Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. maí 2017 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á ársfundi Samáls 11. maí 2017

Formaður og aðrir aðstandendur Samáls, kæru gestir.

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ársfund samtaka álframleiðenda í fyrsta sinn. Það var að vísu á mörkunum að það næðist, því að ég flaug til landsins frá Washington í nótt og lenti bara rétt áðan, en ég hefði alls ekki viljað missa af því að vera með ykkur. Því miður get ég ekki setið fundinn áfram því ég á persónulegt erindi með syni mínum sem ég ætla að leyfa mér að setja í forgang eftir nokkurra daga fjarveru frá fjölskyldunni, en kollegar mínir sitja áfram og ég hlakka til að fá samantekt frá þeim.

En talandi um Washington: Ég veit ekki hvort allir hér vita að sú borg hefur merkilega tengingu við álið. Allir þekkja Washington minnismerkið, sem var um skeið hæsta bygging veraldar, þar til Eifell-turninn sló henni við. Toppurinn á þessu minnismerki er lítill píramídi úr áli. Hann er ekki nema rúmlega tvö kíló og aðeins 20 sentímetra hár, en á þessum tíma, árið 1884, var þetta stærsti hluturinn sem hafði verið steyptur úr áli. Og þetta var í fyrsta sinn sem ál var notað í byggingu.

Verkfræðingarnir sem stýrðu byggingu minnismerkisins vildu setja málmhlut á toppinn, bæði til skrauts og sem eldingavara. Þeir báðu um hlut úr bronsi eða kopar, en fyrir hreina tilviljun leituðu þeir til aðila sem hafði stofnað fyrstu álsmiðjuna í Bandaríkjunum. Og sá maður stakk upp á þessu nýja efni, áli, sem var að vísu fokdýrt og kostaði álíka mikið og silfur.

Nú hugsa kannski einhverjir hér inni: Bara ef það kostaði svo mikið í dag! – En þegar betur er að gáð er líklega ágætt að svo er ekki, því þá væri það líklega ekki mikið notað.

Kæru gestir,

Fyrsta heimsókn mín sem ráðherra var til Nýsköpunarmiðstöðvar. Skömmu síðar var ISAL eitt fyrsta fyrirtækið sem ég heimsótti sem ráðherra. Ég nefni þetta vegna þess að margir sjá lítil tengsl þarna á milli. Á milli nýsköpunar og stóriðju. En þau eru svo sannarlega mikil. Fyrirtækin sjálf eru sífellt að leita leiða til að bæta sinn rekstur með ýmsu sem má vel flokka sem nýsköpun.

Ímyndum okkur að einhverju nýstofnuðu fyrirtæki hefði verið falið það verkefni að finna leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í álverum um 75% á hvert tonn með umbótum í rekstri. Ef þetta nýstofnaða fyrirtæki hefði tekið þetta verkefni að sér og tekist að leysa það, þá hefði það ábyggilega átt mjög góða möguleika á að hljóta einhvers konar nýsköpunarverðlaun og líklega einnig umhverfisverðlaun. En þetta hefur einmitt álverunum tekist að gera, á þann hátt að jafnvel systurfyrirtæki þeirra annars staðar í heiminum hafa leitað hingað eftir leiðbeiningu og leiðsögn til að freista þess að ná sama árangri.

En það er ekki bara innan fyrirtækjanna sjálfra sem nýsköpun á sér stað. Hún er fer ekki síður fram hjá þeim aðilum sem veita álverunum þjónustu. Stærsta dæmið er ábyggilega Stímir, nú hluti af VHE, sem var stofnað af starfsmönnum álvers sem höfðu hugmyndir um nýjan búnað sem gæti  bætt reksturinn. Í dag selur VHE eigin hönnun og framleiðslu til álvera um allan heim.

Fleiri dæmi mætti nefna, til dæmis tilraunir til að hanna sjálfkeyrandi róbot til að sjá um hitamælingar og rannsóknir og tilraunir um hvernig nýta megi kerbrot sem hráefni í framleiðslu á öðrum afurðum. Allt er þetta nýsköpun, rannsóknir og þróun. Ástæða er til að fagna nýju námi í efnisfræði sem farið er af stað í Háskólanum í Reykjavík; það mun án efa styrkja grundvöll fyrir enn meiri nýsköpun á þessu sviði.

Síðast en ekki síst mætti nefna tengda eða afleidda nýsköpun og þróun, fyrst og fremst í orkugeiranum, sem byggir jú að mjög miklu leyti á viðskiptum við stóriðju.

Álverin hafa líka verið brautryðjendur við að innleiða ýmislegt nýtt á Íslandi þótt það teljist ekki nýsköpun í hefðbundnum skilningi. Öryggismál eru þar efst á blaði, en einnig mætti nefna gæðamál, vottanir samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, og ýmis verkefni og áherslur sem varða starfsmenntun, jafnréttismál, umhverfismál og samfélagslega ábyrgð.

Það er alls ekki sjálfgefið að stórar og afkastamiklar verksmiðjur séu reknar án sífelldra vandræða. Heilt yfir hafa álverin sýnt metnað til að stunda góðan rekstur, fara að kröfum og reglum, og bæta úr því sem bent er á að megi bæta.

Góðir fundarmenn,

Fyrir fáeinum árum gaf McKinsey út hina frægu skýrslu um hvernig tryggja mætti heilbrigðan vöxt í íslensku efnahagslífi. Í skýrslunni kom fram að framleiðni vinnuafls í orkugeiranum og í málmframleiðslu var á þeim tíma tvisvar sinnum meiri en í sjávarútvegii og fjármálastarfsemi og fimm sinnum meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum.

Vissulega eru orkugeirinn og málmframleiðsla fyrst og fremst fjármagnsfrekar greinar en ekki sérlega vinnuaflsfrekar. En þetta þýðir engu að síður að það er skynsamleg ráðstöfun á vinnuafli að setja það til verka í þessum atvinnugreinum. Hver vinnandi hönd skapar þarna mun meiri verðmæti en í nánast öllum öðrum atvinnugreinum.


 

Þessi verðmæti þurfa auðvitað að skila sér með eðlilegum hætti til þeirra sem hlut eiga að máli, til eigenda, til starfsfólks, til samfélagsins og til viðskiptavina. Allir þurfa sinn réttláta skerf til að sátt sé um starfsemina.

Í því sambandi skiptir verulegu máli að Landsvirkjun sér fram á að geta greitt eiganda sínum, ríkinu, verulegan arð innan fárra ára. Hin síðustu ár hefur fyrirtækið notað verðmætin sem það hefur skapað til að greiða niður skuldir og fjármagna framkvæmdir. Það er því ekki nýtt að fjármunamyndun sé nokkuð sterk hjá Landsvirkjun, en það er ekki fyrr en nú sem svigrúm er að myndast til að beina þessum fjármunum í auknum mæli til eigandans í formi arðs. Þetta er til þess fallið að skapa aukna sátt um stóriðjuna. Arðurinn af viðskiptum við hana verður þarna sýnilegri en hann hefur verið til þessa.

Rétt er að hafa í huga að orkuframleiðendur eru í allt annarri samningsstöðu þegar sest er niður með áratugagömlu fyrirtæki til að endurnýja eldri samninga sem eru að renna út,  heldur en þegar verið er að semja í upphafi, um hvort nýtt fyrirtæki verði byggt hérna eða ekki. Þetta gefur augaleið. Að öllu öðru óbreyttu er því líklegt að verð hækki fremur en lækki eftir því sem tíminn líður og fleiri samningar eru endurnýjaðir, að því gefnu auðvitað að samningar takist.

Núna tala orkuframleiðendur um að mögulega geti komið upp sú staða að enginn framleiðandi hafi áhuga á að selja almenningi og minni fyrirtækjum rafmagnið. Það hlýtur að fela í sér að nýjustu verð til stóriðju, eða þau verð sem sé raunhæft að ná á næstunni, séu orðin það há að það borgi sig frekar að selja þangað heldur en til almennings og minni fyrirtækja. Þetta hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar.

Hvað álfyrirtækin sjálf varðar má ætla að þau hafi ýmis tækifæri til að halda áfram að styrkja sína stöðu. Við þekkjum að áform eru til skoðunar um að auka hlutfall af verðmætara áli í framleiðslunni, með tilheyrandi fjárfestingum sem þarf til að gera það mögulegt.

Þá má telja líklegt að fyrirtækin hafi mikil tækifæri á næstu árum til að gera sér mat úr þeirri staðreynd að álið sem kemur frá Íslandi er framleitt með hreinni orku. Í ljósi þess hve mikið rafmagn þarf til að framleiða ál er líklegt að það verði sífellt mikilvægara í hugum neytenda hvernig allt þetta rafmagn er búið til. Ef neytendur krefjast þess hreinlega í einhverjum tilvikum að álið hafi verið framleitt með grænni orku gefur augaleið að samkeppnisstaða álveranna á Íslandi styrkist til muna.

Kæru gestir

Eftir tvö ár verða fimmtíu ár liðin frá því að eiginleg álframleiðsla hófst á Íslandi. Öll rök hníga að því að uppbygging á þessari starfsemi hafi verið heillaspor fyrir Íslendinga. Það staðfesta meðal annars flestar ef ekki allar hagfræðilegar athuganir sem gerðar hafa verið á því.

Ekki er heldur neinn vafi á því að það var heillaspor fyrir umhverfismálin á heimsvísu, að skrúfa í raun fyrir stórfellda losun gróðurhúsalofttegunda, með því að framleiða þennan hluta heimsframleiðslunnar hér á landi með grænni orku, frekar en að gera það annars staðar með gasi eða kolum.

Þar við bætist sú græna hlið álsins sem felst í bæði léttleika þess og endurnýtanleika þess, og verður meðal annars til umfjöllunar hér síðar á fundinum. Langstærstur hluti þess áls sem framleitt er í dag mun eiga sér framhaldslíf um alla fyrirsjáanlega framtíð í gegnum sífellda endurvinnslu og nýtast komandi kynslóðum. Það rímar vel við áherslur okkar um sjálfbærni og því vænti ég þess að við megum áfram eiga gott samstarf við áliðnaðinn á grundvelli metnaðar, fagmennsku, og virðingar fyrir hagsmunum hvers annars og samfélagsins í kringum okkur.

Takk.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta