerir enn í dag. Þegar ég var lítil gekk ég einfaldlega út frá því sem óhagganlegu lögmáli lífsins, að allir hlytu að eiga pabba sem væri iðnaðarmaður!
Á bak við Samtök iðnaðarins og þetta þing standa eitt þúsund og fjögur hundruð fyrirtæki og sjálfstæðir atvinnurekendur, sem saman eru ábyrg fyrir um það bil þriðjungi landsframleiðslunnar og fimmta hverju starfi í landinu.
Að mörgu leyti er það hérna sem hjarta atvinnulífsins slær. Framleiðslan, mannvirkin, hugverkin; þrjú meginsvið samtakanna, með öllum sínum fjölbreyttu undirgreinum. Sannkallaðar kjarnagreinar og máttarstólpar í atvinnulífi hverrar þjóðar.
Það er engum blöðum um það að fletta að við lifum á tímum mikilla breytinga. Talað er um fjórðu iðnbyltinguna, sem felst meðal annars í því að sjálfvirkni eykst, meira eða minna allir hlutir tengjast internetinu, þrívíddarprentun gjörbyltir framleiðslu, nanótækni opnar nýjar víddir, og gervigreind þróast úr því að vera skemmtilegur samkvæmisleikur yfir í alvöru verkfæri sem getur leyst jafnvel flóknustu viðfangsefni hraðar og betur en við mennirnir. Dæmi um þetta síðasta er verkefnið „Hanover“ á vegum Microsoft, gengur út á að láta tölvu lesa hverja einustu krabbameinsrannsókn sem gerð hefur verið, og láta hana svo hjálpa við sjúkdómsgreiningar og gera tillögur að meðferð. Með sömu aðferðafræði er talið að spá megi fyrir um niðurstöðu í dómsmálum. Það er því misskilningur ef einhver hélt að störf lækna og lögfræðinga væru ónæm fyrir áhrifum iðnbyltingarinnar, að minnsta kosti ekki hinnar fjórðu.
Að mínu viti eigum við að taka þessum breytingum fagnandi og líta á þær sem tækifæri. Þær eru ekki alda sem kaffærir okkur heldur ber hún okkur áfram í átt til framfara og betra lífs, ef rétt er á málum haldið.
Yfirskrift Iðnþings að þessu sinni er „Öflugir innviðir – lífæðar samfélagsins“. Hugtakið innviðir er mikið notað í daglegri orðræðu – er orðið ákveðið tískuorð ef svo má segja – og það er mikilvægt að við áttum okkur á þessu hugtaki og hvert hlutverk þessara „innviða“ er.
Hér síðar á þinginu verður fjallað um innviði jafnt á sviði samgangna, fjarskipta og raforku. Hvað varðar raforku, þá hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að bent hefur verið á vaxandi þörf á uppbyggingu og viðhaldi á flutnings- og dreifikerfi raforku á landsvísu. Jafnframt hefur verið bent á þjóðhagslegan kostnað sem hlýst af aðgerðaleysi í þessum efnum. Um þessi atriði eru hins vegar vissulega skiptar skoðanir, eins og gengur og gerist. En í því samhengi, og til að forðast skotgrafirnar, tel ég skynsamlegast að menn spyrji fyrst þeirrar grundvallarspurningar, til hvers þurfum við flutningskerfi raforku? Þurfum við það yfirhöfuð, með þeim umhverfislegu áhrifum sem framkvæmdir á þessu sviði hafa í för með sér? Á sama hátt og við getum spurt okkur til hvers við þurfum vegakerfið, flugvelli, ljósleiðara eða fjarskipti.
Jú, svarið liggur í því að þetta eru einmitt „lífæðar samfélagsins“, hver á sínu sviði. Allt eru þetta nauðsynlegir innviðir sem saman mynda undirstöðu hagvaxtar og velferðar, skila fjölbreyttum störfum til samfélagsins, bæta samkeppnishæfni Íslands og efla byggðaþróun.
Þegar við höfum náð sameiginlegum skilningi um hlutverk og tilgang þessara innviða erum við betur í stakk búin að leggja heildstætt mat á áhrif framkvæmda sem lúta að uppbyggingu nauðsynlegra innviða, og hvernig við náum fram jafnvægi milli hinna þriggja vídda sjálfbærrar þróunar; þ.e. efnahagslegs, samfélagslegs og umhverfislegs ábata.
Þetta er að mínu mati lykilatriði í stefnumótun og langtímasýn um uppbyggingu innviða, óháð því á hvaða sviði þeir eru.
Góðir fundarmenn
Ein af stóru breytingunum sem við stöndum frammi fyrir og verða áreiðanlega til góðs, ekki síst í umhverfislegu tilliti, varðar með beinum hætti innviðina, sem eru jú yfirskrift þessa Iðnþings. Breytingin sem ég er að tala um eru orkuskiptin sem við stöndum frammi fyrir í samgöngum og haftengdri starfsemi.
Fyrir nokkrum dögum mælti ég á Alþingi fyrir þingsályktunartillögu þar sem lögð eru til metnaðarfull markmið og aðgerðir til að flýta fyrir þessum orkuskiptum. Við viljum stefna að 40% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi árið 2030 og 10% hlutdeild í haftengdri starfsemi. Þetta eru raunhæf markmið en líka krefjandi, því að sviðsmyndin um óbreytt ástand bendir til að hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi verði aðeins 27% árið 2030 – og áfram við núllið í haftengdri starfsemi. Við ætlum okkur sem sagt að gera umtalsvert betur en þetta.
Við höfum nú þegar stigið stór skref. Fyrir fáeinum vikum var úthlutað 200 milljónum króna til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla. Sextán verkefni hlutu styrk og munu í kjölfarið yfir eitt hundrað hleðslustöðvar fyrir rafbíla verða reistar um allt land á næstu þremur árum. Þessir styrkir til innviða senda sterk skilaboð um að hafin sé stórfelld og markviss uppbygging innviða fyrir rafbíla sem mun meðal annars auka til muna möguleika á ferðum út fyrir höfuðborgarsvæðið.
Hvað varðar næstu skref er í þingsályktunartillögunni lagt til að starfshópur leggi til almennar aðgerðir sem stuðli að uppbyggingu innviða fyrir vistvænar bifreiðar við heimili og vinnustaði. Þá er lagt til að skoðað verði hvernig hægt sé að auka notkun skipa á raforku í höfnum, bjóða upp á raftengla fyrir langtímastæði við flugvelli og landtengingu flugvéla. Þörf er á því að auka upplýsingagjöf til almennings um bifreiðar, innviði og eldsneyti, og bent er á nauðsyn þess að innviðir verði til staðar fyrir vistvænar bifreiðar á ferðamannastöðum.
Hver er tilgangurinn með þessu? Jú, tilgangurinn er fyrst og fremst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná þannig verulegum árangri í loftslagsmálum.
En það er alveg ljóst að innviðir þurfa að vera til staðar til að mæta þessum fyrirhuguðu orkuskiptum, meðal annars fullnægjandi flutnings- og dreifikerfi fyrir raforku. Umræða um uppbyggingarþörf orkukerfisins á það til að snúast um of um stóriðju og möguleg stóriðjuáform. Það er að mínu mati mikil einföldun á staðreyndum. Aukið afhendingaröryggi raforku snýr ekki síður að heimilum og smærri fyrirtækjum, að jöfnun búsetuskilyrða, jöfnun atvinnutækifæra og jöfnun möguleika til orkuskipta á landsvísu, til að ná fyrrnefndum markmiðum í loftslagsmálum.
Í mínum huga er þetta mál snar þáttur í að þróa áfram stöðu Íslands sem forystulands í sjálfbærri nýtingu. Fáir standast okkur snúning þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa til rafmangsframleiðslu og húshitunar. Við eigum að mínu mati að byggja áfram á þeirri sérstöðu og styrkja hana með því að hraða orkuskiptum í samgöngum.
Þegar við horfum á orkukerfið sem órjúfanlegan hluta af þessari frábæru framtíðarsýn um sjálfbærni, þá er ekki laust við að mannvirkin sem tengjast henni taki á sig aðra mynd í hugum okkar.
Þegar við ökum um Þingvallaþjóðgarð, eina helgustu náttúruperlu okkar Íslendinga, hvað sjáum við út um framrúðuna beint fyrir framan okkur? Jú, við sjáum veg. Ég leyfi mér að fullyrða að í hugum fæstra sé þessi vegur eins og malbikað skemmdarverk á náttúrunni, heldur þvert á móti tæki sem gerir okkur kleift að njóta náttúrunnar í öllum sínum mikilfengleika, með sem minnstu raski.
Svipað má segja um vindmyllurnar sem gnæfa yfir landslaginu mjög víða þar sem keyrt er um meginland Evrópu. Eru þær eins og raflínumöstur sem skemma upplifun okkar af umhverfinu? Hugsanlega finnst sumum það. En ég trúi að fleirum finnist þær vera táknmynd um jákvæða viðleitni okkar til að nota endurnýjanlega orku og takast þannig á við loftslagsvandann.
Hið sama ætti með réttu að gilda um þá innviði sem við Íslendingar byggjum til að nýta okkar umhverfisvænu orku. Vissulega eru það fyrstu viðbrögð margra að þau séu lýti á náttúrunni, en þau eru líka grundvöllur lífsgæða, rétt eins og vegurinn um Þingvelli, og beinlínis táknmynd um sjálfbærni á sama hátt og vindmyllur Evrópu.
Á sama tíma er fullkomlega eðlilegt að við tökum í auknum mæli til skoðunar hvar mögulegt er að leggja raflínur í jörð, stillum þeim kosti upp sem möguleika, og ákveðum sem samfélag hvort við erum tilbúin að leggja á okkur aukinn kostnað til að fara þá leið. Aðaltariðið er að missa ekki sjónar á tilganginum, sem er orkuöryggi landsmanna, uppbygging atvinnutækifæra og síðast en ekki síst að ná verulegum árangri í loftslagsmálum með metnaðarfullum markmiðum í orkuskiptum.
Góðir fundarmenn
Mikilvægi góðrar iðnmenntunar hefur sjaldan verið meira en einmitt í dag, til að mæta uppgangi og vexti á svo til öllum sviðum þjóðlífsins.
Það er engum blöðum um það að fletta að á Íslandi leggja of fáir fyrir sig nám í iðngreinum. Fyrir því eru ýmsar ástæður en afleiðingin er skortur á fólki í flestum ef ekki öllum greinum.
Fullyrt hefur verið í mín eyru að það opni fleiri nýir veitingastaðir á Íslandi á hverju ári heldur en nýir þjónar sem útskrifast. Og sömuleiðis að í fyrra hafi færri einstaklingar verið að læra að verða múrarar en voru í forsetaframboði. Ég veit ekki með vissu hvort þessar fullyrðingar eru nákvæmar, en nógu ískyggilegar eru þær jafnvel þótt einhverju skeiki.
Í allmörg ár hefur verið rætt um að ein leið til að bæta úr þessu væri að koma á fót „fagháskóla“, sem færa myndi iðnnám formlega upp á háskólastigið og brjóta niður þann múr sem hefur verið á milli iðnnáms og hins klassíska akademíska náms í háskóla. Hin skörpu skil þarna á milli eiga vafalaust mikinn þátt í að gera iðnnáminu dálítið erfitt fyrir.
Verkefnishópur um fagháskólanám hefur lagt til þróunarverkefni í þessa veru, sem gæti orðið vísir að breytingum hvað þetta varðar. Stjórnvöld vilja svo sannarlega leggja sitt af mörkum til að efla veg iðnmenntunar, í samvinnu við menntastofnanir og þau hagsmuna- og félagasamtök sem best til þekkja.
Samtök iðnaðarins hafa líka unnið frábært kynningarstarf til að vekja athygli á fjölbreyttum störfum tækni- og iðnmenntaðra, meðal annars með kynningarátakinu „Fagfólkið“, sem vakið hefur verðskuldaða athygli.
Í því sambandi kemur líka upp í hugann hið merkilega átak sem Samtök iðnaðarins stóðu að með menntamálaráðuneytinu, Menntamálastofnun og Ríkisútvarpinu, um að gefa öllum grunnskólabörnum í 6. og 7. bekk forritanlegu smátölvuna Microbit. Frábært framtak sem án efa kveikir áhuga margra ungmenna á forritun og hugbúnaðargerð, þar sem Íslendingar hafa nú þegar haslað sér völl svo um munar og munu ábyggilega gera áfram, því þarna eru ótal spennandi tækifæri.
Til þess að tryggja að alda fjórðu iðnbyltingarinnar skelli ekki á okkur með offorsi og eyðileggingu heldur, þvert á móti, til að hún beri okkur hraðbyri áfram í átt til framfara og betra lífs, þá þurfum við að tryggja að skilyrði fyrir rannsóknir og þróunarstarf, og fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki, séu eins og best verður á kosið.
Við höfum stigið fjöldamörg skref í þessa átt að undanförnu. Dæmi um það eru:
- skattaafsláttur til einstaklinga vegna hlutafjárkaupa í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum
- hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar
- ný lagaumgjörð um sprotafyrirtæki sem auðveldar stofnun þeirra og lækkar kostnað
- skattalegir hvatar fyrir erlenda sérfræðinga
- stórfelld hækkun framlaga í Tækniþróunarsjóð
- rýmkun heimilda vegna kaupréttarsamninga
- breyttar reglur um skattlagningu á umbreytanlegum skuldabréfum, sem gera miklu ákjósanlegra en áður að nota þessa leið til að fjármagna sprotafyrirtæki á fyrstu stigum þeirra
- og rýmkaðar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í óskráðum fyrirtækjum.
Margar þeirra breytinga sem hér hafa verið nefndar komu til sögunnar með nýjum nýsköpunarlögum sem Alþingi samþykkti síðastliðið sumar.
Við vitum vel að við þurfum alltaf að vera á tánum til að standa vörð um samkeppnishæfni okkar. Hvað varðar fjárfestingar í rannsóknum og þróun er til dæmis ljóst að sumar nágrannaþjóðir hafa tekið fram úr okkur með myndarlegum hvötum. Þetta skiptir ekki aðeins máli fyrir nýja sprota og frumkvöðla heldur snertir þetta ekki síður rótgrónari fyrirtæki. Þau eru mörg hver með stór rannsóknar- og þróunarverkefni á prjónunum og við hljótum að leggja áherslu á að halda slíkum verkefnum á Íslandi, og koma í veg fyrir að þeim verði plantað annars staðar.
Í stjórnarsáttmálanum segir að áfram skuli myndarlega stutt við rannsóknir og þróun; hlutverk samkeppnissjóða verði víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina; og leitað verði leiða til að auka aðgengi nýsköpunar- og hugvitsfyrirtækja að vaxtarfjármagni, erlendum mörkuðum og nauðsynlegri erlendri sérfræðiþekkingu.
Þetta endurspeglar það markmið okkar að taka þátt í fjórðu iðnbyltingunni með markvissum hætti; nýta hana sem tækifæri; láta hana ekki skola okkur burt heldur nýta hana til að fleyta okkur áfram til framfara og betra lífs.
Góðir fundarmenn
Í miðborg London stendur feiknarstór bygging, ein stærsta múrsteinsbygging heims, með fjórum hvítum skorsteinum sem teygja sig eitt hundrað metra upp í loft, eða þriðjungi hærra en Hallgrímskirkjuturn.
Þetta er Battersea-raforkuverið, sem framleiddi rafmagn með kolaorku til ársins 1983.
Í þrjátíu og fjögur ár hefur þessi risabygging staðið tóm í miðborg London, rétt rúman kílómetra frá Viktoríu-lestarstöðinni.
Það er tímanna tákn að í dag er verið að undirbúa að flytja bresku höfuðstöðvar tölvurisans Apple inn í þessa byggingu; fjórtán hundruð starfsmenn á sex hæðum, í sjálfum aðalkyndiklefa þessa gamla kolaorkuvers!
Það má með sanni segja að þarna mætist tveir af máttarstólpum þriggja iðnbyltinga; kolaorkuver iðnbyltingar númer tvö, og tækni- og tölvurisi iðnbyltingar þrjú og fjögur.
Af því að ég minntist á Akranes í upphafi ræðunnar hlýt ég að stinga upp á því að við tökum okkur London til fyrirmyndar, og fáum höfuðstöðvar Google í sílóin frá Sementsverksmiðjunni.
En þessi breyting á orkuverinu í London er áminning um að hið nýja þarf ekki endilega að ryðja öðru í burtu. Við höldum upp á það besta frá hverjum tíma, varðveitum það og nýtum, stundum í nýjum tilgangi og í nýju samhengi.
Því sumt breytist seint eða aldrei. Gleymum því ekki – hvað sem líður tískuhugtökum og kastljósi umræðunnar hverju sinni – að til að breyta hina ævaforna orkuveri í höfuðstöðvar hins nútímalega tæknifyrirtækis, þarf að kalla til gamalkunna krafta hinna rótgrónu og hefðbundnu iðngreina, sem enn í dag gegna lykilhlutverki og munu gera það áfram.
Kæru gestir
Ég vil þakka Samtökum iðnaðarins fyrir öflugt og gott starf og hlakka til að vinna með ykkur að framfaramálum í þágu iðnaðar á Íslandi.