Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. apríl 2017 MatvælaráðuneytiðANR Ræður og greinar Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur

Ræða ráðherra á ráðstefnunni „Skemmtiferðaskip á réttri leið?“, 3. apríl 2017

Ráðstefnustjóri og aðrir fundargestir!

Ég vil byrja á því að þakka fyrir tækifærið til að fá að ávarpa þessa ráðstefnu, og jafnframt að hrósa skipuleggjendum fyrir það frumkvæði að leiða saman fjölda ólíkra hagsmunaaðila til að ræða afar brýnt málefni, sem að sumu leyti hefur fallið undir radarinn í umræðu um ferðaþjónustu hér á landi. Ég hafði ætlað mér að sitja ráðstefnuna, spjalla við ykkur og kíkja í heimsóknir á Ísafirði en ég varð að breyta þeim áætlunum vegna þess að þingið kallar. Ég þarf að svara fyrirspurn um uppbyggingu raforkukerfisins og mæla fyrir frumvarpi . Sérfræðingur úr ráðuneytinu mun sitja ráðstefnuna fyrir mína hönd og sjá til þess að það sem hér kemur fram skili sér inn í vinnu okkar í ráðuneytinu.

Á síðustu árum hefur þjóðhagslegt vægi ferðaþjónustu aukist verulega samhliða hröðum vexti greinarinnar. Ástæður vinsælda Íslands sem áfangastaðar eru fjölþættar og tengjast meðal annars lýðfræðilegum breytingum og breyttri ferðahegðun flestra aldurshópa, auknu framboði flugleiða til og frá landinu og jákvæðri ímynd Íslands með tilliti til náttúru og menningar.

Árið 2016 kom 1,8 milljón erlendra ferðamanna til landsins um Keflavíkurflugvöll, sem er um 40% aukning frá árinu áður og rúmlega þreföldun frá árinu 2011. Til samanburðar er árlegur alþjóðlegur vöxtur í ferðaþjónustu um 3,5-4,5%. Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að um 1,2 milljarðar manna ferðist yfir landamæri á árinu 2017 og fer sú tala hækkandi.

Á síðustu átta árum hafa stjórnvöld lagt áherslu á að laða ferðamenn til Íslands með samhæfðum markaðsaðgerðum. Þá hafa aðgerðir miðað að því að dreifa ferðamönnum betur allt árið um kring og þar hefur okkur saman tekist nokkuð vel til. Við höfum líka unnið að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og ýmislegt hefur áunnist en við eigum mikið inni hvað þetta varðar. Þetta er mikilvægt til að létta álagi af öðrum svæðum en ekki síður til að fáfarnari svæði á landsbyggðinni njóti í meira mæli þess ávinnings sem fylgir ferðamönnum, það er að segja atvinnutækifæra og uppbyggingu á fjölbreyttri þjónustu, sem bætir lífskjör og eykur lífsgæði.

Með hliðsjón af auknum umsvifum ferðaþjónustu og álagi á innviði og náttúru er mikilvægt að endurmeta áherslur stjórnvalda um þróun greinarinnar og sjálfbærni. Liður í því er að bregðast við því ójafnvægi sem hefur myndast milli hraðs vaxtar greinarinnar og tímafrekrar uppbyggingar innviða og þjónustu. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að hröðum vexti atvinnustarfsemi fylgja ýmsar áskoranir s.s. við að tryggja gæði þjónustu, æskilega framleiðni, jafnvægi fjárfestinga til lengri tíma og vernd umhverfis og auðlinda. 

Gangi spár eftir verða erlendir ferðamenn nálægt 2,4 milljónum á árinu 2017, sem er fjölgun um 33% frá árinu 2016, rúmlega 3,4 milljónir árið 2022 og um 4,3 milljónir árið 2030. Nokkur óvissa ríkir um þróun eftirspurnar til lengri tíma og sterkara gengi kann að magna neikvæð áhrif á eftirspurn og neyslu ferðamanna. Að þessu þarf að huga og fjárfestingar ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila verða að stuðla að sjálfbærni greinarinnar til lengri tíma. Með sjálfbærni á ég ekki eingöngu við að við þurfum að vernda náttúruna heldur þurfum við líka að huga að samfélagslegum þolmörkum, vinnumarkaði, húsnæðismarkaði og svo framvegis. Við getum ábyggilega varið náttúruna fyrir töluvert fleiri ferðamönnum með réttri stýringu og uppbyggingu innviða, en í mínum huga eru samfélagslegir þættir jafnvel flóknara viðfangsefni og þolmörkin mögulega lægri en hvað varðar náttúruna.

Góðir fundarmenn.

Yfirskrift ráðstefnunnar, Skemmtiferðaskip á réttri leið, spyr grundvallarspurningar sem mikilvægt er að leita svara við  til grundvallar heildstæðri stefnumótun um hvort og hvernig við Íslendingar ætlum að byggja upp ferðaþjónustu, tengda komu skemmtiferðaskipa.

Samkvæmt könnunum opinberra aðila er gert ráð fyrir að um 100 þúsund erlendir gestir komi til landsins með skemmtiferðaskipum eða um 4% af heildarfjölda erlendra gesta hingað til lands. Talið er að um 2% ferðamanna í heiminum nýti sér þennan ferðamáta þannig að hlutfall erlendra gesta sem kemur hingað til lands með skemmtiferðaskipum er nokkuð hátt.

Nú hef ég heyrt að gert sé ráð fyrir rétt ríflega hundrað (106) skemmtiferðaskipum hingað til Ísafjarðar nú í sumar og því má ætla að gestafjöldinn sem stígur hér á land skipti tugum þúsunda.

Í rannsókn sem Rannsóknarmiðstöð ferðamála vann árið 2014 um efnahagsleg áhrif af komu skemmtiferðaskipa hingað til lands kemur fram að heildargjaldeyristekjur af komum skemmtiferðaskipa námu árið 2013 um 1,7% af heildargjaldeyristekjum vegna ferðaþjónustu það ár, sem skiptust um það bil til helminga milli sveitarfélaga í gegnum hafnir, annars vegar, og þjónustuaðila í landi, hins vegar. Ég nefndi áðan að þessir ferðamenn væru um 4% allra ferðamanna, og ef þeir skilja eftir sig um 1,7% af tekjunum má sjá að ávinningurinn af þeim er að jafnaði nokkuð minni en af öðrum ferðamönnum. Samkvæmt upplýsingum G.P Wild, sem er opinber alþjóðlegur gagnabanki skemmtiferðaskipaiðnaðarins, nam meðaleyðsla þeirra ferðamanna sem gengu á land í höfnum rúmlega 12 þúsund krónum að meðaltali í heiminum árin 2013 og 2014. Eyðsla áhafnarmeðlima nam 1.700 krónum.  Því má ætla að svæðisbundin efnahagsleg áhrif, sérstaklega á minni stöðum sem ekki hafa til fulls notið hins mikla vaxtar í ferðaþjónustu undanfarin ár, sé talsverður.

Á hinn bóginn er mikilvægt að ákvörðun um að leggja áherslu á markaðssetningu sem miðar að því að laða að erlend skemmtiferðaskipum sé upplýst og aðilar séu meðvitaðir um þær áskoranir sem því fylgja. Sem dæmi má nefna að mikilvægt er að horfa til öryggismála til dæmis varðandi áhættu af mengunarslysum, sjúkdómum og slysum svo fátt eitt sé nefnt. Þá þarf einnig að hafa í huga og móta reglur um landgöngu á svæðum utan hafna. Þar á ég við til dæmis landgöngu farþega í friðlandið á Hornströndum. Mikilvægt er að móta skýrar leikreglur um þessi atriði og skilgreina ábyrgð. Hér þurfa stjórnvöld, sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar að koma að borðinu og eiga upplýst samtal, þar sem sjónarmið heimamanna hljóta að vega mjög þungt.

Sú spurning, hvort þessi mikil fjöldi sé eingöngu af hinu góða, hvort innviðir þessa samfélags og svæðisins þoli þennan fjölda til lengdar, á rétt á sér. Ef samfélagið hér telur svo vera þarf auðvitað að huga að uppbyggingu, með tilliti til þess. Sveitarfélagið þarf að forgangsraða innan svæðisins og þá þurfa allir leikendur á sviðinu að koma saman, hafnir, sveitarstjórnir, ferðaþjónustuaðilar, íbúar og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta. 

Breska blaðið Daily Telegraph birti nýlega niðurstöððu atkvæðagreiðslu meðal rúmlega 75.000 lesenda um þau Evrópulönd sem þeir hefðu mesta ánægju af að heimsækja. Ísland lenti þar í öðru sæti, á eftir Ítalíu, sem hefur sigrað þessa könnun með yfirburðum um árabil. Ísland er í huga lesenda blaðsins meira heillandi sem ferðamannaland en Grikkland, Spánn, Portúgal og Frakkland svo að nokkur alkunn ferðamannalönd séu nefnd. Þetta er geysilega sterk og eftirsóknarverð staða sem við verðum að leggja allt kapp á að verja.

Við horfum til gæða íslenskra ferðaþjónustu og vitum að ef við tökum við of miklum fjölda á of stuttum tíma - á of litlu svæði -  næst jafnvægi með öðrum hætti en best verður á kosið..  Stefnumörkun svæðisins og fjórðungsins í ferðamálum skiptir því miklu máli. Landshlutabundnu DMP áætlanirnar eiga að hafa burði til að verða mjög mikilvægt innlegg í því sambandi. 

Fyrir ferðamanninn skiptir þegar upp er staðið mestu að hann fái þá þjónustu sem hann vonast eftir, fyrir það fé sem hann greiðir.  Fjármálaráðherra hefur nýlega kynnt til sögunnar breytingar á virðisaukaskattinum sem gerir að verkum að ferðaþjónustan mun sitja við sama borð og aðrir sem stunda viðskipti og atvinnurekstur í landinu. Með þeirri breytingu er hægt að fella niður allt tal um komugjöld eða náttúrupassa, en eftir sem áður kemur auðvitað til álita að rukka fyrir þjónustu á borð við bílastæði. - Þá vil ég nota hér tækifærið til að lýsa þeirri skoðun minni að rétt sé að ríkið falli frá gistináttagjaldinu og að heimild til að leggja það á verði í staðinn færð til sveitarfélaga.

Ágætu ráðstefnugestir

Ég ítreka þakkir mínar fyrir að vera boðið hingað í dag og vona að þið eigið eftir að eiga fjörug og gagnleg skoðanaskipti næstu tvo dagana. Og ég hlakka til að heyra af niðurstöðunum.

Þótt verkefnin framundan séu mörg erum við þrátt fyrir allt í eftirsóknarverðri stöðu. Ég hlakka til að taka þátt í að leggja drögin að Íslandi sem fyrirmyndarlandi í ferðaþjónustu, þar sem við hámörkum efnahagslegan ávinning, verndum náttúruna, hámörkum jákvæða upplifun ferðamannsins, og hámörkum samfélagslega sátt um umfang og skipulag ferðaþjónustunnar.

Takk

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta