Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. janúar 2018 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur í tilefni af fyrsta flugi Super Break til Akureyrar, 12. janúar 2018

Kæru gestir

Til hamingju með daginn. Þetta er sannarlega stór dagur í ferðaþjónustunni, ekki bara hér á Norðurlandi heldur fyrir íslenska ferðaþjónustu almennt. Í dag hefur enn ein varðan verið reist í þeirri viðleitni að gera landið allt að áfangastað allt árið. Enginn vafi er á að þessi viðbót verður lyftistöng fyrir fyrirtæki hér á svæðinu og samfélagið í heild sinni nýtur góðs af því.
 
Uppskeran sem við verðum hér vitni að er alls ekki sjálfgefin. Hún sprettur af mikilli framsýni aðila hérna fyrir norðan, sem hafa haft skýra sýn og óbilandi trú á möguleikum á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll á hvaða árstíma sem er.
 
Að öðrum ólöstuðum nefni ég sérstaklega Arnheiði og hennar teymi hjá Markaðsstofu Norðurlands, en þau hafa unnið lengi að þessu markmiði.
 
Stjórnvöld hafa stutt við markmiðið fyrir sitt leyti, meðal annars í gegnum Flugþróunarsjóð, sem hefur það að markmiði að styðja við reglulegt millilandaflug um alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Sjóðurinn hefur þannig liðkað fyrir því að þetta verkefni er orðið að veruleika.
 
Með þessu er stuðlað að meiri dreifingu ferðamanna um landið í samræmi við Vegvísi í ferðaþjónustu, bættri nýtingu innviða, bættum búsetuskilyrðum og lífsgæðum heimamanna og bættum rekstrarskilyrðum fyrirtækja í ferðaþjónustu og annarra fyrirtækja á Norður- og Austurlandi.
 
Reglur Flugþróunarsjóðs voru rýmkaðar í fyrra, á þann hátt að nú eru einnig styrkhæf flug sem fela í sér innanlandstengingar, til dæmis flug sem millilenda í Keflavík en halda síðan rakleiðis áfram til Akureyrar eða Egilsstaða. Slík flug njóta þriðja forgangs samkvæmt forgangsröðun í starfsreglunum.
 
Tilgangurinn með breytingunni er að styðja enn frekar við það markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið. Sjóðurinn hefur þegar ráðstafað fyrsta styrknum á þessum grunni, en AirIceland Connect bauð í fyrra uppá beint flug milli Keflavíkur og Akureyrar við góðar undirtektir. Vonandi verður framhald á því.
 
Síðastliðið haust kynnti ég í ríkisstjórn þau áform mín að taka hluta af fjármunum Flugþróunarsjóðs og ráðstafa þeim í staðinn til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar, til að þessir aðilar gætu sett aukinn kraft í markaðsstarf sem miðar að því að koma á beinu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaða. Í framhaldinu hefur ráðuneytið nú samið við báða þessa aðila um 20 milljóna króna framlag til hvors aðila um sig. Samningarnir gilda út þetta ár og ég bind vonir við að þeir muni styðja vel við hið öfluga starf sem unnið hefur verið.
 
Kæru gestir
 
Við verðum að vera stöðugt á tánum þegar kemur að nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu. Saman verðum við áfram að leita leiða til að auka hlutdeild landsbyggðarinnar og byggja upp arðbæra atvinnugrein með minni árstíðasveiflum. Tækifærin liggja víða og mikilvægt er að byggja upp þekkingu og hæfni til að nýta þau. Gæði og öryggi þurfa einnig að vera leiðarljós í öllu okkar starfi, bæði af hálfu greinarinnar og hins opinbera.
 
Ég vil að lokum færa forsvarsmönnum Super Break árnaðaróskir, með von um að þeirra viðskipti hér á Íslandi muni blómstra. Jafnframt vil ég óska Markaðsstofu Norðurlands og fyrirtækjum í ferðaþjónustu á Norðurlandi alls hins besta og vona innilega að þetta beina flug milli Bretlands og Akureyrar skapi ný sóknarfæri þannig að ferðaþjónustan í landshlutanum vaxi áfram með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir svæðið og Ísland allt.
 
Dear Ms. Chris Hagan from Super Break
 
If somebody would have suggested twenty years ago that we would have direct international flights to Akureyri in January, most people would have responded: "Give me a break!"  Well, now you have given us a break; a Super Break.
 
Congratulations on this important event. Thank you for believing in Iceland and Akureyri. Your initiative is of great significance with respect to the development of tourism in Iceland, and fits well with our priorities, which include to promote the winter season and to increase traffic to other areas of the country than only the South-West. Congratulations again, and may this partnership be both fruitful and long lasting.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta