Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. júní 2017 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á málþingi um raforkumál á Norðurlandi 7. júní 2017

Kæru gestir

Ég vil byrja á að þakka Eyþingi fyrir að boða til þessa málþings um raforkumál á Norðurlandi í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

Ég veit að það er ýmislegt sem brennur á ykkur þegar kemur að raforkumálum hér í þessum landshluta og því er það gagnlegt fyrir mig að fá að taka þátt í þessum umræðum og kynna mér málin frá fyrstu hendi.

Ég ætla ekki að útlista vandamálin og þá stöðu sem uppi er hér í ávarpi mínu. Þið þekkið þau jafnvel og ég, og líklega betur.

Ég ætla í ávarpi mínu frekar að fjalla aðeins um þau verkefni sem við erum að ýta úr vör í ráðuneytinu og sem ætlað er, meðal annars, að taka á þeirri stöðu sem uppi er í raforkumálum hér á Norðurlandi.

Í fyrsta lagi skipuðum við í síðasta mánuði starfshóp til að greina möguleika og gera tillögur um uppfærslur á raforkuflutningskerfi í dreifbýli, með áherslu á þrífösun rafmagns. Núverandi áætlanir um þetta ná allt til ársins 2034 og ljóst að þörfum heimila og fyrirtækja er ekki hægt að mæta með óbreyttri nálgun.

Uppfært dreifikerfi bætir afhendingaröryggi raforku og eflir t.d. möguleika á að víðar verði mögulegt að hefja raforkuframleiðslu með smávirkjunum. Styrking dreifikerfis mun einnig styðja við frekari áform um orkuskipti og rafvæðingu samgangna.

Í vinnu starfshópsins verður skoðað samspil áforma um þrífösun rafmagns við tekjumörk og gjaldskrár dreifiveitna, aðgerðir til úrbóta kostnaðarmetnar sem og hvaða áhrif þær kunna að hafa á viðskiptavini dreifiveitna. Samráð verður haft við hagsmunaaðila og m.a. leita til starfandi starfshópa Orkustofnunar um raforkuöryggi landsvæða sem búa við skert afhendingaröryggi.

Haraldur Benediktsson, alþingismaður, er formaður starfshópsins, en auk hans eru í honum Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem fulltrúi frá stjórnarandstöðunni, Hanna Dóra Hólm Másdóttir frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Sigurður H. Magnússon frá Orkustofnun og Sandra Brá Jóhannsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt mun sérfræðingur frá RARIK og sérfræðingur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vinna með starfshópnum.

Ráðgert er að starfshópurinn skili skýrslu og tillögum til úrbóta fyrir 1. mars 2018.

Í öðru lagi verða á næstu dögum kynnt drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þar er um mikilvægt skjal að ræða sem er ætlað að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við okkur í dag. Við vitum að flutningskerfi raforku er víða að þolmörkum komið, og við sjáum það hvað best hér á Norðurlandi.

Drögin að þessari þingsályktunartillögu verða kynnt á heimasíðu ráðuneytisins og sett í opið umsagnarferli í sumar, og að því ferli loknu er stefnt að því að leggja þau fram á Alþingi í haust.

Í stórum dráttum byggja fyrirliggjandi drög á þingsályktun frá 2015 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, að viðbættum öðrum atriðum sem lúta með almennum hætti að flutningskerfi raforku og hvernig standa skuli að uppbyggingu þess til lengri tíma. Þar koma því í grunninn fram almenn áhersluatriði sem byggja á jafnvægi efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra sjónarmiða.

Markmið vinnunnar er í stórum dráttum að reyna að ná fram meiri sátt og samstöðu um mikilvægi þeirra sameiginlegu innviða sem felast í flutningskerfi raforku, á sama hátt og gildir með aðra grunn-innviði samfélagsins. Þar er vissulega hátt miðað en hjá því verður ekki komist, miðað við stöðu mála.

Í þriðja lagi vil ég nefna svokallaða Norðausturnefnd sem er að störfum, en henni var falið af ráðherra á sínum tíma að fjalla sérstaklega um raforkumál á Norðausturlandi. Orkumálastjóri leiðir nefndina en auk hans er nefndin skipuð bæði heimamönnum og fulltrúum orkufyrirtækja.

Greiningar nefndarinnar benda á að á stöðum eins og Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði takmarkast vaxtarmöguleikar atvinnulífsins af annars vegar ótryggri tengingu rafmagns og hins vegar af mjög takmarkaðri flutningsgetu núverandi lína.

Það er ljóst að spurn eftir raforku til atvinnuuppbyggingar á svæðinu er meiri en núverandi flutningur á svæðið getur annað. Loðnubræðsla, frysting og fiskeldi eru dæmi um atvinnugreinar sem munu krefjast verulega aukinnar raforku. Hugmyndir um einhvers konar uppbyggingu stórskipahafnar við Finnafjörð myndu einnig kalla á aukna flutningsgetu ef af yrði.

Til þess að auka afhendingaröryggi raforku á Norðausturlandi hafa eftirfarandi ráðstafanir helst verið ræddar á vegum Norðausturnefndarinnar:

  • Öflugri tengingar byggðanna við flutningsnet raforku. Landsnet og Rarik vinna sem stendur að valkostagreiningu sem verður lögð fyrir nefndina.
  • Ein leið til þess að auka framboð og afhendingaröryggi á svæðinu er að efla raforkuframleiðslu á svæðinu. Framleiðsla umfram svæðisbundna þörf gæti líka rennt stoðum undir öflugri tengingu við meginflutningskerfið. Nokkrar hugmyndir um minni virkjanir á svæðinu hafa verið kannaðar. Áframhaldandi könnun þeirra tengist sérstöku verkefni sem ráðuneytið hefur falið Orkustofnun og beinist að því að aðstoða sveitarfélög og aðra við að skilgreina ákjósanlega minni virkjankosti til áframhaldandi umfjöllunar, þ.e. smávirkjanir sem eru minni en 10 MW.
  • Hafralónsá er eina vatnsfallið á svæðinu sem býður upp á stærri virkjanakosti. Þar eru hins vegar fyrir hendi hagsmunir náttúruverndar og fiskveiða sem vegast á við hagsmuni raforkunotenda. Virkjanakostir í Hafralalónsá voru lagðir fram í þriðja áfanga Rammaáætlunar en fengu ekki umfjöllun. Uppi eru hugmyndir um minni virkjanaáfanga í ánni sem hugsanlega þyrftu ekki umfjöllun Rammaáætlunar.
  • Nokkrir staðir á svæðinu geta verið heppilegir til þess að reisa vindorkugarða. Almennt er talið að slíkar virkjanir séu nú á mörkum þess að vera hagkvæmar sérstaklega í samrekstri með vatnsaflsvikjunum með umtalsverða miðlunargetu. Forsenda stærri verkefna er hins vegar öflugri tenging við meginflutningskerfið.

Norðausturnefndin stefnir að því að halda fund fljótlega þar sem ræddir verða valkostir vegna mögulegra öflugri tenginga byggðana við flutningskerfið, samanber það sem hér hefur verið nefnt.

Í fjórða lagi vil ég nefna að í undirbúningi er starfshópur um smávirkjanir. Það verkefni er að finna í 5 ára fjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi fyrir nokkrum dögum og einnig í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2017–2023. Gert er ráð fyrir að Orkustofnun leiði þetta verkefni í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun og Nýsköpunarmiðstöð, og að þetta verði samstarfsverkefni til 5 ára.

Verkefni starfshópsins er að kanna möguleika á staðbundnum lausnum í orkumálum með því að kortleggja mögulega smærri virkjunarkosti á landsbyggðinni, þ.e. undir 10 megawöttum, hvort sem er í vatnsafli, jarðvarma eða vindi.

Starfshópurinn skal greina starfsumhverfi smáframleiðenda á raforku og gera tillögur til úrbóta sem leiði til eflingar á uppbyggingu smávirkjana.

Er þetta gott dæmi um staðbundnar lausnir á sviði orkumála og er möguleika í þá veru víða að finna, m.a. hér á Norðurlandi.

Kæru fundargestir,

Í víðara samhengi er uppbygging byggðalínunnar og tenging milli landshluta nauðsynleg til þess að skapa þann styrk og sveigjanleika sem þarf til þess að atvinnufyrirtæki á öllu Norðurlandi geti búið við sama öryggi og fyrirtæki í öðrum landshlutum.

Umræðan um línur eða ekki línur – það er að segja lífæðar samfélagsins alls – verður að grundvallast á meira jafnvægi á milli efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra þátta. Gæta þarf þess að stilla ekki ólíkum atvinnugreinum upp hverri gegn annarri og efla frekari greiningar á þessu sviði, til dæmis um það hver séu áhrif viðvarandi þrenginga í raforkuafhendingu og lélegrar nýtingar þeirrar raforkuframleiðslu sem þegar er fyrir hendi. Það virðist skorta skilning á því hver séu neikvæð áhrif þessara þátta á samfélagslega þróun á svæðinu.

Við verðum að komast upp úr þeim hjólförum sem við erum í. Við verðum að horfa á þá þjóðhagslega mikilvægu hagsmuni sem felast í flutningskerfiskerfi raforku og traustum raforkuflutningi á milli landshluta. Við verðum að horfa á stóru myndina en ekki eingöngu á afmarkaða þrönga hagsmuni innan hennar.

Flutningskerfi raforku er ein af lífæðum samfélagsins. Það er vegakerfið líka, fjarskiptakerfið og samgöngur almennt. Miklu mun meiri sátt og friður virðist almennt ríkja um þessar síðarnefndu lífæðar okkar og uppbyggingu þeirra en um raforkukerfið. Af hverju skyldi það vera? Jú, við finnum meira fyrir þeim sjálf. Við keyrum jú á vegunum. Þeir standa okkur því nærri og við skiljum út á hvað þeir ganga. Við gerum hins vegar ráð fyrir raforkunni, kannski án þess að hugleiða hvað þarf til að við getum notið hennar.

Ég hlakka til að hlýða á þau ávörp sem hér verða flutt um stöðu raforkumála á Norðurlandi. Það er víða verk að vinna á þessu sviði og ég lýsi mig reiðubúna að taka þátt í þeim verkefnum með ykkur þannig að við sjáum raunverulegar úrbætur á stöðu raforkumála í þessum landshluta, áður en um of langt líður.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta