Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á Iðnþingi, 8. mars 2018
Kæru Iðnþingsgestir
Ég nefndi það hér í fyrra hve mikill heiður það væri fyrir mig að ávarpa Iðnþing í fyrsta sinn. Mig grunaði ekki þá hversu fegin ég yrði að fá að gera það aftur! Það leit ekki endilega út fyrir það um tíma, en ég er þakklát fyrir að fá að halda áfram að starfa að málefnum iðnaðarins í landinu. Þau eru skemmtileg, krefjandi og mikilvæg.
Eins og þið vitið stendur iðnaðurinn undir um 30% af landsframleiðslu og það þarf ekki að hafa mikið fleiri orð um mikilvægi þess að við hlúum vel að starsskilyrðum og umhverfi hans. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í því.
Fjögur áherslumál Samtaka iðnaðarins eru menntun, nýsköpun, starfsumhverfi og innviðir. Hvaða þættir taka mest pláss í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar? – Þessir.
Það er vel til fundið að gera samkeppnishæfni að lykilhugtaki Iðnþings. Þetta er eitt af þessum hugtökum, sem er hvað mest notað í umræðu um efnahags- og atvinnumál. Mikilvægt hugtak, sem á sér margar hliðar.
Það er auðvitað gildishlaðið. Hæfni er jú alltaf af hinu góða. Það er alltaf betra að vera hæfur en óhæfur. Því hæfari, því betra, ekki satt?
Eða hvað? Er mögulega til einhver tegund af samkeppnishæfni, sem er EKKI æskileg? Ég ætla að skilja þessa hugsun eftir hjá ykkur í bili, og víkja betur að henni síðar.
Fyrst langar mig til að fara með ykkur í dálítið ferðalag í tíma og rúmi, til Vínarborgar, fyrir rúmlega hundrað árum, í kringum aldamótin 1900, skömmu áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út. Stefan Zweig lýsir andrúmsloftinu í þessari miklu menningarborg á þeim tíma meistaralega vel í bók sinni “Veröld sem var”.
Þetta var “gullöld öryggisins”, segir hann. “Menn trúðu á framfarirnar meira en sjálfa biblíuna, og furðuverk vísinda og tækni virtust dag hvern vitna um þennan fagnaðarboðskap. […] Á götunum brunnu rafljós alla nóttina í staðinn fyrir gömlu týrurnar [...]. Nú var hægt að talast við í síma milli fjarlægra staða eða þjóta í vélknúnum vögnum, og [...] maðurinn hóf sig til flugs.”
“Ár frá ári voru þegnunum veitt aukin réttindi. [...] Jafnvel sjálft höfuðvandamálið, fátækt alþýðunnar, virtist ekki lengur óleysanlegt.”
“Sannfæringin um samfelldar, viðstöðulausar framfarir” var allsráðandi.
“Enginn gerði ráð fyrir stríði né byltingu. Ofbeldi og öfgar virtust óhugsandi á þessari öld skynseminnar.”
Svo mörg voru þau orð. – Það er merkilegt að lesa þennan texta og skynja hve trúin á stöðugar framfarir, stöðugar umbætur, stöðugt batnandi lífskjör og réttindi, og stöðugan frið í samfélagi manna og þjóða, var sterk og óbilandi á þessum tíma.
Ég held að við höfum flest þessa sömu trú í dag. Við trúum því að stríð, kúgun og kreppur séu tímabundnar truflanir í stóru myndinni, sem er samfelld framfarasaga mannkynsins. Við trúum því að framtíðin verði betri en dagurinn í dag. Að framfarir í tækni og vísindum muni á heildina litið gera líf okkar betra. Að hvert ár, og hver kynslóð, muni færa okkur aukinn skilning á mannréttindum, aukið jafnrétti, og bætt lífskjör.
Kannski á þessi trú hvergi betur við en á Íslandi. Óvíða hefur fólk það betra en hér. Við getum nefnt hvern listann á fætur öðrum yfir lífsgæði, hagsæld og velferð þar sem við erum í efstu tíu til fimmtán sætum í heiminum.
Við hljótum að hafa fullan rétt til að spyrja okkur: “Erum við ekki hér að lifa gullöld lífsgæða? Gullöld velferðar? Gullöld öryggis?”
En við lestur bókar Stefans Zweig vaknar líka spurningin: Er mögulegt að innan nokkurra áratuga verði skrifað um þennan tíma undir fyrirsögninni: “Veröld sem var”?
Er kannski eitthvað við sjóndeildarhringinn, sem ógnar grundvelli okkar og góðri stöðu? - Ekki endilega stríð, heldur allt eins einhver umhverfisógn á borð við breytt loftslag, eða efnahagsáföll af einhverjum toga, eða að tækniframfarir verði okkur ekki til heilla heldur umturni samfélagi okkar til verri vegar.
Samkeppnishæfni. – Hugtakið öðlast nýja dýpt við þessar vangaveltur um hvaða óvæntu áskoranir framtíðin gæti borið í skauti sér. Það er ekki sjálfgefið að hún verði einhver dans á rósum.
Samkeppnishæfni snýst ekki bara um getu okkar til að keppa í dag, á forsendum nútímans, heldur ekki síður um að tryggja að við verðum í stakk búin til að mæta hverjum þeim áskorunum sem kunna að steðja að okkur, og verða þannig samkeppnishæf um ókomna tíð.
Víkjum þá að einstökum hliðum þessa margbrotna hugtaks.
Stjórnmálalegur stöðugleiki er án nokkurs vafa ein sú mikilvægasta. Meðal þess fyrsta sem alþjóðlegir fjárfestar skoða, þegar þeir bera saman ólík lönd, er hvort starfsskilyrði séu fyrirsjáanleg, hvort staðið sé við gerða samninga og fyrirheit, og hvort leikreglum sé breytt í sífellu.
Síðustu misseri hafa sannarlega verið umbrotatímar í íslenskum stjórnmálum. Með réttu eða röngu er ljóst að þetta hefur tafið ýmis verkefni, hægt á ýmsum málum og sett strik í stefnumótun.
Ör stjórnarskipti hafa þetta óhjákvæmilega í för með sér, en til að bæta gráu ofan á svart er sérstaklega óheppilegt að kjósa að hausti. Á þeim árstíma ættu þingstörfin að vera á fullum skriði, en í staðinn er öll áherslan á kosningar. Fyrri hluti þingvetrar fer því að einhverju leyti í súginn. Ekki bætir úr skák ef stjórnarmyndun í kjölfarið dregst fram í desember eða jafnvel janúar, þannig að ný ríkisstjórn fær knappan tíma til að setja mark sitt á vorþingið. Þetta hefur nú gerst tvö ár í röð, sem er afar óheppilegt.
Það er þess vegna ánægjulegt að samstarfið í nýrri ríkisstjórn fer vel af stað, frá mínum bæjardyrum séð. Við erum ekki sammála um allt, en almennt séð, og hvað sem líður óvenjulegum atburðum hér fyrr í vikunni, ríkir mikið traust á milli fólks.
Eins og nærri má geta mun ekki síst reyna á samstarfið þegar kemur að málefnum iðnaðar og orku annars vegar og umhverfismála hins vegar. Við umhverfisráðherra höfum átt góð samtöl um þessi mál. Við þekkjum ólíkar áherslur hvors flokks um sig og mestu skiptir að allt er uppi á borðum og málin rædd af hispursleysi og hreinskilni.
Ég leyfi mér þess vegna að vera bjartsýn um að við séum komin á braut meiri stöðugleika í stjórnmálum. Það skiptir máli fyrir samkeppnishæfni okkar og tiltrú fjárfesta.
Enda hafði ríkisstjórnin varla verið mynduð þegar Norsk Hydro gerði bindandi kauptilboð í ISAL! Norðmenn eru greinilega naskir á stjórnmálahorfur á Íslandi.
Önnur mikilvæg vídd samkeppnishæfni, sem er oft ofarlega á baugi í umræðunni, lýtur að ívilnunum. Þær eru eitt af því sem skilur á milli þjóða. Við heyrum það oft að við verðum að beita þeim hraustlega, til að verða ekki undir í samkeppninni.
Eins og þið vitið erum við bundin af Evrópureglum um ríkisaðstoð, sem leyfa okkur í grófum dráttum tvenns konar ívilnanir. Í fyrsta lagi byggðaaðstoð, sem er grundvöllur þess að við getum boðið ívilnanasamninga vegna nýfjárfestinga í landsbyggðarkjördæmunum þremur, ef verkefnin uppfylla tiltekin skilyrði. Í öðru lagi megum við styðja verkefni á afmörkuðum sviðum sem Evrópusambandið hefur skilgreint, til dæmis rannsóknir, þróun og nýsköpun, umhverfistengd verkefni, menningarmál, starfsmenntamál og fleira.
Í samanburði við nágrannalönd okkar veitum við Íslendingar fremur litla ríkisstyrki. Það mætti því segja að við værum ekki samkeppnishæf á þessu sviði á heildina litið, þótt við séum það alveg ábyggilega á tilteknum sviðum.
Ég vil leyfa mér að segja að þetta sé ekki að öllu leyti slæmt. Ég sé ekki fyrir mér að við munum keppa við stórtækustu ríkisstyrkina sem eru veittir til nýfjárfestinga sums staðar á hinum Norðurlöndunum og víðar. Þar er ekki látið við það sitja að veita afslætti af sköttum og gjöldum, heldur er sjálfur byggingarkostnaðurinn jafnvel studdur með stórfelldum styrkjum. Ég veit ekki til að það hafi komið til tals hér á landi að ríkið borgaði hluta af byggingarkostnaði álvers, kísilvers, gagnavers eða annarra slíkra verkefna. Og ég efast um að slíkar hugmyndir myndu mælast vel fyrir.
Hvað varðar ívilnanasamninga hef ég áður vakið máls á því, að lögin um þá eru mjög almenn og gera ekki upp á milli atvinnugreina. Ég hef nefnt að það gæti verið skynsamlegt að breyta þessu á þann hátt, að mat á verkefnum yrði byggt á stefnu stjórnvalda um nýfjárfestingar. Sú stefna er nefnilega til, í þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi fyrir tveimur árum, en hún hefur hingað til ekki haft neina tengingu við lögin um ívilnunarsamninga. Það væri ekki flókið að bæta stefnunni við lögin, þannig að val á samstarfsaðilum myndi taka mið af stefnunni.
Mér finnst í öðru lagi líka vert að skoða hvort við getum skerpt á byggðasjónarmiðum þegar við tökum afstöðu til verkefna, þannig að sterkari hvatar verði til að ráðast í fjárfestingar á þeim svæðum sem búa við minnstan vöxt.
Í þriðja lagi vil ég nota þetta tækifæri til að nefna aðra mögulega breytingu á lögunum, sem ég hef ekki vakið máls á áður. Ég tel nefnilega fulla ástæðu til að skoða vandlega með hvaða hætti við gætum látið meta hvort sú starfsemi, sem sótt er um ívilnunarsamning fyrir, sé á einhvern hátt viðkvæm eða áhættusöm, til dæmis í umhverfislegu tilliti. Og sé það niðurstaðan, þá þyrftu aðstandendur verkefnisins að standast áreiðanleikakönnun, þar sem kröfur yrðu gerðar um þætti á borð við þekkingu, reynslu og jafnvel fjárhagslega burði.
Þetta myndi ekki gilda um öll verkefni, heldur aðeins þau sem metin væru sérstaklega viðkvæm. Rétt eins og með umhverfismat; það gildir ekki sjálfkrafa um allar framkvæmdir heldur er það í mörgum tilvikum sjálfstæð ákvörðun hvort umhverfismat þurfi að fara fram eða ekki. Í þessu tilviki færi fram hliðstætt mat á því hvort umsækjendur um ívilnanir þyrftu að sæta áreiðanleikakönnun eða ekki.
Við eigum að bjóða fjárfestum upp á hagstæð skilyrði og jafnvel ívilnanasamninga, en við eigum líka að vera kröfuhörð gagnvart okkar samstarfsaðilum, ekki síst þegar um er að ræða viðkvæma starfsemi.
Ég nefndi það áðan að þótt við séum almennt fremur hógvær í veitingu ívilnana erum við örugglega samkeppnishæf á sumum sviðum. Dæmi um það er stuðningur við framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsefni, og sömu reglur gilda núna einnig um útgáfu á tónlist. Enginn vafi er á að þetta hefur komið Íslandi rækilega á kortið í kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum, styrkt innlendan iðnað mjög verulega og haft í för með sér dýrmæta landkynningu.
Í stjórnarsáttmálanum eru gefin fyrirheit um að við verðum líka samkeppnishæf á öðru sviði ívilnana, nefnilega hvað varðar stuðning vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja. Markið er sett á að afnema þakið sem hefur verið á viðmiðunarfjárhæðum í þessu sambandi, eins og mörg lönd í kringum okkur hafa gert. Atvinnulífið hefur kallað sterkt eftir þessu. Sem ráðherra nýsköpunarmála er ég stolt af því að þetta skuli nú vera komið rækilega á dagskrá í nýjum stjórnarsáttmála og mun leggja alla áherslu á að ýta þessu áfram.
Nýsköpun og umhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja skipar hvort tveggja mjög stóran sess hjá nýrri ríkisstjórn. Við viljum ekki vera eftirbátar annarra þjóða hvað þetta varðar.
Hafinn er undirbúningur að því í atvinnuvegaráðuneytinu að setja ramma utan um vinnuna við nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, þar sem við ætlum í víðtæku samráði við hagsmunaaðila að skilgreina bæði markmið og leiðir til að efla nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Það rímar vel við áherslur þessa þings.
Kæru gestir,
Samkeppnishæfni á sér auðvitað margar fleiri hliðar. Hátt gengi krónunnar og hár launakostnaður eru tvær efnahagsbreytur sem atvinnulífið hefur fundið verulega fyrir að undanförnu.
Almennt séð eru lönd með hátt gengi og há laun einnig með góð lífskjör. Aðalatriðið er, að til að skapa áfram góð lífskjör þurfum við að framleiða sem mest verðmæti og beina sem stærstum hluta krafta okkar að greinum með mikilli framleiðni og virðisauka. Að sjálfsögðu mega hvorki launin né gjaldmiðillinn ofrísa og fara fram úr því sem við ráðum við, en við viljum þó frekar vera í flokki með löndum á borð við Sviss, Noreg og Danmörku heldur en ódýrustu löndum heims, þar sem launin eru lægst og gjaldmiðlarnir veikastir, þótt slík lönd séu þau samkeppnishæfustu í heimi á þessa þröngu mælikvarða.
Mikilvægasta samkeppnishæfnin er sú sem lýtur að samfélaginu í heild sinni.
Að hér sé gott að búa, góð þjónusta, góð tækifæri, góð lífskjör, gott samfélag. Því að þetta er lykillinn að því að halda í mannauðinn. Og það er númer eitt, tvö og þrjú fyrir okkur Íslendinga: að halda í mannauðinn, hlúa að honum, rækta hann og veita kröftum hans viðeigandi farveg.
Ein ánægjulegasta heimsókn mín þessa fjórtán mánuði sem ég hef gegnt ráðherraembætti var til Kerecis á Ísafirði, nýsköpunarfyrirtækis sem er óhætt að segja að sé framarlega á heimsvísu á sínu sviði. Framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá fyrirtækinu er efnaverkfræðingur, innfæddur Ísfirðingur, sem sótti sér doktorsgráðu erlendis, flutti svo heim og vinnur við sína sérgrein, hjá nýsköpunarfyrirtæki sem þróar meðal annars sárabindi fyrir bandaríska herinn, í gamla heimabænum sínum, Ísafirði.
Þetta dæmi sýnir glöggt hvaða árangri er hægt að ná ef við leggjum áherslu á menntun og hugvit og nýsköpun.
Staðreyndin er að vísar að þessari framtíðarsýn eru nú þegar orðnir að veruleika, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og víða um landið, og þeir gefa okkur innblástur til að halda áfram á þessari braut.
Í stjórnarsáttmálanum er að finna næstum því tvö hundruð verkefni, aðgerðir og áherslur. Þær miða allar að því að gera Ísland að betra samfélagi, og þannig má segja að þær miði allar að því, með einum eða öðrum hætti, að gera Ísland samkeppnishæfara.
Við ræddum innviðina í þaula á Iðnþingi í fyrra og ég hef þess vegna ekki langt mál um þá, en við ætlum að styrkja flutnings- og dreifikerfi raforku og við ætlum að hraða uppbyggingu í samgöngum. Við ætlum að setja orkustefnu og nýsköpunarstefnu. Við ætlum að efla iðnnám, verknám og starfsnám, enda verðum við bókstaflega að fjölga þeim sem útskrifast úr þessum greinum til að mæta þörfum atvinnulífsins. Samfélagið þarf á fleira iðn- og tæknimenntuðu fólki að halda og við munum leggjast á árarnar til að bæta hér úr.
Við ætlum að stofna þjóðarsjóð um arðinn af orkuauðlindinni, og í því sambandi er rétt að vekja athygli á nýlegu uppgjöri Landsvirkjunar, sem hagnaðist um hvorki meira né minna en sextán milljarða króna eða þar um bil, sem byggist auðvitað fyrst og fremst á viðskiptum fyrirtækisins við stóriðjuna í landinu. Og já, við ætlum að lækka skatta.
Með öðrum orðum: Að því gefnu að hér verði stjórnmálalegur stöðugleiki tel ég að það séu góðar líkur á að Íslandi muni miða vel fram á veginn á næstu misserum.
Kæru gestir
Í dag er alþjóðlegi kvennadagurinn og því leiðum við hugann að því sem við höfum áorkað í jafnréttismálum og því sem við eigum eftir. Það var ánægjulegt á ársfundi Samorku í fyrradag, að þar höfðu orðið þau tímamót fyrr um daginn, að konur urðu í fyrsta sinn meirihluti stjórnar. Lítið en þó merkilegt dæmi um hvernig okkur miðar fram. Á ársfundinum var síðan kynning á danska verkefninu “State of Green”. Yfir því verkefni er tólf manna stjórn sem er skipuð áhrifafólki í fremstu röð stjórnmála og viðskiptalífs í Danmörku. Í henni situr ein kona, og ellefu karlar.
Ég vona að þetta myndi ekki gerast á Íslandi, en ég veit líka að við höfum ennþá verk að vinna. Meira en margir átta sig á, telja, sjá, eða vilja sjá.
Talandi um tímamót, þá eru í dag 100 dagar í að Ísland spili sinn fyrsta leik á HM í Rússlandi. Í morgun var hleypt af stokkunum kynningarverkefninu “Team Iceland”, sem gengur út á að fá sem flesta til að skrá sig í lið með Íslandi, og kynnast um leið því sem Ísland hefur upp á að bjóða. Íslandsstofa og atvinnuvegaráðuneytið ákváðu fyrir nokkru að skynsamlegt væri að tengja bróðurpartinn af kynningarstarfi Íslands á þessu ári beint við HM, enda verður mótið líklega mesta landkynning sem Ísland hefur nokkurn tímann fengið. Mikilvægt er að nýta það kastljós á réttan hátt, til að hámarka ávinninginn. Mér er bæði ljúft og skylt að hvetja ykkur til að fylgjast með þessu skemmtilega verkefni á heimasíðunni Team Iceland, þar sem sjá má forseta Íslands og forsetafrúna fara á kostum í fótbolta í stofunni heima á Bessastöðum.
Ágætu gestir,
Það er vissulega með nokkrum ólíkindum hve gæfulega hefur tekist til við að byggja upp samfélag í fremstu röð hér uppi á Íslandi, ekki síst á þeim hundrað árum sem við höfum nú bráðum verið fullvalda ríki.
Stærstu mistök sem við gætum gert væri að taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Að sækja ekki fram jafngildir afturför, því að aðrir munu svo sannarlega sækja fram. Við þurfum stöðugt að gera betur. Heimurinn er síbreytilegur og aðstæður hverfular. Sumt þykjumst við geta séð nokkurn veginn fyrir, annað mun koma okkur í opna skjöldu.
Gullöld öryggisins fyrir rúmum hundrað árum, sem Stefan Zweig lýsti svo vel og öllum virtist vera óhagganleg, reyndist vera svikalogn. Golíat var talinn ákaflega samkeppnishæfur, en féll þó samt. Hérinn lagði sig og tapaði. Og England beið lægri hlut fyrir Íslandi. - Í stuttu máli: Við verðum alltaf að vera Ísland.
Ég vil að lokum þakka Samtökum iðnaðarins alveg sérstaklega fyrir þessa ítarlegu og vönduðu skýrslu sem kynnt er hér í dag, þar sem helstu verkefni okkar og áskoranir eru tíundaðar. Hún er mikilvægt innlegg og góð leiðbeining og hvatning.
Ég hlakka til að vera með ykkur í dag.
Takk.