Ræða ráðherra á ársfundi Orkustofnunar, 5. apríl 2017
Kæru gestir,
Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur í dag á ársfundi Orkustofnunar. Stofnunin fagnar merkum tímamótum í ár þar sem 50 ár eru liðin frá því að Orkustofnun var sett á laggirnar. Rétt er því að byrja á því að óska orkumálastjóra og öllu starfsfólki til hamingju með afmælið.
Í tilefni afmælisársins hefur Orkustofnun staðið fyrir mánaðarlegri röð fyrirlestra, um ýmis mál sem tengjast starfsemi stofnunarinnar, og hefur verið vel að því staðið.
Sögu Orkustofnunar má rekja aftur til þess þegar fyrstu heildstæðu raforkulög voru sett á Íslandi, árið 1946, og Jakob Gíslason skipaður raforkumálastjóri. Um miðjan sjöunda áratuginn voru raforkulögin tekin til endurskoðunar í tengslum við bæði stofnun Landsvirkjunar og þá staðreynd að starfsemin á vegum embættis raforkumálastjóra var orðin mun veigameiri en hún hafði verið í upphafi.
Hin nýju orkulög tóku gildi 1. júlí 1967. Með lögunum var embætti raforkumálstjóra lagt niður, en ný stofnun, Orkustofnun, tók við hlutverki embættisins, fyrir utan rekstur á Rafmagnsveitum ríkisins sem voru gerðar að sjálfstæðri stofnun.
Fljótlega eftir að Orkustofnun tók til starfa fór rannsóknarstarfsemi á hennar vegum að aukast mjög. Aðallega rannsóknir vegna vatnsaflsvirkjana og jarðhitarannsóknir fyrir hitaveitur og einstaklinga.
Árið 1997 voru gerðar grundvallar breytingar á skipulagi Orkustofnunar og skilið á milli rannsókna annars vegar, og ráðgjafar til stjórnvalda hins vegar.
Þann 1. júlí 2003 var næsta skref stigið og rannsóknasvið Orkustofnunar alveg skilið frá og gert að nýrri stofnun, Íslenskum orkurannsóknum, eða ÍSOR. Sett voru sér lög um Orkustofnun, þau sem nú gilda.
Í dag er Orkustofnun kjölfestan í stjórnsýslu á sviði orkumála, bæði hvað varðar leyfisveitingar og eftirlit. Ábyrgð Orkustofnunar er því mikil og lögbundin hlutverk hennar fjölmörg og krefjandi.
Mig langar til að nota tækifærið, á þessum tímamótum, og þakka starfsfólki Orkustofnunar fyrir frábært starf, og fyrir farsælt samstarf við ráðuneytið í gegnum tíðina.
Kæru gestir
Það er af nógu að taka þegar horft er á þau verkefni í orkumálum sem eru efst á baugi hjá okkur í dag.
Við lifum á spennandi tímum orkuskipta í samgöngum. Í síðasta mánuði lagði ég fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um orkuskipti. Hún er í góðu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar sem lögð er áhersla á áframhald orkuskipta.
Aðgerðir stjórnvalda hafa leikið stórt hlutverk í þeim orkuskiptum sem hafa átt sér stað undanfarin ár. Góðan árangur má meðal annars sjá af því að endurnýjanlegt eldsneyti hefur vaxið úr núll komma tveimur prósentum í um 6% á síðustu fimm árum. Meginástæðurnar eru fjölgun rafbíla og aukin notkun lífeldsneytis.
Í sóknaráætlun stjórnvalda í loftlagsmálum eru tvö verkefni tilgreind sem lúta beint að orkuskiptum. Annars vegar endurnýjuð aðgerðaráætlun til næstu ára vegna orkuskipta á landi, lofti og hafi, og hins vegar efling innviða fyrir rafbíla á landsvísu. Orkuskipti eru þannig eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar enda fela þau ekki bara í sér umhverfislegan ávinning heldur líka aukið orkuöryggi, gjaldeyrissparnað, nýsköpun og sprotauppbyggingu nýrra iðngreina.
Ég get ekki stillt mig um að nefna – sem dæmi um slíka nýsköpun – hið stórmerkilega þróunarverkefni Norðursiglingar á Húsavík, sem hefur tekist að virkja vindorku á þann hátt, að rafknúna seglskipið Opal hleður sig af raforku þegar því er siglt undir seglum. Skipið kemur því til hafnar stútfullt af rafmagni sem má meðal annars nota til að hlaða rafbíla fyrirtækisins. Það var eftirminnilegt að hitta fulltrúa þessa fyrirtækis á svokölluðu „Mannamóti“ ferðaþjónustunnar ekki alls fyrir löngu.
Í þingsályktunartillögunni um orkuskipti eru sett fram markmið fram til ársins 2030. Stefnt er að 40 prósenta hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi og 10 prósenta í haftengdri starfsemi. Þessi markmið taka mið af spá orkuspárnefndar Orkustofnunar og möguleikum stjórnvalda til að beita hagrænum hvötum. Lagðar eru til aðgerðir á nýjum sviðum orkuskipta, sem hingað til hafa ekki verið í forgrunni, það er að segja á hafi og í flugi, auk þess sem áfram eru lagðar til aðgerðir fyrir samgöngur á landi.
Í þingsályktunartillögunni er lögð aukin áhersla á uppbyggingu innviða og mikilvægi dreifikerfis raforku sem forsendu fyrir orkuskiptum, enda þurfa nauðsynlegir innviðir að vera til staðar til að mæta rafbílavæðingunni, aukinni raforkunotkun í höfnum, og fleiri þáttum.
Ég bind vonir við að þingsályktunartillagan verði samþykkt á næstu dögum og í kjölfar þess verður þeim fjölmörgu aðgerðum, sem þar koma fram, ýtt úr vör.
Af öðrum málum sem eru í deiglunni á sviði orkumála vil ég nefna að verið er að ganga frá skipun starfshóps til að greina möguleika og gera tillögur um uppfærslu á flutningskerfi raforku í dreifbýli, með áherslu á þrífösun rafmagns. Núverandi áætlanir um þetta ná allt til ársins 2034 og ljóst að þörfum heimila og fyrirtækja er ekki hægt að mæta með óbreyttri nálgun. Þetta mál hefur um margra ára skeið verið baráttumál innan tiltekinna landsvæða á Íslandi og full ástæða er til að taka það til nánari skoðunar, með aðkomu þeirra aðila sem best þekkja til.
Á næstu vikum verður jafnframt settur á fót starfshópur um smávirkjanir. Miklir möguleikar eru á landsvísu á sviði staðbundinna orkulausna, en með smávirkjunum er átt við virkjanir undir 10 megawöttum, hvort sem er á sviði vatnsafls, jarðvarma eða vindorku. Hlutverk starfshópsins verður að greina starfsumhverfi smáframleiðenda á raforku, kortleggja möguleikana á landsvísu og gera tillögur um hvernig megi efla uppbyggingu á þessu sviði.
Annað mál sem hefur verið nokkuð í umræðunni síðustu vikur er orkuöryggi heimila og fyrirtækja og mögulegur orkuskortur á næstu árum. Til að bregðast við ábendingum og athugasemdum erum við að setja á fót starfshóp sem verður falið að skoða þessi mál ofan í kjölinn og gera tillögur um hvernig megi tryggja framboð á raforku til heimila og fyrirtækja. Þetta er viðamikið verkefni og nokkuð flókið. Meðal annars þarf að skoða samsetningu íslenska raforkumarkaðarins og samspil aðila á markaði. Tryggja þarf í raforkulögum að einhver aðili sé ábyrgur fyrir því að útvega nægjanlega raforku á heildsölumarkað til heimila og fyrirtækja. Komið hefur fram að mál geti þróast þannig á næstu árum að orkusölufyrirtæki telji hagstæðara að selja raforku til stóriðju frekar en inn á almenna markaðinn. Það getur að óbreyttu leitt til orkuskorts hjá heimilum og fyrirtækjum, án þess að neinn sé ábyrgur fyrir að tryggja að sú staða komi ekki upp. Það er að sjálfsögðu ekki viðunandi. – En það er vissulega athyglisvert að stóriðjan sé farin að greiða það hátt verð í samanburði við almenning að forsvarsmenn orkuframleiðenda ljái máls á því að mögulega sé hún betri og hagkvæmari viðskiptavinur.
Á næstu vikum mun líta dagsins ljós þingsályktunartillaga um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Drög að henni eru langt komin og verða lögð fram til kynningar og umsagnar á heimasíðu ráðuneytisins á næstunni.
Gert er ráð fyrir að hluti stefnunnar verði meginreglur og viðmið varðandi jarðstrengi eða loftlínur, sem er nú þegar að finna í eldri þingsályktun, en einnig verði þar önnur atriði sem lúta með almennum hætti að flutningskerfi raforku og hvernig skuli standa að uppbyggingu þess til lengri tíma. Með slíkri þingsályktun getur Alþingi markað áherslur, meginreglur og viðmið sem síðan verða höfð til hliðsjónar í kerfisáætlun.
Ég tel mikil tækifæri felast í þessu. Með slíkri vinnu gefst okkur tækifæri til að spyrja grundvallaspurninga um markmið okkar og tilgang. Til dæmis: Er flutningskerfið fyrir stórnotendur eða fyrir heimili? Hver er tengingin milli flutningskerfisins og orkuskipta? Hvernig viljum við hafa flutningskerfið til lengri tíma? Hvert er samspil þess við aðra innviði, t.d. varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu? Hvert er samspil þess við Rammaáætlun? Og svo framvegis.
Hér er um að ræða tækifæri til að reyna markvisst að ná fram meiri sátt um mikilvægi flutningskerfisins. Ég bind vonir við að með slíkri ályktun Alþings, um grundvallar áherslur sem við viljum hafa að leiðarljósi, fáum við fram skýrari langtímasýn á mikilvægi þeirra innviða sem felast í flutnings- og dreifikerfi raforku.
Ég gæti nefnt fjöldamörg önnur mikilvæg verkefni sem unnið er að um þessar mundir á sviði orkumála, og sem varða beint daglega starfsemi Orkustofnunar. Til dæmis bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, Rammaáætlun, ójafnvægi í framboði og eftirspurn eftir raforku, jöfnun orkukostnaðar á landsvísu, og jarðhitaleit, svo eitthvað sé nefnt.
Síðast en ekki síst vil ég árétta það sem ég sagði á vorfundi Landsnets í gær, að það er full ástæða til að hefja á ný vinnu við að marka orkustefnu fyrir Ísland til langs tíma. Við þurfum að hugsa um stóru myndina. Við þurfum að teikna hana upp, því það er besta leiðin til að tryggja að hún þróist í þá átt sem við viljum.
Það er spennandi – og raunar forréttindi – að vera ráðherra orkumála í landi sem hefur þá sérstöðu sem Ísland hefur varðar sjálfbæra orkunýtingu. Flest önnur lönd geta aðeins látið sig dreyma um að standa í okkar sporum. Ég tel að við eigum að skerpa enn frekar á þessari sérstöðu. Ég tel að nýting á grænni orku feli jafnframt í sér mikil tækifæri til landkynningar og geti verið hluti af ímynd Íslands um sjálfbæra auðlindanýtingu. Á sama hátt tel að hún geti vel farið saman við ferðaþjónustu, eins og reynslan sýnir og raunar líka skoðanakannanir sem hafa verið gerðar meðal ferðamanna. Vitaskuld þurfum við að vanda okkur, og mér sýnist öll þróun vera í átt til þess að stíga varlega til jarðar gagnvart okkar náttúru, sem er gott.
Þegar við erum komin á þann stað að það þyki ekki einu sinni sjálfsagt að samþykkja nýtingu á orkukosti, sem sérfræðingar gáfu einna lægsta einkunn fyrir verndargildi, þá er erfitt að halda því fram að við séum almennt að ganga fram af hörku eða óbilgirni gagnvart umhverfinu. Enda viljum við það alls ekki.
Á sama tíma tel ég að við eigum að gangast við og vera stolt af þeim mikla ávinningi fyrir loftslagsmál á heimsvísu, sem felst í því að nýta grænar orkulindir Íslands með ábyrgum hætti.
Kæru gestir,
Margt hefur áunnist á síðustu 50 árum í starfi Orkustofnunar og við eigum að horfa bjartsýnum augum til næstu 50 ára. Allar forsendur eru til þess, hér á þessu landi.
Ég vil að lokum endurtaka þakkir til starfsfólks Orkustofnunar fyrir farsælt og gott samstarf, og óska ykkur til hamingju með 50 ára afmælið.
Takk fyrir.