Þjóðhátíðarræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á Hrafnseyri, 17. júní 2017
Kæru gestir, gleðilega þjóðhátíð!
Það er mér sannur heiður að fá að deila með ykkur fáeinum hugleiðingum á þessum gleðidegi, afmælisdegi lýðveldisins, á sjálfum fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.
Staðurinn er undurfagur. Ég kom hingað síðast fyrir tæpu ári síðan með fyrsta þingmanni kjördæmisins, vini mínum Haraldi Benediktssyni, þegar við vorum á ferðinni um kjördæmið okkar. Þá var ég kasólétt af dóttur minni sem er átta mánaða í dag 17. júní og er hérna með mér ásamt bróður sínum og pabba.
Mínar rætur liggja allar hingað á Vestfirði. Móðurafi minn Ásgeir Hannesson var frá Ármúla í Ísafjarðardjúpi og amma Þórdís Katarínusardóttir frá Arnadal í Skutulsfirði. Föðurafi minn Guðmundur Helgi Ingólfsson var frá Hnífsdal og amma Jóna Valgerður Kristjánsdóttir frá Ísafirði, og faðir minn Gylfi Reynir uppalinn í Hnífsdal. Ég er því Vestfirðingur að upplagi og ákaflega stolt af því, ekki síður en af æskuslóðunum á Akranesi og því að vera Skagamaður.
Eins og mörg ykkar vita kannski byggðist þessi staður hér í upphafi vegna þess að Grelöðu eiginkonu Áns landnámsmanns fannst einhver óþefur í lofti á fyrri staðnum sem þau höfðu valið sér, þar sem þau bjuggu nú engu að síður um nokkra hríð. Það verður helst ráðið af sögunni að hún hafi ekki linnt látum fyrr en fundinn væri nýr staður. Þess er ekki getið hvort það hafi verið auðsótt mál af hálfu bóndans! En við getum rétt ímyndað okkur að það hafi orðið uppi fótur og fit þegar húsfreyjan krafðist þess að hætt yrði við fyrra landnámið og byrjað upp á nýtt á nýjum stað, hér á Eyri sem þá hét, þar sem henni þótti hunangsilmur úr grasi.
Ekki munu vera mörg skrásett dæmi um slíkt harðfylgi af hálfu landnámskvenna. Mér er því ljúft og skylt að halda hér til haga þessu ágæta dæmi um að konur á Íslandi hafa átt það til alveg frá upphafi, að sitja við sinn keip, og lifa samkvæmt kjörorði Jóns Sigurðssonar: „Eigi skal víkja.“
Þegar við hugleiðum þennan hátíðlega dag, og þennan sögufræga stað, kemur spurning upp í hugann sem kann að virðast einkennileg: Hverrar þjóðar var þetta fólk, landnámsfólkið sem settist hér að í upphafi?
Var það Íslendingar?
Hvað er það sem gerir okkur að þjóð?
Hvað er þetta fyrirbæri, Íslendingur?
Tómas Jónsson, söguhetja Guðbergs Bergssonar, segir í upphafi bókarinnar sem við hann er kennd: „Ég er afkomandi hraustra bláeygra víkinga. Ég á ætt að telja til hirðskálda og sigursælla konunga. Ég er Íslendingur.“
Tengsl við hetjur Íslendingasagna hafa löngum verið okkur eyjarskeggjum hugleikin. Og vafalaust hafa þau í gegnum tíðina verið nánast inngönguskilyrði í þjóðarklúbbinn í hugum æði margra. Íslenskur uppruni er vissulega ennþá skjótvirkasti aðgöngumiðinn að þessum hópi fólks sem við köllum Íslendinga, en fáir ef nokkrir eru þó þeirrar skoðunar að tiltekin genasamsetning skipti höfuðmáli. Leifarnar af þeirri afstöðu eru sem betur fer að verða sífellt ógreinilegri í sandinum með sérhverju nýju öldufalli tímans.
Annað, sem oft er talið einkenna þjóðir, er sameiginlegur arfur. Í því sambandi má spyrja: Hvaða sameiginlega arf áttu fyrstu Íslendingarnir, sem skildi þá frá fyrrverandi löndum sínum í gamla heimalandinu, nema þá einföldu staðreynd að þeir höfðu flust hingað? Það var ekki sameiginlegur arfur, heldur sameiginlegur veruleiki.
Fyrsti lögsögumaðurinn á Alþingi, Úlfljótur, var sjálfur landnámsmaður, en með stofnun Alþingis hefst þjóðveldisöld og því óhætt að segja að þjóðin hafi verið orðin til, þótt hún væri að miklu leyti skipuð fyrstu kynslóðar innflytjendum sem áttu sér lítinn sem engan sameiginlegan arf eða sögu sem íslensk þjóð.
Af þessu leiðir, að þótt tilfinning fyrir sameiginlegum arfi styrki með okkur samkennd sem þjóð geta „menningarsöguleg gen“ samt ekki talist ófrávíkjanleg skilyrði, ekki frekar en hin líffræðilegu gen. Þess vegna getum við hiklaust samþykkt fólk sem nýja Íslendinga þrátt fyrir að það eigi enga beina aðild að okkar sögulega arfi, þó að auðvitað sé rétt að það kunni skil á honum og beri virðingu fyrir honum.
Eins og við sjáum er hægara sagt en gert að skilgreina þjóð.
Er hugsanlegt, að þegar öllu er á botninn hvolft skipti vilijnn mestu? Það er að segja:
Viljinn til að deila örlögum með íslenskri þjóð.
Viljinn til að telja sjálfan sig hluta af íslenskri þjóð.
Viljinn til að sýna óbilandi hollustu við hagsmuni íslenskrar þjóðar, eins og hver og einn metur þá í einlægni og góðri trú.
Þarna erum við líklega að nálgast kjarna málsins. En þó er augljós galli á niðurstöðunni, því samkvæmt henni er þjóðernið undir hverjum og einum komið, og hver einstaklingur þeirrar þjóðar sem hann sjálfur kýs. Það getur tæpast gengið upp.
– Ekki nema við hugsum út fyrir rammann og veltum fyrir okkur þeim möguleika, að til séu tvær víddir þjóðernis: önnur lögformleg, hin huglæg.
Kannski er einmitt mjög gagnlegt að líta þannig á málið. Það leysir úr ýmsum mótsögnum sem við rekumst á þegar við reynum að skilgreina þjóðernið.
Hugmyndin um tvíþætt þjóðerni, annað lögformlegt og hitt huglægt, skerpir líka enn frekar á þeirri staðreynd, hvílík forréttindi það eru að geta haldið á íslensku vegabréfi þjóðerni okkar til sönnunar.
Við getum ekki veitt þau forréttindi öllum sem þess óska – það er hinn pólitíski, efnahagslegi og samfélagslegi veruleiki.
En margt mælir eindregið með því að við gerum okkar allra besta; bæði okkar eigin ávinningur – efnahagslegur og menningarlegur – sem og hin dýrmætu gildi okkar um náungakærleika og samhjálp.
Góðir gestir,
við sjáum það um þessar mundir að tortryggni gagnvart alþjóðlegu samstarfi og verslunarfrelsi – tortryggni sem á köflum jaðrar við einangrunarstefnu – virðist eiga aukinn hljómgrunn bæði vestan hafs og austan.
Þó að rétt sé að fara varlega í að reyna að geta sér til um það, hvaða afstöðu Jón Sigurðsson hefði haft til ýmissa álitamála í nútímanum, er óhætt að segja að hann gaf lítinn afslátt af verslunarfrelsinu.
Einokunarverslunin er svo fjarlæg okkur nútímafólki að það er beinlínis erfitt að gera sér hana í hugarlund. Árið 1679 var Páll Torfason, sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, dæmdur á Alþingi til að missa ekki aðeins embætti sitt heldur einnig aleiguna, hvorki meira né minna, fyrir þá sök að hafa keypt fáein færi af enskum fiskimönnum í skiptum fyrir nokkra sokka og vettlinga, til þess að fiskibátar hans stæðu ekki óhreyfðir um mesta bjargræðistímann. Þótt mál hefðu eitthvað hreyfst til betri vegar á tímum Jóns Sigurðssonar var þó enn ærin barátta fyrir höndum áður en honum tókst að hrinda einokunarversluninni.
Jón nam fræði Adams Smiths um ósýnilegu höndina og líka hina bráðsnjöllu röksemdafærslu Davíðs Rícardós fyrir því, að það sé öllum til hagsbóta að alþjóðaviðskipti séu frjáls og óheft, vegna hlutfallslegra yfirburða þjóða til að framleiða sína vöruna hver með sem hagkvæmustum hætti. Þessa tímamótakenningu Rícardós kynnti hann raunar fyrir Íslendingum aðeins 28 ára gamall, og mun það vera í fyrsta sinn sem henni voru gerð skil á prenti á íslensku. Hann skildi því vel – líklega betur en margir gera enn þann dag í dag – ávinningin sem allir aðilar hafa af því að verslun á milli landa sé sem frjálsust. Sú meginregla gildir enn og ætti að vera okkur leiðarljós.
Það ber framsýni Jóns Sigurðssonar gott vitni, að helstu baráttumálin hans þrjú – verslunarfrelsi, sjálfstæði og menntun – hafa öll staðist tímans tönn og eru í fullu gildi.
Fullt sjálfstæði vannst að lokum, en ekki er þar með sagt að það sé horfið af listanum yfir mikilvægustu viðfangsefni okkar. Bæði er það, að sjálfstæðið kann að öðlast nýtt samhengi með breytingum í ytra umhverfi okkar, og eins hitt, að við skyldum aldrei ganga að því sem gefnum hlut, heldur ávallt halda vöku okkar.
Hvað verslunarfrelsið varðar hurfu Íslendingar því miður sjálfir frá þeirri frjálslyndu stefnu sem Jón Sigurðsson hafði boðað og tóku í staðinn upp alls kyns höft og tálmanir sem enn eimir eftir af. Við þurfum því enn að sýna fyllstu árvekni og freista þess að gera betur. Stutt er síðan risaskref var tekið í þessum efnum þegar almenn vörugjöld voru felld niður í ársbyrjun 2015, öllum almenningi til heilla.
Þriðja helsta baráttumál Jóns var menntun. Sagnaþjóðin á auðvitað djúpar rætur í menntun og hún er samofin sjálfsmynd okkar. Einar Már Guðmundsson rithöfundur hefur það raunar á einum stað eftir ónefndum spaugara, að uppruna Íslendinga megi skýra með þeim hætti, að þegar fyrstu skattalögin voru birt í Noregi hafi allir flúið til Íslands sem kunnu að lesa!
Menntun er eilífðarverkefni sem felur í sér sífelldar áskoranir í takt við auknar kröfur hvers tíma. Við stöndum ágætlega að vígi, með öflugar íslenskar menntastofnanir, samhliða langri hefð okkar fyrir því að sækja framhaldsmenntun erlendis, en ótvíræður styrkur felst í því að taka þannig við nýjustu straumum úr ólíkum áttum inn í okkar litla samfélag.
Ein mesta áskorun okkar í menntamálum er hve lágt hlutfall nemenda leggur stund á iðngreinar og tæknigreinar. Því hefur verið haldið fram í mín eyru að á liðnu ári hafi færri lært til múrara á Íslandi en voru í framboði til forseta! – Gamanlaust þurfum við virkilega að taka okkur á hvað þetta varðar og hefja menntun á þessum sviðum til þeirrar virðingar sem hún á skilið.
Þegar horft er til þess jarðvegs sem Jón Sigurðsson sprettur úr á Íslandi er sláandi hvílíkur reginmunur er á sjálfstrausti þjóðarinnar þá og nú. Við upphaf nítjándu aldar var almenn deyfð yfir landsmönnum og svartsýni á möguleika og framtíð landsins, hvað þá að við gætum staðið á eigin fótum eða átt roð í aðrar þjóðir í alþjóðlegri samkeppni. Landsmenn höfðu, með orðum Jóns sjálfs: "misst traustið á sjálfum sér […] og viljann til að hjálpa sér sjálfir; þeir hafa misst hinn alþjóðlega anda til allra framkvæmda, og orðið kotungar […]" - eins og segir í formála hans að Lítilli varningsbók.
Í dag er þessu þveröfugt farið. Við erum full sjálfstrausts og atorku. Virkni meðal frumkvöðla í atvinnulífi er mikil hér samanborið við önnur lönd og margir stefna ótrauðir á erlenda markaði þrátt fyrir harða alþjóðlega samkeppni. Við erum áræðin á nánast öllum sviðum og teljum okkur eiga fullt erindi á alþjóðavettvangi á hverju því sviði sem við kærum okkur um að stíga inn á, hvort sem það eru listir, íþróttir, vísindi, viðskipti eða önnur svið.
Ég þykist vita að þið skynjið að hér sé í aðsigi gamalkunnur samanburður við aðrar þjóðir og jafnvel vangaveltur um yfirburða-hæfileika okkar.
Í því sambandi er viðeigandi að vitna í upphafsorð fyrsta árgangs Nýrra félagsrita þar sem Jón Sigurðsson víkur að einkenni á þjóðarsálinni sem er ennþá áberandi, nefnilega, að Íslendingum hætti til þess, líkt og flestum eyjabúum, að gera annað hvort of mikið eða of lítið úr sjálfum sér. Með hans orðum: að þykjast annaðhvort vera "sælastir manna eða vesælastir, og á hinn bóginn meta allt hið útlenda annaðhvort of mikils eða of lítils".
Kannast einhver við lýsinguna? - Hún er enn jafn sönn, því þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir er það allt of oft ýmist í ökkla eða eyra. Við erum annað hvort best í heimi eða með allt niðrum okkur. – Mikið væri nú gott ef við gætum farið að ráði Jóns og reynt að temja okkur meira jafnvægi í mati á eigin stöðu.
Góður árangur okkar á mörgum sviðum er vissulega athyglisverður en hann byggist ekki á yfirnáttúrulegum hæfileikum. Hann byggist á því að okkur hefur auðnast að búa til samfélag þar sem langflestir hafa raunverulegt tækifæri til að þroska hæfileika sína og láta þá njóta sín til fulls. Tækifæri hins venjulega Íslendings eru ekki eins og lottómiði, þar sem vinningslíkurnar eru einn á móti milljón, heldur raunveruleg tækifæri. Íslenski draumurinn er ekki einn á móti milljón heldur innan seilingar fyrir langflesta. Fá lönd geta gert sterkara tilkall til þess að geta með réttu kallast "land tækifæranna" og það er eitt af okkar dýrmætustu sérkennum sem við verðum að standa vörð um.
Þess vegna er það, að þegar Íslandi tekst að standa jafnfætis eða jafnvel framar margfalt fjölmennari þjóðum á einhverjum sviðum, þá kemur ekki upp í hugann einhvers konar hugmynd um yfirnáttúrulega hæfileika okkar sjálfra, heldur stolt yfir samfélagi þar sem allir skipta máli og svo til allir eiga raunhæfa möguleika á að þroska hæfileika sína til fulls. Á sama tíma vakna spurningar um þá hæfileika sem kunna að fara til spillis meðal fjölmennari þjóða, sem hugsanlega ná ekki að hlúa eins vel að tækifærum hvers og eins.
Fámennið hefur áreiðanlega hjálpað okkur Íslendingum í tvennum skilningi við að nýta sem best hæfileika hvers og eins; annars vegar með því að gera það nauðsynlegt, og hins vegar með því að gera það mögulegt. Því telja má líklegt að það sé bæði mikilvægara og auðveldara fyrir lítil samfélög en stór að leyfa hverjum og einum að blómstra.
Á bókhaldsmáli getum við sagt að á Íslandi höfum við „lágt afskriftarhlutfall í mannauði“. Varla er hægt að ímynda sér nokkurn auð sem verra er að afskrifa en mannauðinn. Því segi ég aftur, að þetta er eitt af okkar dýrmætustu sérkennum, sem við verðum að varðveita.
Í beinu framhaldi af tækifærum einstaklinganna vakna spurningar um tækifæri landshlutanna. Eru þau nýtt til fulls? Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið landsbyggðinni mikil lyftistöng, skapað umtalsverða atvinnu og líka grundvöll undir fjölbreytta þjónustu sem bætir byggðirnar og líf þeirra sem þar búa. En betur má ef duga skal og við þurfum meðal annars að tryggja að innviðir séu fyrir hendi til að fullnýta tækifærin.
Á þessum degi er mér ofarlega í huga nauðsyn þess að slá skjaldborg um tungumálið okkar. Íslenskan hefur löngum átt í varnarbaráttu en kannski aldrei sem nú, þegar börnin okkar setjast ekki aðeins við sjónvarpið á slaginu sex til að horfa á fáeinar mínútur af Tomma og Jenna eða Villa spætu, eins og árið sem ég fæddist, heldur hafa allt að því ótakmarkaðan aðgang að erlendu myndefni allan sólarhringinn, hvar og hvenær sem er.
Tæknibyltingin felur í sér mikla áskorun fyrir íslenskuna. Við reiðum okkur æ meira á tæknina í daglegu lífi og hún berst okkur nánast öll á ensku. Enginn kemur hér íslenskunni til aðstoðar nema við sjálf. Aðlögun tækninnar að íslenskunni er því risavaxið verkefni, bæði að umfangi og mikilvægi; verkefni sem við verðum að taka föstum tökum.
Við foreldrar verðum að rísa undir ábyrgð og leyfa ekki erlendum áhrifum að yfirgnæfa svo íslenskuna í umhverfi barna okkar að þau nái ekki að tileinka sér hana óbrenglaða. Við þurfum líka sjálf, hvert og eitt okkar, að kappkosta að tala gott mál og forðast slettur, sem ég viðurkenni að mér tekst því miður ekki alltaf. Ef við vöndum okkur ekki vitum við ekki fyrr til en við höfum glutrað niður tungumálinu, þessum þjóðarfjársjóði.
Árið 1876, þremur árum fyrir andlát Jóns Sigurðssonar, kom í fyrsta sinn út ljóðabók á íslensku eftir konu. Þetta var bókin Stúlka eftir Júlíönu Jónsdóttur, sem fædd var og uppalin í Hálsasveit í Borgarfirði.
Bókin hefst með þessum ljóðlínum:
Lítil mær heilsar
löndum sínum
ung og ófróð
en ekki feimin.
„Litla mærin“ mun hafa verið sjálf ljóðabókin, sem bankaði með þessum orðum kurteislega á dyr karlaveldis bókmenntaheimsins. Hún bankaði ... en það kom enginn til dyra, því hvergi mun hafa verið minnst á útgáfu bókarinnar í blöðum og enginn ritdómur birtist um hana. Skömmu síðar sagði skáldið Júlíana skilið við Ísland og sigldi til Vesturheims.
Jafnrétti kynjanna var ekki eitt af baráttumálum Jóns Sigurðssonar en mér finnst við hæfi að nefna það hér sem eitt af mikilvægustu verkefnunum sem við eigum ólokið.
Okkur finnst margt hafa áunnist, og það er alveg rétt. Okkur finnst við standa framarlega á heimsvísu, og það er staðreynd. En við eigum ennþá talsvert í land. Hlutgerving kvenna er áberandi í dægurmenningunni sem börnin okkar alast upp við. Konur eru aðeins þriðjungur viðmælenda í fréttum og þáttum Ríkisútvarpsins og 365 miðla. Konur eru í minnihluta meðal frumkvöðla og forsvarsmanna sprotafyrirtækja. Yfirgnæfandi meirihluti æðstu stjórnenda fjármálafyrirtækja, fjárfestingarsjóða og lífeyrissjóða eru karlar, sem þýðir að karlar stýra fjármagninu á Íslandi og fara því með þau gífurlegu völd sem því fylgja. Úrelt viðhorf til kynjanna eru víða og ganga í báðar áttir. Sem dæmi má nefna baráttu feðra þegar kemur að umgengni við börn sín.
Allt þetta stendur ennþá í vegi fyrir því að Ísland geti staðið fyllilega undir nafni sem land tækifæranna. Og rétt eins og landnámskonan forðum hér á þessum stað, eigum við ekki að sætta okkur við ágallana á umhverfi okkar heldur bæta úr þeim.
Góðir hátíðargestir,
Með því að standa áfram vörð um baráttumál afmælisbarnsins um sjálfstæði, verslunarfrelsi og menntun, og með því að leggja áfram rækt við hæfileika hvers og eins einstaklings, getum við leyst úr læðingi ótrúleg tækifæri til framtíðar.
Um leið og ég þakka fyrir þann heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag – og þakka jafnframt öllum þeim sem komið hafa að uppbyggingu og rekstri hér á Hrafnseyri fyrir sitt frábæra starf – leyfi ég mér að láta í ljós þá von að þjóðin okkar haldi áfram á réttri leið, njóti landsins gæða á sjálfbæran hátt, rækti mannauðinn, hlúi að frelsi og framtaki, efli umburðarlyndi og samstöðu, og veiti öllum tækifæri.
Takk.