Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. júní 2017 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur við brautskráningu nemenda frá Háskólanum á Hólum, 9. júní 2017

Rektor, ágætu útskriftarnemar, aðrir góðir gestir 

Til hamingju með daginn. Það er virkilega ánægjulegt fyrir mig að fá tækifæri til að ávarpa ykkur við þetta gleðilega tilefni. Útskriftarnemar: innilega til hamingju með þennan stóra áfanga og mínar bestu óskir um gæfu og gengi í framtíðinni, hvort sem leiðin liggur til frekara náms eða í annan farveg til móts við nýjar áskoranir í lífi og starfi.

Alþjóðavæðingin gerir heiminn sífellt minni og hún felur í sér að lönd keppa í æ ríkari mæli sín á milli um að bjóða þegnum sínum sem best lífsgæði. Öflugt og framsækið atvinnulíf, sem er í sátt við náttúru og samfélag, er ein mikilvægasta forsenda þeirra lífsgæða sem við ætlumst til að njóta. Á afrakstri atvinnulífsins hvílir velferðin sem er svo eftirsóknarverð og tryggir að börnin okkar vilji eiga sér framtíð hér.

Samkeppni um mannauð er hörð og það er alls ekki eins sjálfsagt og áður að barn sem fæðist á Íslandi kjósi að búa og starfa hér sem fullorðinn einstaklingur. Til þess að svo megi vera þarf umgjörð samfélagsins að skapa aðstæður og tækifæri fyrir unga kraftmikla einstaklinga, þannig að þeir hafi möguleika að láta drauma sína rætast.

Hlutverk háskóla er að göfga nemendur sína með því að miðla til þeirra þekkingu og færni, auka kunnáttu þeirra og skerpa skilning, en einnig að stunda rannsóknir þannig að til verði ný þekking og nýjar lausnir, ný tækifæri í atvinnulífi og aukinn skilningur á samhengi hlutanna.

Breytingar og framfarir verða sífellt hraðari þannig að við þurfum sífellt að búa okkur undir að tileinka okkur ný vinnubrögð, nýja þekkingu, nýja tækni og nýja siði.

Í þeim breytingum á atvinnuháttum sem orðið hafa á síðustu áratugum – sem spáð er að haldi áfram með verulega auknum hraða – hefur þörfin fyrir vel menntað starfsfólk aukist mikið. Sífellt fleiri störf færast úr frumframleiðslu yfir í þjónustu og þekkingargreinar. Þetta á bæði við um ný störf í framleiðslugreinum eins og sjávarútvegi, þar sem nýliðun hefur einkum átt sér stað í tæknifyrirtækjum sem sprottið hafa upp í kringum þennan rótgróna atvinnuveg.

Ein birtingarmyndin er í ferðaþjónustu. Í ferðaþjónustu starfa í dag um 27.000 manns hjá rúmlega 2.900 fyrirtækjum. Meira en tíundi hver starfsmaður á íslenskum vinnumarkaði starfar við ferðaþjónustu og hefur starfsfólki fjölgað um 13.000 frá árinu 2010.

Samfara örum vexti í ferðaþjónustu hefur nýsköpun og vöruþróun verið blómleg, allt frá tæknilausnum í tengslum við rafrænar bókanir til skapandi nálgunar og listsköpunar þar sem menningu og sögu þjóðarinnar eru gerð skil með leiðsögn og upplifun.

Þá hefur einnig verið gaman að fylgjast með hvernig hefðbundnar greinar landbúnaðar hafa getað nýtt sér vöxt ferðaþjónustunnar til að skapa sér sín eigin tækifæri. Þar á ég sérstaklega við aukna meðvitund um mat sem markaðsvöru í ferðaþjónustu. Ekki þarf heldur að fjölyrða um þá ferðaþjónustu sem byggst hefur upp í kringum íslenska hestinn, sem veitir íþróttafólki okkar og listafólki harða samkeppni þegar kemur að áhrifaríkum sendiherrum Íslands utan landsteinanna.

Efla þarf samkeppnishæfni landsbyggðarinnar, með fjölbreyttara atvinnulífi og sterkari innviðum. Að því er meðal annars unnið hér.

Rétt eins og dæmi úr landbúnaðinum sýna þurfum við með sama hætti að vera vakandi fyrir öllum þeim ótal tækifærum sem ferðaþjónustan gefur okkur til að styrkja það sem fyrir er í landinu, renna fjölbreyttari stoðum undir atvinnulíf á landsbyggðinni og bæta bæði lífskjör og lífsgæði.

Góðir gestir

Í meira en níu aldir eða allt frá árinu 1106 hefur skólahald á Hólum gegnt veigamiklu hlutverki í menntun þjóðarinnar. Það ár stofnaði fyrsti Hólabiskupinn, Jón Ögmundsson, prestaskóla á staðnum og lagði þannig grunn að Hólaskóla, sem frá árinu 2007 er Háskólinn á Hólum, einn af fjórum opinberum háskólum á Íslandi.

Skólinn hefur oft á tíðum verið í fararbroddi þróunar náms sem tekið hefur mið af þörfum atvinnulífs á hverjum tíma. Sem ráðherra ferðamála er það mér sérstakt ánægjuefni að frá og með hausti komanda mun Háskólinn á Hólum bjóða upp á nýja BA-námslínu við ferðamáladeild sem snýr að stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta. Ekki er að efa að sú námslína verður lyftistöng fyrir gæði og fagmennsku í greininni og mun þannig stuðla að góðri upplifun ferðamanna, sem er algjört grundvallaratriði fyrir greinina. Ég fagna því þessari framþróun í starfi skólans. Hún endurspeglar metnaðinn sem einkennir starf skólans.

Kæru gestir

Í hinni þekktu og margumræddu skýrslu McKinsey frá árinu 2012 kemur fram, að til þess að ná að viðhalda fjögurra prósenta hagvexti fram til ársins 2030 þurfum við Íslendingar að tvöfalda verðmæti útflutnings; fara úr um það bil eitt þúsund milljörðum á ári í um það bil tvö þúsund milljarða á ári. Eitt þúsund milljarðar króna vaxa ekki á trjánum og þaðan af síður verða þeir teknir upp af götunni. Þessu markmiði verður ekki náð nema með aukinni áherslu á menntun, skapandi hugvit og nýsköpun. Öflugt og framsækið skólastarf sem byggir á þverfaglegu samstarfi ólíkra greina skiptir afar miklu máli í þessu sambandi.

Þær greinar sem kenndar eru á Hólum fela allar í sér mikil tækifæri til að auka útflutningstekjur þjóðarinnar, ýmist með beinum eða óbeinum hætti. Hér er því án nokkurs vafa verið að leggja drög að því að við getum uppfyllt þau skilyrði áframhaldandi lífskjarasóknar sem ég nefndi hér að framan.

En þótt þjóðhagslegur ávinningur af störfum ykkar í framtíðinni sé auðvitað þýðingarmikill og ánægjulegur, kæru nemendur, þá eruð þið ekki hér í þegnskylduvinnu í þágu þjóðarinnar. Námið er fyrst og fremst fyrir ykkur sjálf. Það er í ykkar þágu, til að ykkar hæfileikar fái notið sín til fulls, og til að ykkar vonir og draumar geti orðið að veruleika. – Von mín er því fyrst og fremst sú, að hér hafið þið fengið þau tæki og tól í hendur sem gera ykkur þetta kleift.

Hitt er svo að því meira sem maður lærir og kannar – því fleiri spurningar vakna! En það er hollt og það er það sem kemur okkur áfram, þótt það kunni að virðast öfugsnúið.

Um leið og ég færi stjórnendum og starfsfólki skólans þakkir fyrir faglegt og metnaðarfullt starf ítreka ég hamingjuóskir mínar til ykkar útskriftarnema. Innilega til hamingju með daginn, og framtíðina.

Takk.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta