Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2018 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á aðalfundi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, 24. maí 2018

Ágætu fundarmenn

Ég þarf kannski ekki að segja ykkur það, en það er gefandi að vera ráðherra nýsköpunarmála þessi misserin. Hvert sem við lítum er verið að snúa við steinum samfélagsins og skoða hvort og þá hvernig best sé að skoða steininn með gleraugum nýsköpunar. Og það er vel. Það er ekki einungis jákvætt og skemmtilegt – það er líka mikilvæg áskorun. Það er nefnilega nauðsynlegt fyrir samkeppnishæfni og velsæld samfélagsins okkar til framtíðar að við setjum á okkur nýsköpunar-gleraugun, pússum þau vel og tökum af ábyrgð þeirri áskorun að rýna með þeim eins vel og við getum samfélagið allt.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fagnar tuttugu ára afmæli á þessu ári, en hann var stofnaður í upphafi ársins 1998, fyrir stofnfé frá nokkrum stuðningssjóðum atvinnulífsins. Þegar litið er til baka til ársins 1998, kemur upp í hugann sú mikla bjartsýni sem ríkti á þeim tíma, ekki síst á sviði upplýsingatækni og líftækni. Internetið breiddist út með miklum hraða um allan heim  og mikill fjöldi fyrirtækja í upplýsingatækni  kom fram á sjónarsviðið. Svipaðir hlutir voru að gerast í líftækni, þar sem fjölmörg fyrirtæki á sviði erfðarannsókna hófu starfssemi með von um þróun nýrra lyfja með skjótvirkum hætti. Þetta voru já tímar  IT-bólu og líftæknibólu og víst er að á þessu sviðum voru margir kallaðir en fáir útvaldir. En þó svo að aðeins hluti þeirra sprotafyrirtækja sem fóru af stað í kringum aldamótin, hafi náð að þróast og vaxa sem fyrirtæki, þá vitum við nú að tækniþróun á sviði hugbúnaðar  og hátæknigreina hefur haft gífurleg áhrif á samfélag okkar á síðustu áratugum og má reyndar segja að sú bylting sé rétt að hefjast. Bæði hér á landi og erlendis, hefur reynsla síðustu tuttugu ára því kennt okkur að tækniþróun og nýsköpun, kallar á góða blöndu af þekkingu, skapandi hugsun og hugrekki, í bland við skynsemi, varkárni og oft líka - áralanga þolinmæði. 

Íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum miklar breytingar frá árinu 1998 og óhætt er að segja að Nýsköpunarsjóður hafi  staðið vaktina með okkur  í gegnum þær breytingar.  Þannig var starfsemi Nýsköpunarsjóðs afar mikilvæg í upphafi  aldarinnar þegar sviptingar voru hraðar á almennum mörkuðum.  Sjóðurinn var ekki síður mikilvægur á árunum eftir hrun þegar aðrar fjármálastofnanir stóðu tæpt og skortur var á fjármagni til uppbyggingar. Og tilvist Nýsköpunarsjóðs skiptir máli í dag, þegar landslag fjárfesta er að breytast, nýir sjóðir koma inn og alþjóðavæðing fer vaxandi á sviði fjárfestinga.

Nýsköpunarsjóður hefur gegnt mikilvægu hlutverki sem fyrsti fjárfestir nýsköpunarfyrirtækja og sjóðurinn hefur átt  drjúgan þátt í því að brúa bilið á milli opinberra samkeppnissjóða og annarra fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Upphaflegt stofnfé sjóðsins árið 1998 var 4 milljarðar en frá þeim tíma hefur ríkissjóður í tvígang veitt viðbótarframlag til sjóðsins; með einum milljarði árið 2005 og svo með 1.5 milljarði króna árið 2007. Heildarfjármögnun til sprotafyrirtækja á líftíma sjóðsins nemur 10.8 milljörðum króna og eru um 30 fyrirtæki í safni sjóðsins um þessar mundir.  Nýsköpunarsjóður hefur frá upphafi verið þolinmóður fjárfestir og fyrirtæki í eignasafni sjóðsins hafa verið þar að meðaltali í níu ár. Sjóðnum er ætlað að vera sígrænn sem felur í sér að hann útvegar fjármagn til fjárfestinga gegnum sölu á eigin eignarhlutum. Sé litið til síðustu ára, er ljóst að Nýsköpunarsjóður hefur liðið fyrir það á síðustu árum að lítil hreyfing hefur verið á eignum sjóðsins og þar af leiðandi lítið bolmagn til nýrra fjárfestinga.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins gekk í gegnum miklar breytingar á árinu 2017. Breytingar voru gerðar á eignasafni sjóðsins og mjög góður árangur náðist með sölu á fyrirtækinu Greencloud. Á síðasta ári urðu einnig miklar breytingar í stjórnendateymi Nýsköpunarsjóðs; Huld Magnúsdóttir tók við embætti framkvæmdastjóra og hefur hún fengið í lið með sér sterkan hóp sérfræðinga á sviði fjárfestinga og nýsköpunar.

Í ljósi erfiðleika í rekstri Nýsköpunarsjóðs á undanförnum árum, skipaði ég á síðasta ári starfshóp til að fara yfir og greina núverandi stöðu sjóðsins og koma með tillögur um framtíðarfyrirkomulag. Starfshópurinn hefur nú skilað greinagóðri samantekt í skýrslu og vil ég nota tækifærið og þakka nefndarmönnum fyrir þeirra góðu vinnu.

Skýrslan og ábendingarnar og tillögurnar sem þar eru að finna eru mjög gagnlegar, og munu ekki síst vera mikilvægt framlag í gerð heildstæðrar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem ég hef komið í farveg.

Í vinnu við mótun nýsköpunarstefnunnar mun skipulagning á stuðningsumhverfi skipa veigamikinn sess. Sú stefnumótun verður leidd af ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar, í nánu samstarfi við önnur ráðuneyti, þ.á.m. ráðuneyti fjármála, velferðarmála, umhverfismála og menntamála, og mun saga og reynsla nýsköpunarsjóðsins skipa þar veglegan sess til að stíga lærð og vönduð skref í áttina að farsælu stuðningsumhverfi nýsköpunar. Undirbúningur þessarar mikilvægu vinnu er þegar hafin og er gert ráð fyrir að drög að heildstæðri nýsköpunarstefnu liggi fyrir á vordögum 2019.

Kæru fundarmenn, þrátt fyrir smæð þjóðarinnar sjáum við ýmis tækifæri í  þeirri tæknibyltingu sem nú gengur yfir. Við þurfum að skoða vandlega hvar tækifærin okkar liggja, hvar styrkleikar okkar eru og hvar við þurfum að gera betur.  Það er á sama tíma lykilatriði að við snúum bökum saman og vinnum sameiginlega að því að greiða götu nýsköpunar hér á landi -  í þágu aukinnar hagsældar, í  þágu umhverfis, í  þágu heilbrigðis og í þágu betra samfélags.

Að lokum þakka ég starfsfólki og stjórn Nýsköpunarsjóðsins fyrir vel unnin störf á síðasta starfsári.

Takk.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta