Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2017 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á aðalfundi Almannaheilla 24. maí 2017

Kæru aðstandendur Almannaheilla og allra þeirra fjölmörgu félaga sem eiga aðild að samtökunum.

Takk fyrir að bjóða mér að vera með ykkur hér í dag. Þegar ég skoða listann yfir aðildarfélögin að samtökunum er ekki laust við að ég fyllist auðmýkt; auðmýkt gagnvart því ómetanlega og göfuga starfi sem þið sinnið fyrir land og þjóð.

Frjáls félagasamtök gegna stóru hlutverki í samfélaginu og það er ákaflega mikilvægt að hlúa vel að þessum sterka og ómissandi þræði í samfélagsgerðinni.

Ríkið getur gert margt ágætlega, en grasrótin verður að fá að dafna; hún er nær málefnunum og því fólki sem um ræðir; þar er þekkingin og þar er brennandi áhuginn og drifkrafturinn. Þetta eru auðlindir. Við getum kallað þær „auðlindir hins besta í mannlegu fari“ og við eigum að hlúa að þessum auðlindum og virkja þær. 

Þess má geta að fyrstu peningarnir sem ég ráðstafaði sem nýr ráðherra voru til Landsbjargar, sem fékk aukna fjármuni til að sinna slysavörnum ferðamanna. Ég veit að Landsbjörg er ekki aðili að ykkar samtökum en samt af sama meiði, og þar er auðvitað á ferðinni gott dæmi um ómissandi hlutverk frjálsra félagasamtaka.

Þegar ég kom í ráðuneytið í janúar beið mín listi yfir lagafrumvörp sem hafa verið í vinnslu. Eins og þið vitið er frumvarp um félagasamtök til almannaheilla þar á meðal. Rætur þessa frumvarps má rekja að minnsta kosti aftur til ársins 2010, þegar félagsmálaráðherra fékk skýrslu frá starfshópi um heildarlöggjöf um frjáls félagasamtök. Sjálft frumvarpið sem nú liggur fyrir varð síðan til fyrir um tveimur árum.

Ríkisstjórnin tók sem kunnugt er við á mjög óvenjulegum tíma, í janúar. Á fyrstu dögunum þurfti að taka afstöðu til þess hvaða lagafrumvörp skyldu fá meðferð á vorþinginu og mín niðurstaða varð sú að önnur mál væru brýnni; ég þyrfti meiri tíma til að vega og meta kosti þessa tiltekna máls. Það átti sinn þátt í þeirri ákvörðun að í umsögnum sem ráðuneytið fékk við frumvarpið, eftir að það var birt á vefnum til kynningar, voru ábendingar sem ástæða var til að skoða nánar.

Ég hef síðan átt gott samtal við forsvarsmenn Almannaheilla og það er alveg ljóst að frumvarpið hefur ýmsa kosti. Við munum áfram eiga samtal um þetta og við erum fullkomlega sammála um markmiðið, sem er að tryggja sem besta umgjörð um starfsemi félagasamtaka af þessum toga. Hinn gullni meðalvegur felst í því að setja skýran ramma – sem eflir traust – á sama tíma og þess er gætt að leggja ekki óþarfa hindranir í veginn.

Rétt er að minna á – og leggja áherslu á – að tvær af helstu ráðleggingum nefndarinnar sem samdi frumvarpið hafa nú þegar orðið að lögum. Alþingi samþykkti fyrir rúmu ári breytingar á skattalögum sem fela það í sér að nú geta fyrirtæki styrkt almannaheillasamtök um allt að 0,75% af heildarveltu sinni og dregið þá fjárhæð frá tekjuskattsstofni. Þetta hlutfall var áður 0,5% og hækkaði því umtalsvert með þessari lagabreytingu, rétt eins og nefndin hafði lagt til. Í öðru lagi var erfðafjárskattur af gjöfum til almannaheillasamtaka felldur niður, sem einnig var tillaga frá nefndinni. Þetta eru mikilvæg framfaraskref sem skipta máli.

Kæru fundarmenn, þriðji geirinn er á ensku stundum kallaður „non governmental organisations“. Það hugtak mun hafa orðið til árið 1945 þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar og stóðu frammi fyrir því að fleiri aðilar gætu átt lögmætt erindi að þeirra borði heldur en eingöngu ríkisstjórnir.

Við eigum ekki beina íslenska þýðingu á hugtakinu „non governmental“. Ein hugmynd, meira í gamni en alvöru, gæti verið AND-RÍKI … en það er að vísu frátekið skilst mér. Sem er ágætt, því almennt fer jú betur á því að skilgreina hluti út frá því hvað þeir ERU heldur en út frá því hvað þeir eru EKKI.

Hér tölum við um þriðja geirann. Og það má einmitt segja að þriðji geirinn gefi samfélaginu þriðju víddina, sem er sambærileg við að byrja að sjá hlutina í þrívídd fremur en bara í tvívídd. Og eins og við vitum er þriðja víddin á DÝPTINA. Það er ykkar framlag; að gefa samfélaginu þá dýpt sem er nauðsynleg. Án þrívíddar göngum við á veggi, rekum okkur á í sífellu, getum varla gripið bolta sem kastað er til okkar. Án þrívíddar sjáum við samfélagið einfaldlega sem áhorfendur, líkt og kvikmynd á tjaldi. Það er þriðja víddin – þriðji geirinn – sem breytir okkur úr áhorfendum og gerir okkur að þátttakendum.

Ég ítreka að það er mér kappsmál að styrkja þennan lífsnauðsynlega þráð samfélagsins. Ég hlakka til að eiga samstarf við ykkur um það, og ítreka að lokum þakkir til aðstandenda Almannaheilla og ykkar allra sem eigið aðild að félögunum sem saman mynda þessi samtök.

Takk.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta