Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur við útskrift úr Stóriðjuskóla ISAL 2. júní 2017
Kæru útskriftarnemendur, aðrir góðir gestir
Innilega til hamingju með áfangann, þið sem útskrifist hér í dag.
Þið sem vinnið hér í Straumsvík eruð ábyggilega orðin vön því að reglulega sé útskrifað úr Stóriðjuskólanum. Eins og með svo margt annað sem á sér stað aftur og aftur, árum saman, er þessi útskriftarathöfn kannski orðinn hálfgerður vani; fastur hluti af tilverunni í næstum 20 ár í þessu fyrirtæki.
Mig langar þess vegna til að nota tækifærið til að leggja áherslu á hvað Stóriðjuskólinn er óvenjulegur; hvað hann felur í sér mikið frumkvöðlastarf og hvað hann ber vott um mikinn metnað.
Hversu margir þeirra sem keyra fram hjá þessu fyrirtæki á hverjum degi myndu geta giskað á að hér væri rekinn skóli – sem þegar allt er talið, bæði grunnnám og framhaldsstigið, er metinn til eininga á við hálft stúdentspróf?
Hversu mörg önnur fyrirtæki reka skóla sem jafnast á við hálfan framhaldsskóla?
Þetta er ansi mögnuð staðreynd og ber vott um feikilegan metnað hjá fyrirtækinu. Það er því engin tilviljun að ISAL hlaut Starfsmenntaverðlaunin í tvígang, fyrst árið 2000 og svo aftur árið 2006.
Ekki er metnaðurinn síðri hjá ykkur nemendum – og verðlaun ykkar dýrmætari en nokkurt viðurkenningarskjal, það er að segja: þekkingin sem þið öðlist, og stoltið sem þið berið nú í brjósti, sem er svo verðskuldað.
Stóriðjuskólinn hér í Straumsvík er eitt dæmi af mörgum um brautryðjendastarf stóriðjunnar í atvinnumálum á Íslandi. Þið stundið útflutning á vörum, en á sama tíma má segja að þið hafið í gegnum tíðina stundað innflutning á nýjum og góðum siðum í atvinnurekstri, sem síðan hafa gjarnan smitað út frá sér til annarra atvinnugreina og fyrirtækja.
Öryggismálin eru þar líklega efst á blaði en fleira mætti nefna, til dæmis gæðamál, enda var ISAL ýmist fyrsta fyrirtækið á Íslandi eða með þeim fyrstu til að innleiða helstu alþjóðlegu staðla í gæða-, öryggis- og umhverfismálum.
Það er meira en að segja það að vera fyrstur til að innleiða slík nýmæli í landi þar sem þetta var framandi á sínum tíma og af mörgum talið óþarfa fyrirhöfn. Slíkar breytingar kalla á sterka forystu, sem þið hafið borið gæfu til að njóta.
Oft hefur vafalaust verið styrkur í því að eiga öflugan, alþjóðlegan bakhjarl. Íslendingum hættir til að vantreysta erlendum aðilum en ekki má gleyma því að þeir geta oft verið tenging við ferska strauma og nýmæli á alþjóðavettvangi sem eru til bóta og eftirbreytni.
Fyrst og fremst er þó um að ræða framsýni og forystu stjórnendanna hér heima, og samheldni og metnað alls hópsins, sem góð forysta glæðir og eflir. – Stóriðjuskólinn er eitt besta dæmið um það, enda kom frumkvæðið að honum algerlega héðan og á sér fáar ef nokkrar hliðstæður erlendis, og fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrirtækisins á undanförnum árum vitna einnig um þetta sama.
Kæru nemendur og aðrir gestir, mig langar til að minna ykkur á áhugaverða staðreynd. Fyrir fáeinum árum gaf McKinsey út hina frægu skýrslu um hvernig tryggja mætti heilbrigðan vöxt í íslensku efnahagslífi. Í skýrslunni kom fram að framleiðni vinnuafls í orkugeiranum og í málmframleiðslu var á þeim tíma tvisvar sinnum meiri en í sjávarútvegi og fjármálastarfsemi – og fimm sinnum meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum.
Þetta þýðir að í orkuiðnaði og stóriðju skapar hver vinnandi hönd að jafnaði mun meiri verðmæti en í nánast öllum öðrum atvinnugreinum.
Þetta helgast að sjálfsögðu að miklu leyti af því, að þessi iðnaður kallar á mjög mikla fjárfestingu samanborið við vinnuafl. Með öðrum orðum: Hér er ekki bara fólk að vinna; hér eru líka peningar að vinna; milljarðarnir sem eigendur fyrirtækisins settu í að byggja verksmiðjuna, halda henni við og bæta hana á undanförnum fimmtíu árum – nú síðast með 60 milljarða fjárfestingu í nýjum steypuskála, straumhækkun og fleiri breytingum.
Hið mikla fé sem eigendur hafa lagt í reksturinn hjálpar hverri vinnandi hönd, sem hér starfar, að skapa meiri verðmæti – en það breytir ekki því að það er ástæða fyrir ykkur að hugsa til þess með stolti, að ykkar handtök skila almennt séð mjög miklum afköstum og verðmætum.
Vitaskuld er síðan breytilegt hvernig markaðsaðstæður eru hverju sinni. Ég þarf ekki að segja ykkur að ISAL hefur búið við erfið ytri skilyrði hin síðustu ár. En það er einmitt við slíkar aðstæður sem fjárfesting fyrirtækisins í hæfu og vel menntuðu starfsfólki skiptir sköpum.
Hér hafið þið starfað í um það bil hálfa öld, alveg ofan í hálsmálinu á höfuðborgarsvæðinu, í beinni útsendingu gagnvart tugum þúsunda nágranna og vegfarenda, almennt í mjög góðri sátt. Við sjáum það í skýrslum fyrirtækisins að kvartanir frá samfélaginu á ársgrundvelli eru iðulega teljandi á fingrum annarrar handar, og stundum engar. Það er vel af sér vikið og alls ekki sjálfsagður árangur, þegar haft er í huga hversu starfsemin hér er viðamikil.
Framlag ykkar til þess að bæta lífskjör á Íslandi – með störfum, miklum fjárfestingum, efnahagslegum umsvifum sem fela í sér viðskipti við hundruð fyrirtækja, að ógleymdri þeirri uppbyggingu raforkukerfisins sem starfsemin gerði mögulega á sínum tíma – er mikið. Og það er líka jákvætt að nýta græna orku til að framleiða þennan létta málm, sem í notkunar-fasanum dregur mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda, með því að ryðja öðrum og þyngri málmum úr vegi.
Góðir gestir,
Eftir tvö ár verða fimmtíu ár liðin frá því að eiginleg álframleiðsla hófst á Íslandi, í fyrsta kerskálanum hér í Straumsvík. Öll rök hníga að því að uppbygging á þessari starfsemi hafi verið heillaspor fyrir Íslendinga. Það staðfesta meðal annars flestar ef ekki allar hagfræðilegar athuganir sem gerðar hafa verið á því.
Ekki er heldur neinn vafi á því að það var heillaspor fyrir umhverfismálin á heimsvísu, að skrúfa í raun fyrir stórfellda losun gróðurhúsalofttegunda, með því að framleiða þennan hluta heimsframleiðslunnar hér á landi með grænni orku, frekar en að gera það annars staðar með gasi eða kolum.
Þar við bætist sú græna hlið álsins sem ég kom inná áðan, sem felst í bæði léttleika þess og endurnýtanleika þess, en langstærstur hluti þess áls sem þið eruð að framleiða hér í dag mun eiga sér framhaldslíf um alla fyrirsjáanlega framtíð í gegnum sífellda endurvinnslu og þannig nýtast komandi kynslóðum. – Sú staðreynd hlýtur að vera ykkur starfsmönnum mikil hvatning í ykkar störfum.
Ég tel að íslenskur áliðnaður eigi tækifæri á næstu árum til að gera sér mat úr þeirri staðreynd að álið sem kemur frá Íslandi er framleitt með hreinni orku. Ef neytendur í heiminum krefjast þess í auknum mæli að álið í vörunum sem þeir kaupa hafi verið framleitt á sem umhverfisvænastan hátt, þá gefur augaleið að samkeppnisstaða álveranna á Íslandi styrkist til muna.
Þetta gefur okkur tilefni til að ætla að framtíðin geti verið björt fyrir íslenskan áliðnað. – En í dag fögnum við einkum bjartri framtíð ykkar útskriftarnemendanna úr Stóriðjuskólanum. Ég ítreka hamingjuóskir mínar til ykkar á þessum góðu tímamótum, og ég óska ykkur, og öllu samstarfsfólki ykkar hér hjá ISAL, alls hins besta í framtíðinni.
Takk.